Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 24

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 24
24 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 en heimafæðingum sem styður ákvörðun Völu að fæða heima. Í rannsókn Berglindar kom einnig fram að konur sem höfðu jákvætt viðhorf til heimafæðinga voru marktækt neikvæðari yfir inngripum og voru jákvæðari gagnvart fæðingunni sjálfri (Berglind Hálfdáns- dóttir, 2016). Þetta á vel við um viðhorf Völu þar sem hún vildi forð- ast inngrip en var í lok meðgöngu full sjálfstrausts um að geta fætt eðlilega heima. Þegar Vala hafði ákveðið að fæða heima minnkaði kvíði hennar smám saman. Eftir að hafa lesið sér til og eftir að hafa hitt heima- fæðingaljósmóðurina hafði sjálfstraustið aukist hratt og kvíðinn minnkað til muna. Fyrir Völu var mikilvægt að þekkja ljósmóðurina, hafa sömu ljósmóður í gegnum ferlið og vita hvaða ljósmóðir yrði með henni í fæðingunni. Henni fannst mikill kostur að geta hringt í ljósmóðurina ef hún þurfti og fann fyrir miklu öryggi í því. Það sem skipti hana máli í ferlinu var jákvæðni og traust sem fólst í því að treysta ljósmóðurinni og sjálfri sér. Hún treysti ljósmóðurinni til að meta hvort hún þyrfti á einhverjum tímapunkti í fæðingunni að fara á sjúkrahús og hún treysti sjálfri sér til að takast á við verkina og líkama sínum til að fæða eðlilega. Þannig skipti samband hennar og ljósmóðurinnar hana miklu máli. Vala vildi ekki fara á sjúkrahús, vera með ókunnuga ljósmóður í fæðingunni og þurfa jafnvel að hitta nýja þegar það kæmu vaktaskipti og þannig hitta jafnvel 3‒4 ljósmæður í fæðingunni og eftir hana. Þetta er í samræmi við upplifun kvenna sem gagnrýna umhverfið á sjúkrahúsunum frekar en ljósmóðurina sjálfa og upplifa ákveðna færi- bandavinnu sem leiðir til neikvæðari fæðingarupplifunar (Elva Björg Einarsdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, 2009). Rannsóknir hafa einnig sýnt að nærvera og samfelldur stuðn- ingur ljósmóður í fæðingu eða yfirsetan, hefur jákvæð áhrif á konur, upplifun þeirra af fæðingunni og á útkomu fæðinga þar sem það dregur úr tíðni inngripa (Hodnett og félagar, 2013). Í námi mínu í ljósmóðurfræði hef ég lært að það skiptir miklu máli fyrir konuna að hafa stjórn. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það skiptir miklu máli fyrir upplifun konunnar af fæðingu, að finnast hún vera við stjórn. Konan vill hafa bæði innri og ytri stjórn, þ.e. að hafa stjórn á umhverfinu og aðstæðum og stjórn á sjálfri sér, bæði á hegðun sinni, hugsun og í gegnum hríðar. Þarna skiptir máli að ljósmæður sýni konum umhyggju, hlýju, hjálpi þeim og vinni með þeim (Elva Björg Einarsdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, 2009; Green og Baston, 2003). Þessu var Vala sammála og henni fannst hún hafa stjórn á aðstæðum, henni fannst hún geta stjórnað andrúmsloftinu, umhverfinu, fæðingunni og jafnvel lýsingunni í herberginu. Að vera við stjórn og að þekkja og treysta ljósmóðurinni og sjálfri sér fannst henni skipta hvað mestu máli. Ég ræddi við Völu um þá ákvörðun að leyfa ljósmóðurnema að vera með í fæðingunni. Hún sagði það hafa verið erfiða ákvörðun til að byrja með. Hún ákvað þó fljótt að slá til því það væri mikilvægt að ljósmóðurnemar gætu verið í fæðingum á öðrum stöðum en innan veggja sjúkrahúsa. Hún sagðist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. Eftir að hafa verið viðstödd þessa heimafæðingu fannst mér sambandið milli ljósmóðurinnar og parsins og andrúmsloftið standa upp úr. Ég fann að það var öðruvísi tenging og samband milli ljós- móður í heimafæðingu heldur en í sjúkrahúsfæðingu. Ljósmæður á sjúkrahúsi geta að sjálfsögðu myndað gott og traust samband við konuna en mér fannst vera hægt að ná skrefinu lengra í heima- fæðingunni. Ljósmóðirin þekkti konuna vel eftir að hafa sinnt henni á meðgöngunni og gat þannig veitt henni ennþá betri stuðning í fæðingunni. Mér fannst ljósmóðirin jafnvel vera öruggari vegna þess að hún þekkti konuna og gat lesið óskir hennar betur. Samræður um fæðinguna höfðu átt sér stað og ljósmóðirin vissi hvað konan vildi og vildi ekki. Andrúmsloftið var einnig öðruvísi og spilar umhverfið þar inn í. Það var jákvætt, styrkjandi og rólegt. Það getur líka verið það á sjúkrahúsi en það er samt öðruvísi, það er alltaf stutt í einhver tæki og skápa með sprautum, lyfjum og töngum. Heima getur konan skapað algjörlega það umhverfi sem hún vill fæða í, á sjúkrahúsi nær hún því einungis upp að vissu marki. Ég einbeitti mér að því að fylgjast með hvernig ljósmóðirin vann, hvernig hún studdi við parið og passaði mig að trufla ekki það samband og ferlið sem var þarna í gangi. Áður en ég byrjaði nám mitt í ljósmóðurfræði skildi ég ekki af hverju konur völdu sér það að fæða heima. Mér fannst öryggið vera á sjúkrahúsi þar sem er menntað starfsfólk með öll tæki og tól, viðbúið að grípa inn í ef einhver vandkvæði yrðu. Ég gerði mér þó ávallt grein fyrir því að þessi skoðun mín væri vegna fáfræði því engin ljósmóðir eða móðir tæki áhættu varðandi heilsu og líf móður og barns. Mjög fljótlega í náminu skildi ég þessa ákvörðun kvenna mun betur. Sú umræða um hvað er öryggi og að konur finni öryggi á mismunandi stöðum fékk mig til að breyta um skoðun og skilja ákvörðun kvenna að fæða heima. Ég skildi hvernig Vala fann meira öryggi í að fæða heima en á sjúkrahúsi sem er jafn öruggt fyrir heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu (Berglind Hálfdánsdóttir, 2016). Mikilvægt er að ræða heimafæðingar og fæðingar utan sjúkrahúss í samfélaginu og í meðgönguvernd er nauðsynlegt að upplýsa konur og maka þeirra um þennan valkost fyrir fæðinguna. HEIMILDASKRÁ Berglind Hálfdánsdóttir (2016). Planned home births in Iceland: Premise, outcome and influential factors (óútgefið lokaverkefni til doktorsgráðu í ljósmóðurfræði). Háskóla Íslands: Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/24673 Elva Björg Einarsdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir (2009). Vald og val á fæðingarstað: Sjónarhorn kvenna og ljósmæðra. Í Helga Gottfreðsdóttir og Sigfríður Inga Karlsdóttir (ritstjórar), Lausnarsteinar: ljósmóðurfræði og ljósmóðurlist (bls. 171‒192). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. Green, J. M. og Baston, H. A. (2003). Feeling in control during labor: concepts, correlates, and consequences. Birth, 30(4), 235‒247. doi: 10.1046/j.1523- 536X.2003.00253.x Hodnett, E.D., Gates, S., Hofmeyr, G.J. og Sakala, C. (2013). Continuous support for women during childbirth (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 7, 1‒114. doi:10.1002/14651858.CD003766.pub5   

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.