Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 32

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 32
32 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 58% en þó ekki nema 3% hjá fjölbyrjum. Hvað varðar börnin, þá er nýburadauði (dáin á fyrsta mánuði) 2.72/1000. Í samanburði er þessi tala 1.4/1000 á Íslandi 2014. Óskalisti hinnar fæðandi konu er óþekkt fyrirbæri hér. Þær liggja fyrir að mestu og hreyfa sig lítið. Reglur kveða á um að óheimilt sé að fara úr rúmi eftir mænurótardeyfingu. Heimilt er að taka einn aðstandanda með sér í fæðinguna og yfirleitt er það móðir konunnar eða tengdamóðir. Eiginmaðurinn skýst meira inn af og til en er sjaldan hennar aðal stuðningsaðili. Það eru ekki allar konur svo lánsamar að hafa með sér aðstandanda og eitthvað er um að þær kæri sig ekki um það. Aðstandendurnir eru oftar en ekki hlédrægir. Þeir eru duglegir að biðja til Allah í fæðingunni og á það jafnframt við um konurnar sjálfar. Mér finnst það virkilega notalegt að heyra þær biðja og skapar það róandi stemningu mitt í öllum hamaganginum sem oft er á stofunum. Að öðru leyti fer að öllu jöfnu lítið fyrir aðstandendunum. Það sem stingur mig einna mest í hjartað hér er skortur á umhyggju. Við ljósmæður tölum gjarnan um það að listin við ljósmóðurstarfið sé einmitt að veita konunni og aðstandendum hennar umhyggju á ólíkan hátt; með nærveru, uppörvandi samskiptum, nuddi og öðru þar sem markmiðið er að auka vellíðan hennar og stuðla að aukinni stjórn konunnar á aðstæðum. Tungumálaörðugleikar gera mér örðugt fyrir að fylgjast með samskiptum almennt en hér er töluð arabíska. Mín upplifun er þó sú að ljósmæðurnar tali oft til kvennanna í skipunar- tón. Þær koma lítið sem ekkert við konurnar nema á tæknilegan hátt, eins og t.d. þegar sett er upp nál. Ekkert er um faðmlög né kossa eftir fæðinguna. Aldrei hef ég orðið vitni að því að ljósmóðir nuddi konu eða veiti henni aðrar verkjastillandi meðferðir nema þær læknisfræði- legu, eins og glaðloft, lyf og deyfingar. Ljósmæðranemar koma reglu- lega á deildina. Með nemum fylgja oft nýir og ferskir vindar og er síður líklegt að þær séu útbrunnar í vinnu. Ekki get ég hins vegar séð að þær vinni neitt öðruvísi og að umhyggja sé eitthvað sem þeim sé uppálagt að sýna. Vinna þeirra gengur út á verklega þætti og observation. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér enda er umhyggja, eins og áður segir, einn af lykilþáttum ljósmóðurstarfsins. Menningin er á margan hátt öðruvísi hér en heima. Barnsfæðing er fremur hversdagslegur viðburður og ekkert til að gera stórmál úr að áliti fólks. Þú færð ekki einhverja sérmeðferð þótt þú sért að fæða barn, þetta er bara hlutverk þitt sem kona og daglegt brauð í hinum palestínska heimi. Ein af þeim skýringum sem ég hef einnig fengið er sú, að fólk hefur búið við harð- ræði og misrétti vegna hernáms Ísraelsmanna í tugi ára. Daglega eru mannréttindi fólks fótum troðin og þetta umhyggjuleysi gæti verið ein af birtingarmyndum þess ástands. Palestínskt þjóðfélag er einnig mjög stéttskipt. Ljósmæður eru menntaðar og það gefur þeim ákveðið vald til að vera við stjórn og skipa fyrir. Ég hef hins vegar komist að því að snerting er langt í frá tabú hér um slóðir. Þær konur sem ég hef sinnt hafa verið yfir sig ánægðar þegar ég hef kysst þær og knúsað, nuddað og haldið í höndina á þeim. Eins og áður segir þá er gerð episiotomia hjá meiri en helmingi frumbyrja. Spöng þeirra er deyfð áður en episiotomian er gerð en það læðist að mér sá grunur að ekki sé bætt mikið á þá deyfingu þegar sauma á svæðið saman. Ekki er vaninn að deyfa urethral-svæðið og labiur ef þar kemur rifa. Ég tala fyrir daufum eyrum um xylocain sprey og staðbundna deyfingu. Svo mikið fékk þetta á mig að ég fékk sent Xylocain sprey að heiman og hélt að það myndi vekja lukku. Því er skemmst frá að segja að gjöfin frá Íslandi fékk fremur lítinn hljóm- grunn meðal ljósmæðranna. Annað sem kom mér á óvart hér er að ljós- mæðurnar virðast hafa takmarkaðan áhuga á að skiptast á hugmyndum við mig um fæðingaþjónustuna og ræða mismunandi aðferðir. Að sjálf- sögðu skýra tungumálaörðugleikar þetta að hluta en alls ekki að öllu leyti, því flestar ljósmæðurnar eru ágætlega talandi á ensku. Til gamans má geta þess að samveran í morgunmatnum er heil- mikil upplifun og þar kemur glöggt fram hin arabíska gestrisni sem er einstök. Ljósmæðurnar koma með brauð, hummus og ýmislegt grænmeti að heiman sem borið er fram sameiginlega. Borðað er með höndunum og ekkert tiltökumál að hafa fingurna í matnum. Þessu er síðan skolað niður með vel sætu tei og líflegar umræður eru við borð- haldið, á arabísku. Starf mitt á The Holy Family Hospital síðastliðna 5 mánuði hefur verið einkar áhugavert og lærdómsríkt, einkum og sér í lagi að upplifa þennan menningarmun sem ég hef lýst hér að framan. Því er ekki að neita, að ég mun meta íslenska fæðingaþjónustu enn betur en áður eftir þessa vist Að taka á móti börnum hér í Betlehem gefur ljósmóðurstarfinu ákveðna upplifun sem seint gleymist. Anna Rut Sverrisdóttir ljósmóðir HEIMILDIR: Fæðingaskrá The Holy Family Hospital, 2015. “Palestinian Women”; Palestinian academic society for the study of international affairs (PASSIA), Jerusalem, 2015. Nýbökuð móðir áamt aðtandanda og Önnu Rut. Á kaffistofu starfsfólks.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.