Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 36

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2016, Blaðsíða 36
36 Ljósmæðrablaðið - júní 2016 Ljósmæður fá styrk Tveir styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magn- úsar Jónassonar bónda. Emma Marie Swift hlýtur styrk fyrir rann- sókn sína sem miðar að því að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi og Valgerður Lísa Sigurðardóttir hlýtur styrk til doktorsrannsóknar þar sem ætlunin er að rannsaka neikvæða fæðingarreynslu kvenna á Íslandi. Heildarupphæð styrkja nemur 680 þúsund krónum. Meginmarkmið doktorsrannsóknar Emmu Marie Swift, sem ber heitið „Að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi – rannsókn um fæðing- arótta og viðhorf til notkunar tækni í fæðingum“, er að aðlaga og þróa íhlutun í mæðravernd sem byggist m.a. á hópumönnun með aukinni fræðslu og stuðningi við verðandi foreldra. Rannsóknin miðar að því að athuga hvort slík nálgun geti haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu kvenna og eflt trú konunnar á eigin getu til að fæða án inngripa. Íhlutunin verður prófuð á hópi barnshafandi kvenna og viðhorf þeirra til inngripa, fæðingarótta og meðgönguverndar borin saman við hóp barnshafandi kvenna í hefðbundinni meðgönguvernd. Verkefnið er nýsköpun í meðgönguvernd hér á landi og miðar að því að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi, auka fræðslu og sjálfsör- yggi kvenna sem og stuðning við verðandi foreldra. Að auki hyggst Emma skoða samband fæðingarótta og viðhorfa til notkunar tækni í fæðingum meðal ungra íslenskra kvenna og skrá notkun inngripa í fæðingum á Íslandi undanfarin 25 ár. Emma Marie Swift lærði ljósmóðurfræði í Bandaríkjunum og starfaði sem ljósmóðir í Madison í Wisconsin-ríki á árunum 2010‒2013. Vorið 2015 lauk hún meistaranámi í ljósmóðurfræði frá Hannover Medical School í Þýskalandi og hóf doktorsnám í ljós- móðurfræði með áherslu á lýðheilsuvísindi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Helgu Gottfreðsdóttur, dósents við Hjúkrunarfræðideild, og Helgu Zoéga, dósents við Læknadeild. Aðrir í doktorsnefnd eru Melissa Avery, prófessor við Minnesota-há- skóla í Minneapolis, Kathrin Stoll, nýdoktor við British Columbia háskóla í Vancouver, og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkr- unarfræðideild Háskóla Íslands. Megintilgangur doktorsrannsóknar Valgerðar Lísu Sigurðardóttur, sem ber heitið „Neikvæð fæðingarreynsla á Íslandi: Algengi, áhættu- þættir og þróun ljósmóðurmeðferðar“, er að skoða hversu algengt það er að íslenskar konur upplifi fæðingu á neikvæðan hátt og þróa íhlutun fyrir þann hóp sem hefur upplifað slíkt. Fyrri rannsóknar- niðurstöður benda til þess að neikvæð upplifun á fæðingu geti haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir konu og barn. Því er fyrsti hluti verkefnisins fólginn í að skoða tíðni neikvæðrar fæðingar- upplifunar hér á landi ásamt því að kanna hvaða þættir hafa áhrif á slíka upplifun hjá konum. Í því sambandi verða m.a. skoðuð áhrif félagslegs stuðnings, mat kvenna á eigin heilsu og hvort tímalengd frá fæðingu hefur áhrif á upplifun konunnar. Þessi hluti rannsóknar- innar byggist á gögnum úr rannsókninni Barneign og heilsa og fór gagnasöfnun fram víða um land. Í öðrum hluta verkefnisins verður kannað hvernig þjónustu konur, sem eiga neikvæða fæðingarreynslu að baki, kjósa. Þar verður byggt á gögnum úr rannsókn á viðtals- þjónustunni Ljáðu mér eyra á Landspítala. Að lokum er stefnt að því að þróa íhlutun sem ljósmæður myndu veita og byggist hún á niðurstöðum úr fyrri hluta rannsóknarinnar. Rannsókninni er ætlað að bæta við þekkingu í ljósmóðurfræði, efla ljósmóðurmeðferð og stuðla að velferð móður og barns. Valgerður Lísa er sérfræðiljósmóðir og klínískur lektor á kvenna- deild Landspítala. Jafnframt hefur hún um alllangt skeið verið stundakennari við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræði- deild Háskóla Íslands. Sérsvið Valgerðar Lísu er andleg líðan kvenna í barneignarferlinu og veitir hún ráðgjöf og umönnun til kvenna með geðrænan vanda, vímuefnavanda eða önnur vandamál sem tengjast andlegri líðan í barneignarferlinu. Hún hefur frá árinu 2008 starfað með viðtalsþjónustunni Ljáðu mér eyra á Landspítala, en þangað geta konur leitað ef þær hafa þörf fyrir að ræða fæðingarreynslu sína. Leiðbeinandi er Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræði- deild, og meðleiðbeinandi Herdís Sveinsdóttir, prófessor við sömu deild. Aðrir í doktorsnefndinni eru Berglind Guðmundsdóttir, dósent við Læknadeild, og Jenny Gamble, prófessor við Griffith University í Ástralíu. Valgerður Lísa hlaut styrk úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda árið 2014 og er styrkurinn í ár veittur til að vinna að öðrum hluta verkefnisins þar sem undirbúningur við þróun ljósmóðurmeðferðar hefst. F R É T T A T I L K Y N N I N G

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.