Ljósmæðrablaðið

Årgang

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Side 4

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Side 4
4 Ljósmæðrablaðið - desember 2016 Það getur verið flókið að vera heilbrigðisstarfs- maður á tækniöld og þá sérstaklega ljósmóðir. Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað og ég held að við getum verið sammála um það að oftast séu þær til góðs. Við getum skoðað barnið í sónar frá nokkurra vikna og fram að fæðingu, fundið þau börn sem ekki eiga lífsvon. Farið í þrívíddarsónar til að sjá barnið betur. Einnig er hægt að fylgjast með barninu með sírita á meðgöngu og í fæðingu svo eitthvað sé nefnt. En er þetta allt til góðs? Þó að tæknin sé til staðar þurfa þá allar konur á henni að halda? Í mars 2014 voru fæðingarhluti Hreiðursins og fæðingardeild Landspítalans sameinuð í eina fæðingardeild, fæðingarvaktina. Þar var strax farið í það að standa vörð um eðlilegar fæðingar. Konur voru flokkaðar niður eftir því hvort þær voru með einhverja áhættuþætti eða ekki. Konur sem eiga eðlilega meðgöngu að baki og eru í sjálfkrafa sótt þurfa til dæmis ekki að vera tengdar við sírita því rannsóknir sýna að það bætir ekki útkomu fæðinga. Þá hefur einnig verið reynt að fækka innri skoðunum og minnka notkun hríðaörvandi lyfja svo eitthvað sé nefnt. Notaðir eru árangusmælar til að meta árangur af þessum þáttum. En hvað eru árangusmælar? Þessu svara þær Anna Sigríður Vernharðsdóttir og Elín Arna Gunnarsdóttir í grein í blaðinu, þar útskýra þær hvernig viðmið voru fundin út og hvernig gengið hefur að vinna eftir þessum vinnuleiðbeiningum. Ég velti því stundum fyrir mér hvað það hafa verið miklar öfgar í umönnun kvenna í barneignarferlinu. Þegar við bjuggum í torfkofunum var nánast engin mæðravernd, konurnar fæddu heima hjá sér með aðstoð héraðsljósmóður. Eftir spítalavæð- inguna fengu feðurnir ekki að vera viðstaddir fæðingarnar, konurnar áttu helst að liggja á bakinu með fætur í stoðum þegar þær fæddu, mikil notkun á sírita og miklar og flóknar reglur um brjóstagjöf. Núna þurfum við aðeins að fara til baka og ná jafnvægi. Verðum að muna það að tæknin er til að aðstoða okkur en hún getur líka þvælst fyrir okkur. „Það er ekki hlutverk ljósmæðra, að taka barn með töngum, en hitt þurfa þær að bera skyn á, hvenær tangartak geti komið til mála. Svo að þær geti látið nálgast lækni í tíma, ef svo ber undir“. Svona byrjar grein sem Erla Dóris skrifar um leyfi ljósmæðra til að nota tangir við fæðingar. Það var árið 1910 sem íslensk ljósmóðir fékk leyfi til að nota tangir í fæðingarhjálp, áður hafði tveimur ljósmæðrum verið synjað um að nota tangir. Mér fannst mjög merkilegt að lesa þessa grein, ég ber mikla virðingu fyrir þeim ljós- mæðrum sem unnu við fæðingarhjálp á þessum tíma úti á landi, oft var langt að sækja lækni og því hefur það örugglega verið mikilvægt fyrir ljósmæður að geta notað tangir í fæðingum. Í dag hugsa ég líka oft um ljósmæður sem starfa á landsbyggðinni. Til dæmis er bara ein ljósmóðir starfandi á Ísafirði og gerð var frétt um það á annarri hvorri sjónvarpsstöðinni í vetur. Fréttamaður fór vestur til að ræða við framkvæmdastjóra hjúkrunar um þetta mál. Mér fannst mjög merkilegt að ekkert viðtal var tekið við ljósmóðurina á staðnum sem stendur vaktina allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Aðventan er skemmtilegur tími, í seinni tíð hefur mér fundist hún vera jafnvel skemmtilegri en sjálf jólahátíðin. Þá er hægt að sækja marga viðburði eins og tónleika. Auk þess gera margir vinnustaðir sér dagamun og koma saman og borða góðan mat og hafa gaman, þannig á líka aðventan að vera. Ég óska ljósmæðrum, ættingjum þeirra og öðrum lesendum Ljós- mæðrablaðsins gleðilegrar jólahátíðar og gæfu á nýju ári. Er tæknin alltaf til góðs? Hrafnhildur Ólafsdóttir, ritstjóri Ljósmæðrablaðsins R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Ljósmæðrafélag Íslands óskar öllum ljósmæðrum og fjöskyldum þeirra, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum þeim fjölmörgu ljósmæðrum sem unnið hafa óeigingjarnt starf fyrir félagið. Með kærri kveðju - Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.