Ljósmæðrablaðið

Volume

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Page 16

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Page 16
16 Ljósmæðrablaðið - desember 2016 sem lagði til að lærðum ljósmæðrum hér á landi yrði kennt að beita fæðingartöng við fæðingar, þegar og þar sem ekki væri mögulegt að ná til læknis alveg eins og þeim væri leyft að snúa burði ef nauðsyn krefði áður en læknirinn kæmi.14 Helga fékk ekki leyfi landlæknis til að beita fæðingartöng með þeim rökum að þar sem það tíðkaðist ekki í Danmörku að ljósmæður notuðu fæðingartangir gæti hann ekki heimilað henni það. Hin ljósmóðirin sem fór fram á að fá leyfi til að beita fæðingartöngum í fæðingum var Þórunn Gísladóttir, ljósmóðir í Vestur–Skaftafellssýslu. Þórunn hafði gengist undir ljósmóðurpróf hjá Þorgrími Johnsen, héraðslækni í austurhéraði Suðuramtsins, vorið 1870.15 Þórunn hafði leitað til séra Páls Pálssonar á Prestbakka og hann skrifað bréf til Hilmars Finsen stiftamtmanns 29. nóvember 1872, þar sem hann fór fram á að Þorgrímur Johnsen héraðslæknir veitti Þórunni leyfi til að viðhafa fæðingartangir og að „henni yrði þær útvegaðar.“16 Í svarbréfi Jóns Hjaltalíns til Hilmars Finsens, dagsett 18. mars 1873, kom þetta fram: Eins og það er alveg óviðvanalegt að ljósmæðrum í Danmörku, sé trúað fyrir að viðhafa tangir, eins veit ég eigi til að neinni af þeim íslenzku ljósmæðrum, er lært hafa á stiptuninni, hafi verið kennt að viðhafa þetta verkfæri, og þar af sýnist leiða að löggjöfin hafi enn ei ætlast til að þeim væri fengið það í hendi, jafnvel þó ég hafi heyrt af slíkt eigi sér stað í Svíþjóð, og að það, undir ýmsum kringumstæðum, jafnvel gæti átt sér stað hér á landi.17 Kom enn fremur fram hjá Jóni að mörgum ungum ljósmæðrum hætti til að vilja flýta fæðingunni hjá þeim sem fæddu í fyrsta sinn. Jón líkti fæðingartöng við „tvíeggjað sverð“, því hún væri bæði nauðsynlegt verkfæri en gæti einnig valdið hinum fæðandi konum 14 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis D, 6. Ársskýrslur lækna 1858–1865. Ársskýrslur lækna 1865. Bréf Jóns Finsen héraðslæknis, dagsett 15. febrúar 1865. 15 Sjá um Þórunni Gísladóttur í Ljósmæður á Íslandi I. bindi, bls. 681−682. 16 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis A, 16. Bréfabók 1869–1877), bls. 166. 17 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis A, 16. Bréfabók 1869–1877, bls. 166. miklum skaða ef þær lentu í höndum óæfðra. Þær ljósmæður sem lærðu hjá héraðslæknum fengju ekki aðra verklega þjálfun í fæðingarhjálp en á mjaðmagrindarlíkinu og af þeim sökum taldi Jón þær ekki geta metið þær aðstæður hvenær nota skuli töngina í fæðin- garhjálpinni. Í lok bréfsins sagðist Jón vonast til þess að Skaftafells- sýsla fengi sinn eigin héraðslækni og baðst undan að veita Þórunni leyfi til að notast við fæðingartöng.18 Afstaða landlæknis að veita ekki lærðum ljósmæðrum leyfi til að notast við fæðingartöng var í takt við það sem Anne Witz félagsfræðingur kallar „discursive stra- tegy“ eða útilokunarorðræðu, þ.e. þegar karlastéttir reyna að koma á verkaskiptingu við kvennastéttir með kynjaðri orðræðu eins og þegar landlæknir í þessu tilviki notar svo karlmannlegt myndmál að líkja fæðingartönginni við „tvíeggjað sverð.“19 Guðrún Aradóttir fyrst íslenskra ljósmæðra sem fær leyfi til að beita fæðingartöng Á ferð um Hofshrepp (Öræfi) í Austur-Skaftafellssýslu sumarið 1909 færðu Öræfingar í tal við Guðmund Björnsson landlækni vandræði sín „ef hjálpar þyrfti handa konu í barnsnauð“, þar sem það gat tekið tvær dagleiðir á hesti að ná í lækni umdæmisins. Hofshreppur eða Öræfi, eins og hreppurinn var einnig nefndur, náði frá Jökulsá á Fjöllum að Gígjukvísl. Hofshreppur var mjög afskekktur vegna jökulvatna. Engar brýr voru þá eins og nú og allar ferðir manna á landi voru á hestum eða fótgangandi. Á Guðmundur að hafa svarað Öræfingum á þá leið að ef hreppurinn útvegaði efnilega konu í ljós- móðurnám myndi hann kenna henni að nota fæðingartöng.20 Í bók Arnþórs Gunnarssonar, Saga Hafnar í Hornafirði, kemur fram að Austur-Skaftafellingar áttu og eiga enn mikið undir duttl- ungum Vatnajökuls að etja.21 Læknaumdæmið, Hornafjarðarlæknis- hérað, náði yfir alla hreppi í Austur-Skaftafellssýslu og var erfitt yfir- ferðar. Fyrir lækna í þessu umdæmi voru ferðir í Hofshrepp þar sem Guðrún Aradóttir bjó erfiðastar og tímafrekastar vegna straumharðra áa sem þeir þurftu að fara yfir. Hinn 1. nóvember 1905 var Þorvaldur Pálsson settur læknir í Hornafjarðarhéraði. Hann settist að á Höfn í Hornafirði. Talsvert los virðist hafa verið á Þorvaldi því hann dvaldi langtímum erlendis. Hornfirðingar undu þessu ástandi illa og kvört- uðu sáran við Guðmund Björnsson landlækni en þótt „landlæknir ávítti Þorvald hélt hann áfram að vanrækja skyldur sínar.“22 Árið 1909 völdu Öræfingar Guðrúnu Aradóttur 26 ára til ljósmóð- urnáms. Guðrún var ógift og bjó á Fagurhólsmýri með foreldrum sínum, Ara Hálfdánarsyni hreppstjóra og Guðrúnu Sigurðardóttur húsfreyju. Haustið 1909 er Guðrún komin í ljósmóðurnám við Yfir- setukvennaskólann í Reykjavík eins og fram kemur í bréfi sem faðir hennar, Ari, skrifaði til Magnúsar Bjarnasonar, prófasts á Prestbakka. Í bréfinu segist Ari hafa ferðast til Reykjavíkur og heimsótt dóttur sína. Hann upplýsir prest einnig að Guðrún dóttir hans leigi eitt herbergi á efsta lofti á Smiðjustíg 6. Það séu 11 konur í ljósmæðra- námi og kenni Guðmundur landlæknir þeim. Enn fremur segir Ari að Guðrún fylgi ljósmóður Reykjavíkur til fæðandi kvenna í bænum. Fyrsta fæðing sem Guðrún var viðstödd gekk illa en að læknarnir tveir, þeir „Guðmundur Hannesson og Sigurður Magnússon urðu að svæfa konuna til að snúa barninu, er náðist andvana og konan dó litlu síðar. Gunnar var tvisvar sendur á apótekið eftir meðulum meðan á þessu stóð og var konan liðin þegar hún kom í seinna skiptið með meðölin. Síðan hefur allt gengið vel.“23 Guðrún lauk ljósmæðraprófi 31. mars árið 1910. Þá hafði hún verið við nám í ½ ár. Að því loknu veitti Guðmundur henni leiðsögn í því að nota fæðingartöng. Í bréfi sem Guðmundur skrifaði stjórn- arráðinu um nauðsyn þess að leyfa ljósmóður í Hofshreppi að beita 18 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis A, 16. Bréfabók 1869–1877, bls. 166. 19 Anne Witz, Professions and Patriarchy, bls. 169. 20 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis C, 58. Bréf til landlæknis. Yfirsetukonur 1906–1911, örk yfirsetukonur 1910. Bréf Guðmundar Björnssonar landlæknis til stjórnarráðsins, dagsett 29. júlí 1910. 21 Arnþór Gunnarsson, Saga Hafnar í Hornafirði: Aðdragandi búsetu og frumbýlisár I. bindi, bls. 11. 22 Árið 1912 fengu Austur-Skaftafellingar nýjan lækni þegar Henrik Erlendsson flutti til Hafnar í Hornafirði. Arnþór Gunnarsson, Saga Hafnar í Hornafirði I. bindi, bls. 312. 23 Lbs. Handritadeild Lbs. 3445 4to. Guðrún Aradóttir ljósmóðir.

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.