Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Blaðsíða 40

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2016, Blaðsíða 40
40 Ljósmæðrablaðið - desember 2016 Á lygnum björtum dögum sem oft hafa komið hér fyrir vestan þetta haustið er fátt fallegra en Ísafjarðardjúp. Þegar ég fluttist hingað vestur fyrir tæpum sjö árum síðan féll ég strax í stafi yfir fegurð Snæfjalla- strandarinnar og er enn á þeirri skoðun að það að fá að njóta útsýnis á borð við það vestfirska á leið heim til kvenna og nýfæddra barna þeirra séu sönn forréttindi. Og ég elska starfið. Tengslin sem myndast við konurnar og fjölskyldur þeirra í samfelldri þjónustu á borð við þá sem ég veiti hér fær fátt toppað. En hér í þessu samfélagi virðist það samt svo sjálfsagt. Samfélaginu þar sem sumar þessara sömu kvenna eru með mér í kvennakórnum, á mömmumorgnum, í saumaklúbb og jafnvel á bæjar- stjórnarfundum. Þegar samfélagið er náið finnst mörgum að persónuleg og góð þjónusta í mæðravernd, í og eftir fæðingu, komi af sjálfu sér. En hún gerir það ekki. Nú er svo komið að ég er eina ljósmóðirin á Vestfjörðum. Sú aleina í öllum landshlutanum, eða „höfðinu á Íslandi“ eins og Ísfirðingarnir, börnin mín, kalla það. Og þegar vestfirska lognið fer að hreyfast hraðar, það hvín í þakskegginu og heiðarnar lokast byltir eina ljósmóðirin sér stundum í bælinu og veltir því fyrir sér hvernig konurnar hennar hafi það nú. Og jafnvel hvers vegna ég sé orðin hér alein eftir. Það er ekki vegna þess að hér séu ekki verkefni fyrir fleiri ljósmæður. Og það er heldur ekki vegna þess að ekki sé með neinu móti hægt að fá ljósmæður til starfa. Og það er svo sannarlega ekki vegna þess að konur kjósi ekki að njóta þjónustu í heimabyggð. Það er vegna stefnu stjórnvalda. Þar sem ég ligg þarna og að venju hagræði litlum líkama fæddum á vestfirskri fæðingardeild þannig að ég sé hvorki með tær í andlitinu né olnboga á milli rifja finnst mér eins og niðurskurðarhnífurinn hangi á einu hári yfir fæðingardeildinni minni. Fæðingardeildinni okkar allra hér. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er burðarás í samfélaginu hér fyrir vestan. Ekki einungis er hún stærsti vinnustaðurinn heldur er þjón- ustan mjög mikilvæg öllum íbúum hér. Þegar dagarnir eru hvað stystir og nóttin lengst lokast stundum allar leiðir héðan til Reykjavíkur, bæði á landi og í lofti. Þá er nú gott að hér sé opin skurðstofa, færi svo að einhver fengi botnlangakast til dæmis. Og þó að ég vandi valið á þeim konum sem hér gefst kostur á að fæða og reyni að halda inngripum í eðli- legt fæðingarferli í lágmarki er skurðstofuþjónustan forsenda fyrir rekstri fæðingardeildar hér. Og þar kreppir skóinn. Skurðstofuþjónusta kostar. Það er alveg sama hversu íbúum kann að þykja þjónustan mikilvæg, teljist hún ekki svara kostnaði fellur niðurskurðarhnífurinn. Á sunnan- verðum Vestfjörðum hefur ekki verið fæðingarþjónusta um árabil sem hefur leitt það af sér að þar er ekki lengur nein ljósmóðir til að sinna mæðravernd. Og ekki er það vegna þess að mæðravernd skipti ekki máli. Það sama skal ekki fá að gerast hér. Þetta er í raun og veru það sem blasir við heilbrigðisstarfsfólki, ljósmæðrum sem og öðrum, hvar sem er á Íslandi. Það verður að standa vörð um þá þjónustu sem þegar er til staðar, því ef hún er skorin niður er ekki víst að neitt komi í staðinn. Að minnsta kosti ekki nema með gífurlegri fyrirhöfn. En alltaf eru einhver ljós í myrkrinu. Við Íslendingar búum að ótrúlega kraftmiklu, vel mennt- uðu og kláru fagfólki og þar liggja styrkleikar okkar heilbrigðiskerfis. Eins og dæmin sanna geta einstaklingar lyft grettistaki líkt og stelpurnar í Björkinni sem hafa náð koma á fót sjálfstæðri fæðingarstofu og látið þar með langþráðan draum margra ljósmæðra rætast. Hér á Ísafirði er líka margt frábært samstarfsfólk sem er tilbúið að berjast fyrir því að veita hér áfram góða þjónustu. Þó ég sé eina ljósmóðirin sem stendur er ég svo sannarlega ekki ein á báti. Í byrjun nóvembermánaðar tók til starfa nýráðinn forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Kristín B. Alberts- dóttir, og hefur tekið að sér það viðamikla verkefni að reisa fjársvelta heilbrigðisstofnun úr rústunum. Hún, eins og ég, sér mörg tækifæri fyrir okkar litlu fæðingardeild og hefur hug á að efla hana með ráðum og dáð. Með væntanlegum Dýrafjarðargöngum sem hefjast á handa við á næsta ári opnast möguleiki á því að tengja betur saman heilbrigðisþjón- ustu á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum og ég hlakka mikið til að geta fengið tækifæri til að þjónusta konur á Patreksfirði og í nálægum byggðarlögum. Þegar þetta er ritað standa yfir stjórnarmyndunarviðræður. Við skulum vona að við taki stjórn sem getur styrkt okkur Vestfirðinga sem og aðra til góðra verka. Erla Rún Sigurjónsdóttir Ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Hugleiðingar ljósmóður á Ísafirði H U G L E I Ð I N G A R L J Ó S M Ó Ð U R

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.