Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 43

Litli Bergþór - 01.07.2014, Blaðsíða 43
Litli-Bergþór 43 Frá kveðjuhófi í Skálholtsskóla 29. maí 2014 eins og hægt er. Vonandi ber þeim gæfa til að hlusta á góð ráð. Við erum sannfærð um að það er nauðsynlegt fyrir staðinn að búskapnum sé haldið áfram hér í svipuðu horfi og verið hefur, a.m.k. 10 til 15 ár til viðbótar. Það myndi gefa ráðamönnum staðarins svigrúm til að taka vel ígrundaðar ákvarðanir um framtíðarskipulag staðarins. Búskapnum fylgir líf og athafnasemi, sem lífgar upp á staðinn og bætir við það sem hér er að sjá og upplifa fyrir ferðamenn og styrkir atvinnulíf í sveitinni. Bóndinn er alltaf á staðnum og tiltækur og búskapnum fylgja öll tæki og áhöld, sem nauðsynleg eru til að halda umhverfi staðarins snyrtilegu. Það er allt annað að sjá ræktarleg tún og snyrtimennsku á jörðinni heldur en sinu og órækt og væri sorglegt ef hún drabbaðist niður. Ég er líka sannfærður um að það er jákvætt að bóndinn sinni einnig meðhjálparastörfum í kirkjunni, því með því móti fylgist hann betur með því sem þar fer fram og getur betur tekið tillit til þess. Það varð eins og þegjandi samkomulag um það við sr. Guðmund þegar við fluttum hingað, að ég tæki við meðhjálparastöðunni af Birni Erlendssyni og ég hef haft ánægju af því starfi. Það hefur ekki verið greitt sérstaklega fyrir það frekar en fyrir önnur meðhjálparastörf, en auðvitað hefur umfangið aukist mikið, sérstaklega síðustu árin. Skálholtskirkja hefur í vaxandi mæli verið notuð af öllum íbúum uppsveitanna t.d. vegna jarðarfara, og annarra kirkjulegra athafna, sameiginlegra kóræfinga, tónleika o.þ.h. enda sjálfsagt að nota þetta fallega og hljómfagra hús sem mest. Blaðamaður getur ekki annað en tekið undir þetta, það hefur einnig verið einstaklega ljúft að fylgjast með og njóta starfa Guttorms í kirkjunni. Hjálpsemi og lipurleiki í öllum samskiptum hefur einkennt samstarf hans við sveitungana og gesti staðarins. L-B: Átti heilsubresturinn ein- hvern þátt í þeirri ákvörðun ykkar að hætta búskap? Guttormur: Jú, ég fékk hjartaáfall í maí 2008 og síðan hefur maður auðvitað oft spurt sig að því hvað rétt væri að gera. Ég hef þurft að læra að halda aftur af mér, sérstaklega á álagstímum, og ég verð fljótt þreyttur ef á reynir. Það koma þeir tímar í lífinu að það þarf að endurmeta stöðuna og finna leið til að halda þeim bestu lífsgæðum sem hægt er að ná. Það er ekki gott að ofgera sér, maður endist skemur þannig. Og ef við á annað borð ætlum að skipta um starfsvettvang er betra að gera það fyrr en seinna. Við sögðum upp um síðustu áramót og náðum að selja kvótann okkar fyrir jól, áður en verðið féll. Það er ekki vandamál að losna við kýr núna, þegar leyft er að framleiða eins og hver getur og allt afurðastöðvaverð borgað. En við höfum sagt kirkjuráði að við munum hinkra með að selja kýrnar þar til eftir kirkjuráðsfundinn, sem verður nú í vikunni, þar sem væntanlega verður ákveðið um framhaldið. Það væri ekki auðvelt fyrir nýjan bónda að þurfa að kaupa allar kýrnar í upphafi. Við keyptum okkur íbúð í Mosfellsbæ en að öðru leiti er framtíðin óráðin. Við erum samt bjartsýn á að okkur leggist eitthvað til. Signý hefur mikla reynslu sem kennari og ég reyni að finna mér eitthvað starf sem hentar. Ég reikna þó ekki með að ég hafi áhuga á bifreiðasmíðinni aftur, sem ég stundaði áður en ég hóf búskap. Og á þessum bjartsýnu nótum kveður blaðamaður Litla-Berþórs Skálholtsbændur þakkar fyrir ánægju- legt spjall og óskar þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Geirþrúður Sighvatsdóttir P.S Viðtalið við þau Signýju og Guttorm var tekið í apríl 2014, um það leyti sem staða ráðsmanns í Skálholti var auglýst. Um 15 manns sóttu um starfið og um miðjan maí var gengið frá ráðningu nýrra bænda á Skálholtsbýlinu. Þau heita Jóna Þormóðsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson og voru áður með búskap í Álftafirði, en hafa ekki verið við bústörf í nokkur ár. Hún er búfræðingur frá Hvanneyri.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.