Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Page 56
H j a l t i H u g a s o n
56 TMM 2013 · 4
að samfélagssáttmálinn hefði verið rofinn og að hann þyrfti að endurnýja.
Sáttmálsrofið fólst þá í að hópur fólks hefði tekið sér rétt eða skapað sér
aðstöðu í samfélaginu langt umfram það sem honum bar með réttu og með
því rofið sáttmálann sem hélt samfélaginu saman. Fljótt mynduðust þó bein
tengsl milli þessa samfélagssáttmála, stjórnarskrárinnar og lýðveldisins
og tekið var að líta svo á að stofna þyrfti nýtt lýðveldi á grundvelli nýrrar
stjórnarskrár er hvíldi á hinum „æðri“ gildum þjóðfundarins 2010. Hin nýja
stjórnarskrá skyldi verða sá samfélagssáttmáli sem „nýja Ísland“ væri reist
á. Í því ljósi má skoða hina háleitu hugsjón um stjórnlagaþing þjóðarinnar
sem beið vissulega hnekki við dræma kjörsókn í kosningunum til þingsins
og loks ógildingu þeirra. Hún náði þó að einhverju leyti fram að ganga með
störfum stjórnlagaráðs en hefur nú hafnað í óvissri stöðu eftir alþingis-
kosningar og stjórnarskipti. – Togstreituna um endurskoðunarstarfið má
jafnvel skoða í ljósi sagnstefja úr eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna en þá
mögluðu margir gegn Móse og Guði og sögðu sig úr lögum við þá. Hér skal
þó varast að lesa of þrungna merkingu inn í pólitísk átök um markmið og
leiðir í uppbyggingarstarfinu eftir Hrun!
Flest okkar hafa ugglaust tengt þessar vísanir til samfélagssáttmálans
við upplýsingartíma 18. aldarinnar. Þá ruddu þær hugmyndir sér til rúms
að samfélagið hvíldi ekki á sköpunarreglu Guðs eins og litið hafði verið á
um daga þeirrar trúarmenningar sem ríkt hafði í Evrópu aldirnar á undan
heldur á frjálsum og skynsamlegum sáttmála fólks er það gerði sín á milli á
beinan eða óbeinan hátt og kæmi m.a. fram í lögum hvers ríkis. Sáttmáls-
hugsunin er þó mun eldri og er grundvallarstef í stórsögu Biblíunnar þar sem
rætt er um tvo sáttmála eða testamenti. Fyrri sáttmálinn átti rætur að rekja
til útfararinnar af Egyptalandi (exodus) og opinberunar Guðs í Sínaí-fjalli
þar sem boðorðin tíu, frumgerð sérhvers samfélagssáttmála en jafnframt
grunnur vestræns félagslegs siðferðis, voru gerð heyrin kunn. Þangað má
rekja upphaf Ísraelsþjóðarinnar hinnar fornu. Síðari sáttmálinn opinberaðist
hins vegar í lífi, starfi, dauða og upprisu Krists og varð upphaf „Hins nýja
Ísraels“ eða kristninnar sem stóð opin gjörvöllu mannkyni öfugt við „hinn
forna Ísraelslýð“.
Samkvæmt hinum hebreska sagnheimi hvíldi líf og heill manns og heims
á gildum sáttmála sem haldinn væri í heiðri. Sáttmálinn var því lykillinn
að siðmenningu og réttarríki en hvort tveggja var í hættu væri sáttmálinn
rofinn. Sameiginleg velferð alls mannkyns og í raun alls lífs valt því á að sátt-
málinn væri virtur og gagnkvæmt traust ríkti á grundvelli hans.
Umræðuna á Íslandi 2010 og árunum þar á eftir má túlka í ljósi þessarar
eldfornu sáttmálshugsunar ekki síður en með hugarheimi upplýsingarinnar.
Þannig er mögulegt að gæða orðræðuna og hugtakaheim hennar dýpri
merkingu sem vísar til samstöðu, trausts, heilla og hamingju þjóðarinnar og
annars þess sem tengt er við hina fornu sáttmálshugmynd.