Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 48
B j ö r n H a l l d ó r s s o n
48 TMM 2014 · 3
„Maríón er farin,“ sagði röddin á hinum enda línunnar. „Hún fór.“
Jóhann hallaði höfðinu aftur að veggnum þar til hvirfillinn snerti kalda
steypuna.
„Hvað meinarðu?“ sagði hann.
„Hún er farin. Ég kom heim úr vinnunni og hún var farin.“
„Ertu búinn að reyna að hringja í gemsann hennar?“
„Nei. Ef hún vill fara þá er mér sama. Ef hún vill fara, þá getur hún bara
farið. Sama er mér.“
Jóhann lokaði augunum. Opnaði þau aftur. Á korktöflunni fyrir ofan
skenk inn hékk sundurleitt safn af miðum með hröfluðum símanúmerum,
aug lýsinga pésum, póstkortum og nokkrum ljósmyndum. Ljósmyndirnar
voru fjöl skyldumyndir, aðallega af Ellu og krökkunum. Þetta voru myndir úr
fríum í skemmtigörðum í útlöndum og af sólríkum sandströndum og tjald-
ferðum. Það var bara ein mynd af honum á töflunni. Ella hafði fest hana upp
með stórri, rauðri teiknibólu. Á myndinni sat hann í hvítum plastgarðstól á
veröndinni fyrir framan sumarbústað sem þau höfðu leigt fyrir nokkrum
árum. Hann var með krosslagða fætur og hélt á grænni Túborg dós og var
að horfa á eitthvað í fjarlægð sem myndavélin náði ekki að fanga. Litirnir á
myndinni höfðu dofnað eilítið og voru ljósir og fölir eins og fangað sólarljós.
„Hvar ertu?“ spurði hann símtólið.
„Á barnum. Á Svaninum,“ sagði rödd bróður hans. „Ég varð bara að
komast aðeins út.“
„Ókei,“ sagði Jóhann. „Voruð þið eitthvað að rífast?“
„Nei. Ja, kannski smá. Hún er búin að vera í svo skrítnu skapi undanfarið.
Ég kom bara heim og hún var farin.“
„Hvað með dótið hennar?“
„Hvað meinarðu?“
„Dótið hennar. Ef hún er farin frá þér þá hlýtur hún að hafa tekið eitthvað
með sér. Ef ekki þá þurfti hún kannski bara aðeins að komast í burt, í smá
tíma. Er dótið hennar horfið?“
„Ég veit það ekki. Ég kíkti ekki.“
„Hvernig veistu þá að hún er farin?“ spurði Jóhann og reyndi að hljóma
léttur og jákvæður eins og þetta væri kannski allt bara einhver misskiln-
ingur. „Kannski skrapp hún út og tafðist eitthvað. Kannski kom eitthvað
fyrir.“
„Hún er farin.“
Það var þungi í rödd Bödda og Jóhann sagði ekki meira um málið. Hann
hélt símtólinu þétt að eyranu og hugsaði um bróður sinn á meðan hann
starði á korktöfluna á veggnum og á myndirnar af fjölskyldunni sinni og
þá sérstaklega á myndina af sjálfum sér þar sem hann sat á veröndinni fyrir
utan leigubústaðinn, sötraði bjór og fylgdist með því hvernig sólsetrið lýsti
upp fjallshlíðina hinum megin í dalnum.