Bæjarblaðið - 29.02.1984, Síða 1

Bæjarblaðið - 29.02.1984, Síða 1
3. tbl. — 29. febrúar 1984— 6. árg. Fréttablað Akurnesinga— Óháð pólitískum flokkadrætti Undirbúningur að viðbyggingu Brekkubæjarskóla í fullum gangi — Rúmum þremur milljónum úthlutað til verksins á fjárlögum NORÐ-VESTUR Útlitsteikning af viðbyggingunni við Brekkubæjarskóla séð frá Vesturgötu. Það er Verkfræði- og teiknistofan sf. sem sér um hönnun skólans. 5 ' n Nú hillir senn undir aö fram- kvæmdir geti hafist við viðbygg- ingu Brekkubæjarskóla en hús- næðisskortur háir nú mjög starf- semi skólans, eins og komið hefur fram í Bæjarblaðinu í vetur. Fyrir skömmu var skipuð fram- kvæmdanefnd vegna viðbygging- arinnar við skólann. Formaður nefndarinnar er Þórður Björgvins- son og með honum í nefndinni eru þau Halldór Jóhannsson, Skúli Lýðsson, Helga Höskuldsdóttir og Grímur Bjarndal skólastjóri. Búast má við að á næstu dögum verði ráðinn eftirlitsmaður með bygging- unni en auglýst var eftir umsóknum um það starf fyrir skömmu. Starf eftirlitsmanns verður hlutastarf og mun hann annast eftirlit með út- boðum og framkvæmdum og verða nefndinni ráðunautur í bygg- ingamálunum. Á fjárlögum ríkisins fyrir þetta ár er úthlutað 3,1 milljón í viðbygg- ingu Brekkubæjarskóla. Sam- kvæmt því ætti Bæjarsjóður Akra- ness að leggja í verkið jafn háa upphæð. Hins vegar mun ekki hafa náðst samkomulag um hver hlutur ríkis og bæjar hvors um sig eigi að vera og stafar það af því að hús- næði fyrir 6 ára deild fellur ekki undir sömu reglur og húsnæði grunnskóla. Áætlað er að allar teikningar að viðbyggingunni að undanskildum innréttingum verði tilbúnar20. apríl næstkomandi og ætti því að vera hægt að auglýsa útboð þá. Fram- kvæmdir við bygginguna ættu því að geta hafist strax að loknu skóla- starfi í vor. Opna vikan í Fjölbrautaskólanum hefst á morgun: Fjolbreytt dagskrá og bæjarbúum boðin þátttaka Svonefnd opin vika er orðinn ár- viss viðburður í starfsemi Fjöl- brautaskólans á Akranesi. Nú í ár hefst opna vikan á morgun, fimmtudaginn 1. mars og henni lýkur miðvikudaginn 7. mars. I opnu vikunni er hin hefðbundna stundaskrá lögð til hliðar og við tekur dagskrá sem unnin er af nemendum og kennurum skólans. Vikunni er ætlað að undirstrika það að hlutverk skóla er sannarlega meira en þekkingarmiðlunin ein. Honum ber að efla vitund nem- enda um þann fjölþætta veruleika sem þeir lifa og hrærast í daglega. Með vikunni er einnig ætlunin að vega á móti þeirri nærsýni sem mikil sérhæfing í námi og starfi stuðlar einatt að í heimi nútímans, í vikunni er reynt að tengja skóla betur þeim veruleika sem utan veggja skólans býr, miðla sumu en þiggja annað í staðinn. Fyrirferðamestu atriðin í dagskrá vikunnar eru verkefni og námskeið um hin fjölbreytilegustu efni. Nefna má myndlistarnámskeið, leikræna tjáningu, Ijósmyndun, blaðaútgáfu, tónlist og tengsl hennar við tilfinn- ingar, félagsmálanámskeið, mynd- bandagerð og margt fleira. Fyrirlestrar verða fjölmargir og er þar leitað í smiðju, bæði til heimamanna og utanbæjarfólks. Sem dæmi um efni fyrirlestra má taka táknmál, málefni fanga, tölvu- mál, nám erlendis, kjarnorkuvopn, boltaíþróttir svo fátt eitt sé nefnt. Farið verður í stuttar ferðir þar sem kostur gefst á því að kynnast fjölmörgum stofnunum, skólum og fyrirtækjum. Tónleikar og kvöldvökur skipa einnig nokkurn sess í dagskránni. Skal sérstaklega getið um tónleika Gunnars Kvaran sellóleikara og Gísla Magnússonar píanóleikara. En tónleikar þeirra verða á sal skólans mánudaginn 5. mars og hefjast þeir kl. 15. Íþróttahátíð verður svo síðasta dag vikunnar og herlegur dans- leikur þá um kvöldið. Auk þess sem hér hefur verið minnst á skal þess sérstaklega getið að Leikklúbbur nemenda við Fjölbrautaskólann vinnur þessa dagana að undirbúningi leiksýn- ingar. Er verið að æfa tvo einþátt- unga undir styrkri leikstjórn Hjalta Rögnvaldssonar. Er ætlunin að frumsýna föstudaginn 9. mars. Það nýmæli verður nú tekið upp í opnu vikunni að laugardaginn 3. mars verður sérstakur kynningar- dagur í skólanum. Þá verður starf- að sem á venjulegum kennsludegi en bæjarbúum gefinn kostur á því að koma í heimsókn og fylgjast með. Kennslustofur verða sem sé opnar og gestum boðið að sjá og heyra hvað fer fram á „venjuleg- um“ skóladegi. Tekið verður vel á móti öllum og engin ástæða til að óttast það að fólk valdi truflun því nemendur og kennarar ætla sér ekki að vera í mjög hátíðlegum stellingum þennan dag. Leikurinn er til þess gerður að gefa bæjarbú- um kost á þvi að kynnast skólanum frá sjónarhorni sem þeim er að jafnaði hulið. Þeirri venju verður haldið að bjóða bæjarbúum til þátttöku í öllum dagskrárliðum vikunnar þar sem því verður við komið. Eru því allir hvattir til að kynna sér dag- skránna sem verður auglýst nánar í dreifibréfum og í auglýsingum víðsvegar um bæinn. Opna vikan í Fjölbrautaskólan- um á Akranesi er ekki hugsuð sem frí frá skóla hún táknar annars- konar skóla en venja er að tengja því nafni. Hún heppnast vel þegar sem flestir eru virkir þátttakendur í því að auka reynslu sína og kynni af sem flestu því sem forvitnilegt er í kringum þá og þroskandi.

x

Bæjarblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1353

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.