Bæjarblaðið - 20.12.1984, Blaðsíða 9

Bæjarblaðið - 20.12.1984, Blaðsíða 9
„Það vona ég að þetta verði henni Völlu til góðs“ Rœtt við Valbjörgu Kristmundsdóttur um lífið og tilveruna „ Góði minn, ég hefekkert að segja, þúferð ígeitarhús að leita ullar, að œtla að tala við mig. “ Þannig svaraði Valbjörg Kristmundsdóttir, þegar ég hringdi í hana og bað um viðtal í jólablað Bæjarblaðsins. Égþráaðist við vegna þess að ég vissi betur og þrákelknin sigraði. Við sátum og spjölluðum saman eina kvöldstund við Valbjörg og hér kemur árangur- inn. Vegnaþess að ég vissi að hún er ekki Akurnesingur, bótt langan tíma hafi hún átt heima á Akranesi, þá spurði égfyrst um hvaðan hún væri œttuð? „Ég er Vestfirðingur, fædd árið 1910 við ísafjarðardúp. Foreldrar mínir skildu þegar ég va á öðru ári. Faðir minn átti sveitarfestu í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu og þangað vorum við flutt. Fjölskyld- an tvístraðist, eins og svo oft kom fyrir á þessum árum. Ég var svo heppin að vera tekin í fóstur af fullorðnum hjónum, sem reynd- ust mér vel. Þegar ég var 8 ára fluttum við til Grundarfjarðar og þar áttum við heima þar til fóstri minn dó. Þá var ég 12 ára. Eftir það var ég svo hjá hinum og þessum.“ Svo liðu vikur Flvenær fluttir þú til Akraness? „Það var árið 1932. Ég hafði farið til Reykjavíkur í atvinnuleit. Ég var með drenginn minn með mér og það var ekki auðvelt að fá vinnu undir þeim kringumstæð- um. Eiginlega var ekki um annað að ræða en fara í vist yfir veturinn. Á sumrin fór ég svo í kaupavinnu. Árið 1932 var mjög erfitt að komst í vist í Reykjavík og þegar ég átti þess kost að komast í vist á Akranesi, sló ég til og fluttist upp- eftir og hér hef ég verið síðan.“ Þetta er í byrjun kreppunnar, ekki hefur það verið auðvelt fyrir einstæða móðir að komast af á þessum árum? „Nei, þau ár voru öllum erfið og þá ekki síst einstæðum mæðrum. Það var reynt að klóra í bakkann með öllum ráðum. Mað- ur reyndi að fá vinnu í fiski á vorin, kaupavinna á sumrin, síld- arsöltun á haustin, maður þvoði þvotta og gerði hreint og svo var reynt eins og hægt var að fá fisk- vinnu yfir veturinn. Þetta voru erfið ár, víst er um það. Ekkert var til sem hét vinnuöryggi. Mað- ur var ef til vill að vinna í fiski og þá var sagt við mann - þá er þetta nú búið í dag - og svo liðu jafnvel vikur án þess að maður fengi meiri vinnu. Þeir eru margir sem geta sagt frá erfiðleikunum á þessum kreppuárum. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég hafi aldrei vitað hvað raunverulegur skortur er, nema á kreppuárunum. Ég minnist þess að þegar ég var í Reykjavík, nokkru áður en ég fluttist hingað, þá hafði ég ekki efni á að láta klippa mig. Það kost- aði þó ekki nema eina krónu og fjörutíu aura.“ Aðflutt fólk hafði orð á því hér áður fyrr að minnsta kosti, að nokkuð erfitt væri fyrir utanað- komandi að kynnast Ákurnesing- um, fannst þú fyrir þessu? „Nei, alls ekki. Mér þótti það aldrei erfitt og eignaðist fljótt kunningja. Ég hef hinsvegar oft heyrt aðkomufólk tala um að þeim þyki skelin þykk á Skaga- mönnum. Ég hefekki þolinmœðina sem þarftil að verða skáld Nú veit ég að þú ert skáldmælt. . . „Nei, ég er ekki skáldmælt, í mesta lagi að ég geti kallast hagmælt, en á þessu tvennu er mikill munur. Því fer fjarri að ég hafi þá þolinmæði sem þarf til að verða skáld. Ég hef aftur á móti mikið yndi af ljóðum og hef alla tíð haft. Það er rétt að ég hef sett saman vísur og stundum gaman- bragi. En allt hefur þetta verið ort fyrir stað og stund, mér hefur ald- rei dottið í hug að rækta þetta neitt.“ Hefurðu ekki haldið því neitt saman sem þú hefur ort? Blessaður vertu, ég á mikið af bulli eftir mig, ég þarf að fara að henda þessu, svo þetta flækist ekki fyrir neinum, þegar maður fellur frá. Til dæmis eru gaman- bragir sem ég hef verið að setja saman fyrir einhverjar skemmtan- ir. Þeir eiga ekkert erindi út fyrir þá skemmtun, sem þeir voru flutt- ir á. Þannig er það með það sem ég set saman.“ Leyfðu mér að heyra eina vísu eftir þig. „Ég er búin að gleyma öllum vísum. Ekki það, jæja, ég skal leyfa þér að heyra eina frá því sl. sumar, hún er dæmigerð vísa sem ort er fyrir stað og stund. Við vor- um á ferðalagi í rútubíl um Ev- rópu nokkrir íslendingar. Ein- hveru sinni höfðu nokkrir drukkið dálítið af bjór og þurftu því oft að tappa af sér. Salerni var í bílnum, en bílstjóranum, sem var danskur og heitir Verner, þótt menn fara of oft á salernið og hafði orð á þessu. Þá fæddist þessi: Að WC notkun væri stór Verner þótti miður. Þörf er að losa þennan bjór þegar hann leitar niður. Önnur varð til í Hamborg og þegar ekið var um hið fræga gleði- konuhverfi, þar sem heitir Her- bertstrassi, hafði einn karlanna orð á því, hvort ekki mætti nota Visa-kort ef verslað væri við gleði- konumar. Þá varð þessi til: í Herbertsstæti strunsaði, að stunda sexí-sportið en helvítið þá hunsaði hjá'onum Visa-kortið. „Svona er þetta, aðeins ort fyrir stað og stund.“ Þú sagðir að fjölskylda þín hefði tvístrast þegar foreldrar ykkar skildu, hafðir þú þá lítið saman við Stein Steinarr bróðir þinn að sælda? „Ég kynntist honum afskaplega lítið og ekkert fyrr en ég var orðin fullorðin. Ég hafði lítið sem ekk- ert af mínu fólki að segja eftir að fjölskyldan tvístraðist. Það litla var við móður mína. Nei ég kynntist Steini lítið, en það sem það var, þá líkaði mér hann vel. Ég hef einnig dálæti á honum sem skáldi og hefði gjarnan viljað þekkja hann betur. Ferðaklúbburinn Segðu mér dálítið frá ferða- klúbbnum ykkar hér á Akranesi. „Já, Hann hefur nú verið starf- andi í 21 ár og það hefur verið af- skaplega ánægjulegt að taka þátt í þeim mörgu ferðalögum sem far- in hafa verið á vegum hans. Við höfum ferðast þar ég og vinkonur mínar Bjamfríður Leósdóttir og Herdís Ólafsdóttir. Það hafa verið um og yfir 30 félagar í klúbbnum og við höfum farið í þetta 8 til 11 daga ferðir á sumrin. Ég held að við Herdís höfum farið í allar ferðirnar nema 3. Tilurð klúbbs- ins varð með þeim hætti að við vorum að tala um nauðsyn þess að stofna svona klúbb og þegar Ari Gíslason féllst á að verða farar- stjóri ef ferð yrði farin, þá var slegið til og síðan hefur þetta verið árlegur viðburður. Við höfum svo verið með myndakvöld og kvöld- vökur yfir veturinn. Nú í mörg ár hefur Steinþór Magnússon verið fararstjórinn okkar.“ Mér er sagt að mikið hafi verið ort í þessum ferðum og öllum vís- um safnað? „Það er rétt að mikið hefur ver- ið ort og margt skemmtilegt sagt í þessum ferðum. Við Bjamfríður og Herdís eigum orðið margar bækur með vísum úr ferðalög- unum eftir hina og þessa höfunda. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að taka þátt í þessum ferðalögum.“ Leyndarmálið Nú langar mig til að víkja að- eins að því sem þú varst landsfræg fyrir, lestri Passíusálmanna hér um árið, þú varst fyrsta konan sem last sálmana í útvarpið, hvernig kom þetta til? „Ég sagði það víst þegar ég var spurð þessarar spurningar meðan á lestrinum stóð að sennilega hafi þeir verið búnir að láta alla presta og preláta lesa sálmana og þyrjað svo bara á hinum endanum. Ann- ars hafði ég mest gaman af því að mér tókst að halda þessu algjör- lega leyndu, þar til útsendingar hófust. Ég sagði ekki nokkmm manni hér frá þessu og þær vom svona hálf móðgaðar við mig vinkonur mínar fyrir það. Ég var að skúra á bæjarskrifstofunum á þessum tíma og ég man hvað starfsfólkið þar var undrandi þeg- ar Guðmundur Jónsson fram- kvæmdastjóri útvarpsins hringdi og spurði eftir mér þar, líklega einum tvisvar eða þrisvar sinnum. Það spurði enginn neins og for- vitnin skein úr augunum. Annars hafði ég bara gaman af þessu öllu saman.“ Hvemig vom viðtökurnar? „Alveg sérstaklega góðar. Það var mikið hringt í mig og ég fékk margar kveðjurnar. Fólk virtist einna mest undrandi á því að ég ómenntuð manneskjan gæti þetta. Ég held bara að ég hafi aldrei á ævinni fengið meira hrós og finnst mér þó ég hafa gert margt annað betur um dagana.“ Ertu trúuð kona? „Nei það er ég ekki, ég trúi til að mynda alls ekki á neitt fram- haldslíf. En ég ber virðingu fyrir trú fólks sem trúir af einlægni, en ég gef lítið fyrir það sem hræsnar- ar, sem velja það sem þeim þykir henta best í trúnni, kalla trúar- brögð. En af því að við vorum að tala um passíusálmana áðan, þá met ég þá sem skáldverk, en gef minna fyrir þá sem trúarljóð. Ég var mjög ung þegar ég gerði þessi mál upp við mig. Ég minnist þess að þegar ég var fermd og var látin fara með trúarjátninguna, þá spurði ég hvers vegna? Ég trúi þessu ekki? Þá strax var ég farin að efast. Þarna um árið þegar ég las Passíusálmana sagði ein kona, sem eitthvað virðist hafa óttast um sálarheill mína, þegar hún frétti að ég ætti að lesa sálmana: Það vona ég að þetta verði henni Völlu til góðs.“ Mesta ánægja að kaupa bók Lestu mikið? „Ég gerði það, las allt sem ég komst yfir og var það sem oft er kallað alæta á bækur. Nú í seinni tíð eftir að ég fór að lesa minna hef ég lagt mig eftir því að lesa betri bækur. Og þegar minn fjár- hagur leyfði, þá var það mín mesta ánægja að kaupa mér bækur. Ég hef, eins og ég sagði áðan sérstakt dálæti á ljóðum og hef lesið mikið af þeim og keypt ljóðabækur eins og fjárhagurinn hefur leyft. Eins hef ég keypt mik- ið af hljómplötum með upplestri. Ég hef alla tíð haft yndi af að hlusta á útvarp, meira en að horfa á sjónvarp. Sjónvarpsgláp hefur aldrei heltekið mig, þó mér þyki gaman að horfa á góða þætti í sjónvarpinu. Ef til vill er þetta dálæti mitt á útvarpi síðan fyrsta sinn ég heyrði í því á aðfangadag 1930. Ég var þá í sveit og ég mun aldrei gleyma því hvað mér þótti dásamlegt að hlusta á aftansöng- inn þetta kvöld. Allar götur síðan hef ég dáð útvarpið og mér er til efs að annar eins menningarauki hafi komið hér á land.“ Dálæti á ljóðum sagðir þú, hvert er þitt uppáhalds skáld? „Einar Benediktsson, ég hef alla tíð haldið mest uppá hann. Mér þykir speki hans og hvernig hann setur þetta fram í ljóðum sínum stórkostlegt. Jú, mér líka ljóð Steins bróður míns vel, hann gerði margt vel og hefur verið vandvirkur. Herdís Ólafsdóttir segist hafa kennt mér að meta ljóð Steins, það má vel vera. Annars hef ég yndi af ljóðum svo margra skálda. Meira að segja hef ég lesið margan ágætan texta eftir atóm- skáldin. Ég hef að vísu tregðast við að kalla þetta ljóð, en gjarnan ljóðrænan texta.“ Nú ertu hætt að vinna og þá er fólk oft spurt að því hvort það eigi eitthvert sérstakt tómstundastarf til að fást við, hvernig er með þig? „Ég lofaði sjálfri mér því að hætta að vinna þegar ég yrði sjöt- ug og ég stóð við það. Ég er búin að vinna frá blautu barnsbeini og því engin sérstök ástæða til að vera að þræla þetta lengur. Áhugamál á ég engin sérstök, það er svo margt sem ég hef gaman af. En ég hef sagt það að ég hef aldrei haft eins mikið að gera og síðan ég hætti að vinna utan heimilis. - S.dór.

x

Bæjarblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1353

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.