Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 06.01.2016, Blaðsíða 9

Fréttir - Eyjafréttir - 06.01.2016, Blaðsíða 9
9Eyjafréttir / Miðvikudagur 6. janúar 2016 Þessi annáll ársins 2015 er að mestu leyti unninn út frá umfjöllun Eyjafrétta á árinu um það sem hæst bar í Vestmanna- eyjum á árinu sem nú er að kveðja. Reynt hefur verið að velja úr það sem fréttnæmast hefur verið og skemmtilegt. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi úttekt að ræða og eflaust finnst einhverjum sem því hafi verið sleppt sem hefði átt erindi hér. Við því er ekkert að gera, svona kom annálaritara þetta fyrir sjónir. JAnúAR Metþátttaka Alger metþátttaka var í Gamlárs- hlaupinu sem hefur verið fastur liður í nokkur ár. Alls tóku 130 manns þátt í því að þessu sinni en allur ágóði af hlaupinu rennur til styrktar Eyjarós, Krabbavörn í Eyjum og nam upphæðin að þessu sinni tæplega einni og hálfri milljón króna. Sjöfn og Gísli Eyjamenn ársins Hinir árlegu Fréttapýramídar voru afhentir í byrjun janúar. Eyjamenn ársins 2014 voru hjónin Sjöfn Kolbrún Benónýsdóttir og Gísli Matthías Sigmarsson en þau eiga sjö börn sem öll hafa haslað sér völl í atvinnulífinu. Sönghópurinn Blítt og létt hlaut pýramída fyrir framlag til menningarmála, Arnar Pétursson fyrir framlag til íþróttamála og hjónin Adda Sigurðardóttir og Magnús Bragason, eigendur Hótels Vestmannaeyja, hlutu pýramída fyrir fyrirtæki ársins. Þá var bryddað upp á þeirri nýjung að veita viðurkenningu fyrir góða umfjöllun um landsbyggðina og hlaut hana Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2. Sérstakar viðurkenningar hlutu einnig þau Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir, sem gaf út sína fyrstu bók á árinu 2014, Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV í handbolta, en ÍBV-liðið hampaði Íslandsmeistaratitli 2014 undir hans stjórn og svo fulltrúar þeirra sem halda uppi samgöngum við Eyjar, þeir Gunnlaugur Grettisson hjá Herjólfi og Hannes Kristinn Sigurðsson hjá Flugfélaginu Erni. Hressó 20 ára Þann 6. janúar fagnaði líkams- ræktarstöðin Hressó 20 ára afmæli sínu. Á þeim tímamótum var tilkynnt að stöðin hefði gert tilboð í reksturinn á líkamsræktarsal Íþróttamiðstöðvarinnar. Því tilboði var síðan tekið og þær systur, Anna Dóra og Jóhanna Jóhannsdætur sem eiga Hressó, gerðu gangskör í því að endurnýja tæki og tól í þeim sal. Valin úr hópi 600 umsækjenda Söngkonan unga og efnilega, Silja Elsabet Brynjarsdóttir, hafði ástæðu til að fagna þegar henni var tilkynnt að hún hefði fengið inngöngu í hinn virta tónlistarháskóla, Royal Academy of Music í London. Alls voru umsækjendur um námið 600 talsins og Silja Elsabet var í hópi þeirra sex sem komust inn. Nýr sparisjóðsstjóri Í lok ársins 2014 var ráðinn nýr sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Vestmannaeyja, Hafsteinn Gunnars- son, sem átti átta ár að baki hjá stofnuninni. Í viðtali við Eyjafréttir sagði hann að sér litist vel á nýja starfið og taldi sparisjóðina eiga framtíð fyrir sér. Ekki reyndist hann þó sannspár þar, nokkrum mán- uðum síðar yfirtók Landsbankinn rekstur Sparisjóðsins. Þrettándagleði í blíðuveðri Þrettándagleðin var haldin helgina 9. til 11. janúar en síðustu ár hefur sá háttur verið hafður á að halda gleðina um helgi í stað þess að binda sig við sjálfan þrettándann, 6. janúar. Hefur þessi breyting mælst vel fyrir ekki síst hjá brottfluttum Eyjamönnum sem jafnan fjölmenna hingað til að taka þátt í þessari fjölskylduskemmtun. Að þessu sinni var veður eins og best verður á kosið og þótti gleðin heppnast vel. Of mikið af glundri Reyndar sögðu lögreglumenn að helgin hefði verið nokkuð annasöm hjá þeim og bæði skemmdarverk og innbrot hefðu verið meðal verkefna sem komu inn á þeirra borð. Þá kom einnig fram að eitt af tröll- unum í þrettándagleðinni hefði þurft aðstoð lögreglu þar sem það hafði innbyrt of mikið af því sem lögreglan kallaði „Grýluglundur“. Þórhildur tekin við Nýr rekstrarstjóri tók við hjá Húsasmiðjunni í Vestmannaeyjum. Ríkharður Hrafnkelsson, sem gegnt hafði því starfi um nokkurra ára skeið, flutti á heimaslóðir sínar í Stykkishólmi og við starfinu tók Þórhildur Ragna Karlsdóttir sem hefur unnið hjá Húsasmiðjunni í Eyjum frá árinu 2009. Emma og Kristján áttu Jólahúsið Lionsklúbbur Vestmannaeyja, ásamt fulltrúum HS-veitna standa á hverju ári fyrir því að velja svokallað „Jólahús“ sem er það hús sem best þykir skreytt í anda hátíðarinnar. Að þessu sinni var það hús þeirra Emmu Pálsdóttur og Kristjáns Óskarssonar við Illugagötu. Gott gengi í olíuleit Sextán nemendur úr Framhalds- skólanum í Vestmannaeyjum tóku þátt í keppninni Oilsim, sem byggist upp á aðferðum til olíuleitar og komust fjórir þeirra áfram í framhaldskeppnina í Englandi. Það voru þeir Elliði Ívarsson, Ólafur Freyr Ólafsson, Valur Marvin Pálsson og Þórður Örn Stefánsson og nefndu þeir lið sitt Exxon Valdez. Ekki gekk þeim síður í framhaldinu á erlendri grund þar sem þeir skákuðu keppendum frá þekktum olíuvinnslulöndum og enduðu í öðru sæti, á eftir olíuris- unum frá Noregi. Drullusokkar gáfu 20 stóla Vélhjólaklúbburinn Drullusokkar í Vestmannaeyjum gerir ýmislegt annað en þeysast um á vélfákum. Í janúar komu þeir færandi hendi upp á spítala og gáfu stofnuninni tuttugu stóla. „Við viljum láta gott af okkur leiða,“ sagði forsvarsmaður þeirra, Jens Karl Jóhannesson við það tilefni. Endurbætur á kirkjunni Miklar endurbætur voru gerðar á Landakirkju. Aðalbreytingin var sú að hvelfing kirkjunnar, sem áður var heiðblá, var nú máluð hvít og stjörnurnar í henni blaðgylltar. Séra Kristján Björnsson sagði að næstu áfangar yrðu svo að skipta um gólfefni og vinna upp ytra byrði útveggjanna. Ekki væri þó ljóst hvenær farið yrði í þær fram- kvæmdir sem eru kostnaðarsamar. Ríkið á nýjan stað Um miðjan janúar flutti Vínbúðin sig um set, frá Strandveginum, þar sem hún hafði verið um áratuga- skeið, yfir á Vesturveg 10, Reyni- stað. Nýja búðin er mun rúmbetri en sú gamla, opnari og bjartari og vöruúrvalið hið sama og áður eða um 400 sortir af mismunandi eðalveigum. Grétar Þór Íþróttamaður Vestmannaeyja Það var mikið um dýrðir á viður- kenningahátíð ÍBV og Vestmanna- eyjabæjar þegar veittar voru viðurkenningar fyrir unnin íþróttaaf- rek liðins árs. Alls voru valdir þrettán íþróttamenn úr hinum ýmsu greinum íþrótta en Íþróttamaður Vestmannaeyja árið 2014 var valinn Grétar Þór Eyþórsson, handbolta- maður. Sabrína Lind Adólfsdóttir og Dagur Arnarsson hlutu viðurkenn- ingunna Íþróttamenn æskunnar. Norðlendingafélagið 60 ára Tími þorrablóta rann upp og hin ýmsu félagasamtök kepptust við að efna til fagnaða með súrmeti, hákarli og ámóta kræsingum. Að vanda var Norðlendingafélagið með fyrsta þorrablótið en um leið fagnaði félagið 60 ára afmæli sínu. Líknarkonur söfnuðu 26 milljónum Gengið var frá kaupum á nýju tölvusneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Þau kaup eru að miklu leyti fjármögnuð af Kvenfé- laginu Líkn sem með mikilli þrautseigju hefur safnað 26 milljónum króna til kaupa á tækinu. Margir hafa lagt þeim Líknarkonum lið í þeirri söfnun, m.a. komu fulltrúar frá Skipstjóra- og stýri- mannafélaginu Verðandi færandi hendi í janúar og lögðu tvær milljónir í söfnunina. Fjölmennir Eyjatónleikar Hjónin Guðrún Mary Ólafsdóttir og Bjarni Ólafur Guðmundsson buðu í fjórða sinn til Eyjatónleika í tónlistarhúsinu Hörpu þann 23. janúar til að minnast upphafs eldgossins 1973. Þessir tónleikar báru yfirskriftina Lífið er yndislegt, eftir hinu þekkta þjóðhátíðarlagi Hreims Heimissonar frá 2001. Þarna mættu á svið öll helstu stórstirni þjóðarinnar á tónlistar- sviðinu og þáttur músíkanta frá Eyjum ekki hvað minnstur. Gestir, sem flestir eiga ættir sínar að rekja til Eyja, troðfylltu salinn og höfðu á orði að þetta væri orðið árlegt ættar- mót sem þeir vildu ekki missa af. Leiðtogaþjálfun skáta í Eyjum Skátahreyfingin á Íslandi var með svonefnt Gilwell leiðtoganámskeið í Eyjum í janúar. Fimmtán tóku þátt í því þar af fjórir skátar frá Eyjum. Ólafur Proppé, skátahöfðingi, sem stýrði þessari þjálfun, var einkar ánægður með aðstöðuna í Vest- mannaeyjum og frábærar móttökur. Matur og drykkur Alltaf er ánægjulegt að fylgjast með því þegar Eyjamenn hasla sér nýjan völl, hvort sem er í Vestmanna- eyjum eða annars staðar. Gísli Matthías Auðunsson, einn eigenda veitingastaðarins Slippsins í Vestmannaeyjum, ákvað að opna nýjan stað í Reykjavík. Fékk hann nafnið Matur og drykkur og er í sögufrægu húsi vestur á Granda, gamla Alliance húsinu þar sem einnig er til húsa Sögusafn Reykjavíkur. Nafn staðarins er sótt í helstu matarbiblíu Íslendinga, samnefnda bók Helgu Sigurðar- dóttur og kom út árið 1947. FEBRúAR Kvóti Eyjaflotans 130 þúsund tonn Loðnuveiðar gengu misjafnlega í byrjun. Hegðun loðnunnar var með nokkuð öðru móti en undanfarin ár, í janúar veiddist hún eingöngu fyrir norðan land en þegar á leið fór að veiðast á hefðbundnari miðum. Af þeim 580 þúsund tonnum sem leyfilegt var að veiða á þessari vertíð, var hlutur Eyjaflotans um 130 þúsund tonn. Þar var Ísfélagið langstærst með 80 þúsund tonn, Vinnslustöðin með 40 þúsund og Huginn með um 9 þúsund tonn. Þegar rætt var við skipstjóra og útgerðarmenn loðnuskipa í upphafi febrúar, voru flestir sammála um að það stefndi í góða vertíð. Byggt fyrir Bónus Aðalbreytingar samkvæmt nýju deiliskipulagi, sem samþykkt var hjá Vestmannaeyjabæ, voru þær að gert var ráð fyrir rúmlega þrjú- þúsund fermetra verslunarlóð við Miðstræti, þar sem Bónus hyggst opna verslun. Þá var og gert ráð fyrir því að opna fyrir bílaumferð og framlengja Skólaveg frá Vesturvegi að Strandvegi, með einstefnu til suðurs. Framkvæmdir hófust við hvort tveggja þegar á leið árið og voru framkvæmdir við verslunarhúsnæðið í höndum Steina og Olla, byggingaverktaka. Guðbjörg hlaut viðurkenningu FKA Félag kvenna í atvinnulífinu veitir árlega viðurkenningar til þeirra kvenna sem þykja hafa skarað fram úr á þeim vettvangi. Að þessu sinni kom FKA-viðurkenningin í hlut Guðbjargar M. Matthíasdóttur, aðal- eiganda og stjórnarmanns í Ísfélagi Vestmannaeyja. Starfsorka lögð niður Ákveðið var að leggja niður starfsemi Starfsorku, starfsendur- hæfingar Vestmannaeyja, og starfsmönnunum tveimur sagt upp, þeim Hrefnu Óskarsdóttur og Fríðu Hrönn Halldórsdóttur. Þetta var ákveðið í kjölfar þess að VIRK- starfsendurhæfingarsjóður gaf út að hann hygðist ekki endurnýja rekstrarsamning við Starfsorku. Stjörnukvöld Stjörnukonur, undir stjórn Soffíu Valdimarsdóttur, brydduðu upp á nýmæli í fyrra, héldu Stjörnukvöld í Akóges til styrktar góðum málum. Nú endurtóku þær leikinn og söfnuðu dágóðri upphæð sem ákveðið var að nýta til kaupa á spjaldtölvum fyrir Grunnskólann. Leoncie í skýjunum Og fleira var í dagskrá í skemmt- analífinu. Sú landsþekkta söngkona, Annáll ársins 2015 – fyrri hluti SiGurGEir jÓnSSon sigurge@internet.is Þessi hlutu viðurkenningar Eyjafrétta fyrir árið 2014.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.