Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 06.01.2016, Blaðsíða 11

Fréttir - Eyjafréttir - 06.01.2016, Blaðsíða 11
11Eyjafréttir / Miðvikudagur 6. janúar 2016 Hjaltalín, formaður Drífanda, sagði launafólk búið að fá nóg af eilífum gráti um að ekki væri hægt að borga laun sem nægðu fyrir grunnfram- færslu. Lág laun, langur vinnutími og vaxandi misskipting yrði ekki lengur liðin. Atkvæðagreiðsla fór fram um að boða vinnustöðvun fljótlega eftir páska. Var hún samþykkt en ekki varð þó af henni þar sem samningar náðust milli atvinnuveitenda og SGS. Styrmir yfirmaður sjúkraflutninga HSU Styrmir Sigurðsson, sjúkraflutn- ingamaður í Vestmannaeyjum, var ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hann var valinn úr hópi átta umsækjenda og sagðist ákveðinn í að búa áfram í Vestmannaeyjum. Aftur á móti reiknaði hann með mikilli viðveru á Selfossi. FÍT verðlaunaði Eldheima Félag íslenskra teiknara afhenti árlegar viðurkenningar sínar fyrir grafíska hönnun sem þótti standa upp úr á árinu 2014. Í flokknum „gagnvirk miðlun og upplýsinga- hönnun“ hlaut hönnunarstofan Gagarín verðlaun fyrir hönnun sína í Eldheimum. Þar útbjó stofan fjóra gagnvirka sýningarmuni sem útskýra mismunandi þætti eldgoss- ins á Heimaey 1973. Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eldheima, sagði þetta afar góða viðurkenningu fyrir Eldheima og sýndi það og sannaði að vandað hefði verið til verka við hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Konur í öndvegi Þess var minnst á árinu að hundrað ár voru liðin síðan íslenskar konur öðluðust kosningarétt. Segja má að allt árið hafi verið samfelld sýning í Safnahúsinu til að minnast þessa; konur og verk þeirra í öndvegi. Í ársbyrjun reið Listasafnið á vaðið með sýningaröðinni Konur í listum, skipulögðum sýningum fyrstu níu mánuði ársins. Í mars voru síðan þrjár uppákomur í Safnahúsi; þann 19. mars var Saga og súpa í Sagnheimum þar sem Guðbjörg Matthíasdóttir, athafnakona, flutti erindi um konur í atvinnulífi. Sama dag opnaði Ásdís Loftsdóttir, hönnuður, sýningu sína, Náttúran á efni. Laugardaginn 21. mars var síðan á dagskrá samstarfsverkefni Sagnheima, Safnahúss og Fram- haldsskólans í Vestmannaeyjum; Konur og bókmenntir í 100 ár. Þar var kynnt verkefni sem nemendur í íslensku við Framhaldsskólann höfðu unnið um íslenskar konur og bókmenntir. Nýtt fyrirtæki á gömlum merg Hreinlæti virðist ganga í erfðir. Um áratugaskeið hafa hjónin Marta Karlsdóttir og Helgi Sigurlásson frá Reynistað rekið hreingerningaþjón- ustu undir nafninu Teppahreinsun Helga Sigurláss. Nú urðu kynslóða- skipti því að sonur þeirra, Huginn Helgason, keypti fyrirtækið sem um leið fékk nýtt nafn, Hugþrif. Huginn sagði að foreldrarnir yrðu sér til aðstoðar og myndu leysa sig af þegar hann færi í frí. Birgir Þór sigraði Í hinni árlegu nemakeppni sem fyrirtækið Kornax stendur fyrir í samvinnu við bakarameistara og Hótel- og matvælaskólann, kepptu sjö bakaranemar frá jafnmörgum bakaríum. Verkefnið var að útbúa sem glæsilegast hlaðborð úr brauðmeti og skrautstykkjum. Þar sigraði Eyjamaðurinn Birgir Þór Sigurjónsson, sem hóf bakaraferil- inn í Eyjum hjá Vilberg og síðan Arnóri bakara en starfar nú hjá bakaríinu Passion í Reykjavík. 22 milljónir á 12 árum Í lok mars flutti Endurvinnslan í húsnæði Kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar og ráðamenn þar tóku við rekstri hennar. Þar með hætti Friðrik Már Sigurðsson störfum í Endurvinnslunni en þar hafði hann staðið vaktina í tólf ár. Hann sagði að flæðið hefði verið nokkuð jafnt milli ára, yfirleitt hefði hann tekið á móti u.þ.b. tveimur milljónum af dósum og flöskum á ári, eða 22 milljónum í heildina. Thelma Hrund formaður Eyverja Nýr formaður var kosinn hjá Eyverjum, félagi ungra sjálfstæðis- manna í Eyjum. Theódóra Ágústs- dóttir lét af störfum og við tók Thelma Hrund Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Ísfélagi Vest- mannaeyja. Hún sagðist spennt að taka við formennskunni í Eyverjum. Infrarauður saunaklefi Verslunin Active, sem verið hafði að Strandvegi 45, flutti á Vest- mannabrautina. Active, sem er í eigu þeirra Karenar Ingu Ólafs- dóttur og Sæþórs Orra Guðjóns- sonar, sérhæfir sig í heilsuvörum og nú var boðið upp á nýjung, infrarauðan saunaklefa sem Karen sagði að nyti gífurlegra vinsælda. Fjölmenni fylgdist með sólmyrkva Þann 27. mars bauðst landsmönnum að líta augum fágætt sjónarspil, almyrkva á sólu. Fólk flykktist út til að fylgjast með þessu náttúrufyrir- bæri og flestir Vestmannaeyingar söfnuðust saman austur á Haugum þar sem Stjörnufræðifélag Vest- mannaeyja hafði komið upp litlum kíki. Þetta var mesti sólmyrkvi hér á landi frá árinu 1954 og ekki er von á þeim næsta fyrr en 12. ágúst 2026. Sögu Sparisjóðsins lokið Í lok marsmánaðar lauk endanlega rúmlega 70 ára sögu Sparisjóðs Vestmannaeyja en hann var stofnaður 3. desember 1942. Þann 19. mars fékk stjórn sjóðsins vitneskju um mikið útlánatap. Var leitað allra leiða til að auka fé sjóðsins um 1200 milljónir króna sem var skilyrt af hálfu Fjármála- eftirlitsins, ella myndi FME grípa til aðgerða og skipa skilanefnd yfir sjóðinn. Ekki tókst að afla þess fjár og niðurstaðan varð sú að ákveðið var síðustu helgina í mars að Landsbanki Íslands yfirtæki rekstur Sparisjóðs Vestmannaeyja. Þetta kom nokkuð flatt upp á marga enda aðdragandinn ekki langur. Sér- staklega voru þeir aðilar ósáttir, sem lögðu sjóðnum lið við endurreisn hans árið 2010 með nýju stofnfé. Stærstu aðilar í þeirri endurreisn voru Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabær og Vinnslu- stöðin. Voru þeir m.a. ósáttir við að hafa ekki fengið að koma að ferlinu á sömu forsendum og Landsbank- inn. Mía Rán sigraði Stóra upplestrarkeppnin er árlegur viðburður þar sem nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla landsins keppa. Að þessu sinni var keppnin haldin á Laugalandi og sendi Grunnskólinn í Vestmannaeyjum þrjá keppendur til leiks. Það var svo einn þeirra, Mía Rán Guðmunds- dóttir, sem stóð uppi sem sigur- vegari. Sandeyjahafnarblús Landeyjahöfn hafði verið lokuð síðan í nóvember á síðasta ári og engin teikn um að hún yrði opnuð á næstunni. Ástand hafnarinnar hafði orðið mörgum að umræðuefni bæði á síðum Eyjafrétta sem og á öðrum vettvangi. Eyjamaðurinn Kristinn R. Ólafsson tjáði hugsanir sínar í bundnu máli á þennan hátt: Þeir reyndu að leggja frá landi en lögðu strax árar í bát, því höfnin var haugfull af sandi og Herjólfur aldeilis mát. Bravó! Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi í lok mars leikverkið Litlu hryll- ingsbúðina í leikstjórn Stefáns Benedikts Vilhelmssonar. Stærstur hluti leikenda er ungt fólk úr LV og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Leikhúsgagnrýnandi Eyjafrétta, Helena Pálsdóttir, var gagntekin hrifningu og notaði orðið „Bravó“ alls níu sinnum í umfjöllun sinni. Nýr formaður fulltrúaráðs Íris Róbertsdóttir var kosin nýr formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðis- félaganna í Vestmannaeyjum í lok mars. Íris sagði það bæði gaman og gefandi að starfa í pólitík og sagði stefnuna þá að búa til betri vettvang fyrir hinn almenna flokksmann. Uppistandaradúóið Jói og Steini Íþróttahreyfingin stendur á hverju ári fyrir alls kyns uppákomum sem ekki tengjast íþróttaiðkun beinlínis. Fastur liður er t.d. Herrakvöld handboltans hjá ÍBV sem bæði er hugsað sem fjáröflunarleið og svo skemmtun. Að þessu sinni, eins og ævinlega, var fullt hús í Akóges þar sem tveir af frægustu uppistönd- urum Íslands, þeir Þorsteinn Guðmundsson leikari og Jóhann Pétursson lögmaður fóru á kostum. Valdimar mætti til leiks Aðstandendur Háaloftsins voru duglegir við að fá hingað þekkta tónlistarmenn. Að þessu sinni var það hljómsveitin Valdimar sem hélt tónleika en söngvari sveitarinnar, Valdimar Guðmundsson, var valinn sögnvari ársins á Íslensku tónlistar- verðlaununum 2014. Salurinn var þétt setinn eins og búast mátti við þegar stórstirni sækja okkur heim. APRíl Arion banki í Eyjum 1. apríl Í fyrsta tölublaði Eyjafrétta í aprílmánuði fór stór hluti af rými blaðsins í umfjöllun um yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Vestmannaeyja. Mörgum kom það því spánskt fyrir sjónir að á baksíðu blaðsins var frétt þar sem sagði að Arion banki væri að leita að húsnæði í Vestmannaeyjum, ásamt samsvarandi auglýsingu inni í blaðinu. Þar kom fram að forsvars- menn bankans væru óánægðir með að litið skyldi hafa verið framhjá þeim við þessa yfirtöku en þetta væru aðeins þreifingar eins og væri. Fram kom að starfsmaður eignaum- sýslu bankans yrði til viðtals á skrifstofu Eyjafrétta til upplýsinga vegna væntanlegs húsnæðis. Ekki munu þó margir hafa komið til viðtals, þar sem flestir ráku augun í að útgáfudagur þessa tölublaðs var 1. apríl. Góð loðnuvertíð Erfiðri en góðri loðnuvertíð lauk um mánaðamótin mars apríl.. Frysting gekk vel sem og hrogna- taka síðustu daga vertíðarinnar og tókst Eyjaskipunum því sem næst að veiða þann kvóta sem þeim var úthlutað, þrátt fyrir eitthvert versta veðurfar sem menn mundu eftir á loðnuvertíð. Samanlagður afli þeirra á vertíðinni var 108.902 tonn eða þrefalt meiri en vertíðina 2013 þegar hann var rúm 35 þúsund tonn. Aflahæsta skipið var Heimaey VE með rúmlega 25 þúsund tonna afla. Of stór biti fyrir okkur Það var erfiður túr hjá áhöfn Lóðsins þegar þeir drógu flutninga- skipið Hauk frá Hornafirði til Vestmannaeyja eftir að stýri skipsins hafði bilað. Fyrst í stað var ágætis veður en síðan brældi og dráttartaugin slitnaði. Mátti litlu muna að skipið ræki á land en aftur tókst að koma taug um borð og eftir það þokaðist hægt til Eyja. Upphaflega átti Lóðsinn að draga Hauk til Hafnarfjarðar en vegna veðurs og ölduhæðar varð að ráði að varðskipið Þór tæki við þegar komið var að Eyjum. „Þetta var bara of stór biti fyrir okkur á Lóðsinum við þessi skilyrði,“ sagði Sveinn Valgeirsson, skipstjóri á Lóðsinum. Þorsteinn nýr formaður Jötuns Valmundur Valmundsson lét af formennsku í Sjómannafélaginu Jötni þegar hann var kosinn forseti Sjómannasambands Íslands. Á aðal- fundi Jötuns í byrjun apríl var í stað hans kosinn formaður Þorsteinn Ingi Guðmundsson, sem lengi var varaformaður félagsins. Þorsteinn, sem var búsettur í Hafnarfirði, flutti búferlum til Vestmannaeyja þegar hann tók við formennskunni. Eitt aðalmálið á þessum aðalfundi var krafa um að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Vosbúð á Flötum Nytjamarkaðurinn Vosbúð, sem um nokkurra ára skeið hafði verið í samnefndu húsi við Strandveg, flutti starfsemi sína á Flatirnar þar sem Múrbúðin var áður til húsa og Geisli þar áður. Helga Dís Gísla- dóttir sagði að markaðurinn myndi áfram heita Vosbúð og sagðist bjartsýn á framtíðina. Nám á sviði nýsköpunar Fundur númer 3000 í bæjarráði Vestmannaeyja var hátíðlegur haldinn í Eldheimum þann 15. apríl. Á þeim fundi var undirrituð samstarfsyfirlýsing við þekkingar- Fyrsta barnið, sem fæddist í Eyjum á árinu, kom í heiminn 23. mars. Ferðamálasamtök Vestmannaeyja efndu til ljósmyndakeppni og bárust alls 350 myndir. Sigurmyndina átti Gunnar Ingi Gíslason.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.