Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 13.01.2016, Blaðsíða 9

Fréttir - Eyjafréttir - 13.01.2016, Blaðsíða 9
9Eyjafréttir / Miðvikudagur 13. janúar 2016 spöðum. Þeir tíu, sem komust í úrslit, léku síðasta hluta mótsins á svæðinu kringum sviðið í Herjólfs- dal. Heimsmeistari að þessu sinni varð Eyjamaðurinn Stefán Bragason og er þetta í fjórða sinn sem Vestmannaeyingar hampa heims- meistaratitli í þessari íþrótt. Aukinn þorskkvóti Fiskistofa gaf út hverjar aflaheim- ildir yrðu á nýju kvótaári. Sam- kvæmt þeim niðurstöðum var þorskkvótinn aukinn verulega og glöddust útvegsbændur í Vest- mannaeyjum, sem og annars staðar á landinu, yfir þeim fréttum. Þingað um skatta, áfengi og fíkniefni SUS, Samband ungra sjálfstæðis- manna, hélt sambandsþing sitt í Vestmannaeyjum. Að sögn formanns Eyverja í Vestmanna- eyjum voru margar athyglisverðar tillögur samþykktar á þinginu, m.a. um skattamál, áfengismál og fíkniefnamál. Minna af dóti, meira af atlæti Elsti Vestmannaeyingurinn, Kristjana Sigurðardóttir, íbúi að Hraunbúðum, fagnaði hundrað ára afmæli sínu þann 5. september í faðmi vina og ættingja. Hún var skorinorð í tali um uppeldi barna nú til dags; taldi þau fá of mikið af veraldlegu dóti en minna af því atlæti sem þau ættu skilið. Tekið til á Klifinu Mikil tiltekt átti sér stað uppi á Klifi þar sem öll helstu fjarskiptafyrir- tækin hafa verið með sinn búnað. Jón Sighvatsson, sem um árabil hefur haft umsjón með þeim tækjum, sagði að búið væri að skipta út bæði tækja- og sjónvarps- búnaði, gömlu tækin væru farin og ný komin í staðinn. Tangafólk hittist á Tanganum Hópur fyrrverandi starfsfólks á Tanganum gamla, versluninni sem um árabil var rekin þar sem Krónan stendur í dag, ákvað að hittast og gera sér glaðan dag. Það voru þau Sigmar Georgsson, fyrrum verslunarstjóri á Tanganum og Þórunn Gísladóttir, sem vann á skrifstofunni, sem skipulögðu þennan hitting. Að sjálfsögðu fór sá gleðskapur fram á veitingastaðnum Tanganum við Básaskersbryggju. Skæringarnir með ættarmót Og fleiri vinamót fóru fram í september. Afkomendur tvíbura- bræðranna Baldvins og Georgs Skæringssona hittust í Vestmanna- eyjum og minntust þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu þeirra. Fjöldi afkomenda þeirra er orðinn 126 og fjöldi þeirra býr í Vestmannaeyjum. Margir þekktustu hlauparar landsins Hið árlega Vestmannaeyjahlaup fór fram í september og var aðsókn heldur meiri en í fyrra, þar á meðal margir af þekktustu hlaupurum landsins. Veður hefði reyndar mátt vera betra en engu að síður luku allir hlaupinu sem hófu það og voru aðstandendur þess mjög ánægðir með hvernig tiltókst í þessu skemmtilegasta útihlaupi á Íslandi. Nýir læknar væntanlegir Málefni heilsugæslunnar í Vest- mannaeyjum voru mikið til umræðu á árinu. Fannst mörgum hafa orðið afturför, til að mynda fækkun heimilislækna sem og fáar fæðingar í Eyjum. Hjörtur Kristjánsson, læknir og framkvæmdastjóri lækninga við HSU, taldi að mál hefðu þokast til hins betra eftir sam- eininguna við HSU og nú væri von á fleiri læknum til starfa, m.a. svæfingalæknum þannig að unnt væri að bjóða upp á skurðaðgerðir eins og var. Þá yrðu tveir nýir læknar fastráðnir á heilsugæsluna í byrjun næsta árs. Belgar mættir í sanddælingu Nýtt sanddæluskip, Taccola frá Belgíu, var fengið til að dæla sandi í og við Landeyjahöfn en eigendur þess voru með lægsta tilboðið í sanddælinguna. Björgun hf., sem séð hefur um dælingu undanfarin ár, skilaði ekki inn tilboði en skip félagsins munu þó enn verða til staðar þar sem félagið er með samning við Vegagerðina um dælingu og rennur hann út í lok febrúar næsta árs. Hindraði lögreglu við að sinna veikum manni Lögregla fær oft misskemmtileg mál til viðureignar. Mánudags- morgun einn var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna veikinda í heima- húsi. Þegar lögreglumenn mættu á staðinn, vildi maður sem þar var gestkomandi hindra þá í að aðstoða sjúklinginn. Enduðu þau viðskipti með því að sá veiki var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en hinn í fangageymslu lögreglu og sagði ekkert í skýrslu lögreglu um aðhlynningu þar. Nýir eigendur að Joy Eigendaskipti urðu á veitingastaðn- um Joy í Baldurshaga. Þau Ingi Sigurðsson og Fjóla Jónsdóttir, sem opnuðu staðinn fyrir ári, seldu þeim Ernu Dögg Sigurjónsdóttur og Herði Orra Grettissyni reksturinn. Nýju eigendurnir sögðust hafa það að markmiði að Joy yrði áfram sá notalegi staður sem hann hefði verið. Snyrtimennska verðlaunuð Umhverfis- og skipulagsráð og Rótarýklúbbur Vestmannaeyja veittu hinar árlegu viðurkenningar sínar. Snyrtilegasti garðurinn þótti vera að Vestmannabraut 55, snyrtilegasta húseignin að Búhamri 84, snyrtilegasta fyrirtækið Tanginn og snyrtilegasta gatan Gerðisbraut. Þá fékk eigandi hússins að Vesturvegi 4 viðurkenningu fyrir vel heppnaðar endurbætur. Kiwanis með umdæmisþing í Eyjum Kiwanismenn á Íslandi héldu umdæmisþing sitt í Vestmanna- eyjum að þessu sinni og sátu um 250 manns þingið. Voru fulltrúar ofan af landi hinir ánægðustu með aðbúnað og móttökur í Eyjum. Eyjamaðurinn Tómas Sveinsson var á þessu þingi kosinn svæðisstjóri. Við nám í handritsgerð Eyjakonan Sigurlaug Birna Leudóttir hefur undanfarin ár verið við nám, bæði hérlendis og erlendis, aðallega í Kanada, í kvikmyndagerð með áherslu á handritsgerð og lokaáfanginn í því námi var gerð stuttmyndar. Hún sagði að fram til þessa hefði þetta verið bransi hvítra karlmanna og það þyrfti að rétta hlut kvenna. Lið Erlings heimsmeistarar Erlingur Richardsson, handbolta- maður og þjálfari frá Vestmanna- eyjum, sem síðustu ár hafði þjálfað í Austurríki, söðlaði um og tók við þýska liðinu Füchse Berlín af Degi Sigurðarsyni. Liðið, undir hans stjórn, tók þátt í HM félagsliða í Katar en þar keppa sigurvegarar bikarkeppna. Þar stóðu Erlingur og hans menn uppi sem sigurvegarar og þar með heimsmeistarar. Eigið fé tæpir 17 milljarðar Ársreikningar Ísfélags Vestmanna- eyja fyrir árið 2014 voru birtir og þar kom fram að laun og launatengd gjöld félagsins námu rúmum 3,3 milljörðum króna. Bókfært eigið fé nam tæpum 17 milljörðum og eiginfjárhlutfall félagsins var 48,1%. Ekki útilokað að taka við flóttamönnum Málefni flóttafólks frá Sýrlandi voru ofarlega á baugi í umræðu haustsins. Fram kom að þrjú bæjarfélög á landinu höfðu lýst sig reiðubúin til að taka á móti flóttamönnum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum sagði ekki útilokað að Vestmannaeyjabær myndi taka á móti flóttafólki ef eftir því yrði leitað. Eyjamenn hefðu þó ekki reynslu af slíku og því gæti aðstoð okkar orðið með öðrum hætti, svo sem fjárframlagi eða vinnuframlagi. Andvíg skerðingu Í fjárhagsáætlun Vestmannaeyja- bæjar var verulega skorið niður til Félagsmiðstöðvarinnar Rauðagerð- is. Fram kom í viðtali við forstöðu- mann Rauðagerðis að 30 til 50 krakkar nýta sér aðstöðuna þar á hverju kvöldi sem opið er. Leist starfsfólkinu ekki vel á ef til stæði að skerða þá þjónustu meira en orðið var og tóku krakkarnir undir þau orð. Lundaballið í sögubækurnar Loks var haldið Lundaball eftir að það hafði fallið niður árið 2014. Að þessu sinni var það einvalalið Helliseyinga sem sá um fram- kvæmdina og óhætt að segja að vel hafi tekist til. Gestir voru um 400 talsins og mál manna að þetta lundaball færi í sögubækurnar, svo vel þótti það heppnast. Á slóðum mormóna Mormónar frá Utah í Bandaríkj- unum hafa hin síðari ár verið einkar iðnir við að heimsækja Vestmanna- eyjar enda eiga margir þeirra rætur sínar hér. En nú var komið að því að endurgjalda þær heimsóknir og þrír Eyjamenn, sem allir tengjast rekstri bæjarins nokkuð, héldu á vit frænda vorra vestra. Það voru þeir Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Kári Bjarnason, fostöðumaður Safnahúss og Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs. Þeir létu vel af förinni og öllum móttökum þar sem þeim var tekið með kostum og kynjum og leystir út með gjöfum. Gísli Matthías „framúrskarandi“ Enn bætti Gísli Matthías Auðuns- son, veitingamaður í Eyjum og Reykjavík, fjöðrum í hatt sinn. Við athöfn í Háskólanum í Reykjavík var hann í hópi þeirra sem hlutu viðurkenninguna „Framúrskarandi ungir Íslendingar“ en JCI afhendir þær árlega. OkTóBER Fékk 11 þúsund volta straum gegnum sig Hann var heppinn að ekki fór verr, hann Þórarinn Ólason, starfsmaður HS-veitna, þegar hann fékk 11 þúsund volta straum gegnum sig við vinnu sína á HS-veitum. Fór straumurinn gegnum hægri hönd og út um vinstra hné. Brenndist hann nokkuð og var fluttur á heilbrigðis- stofnunina. Þar kom í ljós að meiðslin voru ekki jafnalvarleg og í fyrstu var óttast. Íslenska gámafélagið hætt Íslenska gámafélagið sem verið hafði starfandi í Eyjum frá 2006, tilkynnti að það hygðist flytja reksturinn upp á fastalandið. Ekki var þó öll þjónusta félagsins fyrir bí með því, þar sem HS Vélaverk, fyrirtæki þeirra Hermanns Sigur- geirssonar og Hafþórs Snorrasonar tók yfir þann hluta rekstrarins sem snýr að jarðvinnu. Verður sú starfsemi því áfram í Eyjum. Vill endurbyggja skýlið á Eiðinu Pétur Steingrímsson, lögreglumað- ur, sem er áhugamaður um útivist, úteyjalíf, fjárbúskap og kótelettur ásamt reyndar ýmsu fleiru, kom fram með áskorun til framkvæmda- og hafnarráðs. Pétur vill láta byggja skýli undir gamla björgunarbátinn sem var á Eiðinu. Skýlið yrði á sama stað og svipað útlits og hið gamla. Ekki yrði þó um eiginlegt björgunarbátsskýli að ræða heldur væri hugmyndin einkum sú að gefa gestum og gangandi innsýn í liðna tíma. Nýr löglærður fulltrúi Í hugum margra fram til þessa hefur lögreglustarfið frekar verið karlastarf en kvenna. Sú er þó ekki raunin hjá embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum. Þar eru þrír starfsmenn, allt konur. Fyrst skal telja nýskipaðan lögreglustjóra, Páleyju Borgþórsdóttur, á skrif- stofunni er Karen Haraldsdóttir og nú bættist í hópinn Kristín Jóns- dóttir, löglærður fulltrúi en hún starfaði áður hjá Fulltingi í Reykjavík. Hún sagði ráðningu sína ekki hafa haft langan aðdraganda, hún hefði haft sex daga til að rífa sig upp með rótum og koma sér til Eyja en lét vel af dvölinni hér. Nornanótt hjá Snorra Fyrrum Gámavinur, Siglfirðingur- inn og skáldið Snorri Jónsson, lét drauminn rætast. Hann hafði lengi gælt við að gefa út ljóðabók en ákvað síðan að gefa út geisladiskinn Nornanótt með ljóðum sínum og textum. Hann fékk gott fólk í lið með sér við að semja tónlist og flytja hana og sagðist ánægður með útkomuna. Hafsteinn og Sigríður Lára best Á lokahófi fótboltans sem haldið var í október voru veittar viður- kenningar þeim sem best þóttu hafa staðið sig á liðnu sumri. Þau Hafsteinn Briem og Sigríður Lára Garðarsdóttir voru valin bestu leikmenn meistaraflokka karla og kvenna á leiktíðinni. Um 30% lækkun á afurðaverði Makrílveiðum lauk í október og við tóku síldveiðar hjá uppsjávarveiði- skipum. Makrílvertíðin gekk vel en innflutningsbann Rússa setti þó verulegt strik í reikninginn og taldi Páll Guðmundsson, hjá Hugin VE, að lækkun á afurðaverði næmi um 30% vegna þess. Tekjur útgerðar og fiskvinnslu, sjómanna og land- verkafólks hefðu dregist verulega saman vegna þeirra aðgerða. Hjónin Guðbjörg Guðmannsdóttir og Óskar Jósúason ákváðu sumarið 2014 að hlaupa saman 200 km á tíu dögum til styrktar Krabbavörn í Vestmannaeyjum og söfnuðu þannig 20 þúsund krónum. Í sumar buðu þau fleirum að hlaupa með sér og úr varð 12 manna hópur sem safnaði samtals 35 þúsund krónum til þessa góða málefnis.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.