Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 13.01.2016, Blaðsíða 11

Fréttir - Eyjafréttir - 13.01.2016, Blaðsíða 11
11Eyjafréttir / Miðvikudagur 13. janúar 2016 Pink Floyd messa Enn var boðað til annars konar messuhalds í Landakirkju, að þessu sinni var það tónlist Pink Floyd sem var í öndvegi. Aðsóknin að þessari messu, sem og öðrum ámóta sem haldnar hafa verið, sýnir að fólk kann vel að meta slíka nýbreytni í kirkjustarfi. Gjörningurinn rifjaður upp Í Safnahúsinu var þess minnst með sýningu að listamaðurinn Þórður Ben Sveinsson fagnar á árinu sjötugsafmæli sínu. Þórður, sem er fæddur í Vestmannaeyjum, kenndi hér við myndlistarskólann veturinn 1969 og er hans sérstaklega minnst fyrir gjörning sem hann flutti í Akógeshúsinu þá um vorið. Sá gjörningur var þarna rifjaður upp ásamt fleiru sem á daga listamanns- ins dreif þennan vetur. Hrekkjalómar komnir á bók Ásmundur Friðriksson, þingmaður, kynnti nýútkomna bók sína um Hrekkjalómafélagið. Á fjölmennu kynningarhófi í Safnahúsinu sagði hann frá bókinni og rifjaði upp sögur og sögupersónur, ásamt því sem lesið var úr bókinni. Hver arða etin „Þarna var hver arða af kjöti etin og sogin upp til agna,“ sagði í umsögn Eyjafrétta af Kótelettukvöldi sem nú var haldið í annað sinn í Höllinni. Eins og nafn uppákom- unnar ber með sér var aðeins einn aðalréttur í boði, lambakótelettur og svo að sjálfsögðu hið staðlaða meðlæti. Royalbúðingur í eftirrétt. Sem sagt, ákaflega gamaldags og gott. Alls gæddu 130 manns sér á kótelettum í Höllinni þetta kvöld og fór enginn svangur heim. Kóratónleikar á Háaloftinu Karlakór Vestmannaeyja, sem stofn- aður var í fyrra, hélt sína fyrstu tónleika á Háaloftinu í Höllinni og með þeim söng Drengjakór íslenska lýðveldisins sem er skipaður einkar þroskuðum drengjum. Þetta var hin ágætasta skemmtun og undruðust gestirnir úr Reykjavík hve góðum árangri nýliðarnir í Vestmanna- eyjum hefðu náð á einu ári. 1. des. kaffi í nóvember Líknarkonur bjóða árlega upp á 1. des. kaffi og fyrr á árum fór sú veitingasala fram 1. desember. Hin seinni ár hafa þær ágætu konur þó breytt út af þeirri venju og nú er boðið til veislu á þeim fimmtudegi sem næstur er fyrsta sunnudegi í aðventu. Fjölmenni var hjá Líknarkonum í Höllinni á 1. des. kaffinu eins og jafnan. Ógilding samruna Héraðsdómur Suðurlands ógilti ákvörðun hluthafafundar Vinnslu- stöðvarinnar um samruna VSV og Ufsabergs frá síðasta ári sem og þá ákvörðun sama fundar að auka hlutafé í VSV. Þeir Stillubræður, Guðmundur og Hjálmar Kristjáns- synir höfðuðu mál vegna þeirrar ákvörðunar og höfðu betur. Framkvæmdastjóri VSV taldi þessar aðgerðir bræðranna aðeins þjappa hluthöfum í Eyjum betur saman og taldi víst að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Slapp heill á húfi Mildi var að ekki fór verr þegar eldur kviknaði í trillubátnum Brandi VE rétt austan við Eyjar. Einn var um borð, Gunnlaugur Erlendsson, og sýndi hann hárrétt viðbrögð, kom gúmbátnum útbyrðis og var bjargað um borð í Frá VE skömmu síðar. Báturinn var hins vegar gjörónýtur eftir. Konukvöld og fleira gott Þegar jólin nálgast bjóða hin ýmsu fyrirtæki og verslanir upp á alls kyns uppákomur sem alla jafna eru ekki í boði á öðrum árstímum. Nú voru t.d. haldin sérstök konukvöld hjá Geisla, Hárstofunni Dízó og Active. Húsasmiðjan var með sitt kvöld, Helga Dís og Rafn í Vosbúð buðu upp á heitt súkkulaði og smákökur eitt kvöldið og svo opnaði handverksfólk markað í Svölukoti. Allar voru þessar samkomur vel sóttar og fólk ánægt með framtakið. Örn og Hrefna gáfu tréð Kveikt var á jólatrénu á Stakkó í lok nóvember. Að þessu sinni var tréð gjöf frá þeim hjónum Hrefnu Hilmisdóttur og Erni Ólafssyni, Eyjamönnum sem búa í Kópavogi. Tréð var orðið heldur fyrirferðar- mikið í garðinum þeirra og því tóku þau þá ákvörðun að fella það og senda á æskustöðvarnar til að gleðja gamla samsveitunga. DESEMBER Ekki meira siglt til Landeyjahafnar Ekki hafði verið siglt til Landeyja- hafnar síðustu daga nóvembermán- aðar bæði vegna veðurs sem og ónógs dýpis. Fulltrúar Vegagerðar- innar gáfu út í byrjun desember að líkast til yrði ekki meira siglt til Landeyjahafnar á þessu ári. Er það svipað og var og gerðist á árinu 2014. Vonbrigði með samrræmd próf Forsvarsmenn Grunnskólans í Vestmannaeyjum sögðu það vonbrigði hve nemendur kæmu almennt illa út úr samræmdum prófum, ekki síst þar sem farið hefði verið í samstillt lestrarátak hjá nemendum skólans og það skilað góðum árangri. Einkunnirnar reynd- ust undir landsmeðaltali í nær öllum greinum sem prófað var í. Ný aðstaða í Kviku Eldri borgarar í Eyjum héldu upp á vígslu nýrrar félagsaðstöðu á efstu hæð í Kviku þar sem áður var Félagsheimilið til húsa. Þar með var aðstaðan í gamla Ísfélagshúsinu kvödd en á þeim stað hafði félagið haft aðstöðu sína nokkur undanfarin ár. „Kall á sjötugsaldri“ Bergur Sigmundsson, bakari, sem reyndar hefur lagt bakstur á hilluna í bili, opnaði málverkasýningu í Papakrossinum, galleríi þeirra bræðra, hans og Andrésar að Heiðarvegi 7. Þetta var fyrsta sýning Bergs og hann sagðist spenntur, kall á sjötugsaldri að fara út í slíkt. En svo varð spennufall því að gestir voru hinir ánægðustu með sýninguna. Sigurður með sýningu Og ekkert lát var á sýningum. Gamall Eyjamaður, Sigurður K. Árnason, setti upp sýningu á verkum sínum í Einarsstofu. Mörg verkanna sýndu æskustöðvar listamannsins eins og þær litu út áður en þær urðu hraunstraumi að bráð. Þór sæmdur gullmerki Sá heiðblái fyrrum Þórari og núverandi formaður ÍBV, Þór Ísfeld Vilhjálmsson, hélt upp á sjötugsaf- mæli sitt. Við það tækifæri var hann sæmdur gullmerki ÍBV. Þór þakkaði fyrir sig og tilkynnti að hann hygðist láta af embætti formanns ÍBV á vordögum, nú væri nóg komið. Eitt hið versta í manna minnum Eitthvert mesta óveður í manna minnum skall á landinu mánudag- inn 7. desember. Austanátt með úrkomu og í Vestmannaeyjum, þar sem veðrið varð hvað verst, fór veðurhæðin í 46,7 m/sek á Stór- höfða og í hviðum yfir 50 m/sek. Björgunarsveitin sinnti um 30 útköllum, lögregla hafði í nógu að snúast við að aðstoða fólk og lögreglustjóri lét lýsa yfir hættu- ástandi á mánudagskvöld. Það hafði ekki gerst síðan í gosinu árið 1973. Ekki urðu slys á fólki en talsvert eignatjón, mest þó á húsi við Smáragötu þar sem stór hluti þaksins sviptist af og fauk inn á nærliggjandi lóð. Hlutu forvarnaverðlaun Tvær ungar Eyjastúlkur, Elínborg Eir Sigurfinnsdóttir og Sigurlaug Margrét Sigmarsdóttir, tóku við verðlaunum úr hendi forseta Íslands á Bessastöðum vegna forvarnadags- ins. Þær voru í hópi sex ungmenna sem þau hlutu og sögðu athöfnina hafa verið rosalega flotta og allt mjög formlegt. Nýtt skip – Kap VE Vinnslustöðin tók á móti nýju skipi í desember, Kap VE 4 og hét áður Faxi RE. Skipstjórarnir á Kap, þeir Jón Atli Gunnarsson og Gísli Garðarsson voru hæstánægðir með nýja skipið eins og raunar útgerðar- mennirnir líka. Gjafmildir Ufsaskallar Ufsaskalli Invitational heitir óformlegur félagsskapur nokkurra ungra manna í Eyjum sem á hverju sumri heldur golfmót til styrktar ýmsum góðum málum. Eitt slíkt var haldið á liðnu sumri og nú afhentu forsvarsmenn Ufsaskalla, þeir Kristján Georgsson, Valtýr Auðbergsson og Magnús Steindórs- son hagnaðinn af uppátækinu. Fyrst héldu þeir á sjúkrahúsið og afhentu þar níu sjónvörp. Svo var röðin komin að Fjölskylduhjálp Vest- mannaeyja en prestar Landakirkju tóku við 700 þúsund krónum úr hendi þessara gjafmildu pilta. Vilja meira samstarf Á aðalfundi Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja var ákveðið að fara í samstarf við ferðaþjónustuna á Suðurlandi, með sameiningu í huga. Þá var einnig samþykkt að skoða aðkomu samtakanna að Markaðs- stofu Suðurlands en samtökin hafa ekki átt aðild að henni til þessa. Slippurinn annar besti Enn bættust fjaðrir í hatta veitinga- fólks í Eyjum. White Guide, sem árlega birtir lista yfir 300 bestu veitingahús á Norðurlöndum, var með veitingahúsið Slippinn í Vestmannaeyjum í 2. sæti yfir bestu veitingastaði á Íslandi. Að sjálf- sögðu voru eigendur Slippsins hinir ánægðustu með það. Fáir tónleikar Tónleikahald hefur oft verið fyrir- ferðarmeira í Vestmannaeyjum í desembermánuði en núna. Fyrir fimm árum voru a.m.k. fernir slíkir á dagskrá á aðventunni og tónlistarfólk úr höfuðborginni með helming þeirra. Nú er slíkt aflagt, líkast til vegna erfiðleika í samgöngum. En söngnemendur Tónlistarskólans héldu lítinn konsert og svo var Kór Landakirkju með sína árlegu jólatónleika og húsfyllir þar eins og venjulega. Í landsliðið í kraftlyftingum Alltaf er gaman að geta þess þegar Eyjafólk skarar fram úr á einhverju sviði. Nú var það Eyjastúlkan Birgit Rós Becker sem var valin í lands- liðið í kraftlyftingum en því fylgir þátttaka í bæði EM í mars og svo HM í júní. Birgit Rós sagðist vera spennt og hlakka til komandi átaka. Gleðigjafar á ferð Og fyrst minnst er á íþróttir. Gleðigjafarnir svonefndu þurftu ekki að kvarta yfir aðsóknarleysi á Stjörnuleiknum sem nú fór fram í annað sinn. Þar kepptu tvö lið frá Gleðigjöfunum í handbolta og styrktu hvort um sig liðsheildina með einum lánsmanni úr meistara- flokki. Margir segja að þetta sé íþróttauppákoma ársins, þarna ríki hin sanna gleði og íþróttaandi. Endurbætur hjá Lands- banka Viðamiklar breytingar áttu sér stað í húsnæði Landsbankans við Bárustíg. Um miðjan desember var svo opnað í nýju aðstöðunni sem þótti hin glæsilegasta. Áður hafði starfsemi Sparisjóðsins verið á tveimur hæðum en nú er starfsemin öll komin á jarðhæðina. Þrettán útskrifuðust Skólaslit haustannar Framhalds- skólans voru samkvæmt venju í desember. Að þessu sinni voru útskriftarnemar þrettán talsins (og þótti vel við hæfi á þessum árstíma), tólf stúdentar og einn af vélstjórnarbraut. Vel útfært safn Eldheimar höfðu hlotið ýmsar viðurkenningar frá því að safnið var opnað og nú bættist enn ein við, Íslensku hönnunarverðlaunin en Eldheimar voru valdir úr rúmlega 100 tilnefningum. Í áliti dómnefnd- ar sagði að safnið væri til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með sjónrænum og gagnvirkum hætti. Kostnaður bæjarins 882 milljónir Á sama tíma var upplýst að kostnaður við Eldheima næmi 1150 milljónum króna. Af þeirri upphæð er hlutur bæjarins 882 milljónir en ríkisstyrkir nema 198 milljónum. Jólaandi í bænum Jólaverslun var lífleg í desember og bærinn fagurlega skreyttur að vanda. Áfram héldu ýmsir aðilar að gleðja viðskiptavini sína með ýmsum uppákomum, til að mynda verslanir í Baldurshaga, Miðstöðin og Eymundsson auk Tölvunar sem bauð upp á sérstakt peyjakvöld til mótvægis við öll konukvöldin sem haldin höfðu verið. Og sjálf jólahátíðin fór svo vel og friðsam- lega fram eins og venjan er í Eyjum. Undirritaður hefur séð um ritun þessa annáls í rúmlega þrjátíu ár eða frá því að hann hóf störf á Fréttum eins og blaðið hét í þann tíð. En nú er mál að linni. Þessi annáll verður sá síðasti sem hann sér um að rita, auk þess sem hann hyggst um leið hætta sem starfsmaður Eyja- frétta í blaðamennsku og prófarkalestri. Hann vill þakka lesendum blaðsins þolinmæði og langlundargeð um þriggja áratuga skeið og vill einnig þakka hinum mörgu samstarfs- mönnum á blaðinu góða samveru. Með ósk um góðar stundir á nýju ári og komandi árum. Sigurgeir Jónsson Eitt atriði á Safnahelgi vakti verðskuldaða athygli. Sjö kjarnakonur, sem allar eru fæddar erlendis en búsettar í Vestmannaeyjum, komu fram og veittu gestum innsýn í menningarheim viðkomandi lands, lásu upp stuttan texta á móðurmáli sínu og sumar tóku lagið. Þessar kjarnakonur voru Kateryna Sigmundsson frá Úkraínu, Jackie Cardoso frá Brasilíu, Dagný Pétursdóttir (Deng) frá Thailandi, Tina Merete Henriksen frá Danmörku, Evelyn Consuelo Bryner frá Sviss, Sarah Jane Hamilton frá Englandi og Anna Federowicz frá Póllandi.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.