Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 20.01.2016, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 20.01.2016, Blaðsíða 15
15Eyjafréttir / Miðvikudagur 20. janúar 2016 Vestmannaeyingar eru átakamenn og þótt vertíðarstemning fyrri ára sé fjarri þegar allir lögðust saman á árar til þess að bjarga verðmætum sjávar, unnið var sólarhringum saman í törnum þá er ég ekki fjarri að andinn hafi smitast áfram til núverandi kynslóða. Þegar þörf er á sameiginlegu átaki allra þá skorast enginn undan. Ungi sem aldnir leggjast saman á árar til þess að halda uppi heiðri Eyjanna. Það sýður á keipum þegar Eyjamenn leggjast á árar allir sem einn. Þannig hefur stemningin í kringum handboltalið ÍBV verið undanfarin ár. Karlaliðið kom upp í hóp bestu liða landsins árið 2013 og árið eftir sigldi liðið heim með Íslandsbikar- inn í fyrsta skipti. Bikarinn var ekki unninn af fámennum hópi hand- boltamanna heldur öllum Eyja- mönnum. Fyrir tæpu ári léku leikmenn ÍBV svipaðan leik er þeir urðu bikarmeistararar og enn var lagt í siglingu sem lauk í Vest- mannaeyjahöfn með flugeldasýn- ingu að hætti íbúanna. Í hvorugt skiptið var ÍBV ekki endilega með bestu einstaklinganna. Þeir voru hinsvegar með besta hópinn, utan vallar sem innan. Leikmenn stóðu saman sem einn, ákveðnir í að ná markmiði sínu. Að baki þeim stóð allt samfélagið í Vestmannaeyjum. Þar sem hjartað slær Þúsundum saman fjölmenntu Eyjamenn á leiki liðsins og lögðu lóð sín á vogaskálarnar, tóku á með leikmönnum liðsins. Stuðnings- mennirnir sem stóðu allir sem einn að baki hópnum úti á leikvellinum riðu baggamuninn. Leikmennirnir inni á leikvellinum voru drifnir áfram af fólkinu á hlíðarlínunni og öfugt. Stuðningsmennirnir voru drifnir áfram af leikmönnum liðsins. Vertíðarstemning myndað- ist. Skipti þá engu máli hvort staðið væri við aðgerðarborðið í íþrótta- miðstöðin í Vestmannaeyjum, á Ásvöllum í Hafnarfirði ellegar í Laugardalshöll. Allir stóðu saman við að afla fyrir Vestmannaeyjar. Eyjamenn tóku yfir stemninguna, hvort heldur innan vallar sem utan. Þegar upp var staðið frá aðgerð sameinuðust allir í söng á texta Magnúsar Þór Sigmundssonar: Kveikjum eldana þar sem hjartað slær. Kveikjum eldana þar sem hjartað slær. Sjá, Heimaey og Herjólfsdal. Þar sem hjörtun slá í takt við allt sem í æðunum rennur, sem á huganum brennur. Hér í brekkunni þar kveikjum við eld, eld. Tengjum huga, hjart´og sál. Þar sem hjartað slær, þar sem hjartað slær. Jafnvel niðurlútir stuðningsmenn tapliðsins gátu ekki annað en tekið undir. Sá er tilfinningarlítill sem ekki hrífst með í stemningunni. Meðan Eyjamenn sungu í Laugardalshöll eftir sigurinn í bikarkeppninni í handknattleik komu upp í huga minn ljóðlínur Ása í Bæ við lag Oddgeirs Kristjánssonar, Heima. „Og enn þeir fiskinn fanga, við Flúðir, Svið og Dranga, þótt stormur strjúki vanga, það stælir karlmanns lund.“ Hinn sæti blóðhiti Eftir rúm 20 ár í íþróttafrétta- mennsku hef ég marga fjöruna sopið og séð margan bikarinn fara á loft, verið í hópi glaðra leikmanna og stuðningsmanna á sigurstundu. Hvergi hef ég upplifað þá stemn- ingu hér á landi sem Eyjamenn mynda með sínum sæta blóðhita og tilfinningahita. Sigurinn er fyrir Vestmannaeyjar, bikarinn er fyrir stuðningsmennina, við erum stuðningsmennirnir. Eyjamenn standa saman í blíðu og stríðu og leggjast allir sem einn á árar eins og áður segir. Samstaðan gerir að verkum að ÍBV sker sig talsvert úr öðrum íþróttafélögum á landinu. Ljóst er að mörg „stærri“ íþrótta- félög höfuðborgarsvæðisins öfunda ÍBV af samstöðunni. Það þarf ekki að liggja í Eyjamönnum til þess að þeir mæti og standi þétt á bak við lið sín. Ekki er þar með sagt að ekki séu skiptar skoðanir á leikmönnum, leikaðferðum og hvað eina sem að leiknum snýr hverju sinni. Slíkt er eðlilegt. Með ólíkindum Það er hreint með ólíkindum hvað Eyjamönnum hefur tekist að halda úti knattspyrnu- og handboltaliðum sem standast öðrum liðum landsins snúning og vel það. Skýringarnar eru eflaust margar en ljóst að þar spilar inn í metnaður og dugnaður Eyjamanna sem þeim virðist í blóð borinn auk samstöðu bæjarbúa. Ekki eru mörg ár síðan handknatt- leiksdeild ÍBV var komin í fjárhags- lega gjörgæslu vegna tugmilljóna skulda. Þá sem fyrr sneru dugnaðar- menn og -konur bökum saman og unnu sig út úr vandanum. Þrotlaus vinna og dugnaður varð til þess að skuldir voru greiddar niður en á sama tíma hugað að starfi yngri flokka. Það hefur nú skilað sér í tveimur afar góðum meistaraflokks- liðum af báðum kynjum sem eru að uppistöðu til skipuð heimamönnum. Þótt karlalið ÍBV hafi verið mikið í sviðsljósi handboltans undanfarin ár má ekki gleyma kvennaliðinu sem hefur verið í fremstu röð. Kvennalið ÍBV var nokkrum árum á undan karlaliðinu að fagna Íslandsmeist- aratitli og það oftar en einu sinni. Um þessar mundir er kvennaliðið í allra fremstu röð og til alls líklegt. Ég held að það sé rétt fyrir Eyjamenn að búa sig undir allsherjar útkall með vorinu þegar úrslitakeppnina hefst. Tími kvennaliðsins er hugsanlega að renna upp. Án Eyjanna væri íslenskt íþróttalíf fátækara Án hins öfluga íþróttastarfs sem unnið er í Vestmannaeyjum væri íslenskt íþróttalíf mun fátækara. Ekki aðeins hafa Eyjarnar alið af sér afburða íþróttamenn sem komið hafa víða við heldur hefur ástríðan og dugnaðurinn smitast til annarra sem í sömu sporum standa uppi á fastalandinu. Og þótt einhverjir hafi lítt gaman af ferðum milli lands og Eyja til þess að etja kappi við íþróttalið ÍBV þá er alveg ljóst að allir myndu sakna þess væri Eyjamenn ekki með. Oft vill það líka gleymast að íþróttamenn ÍBV á öllum aldri fara margfalt fleiri ferðir frá Eyjum ár hvert til þess að spreyta sig gegn fastalandsbúum með tilheyrandi kostnaði. Peninga til þeirrar farar er aflað með vinnu við fjölbreytt störf sem enginn telur eftir sér að vinna. Fyrir skömmu rabbaði ég við þjálfara íþróttaliðs í Eyjum. Fyrir dyrum stóð stór fjáröflun. Ég spurði hvernig gengi að fá liðsmenn til þess að taka þátt. Þjálfarinn sagði það ekki vera neitt mál. Ekki þyrfti að ganga á eftir fólki til þess að taka þátt, ólíkt því sem væri í bænum þar sem gengi á ýmsu við svipaðar aðstæður. „Hér líta menn á það sem sjálfsagðan hlut að taka þátt.“ Sá fyrst Þór og Tý Ég kom fyrst til Vestmannaeyja 1982 til þess að fylgjast með kappleikjum í handbolta. Þá voru Þór og Týr með kapplið. Kappið var síst minna þegar heimamenn leiddu saman hesta sína en þegar þeir glímdu var piltana úr höfuðborg- inni. Hvergi drógu menn af sér innan vallar og utan vallar flugu skeytin milli áhorfenda. Allt frá þessari fyrstu heimsókn hefur eitthvað í fari íbúa Vestmannaeyja heillað mig. Drift og hrifning sem ég hef hvergi fundið annarstaðar hér á landi. Sennilega er rétt að setja fljótlega punktinn aftan við þenan pistil enda fer hann að nálgast þau mörk sem Ómar Garðarsson setti mér. Eflaust þykir einherjum nóg um lofið, öðrum ekki. Víst er hinsvegar af minni hálfu að íbúar Vestmannaeyja eiga þau skilin, annars hefði ég ekki fest þau sjálviljugur á blað. Megi íþrótta- og æskulýðsstarf í Vest- mannaeyjum halda áfram að blómstra um ókomna tíð. Samstaðan lifi – áfram ÍBV! Ívar Benediktsson. Ívar Benediktsson, blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar um handboltann í Eyjum: Allir stóðu saman við að afla fyrir Vestmannaeyjar :: Eyjamenn tóku yfir stemninguna, hvort heldur innan vallar sem utan :: Þegar upp var staðið frá aðgerð sameinuðust allir í söng á texta Magnúsar Þórs: Þar sem hjartað slær Ívar benediktsson blaðamaður á morgunblaðinu Þau tóku á móti Fréttapýramídanum fyrir hönd ÍBV- íþróttafélags. Ester Óskarsdóttir, fyrirliði meistarflokks kvenna í handbolta, Karl Haraldsson, formaður handknattleiksráðs og Magnús Stefánsson, fyrirliði meistaraflokks karla.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.