Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 16.03.2016, Blaðsíða 8

Fréttir - Eyjafréttir - 16.03.2016, Blaðsíða 8
8 Eyjafréttir / Miðvikudagur 16. mars 2016 Loðnuvertíðin fer nú senn að taka enda og má segja að veiðar hafi gengið misvel. Vertíðin byrjaði nokkuð kröftulega en síðustu daga hefur veðrið sett strik í reikninginn. Veðrið á miðunum síðan fyrir helgi hefur verið slæmt og hafa skipin því að mestu legið í vari við Snæ- fellsnesið. Hver lægðin af annarri hefur gengið yfir og ekki er nóg með að veðrið sé slæmt heldur hefur sjólagið verið með versta móti þann tíma sem vindur hefur gengið niður. Nú vonast menn þó, að vestur- gangan sé komin og eru því bjartsýnir fyrir næstu daga að hægt verði að ná leyfilegum kvóta og bjarga vertíðinni. Þegar skipin héldu út í gær eftir brælu helgar- innar fannst stór loðnuflekkur um 18 mílur norðvestur af Öndverðar- nesi og virðist vesturgangan því vera að koma upp á svipuðum slóðum og í fyrra. Að sögn skipstjóra á svæðinu er loðnan sem er að finnast núna á svæðinu miklu skemmra komin að hrygningu en loðnan sem veiddist áður, einnig sé talsvert meira magn að sjá núna. Hvalir til ama á vertíðinni Erfitt hefur verið að kasta á loðnuna á vertíðinni vegna gríðarlegs ágangs hvala. Er fyrst og fremst um hnúfubak að ræða og segja sjómennirnir að stundum þegar litið sé yfir hafflötinn á miðunum megi sjá blástur frá tugum eða hundr- uðum hvala. Tala sjómennirnir um að fjöldi hvala á loðnumiðum hafi vaxið mikið á seinni árum og ekki er óalgengt að þeir valdi umtals- verðum vandræðum við veiðarnar. Flest skipin hafa komið sér upp svokölluðum hvalafælum sem hengdar eru neðan á nótina en búnaðurinn virðist ekki virka eins og hann á að gera. Mikil aukning hefur orðið á hnúfubaknum síðasta áratuginn en þegar mælingar hófust árið 1987 taldi tegundin aðeins um 2000 dýr en árið 2007 um 15.000. Talning var svo gerð á síðasta ári en niðurstöður úr henni liggja ekki enn fyrir. Skiptsjórar hafa talað um það að þeir séu hræddir um að hnúfubakur- inn éti alla loðnuna og segja að ef hvalirnir sjái torfu sé þeir mættir undir eins. Vertíðin í ár fjórðungur af kvóta síðustu vertíðar Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu sagði í samtali við Eyjafréttir á mánudaginn að veiðar hefðu ekki gengið nægilega vel síðustu daga. ,,Veiðar hafa gengið frekar illa síðustu daga en fréttir gærdagsins að hugsanlega sé vestur- gangan komin í Breiðafjörðinn lífgaði smá upp á stemminguna. Nú vonumst við til að geta klárað kvótann okkar næstu daga en við eigum um 5000 tonn óveidd.“ Þess má geta að Ísfélag Vest- mannaeyja á rúmlega 20.000 tonna kvóta. Aðspurður um muninn á vertíðinni núna og síðasta ár segir Eyþór að þessi vertíð sé bara fjórðungur af kvóta síðustu vertíðar, þannig að hún gefi mun minna. Vertíðin hefur gengið bara nokkuð vel Rúmlega hundrað manns hafa verið á vöktum hjá Vinnslustöðinni síðustu vikur, auk annarra starfs- manna í bolfiskfrystingu, saltfisk- vinnslu, bræðslu auk sjómanna á skipum félagsins. Þþví hefur ríkt sannkölluð vertíðarstemmning þar á bæ. Að sögn Sindra Viðarssonar, sviðs- stjóra uppsjávarsviðs hjá Vinnslu- stöðinni hefur vertíðin gengið nokkuð vel og nú fyrst sé stopp í stöðinni vegna hráefnisleysis en Vinnslustöðin er með rúmlega 11.000 tonna kvóta. ,,Við tókum smá slettu í upphafi til frystingar og fórum svo að græja okkur í hrogn. Fyrsta hrognatúrnum var svo landað 4. mars og það var ekki fyrr en í morgun, mánudag að við vorum stopp vegna hráefnis- leysis. Við eigum eftir að veiða um 1000 tonn og bæði Kap og Ísleifur eru á miðunum að ná í það. Vonandi verður bara einhver veiði eftir þessa brælu. Það er því lítið eftir sem klárast vonandi á næstu dögum.“ Á þessari vertíð framleiðir Vinnslustöðin nánast eingöngu loðnuhrogn en sáralítið var fryst af hrygnu fyrir Japansmarkað og hæng fyrir rússneskumælandi þjóðir. Þegar Sindri er spurður að lokum um muninn á vertíðinni í ár og fyrra, segir hann mikinn mun á milli ára. ,,Vertíðin í ár er nátt- úrulega mun minni en vertíðin í fyrra en þá var heildarkvótinn einhver 560.000 tonn en í ár er hann 173.000 tonn. En það er nú bara þannig að engin loðnuvertíð virðist vera eins.“ Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson á Sigurði VE Fjölskylduhagir: Kvæntur Ásu Sigurðardóttir og eigum við fjögur börn. Elínborg Eir, Sigurbjörg, Ásdís Sara og Sigurfinnur Óskar. Starf: Er háseti á uppsjávarskipinu Sigurði VE. Hvað er það skemmtilegasta við loðnuvertíðina? Það er einhver sjarmi við loðnuvertíðina sem er svo erfitt að útskýra. Hann byrjar á spennu um hversu mikill kvóti verður gefinn út fram á þann dag þegar verið er að berja upp síðustu tonnin. Það er ólýsanleg tilfinning að heyra kallið, „klárir“ þar sem allir hlaupa á sinn stað á dekkinu. Næstu augnablik einkennast svo af þeirri spennu hvort kastið heppnist. Draga þá nótina með sjópus í andlitinu þar sem nótin er að fara á staut og ekkert má klikka. Fá svo að lokum að horfa á loðnuna renna ljúlega í lestarnar á meðan menn sleikja saltbragðið af vörunum. Hvernig hefur gengið hjá ykkur á loðnuvertíðinni í ár? Við höfum fengið smjörþefinn af öllu. Gengið vel einn túrinn og menn fyllst bjartsýni en lent í því þann næsta að margt klikki eins og veðrið eða nótin rifni. En það er allt partur af þessu og það sem einkennir loðnuvertíðina. Samt er þetta alltaf jafn gaman og menn slá sér á brjóst til að láta hlutina ganga upp í næsta túr. Þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni heim með góðan skammt af hrognaloðnu. Börðum upp í tveimur köstum 800 til 900 tonn af hrognaloðnu í kaldadrullu í gær þegar veðrið gaf mönnum kannski ekki vonir um góðan árangur. Þá gekk allt upp og allir sáttir. Makríl-, loðnu- eða síldarvertíð? Erfitt að gera upp á milli þar sem hvert hefur sinn sjarma. Makríllinn á sumrin þegar veðrið er gott, trollandi rétt við bæjardyrnar heima og horfa á kvöldsólina setjast við Eyjar. Síldin náttúrulega silfur hafsins og flögrandi silfurhreistur þegar verið er að dæla. Það er hvorutveggja veitt í flottroll. Ég held samt að ekkert toppi það að veiða loðnuna í grunnnót og elta hana á hraðri leið meðfram ströndinni og horfa á hrognin fljóta um þegar verið er að dæla henni í lestarnar. Júlíus Hallgrímsson á Huginn VE Fjölskylduhagir : Ég er kvæntur Kristjönu og við eigum saman Hallgrím og Ástu Björt. Starf : Sjómaður á Huginn VE 55. Hvað er það skemmtilegasta við loðnuvertíðina ? Það er alltaf viss spenna og sjarmi yfir loðnuvertíð- inni. Hvernig hefur gengið hjá ykkur þessa vertíðina ? Það gekk mjög vel hjá okkur að ná í þann litla kvóta sem við áttum. Makríl-, loðnu- eða síldarvertíð ? Ég verð nú að segja loðnuvertíð, hún er alltaf skemmtileg. Skúli Már Gunnarsson á Huginn VE Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Egle Mikalonyta. Starf: Sjómaður á Huginn. Hvað er skemmtilegast við loðnuvertíðina: Það verður nú að segjast alveg eins og er að það skemmtilegasta við vertíðina er að fá útborgað. Hvernig gekk hjá ykkur þessa vertíðina: Það hefur gengið mjög vel hjá okkur, enda búnir með okkar kvóta núna. Það er stutt úthald hjá peyjunum og nú er maður bara heima að glápa á enska boltann. Loðnuvertíðin 2016 :: Slæmt veður sett strik í reikninginn :: Lítill kvóti: Vesturganga gæti bjargað vertíðinni þetta árið :: Bjartsýnir á að næstu daga verði hægt að ná að klára leyfilegan kvóta :: Reynt að fá sem mest verðmæti úr litlum kvóta SædÍS EVa BirGiSdÓTTir seva@eyjafrettir.is Hvað segja sjómennirnir? Myndir frá Loðnuvertíð: Ólafur Óskar Stefánsson.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.