Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 06.04.2016, Blaðsíða 16

Fréttir - Eyjafréttir - 06.04.2016, Blaðsíða 16
16 Eyjafréttir / Miðvikudagur 6. apríl 2016 Í síðasta mánuði missti heimur- inn einn af sínum bestu mönn- um. Abel Dhaira, markvörður ÍBV og landsliðs Úganda í knattspyrnu féll frá eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein. Abel var afskaplega góður maður og vildi engum illt, hann var einnig mjög trúaður og fór aldrei leynt með trú sína á Guð. Abel kom fyrst til Íslands árið 2010 og samdi við ÍBV til tveggja ára. Hann var meiddur á þeim tíma og sagði Heimir Hallgrímsson, þáverandi þjálfari ÍBV, að það væri framtíðar- hugsun að fá hann til liðsins. Abel var ekki fyrsti leikmaður Úganda sem kom til ÍBV þar sem nokkrir samlandar hans höfðu náð góðum árangri hér í Eyjum. Strax frá fyrsta degi var hann mjög ánægður að hafa komið til Íslands, tók áskoruninni fagnandi og það var aldrei neitt vesen á honum. Fyrsta árið var hann í harðri baráttu við Albert Sævarsson um byrjunarliðs- sæti en svo fór að hann spilaði níu leiki tímabilið 2011 í Pepsi-deild- inni. Það tímabil var frábært hjá ÍBV þar sem liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar á eftir KR og FH. Fyrir leiktíðina var liðinu spáð fimmta sæti og því mikil ánægja með þriðja sætið. Í þeim níu leikjum sem Abel spilaði í deildinni fékk ÍBV 16 stig. Á næstu leiktíð átti Abel eftir að spila enn stærra hlutverk hjá ÍBV. Heimir Hallgrímsson lét skemmti- leg orð falla um markvörðinn á miðju sumri 2011 eftir 3:2 sigur ÍBV gegn Valsmönnum á Hlíðar- enda. „Þetta er bara sirkusdýr og skemmtikraftur. Það er gaman að hafa svona mann í liðinu,“ sagði Heimir um Abel sem skemmti áhorfendum í flestum leikjum sem hann spilaði. Árið 2012 var mjög gott hjá Abel þar sem hann spilaði alla leiki ÍBV í deildinni, fyrir leiktíðina var ÍBV spáð 8. sæti af tólf liðum. ÍBV endaði í 3. sæti deildarinnar, nokkuð langt frá toppliði FH sem rústaði deildinni. ÍBV fékk á sig fæst mörk allra í deildinni og þarf varla að taka það fram hve vel Abel stóð sig á tímabilinu. Eftir fyrstu 20 leikina hafði liðið aðeins fengið á sig 17 mörk sem verður að teljast ótrúlegur árangur. Eftir leiktíðina var Abel valinn á varamannabekk í úrvalsliði tímabilsins hjá virtu vefsíðunni Fótbolta.net. Eftir tímabilið sögðu fjölmiðlar frá því að Abel yrði enn hjá ÍBV en fljótt kom babb í bátinn. Abel skipti um lið og spilaði í Tansaníu tímabilið 2013. Menn söknuðu Abel og létu það í ljós á samfélagsmiðlum, Abel átti einnig eftir að segja frá því að hann saknaði Íslands. Í desember árið 2013 samdi ÍBV aftur við Abel Dhaira, hann gerði þriggja ára samning og fékk mikið lof í fréttatilkynningu frá ÍBV. Stuttu áður samdi Guðjón Orri Sigurjónsson við ÍBV og var hugmyndin að láta þá tvo berjast um stöðuna á keppnistímabilinu 2014. Stuttu eftir komu Abel vildi Guðjón Orri fara frá félaginu þar sem hann hafi ekki fundið traust. Abel virkaði ekki sannfærandi í upphafi móts og skiptu þeir félagar því á milli sín stöðunni á tíma- bilinu. Á tímabilinu talaði Abel um tíma sinn í Tansaníu þar sem hann hafi verið sakaður um að hagræðu úrslitum eftir að hann fékk á sig þrjú mörk í leik gegn slöku liði. Þá hafði einn af forráðamönnum félagsins sakað hann um að hagræða úrslitum en þá var nokkuð ljóst að dvöl hans væri á enda í Tansaníu. Óx ásmegin Þrátt fyrir slæma byrjun á tíma- bilinu óx Abel ásmegin það sem eftir var, hann var til að mynda valinn í úrvalslið nokkurra umferða á tímabilinu fyrir frammistöðu sína. Hann spilaði átján leiki á tímabili þar sem ÍBV endaði í 10. sæti, einu stigi frá falli. Abel varði mark ÍBV í öllum fimm sigurleikjum liðsins það tímabil. Abel spilaði einnig tímabilið 2015 með ÍBV, á síðasta ári. Hann lék alla fjóra leiki liðsins í Borgunar- bikarnum en þar fór liðið í undanúrslit, þá lék hann níu leiki í deildinni. Í þeim fjórum heima- leikjum sem hann spilaði tapaði liðið ekki leik og sótti átta stig. ÍBV endaði eins og flestir vita í 10. sæti deildarinnar og vann einungis fimm leiki líkt og árið áður. Eftir að Abel kom heim, veiktist hann. Forráðamenn ÍBV töldu best að koma með Abel til landsins og undir læknishendur hér. Fljótt var ljóst að veikindin væru það alvarleg að Abel myndi ekki spila með liðinu á næstu leiktíð. Margir lögðu hönd á plóg ÍBV hóf fjársöfnun fyrir læknis- meðferð. Margir lögðu fram hjálparhönd og mörg lið gáfu sektarsjóði sína í verkefnið. Þar má t.d. nefna Grindavík, Fram, Stjörnuna, Árborg, Dalvík/Reyni, Leikni F., Víking R., Þrótt og kvennalið Stjörnunnar. Þá setti Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður upp styrktarleik til að sýna Abel stuðning og safna fjármagni fyrir meðferðinni. Styrktarleikurinn var hinn glæsi- legasti og tóku fjölmargir þátt í honum. Það var vel við hæfi að Yngvi Magnús Borgþórsson skoraði þrennu í leiknum því þeir félagar voru mjög nánir og frábærir vinir. Einungis þremur dögum síðar komu fréttirnar sem allir óttuðust. Abel var allur, en það var Andrew Mwesigwa, fyrrum leikmaður ÍBV og liðsfélagi Abel úr landsliði Úganda sem greindi frá því. Fljótlega var unnið að því að flytja lík Abel til Úganda þar sem hann var jarðaður nýlega. En sorglegar fréttir bárust stuttu eftir andlát Abel varðandi fjölskyldu gleðigjafans. Amma hans hafði látist þegar hún heyrði fréttirnar af andláti barna- barns síns. Í janúar 2010 fór ég í ferð til Úganda í þeim tilgangi að finna miðjumann fyrir ÍBV. Í ferðinni sá ég þrjá landsleiki Úganda. Markmið ferðarinnar náðist og Tony Mawejje lék með félaginu það leiktímabil. Í þessum landsleikjum sá ég og hitti Abel Dhaira í fyrsta skipti. Ungur og efnilegur markvörður sem vakti strax athygli mína. Abel hafði reyndar gert samning við annað lið en við vorum í sambandi eftir þessa heimsókn og þegar tækifærið gafst gerði hann samning við ÍBV og kom til Vestmannaeyja 2011. Abel var góður og litríkur mark- vörður, þjálfaður frá unga aldri af föður sínum sem var sjálfur landsliðsmarkvörður Uganda. Fyrir utan það að vera dökkur á hörund og mjög hávaxinn þá var það leikstíllinn og taktarnir sem gerðu hann frábrugðinn öðrum markvörð- um. Ótrúleg knatttækni sem var fremri flestum útileikmönnum og það að taka ákvarðanir sem jók hjartsláttartíðni heitustu stuðnings- manna ÍBV verulega. Þrátt fyrir mikil gæði á vellinum var það þó persónuleikinn sem gerði Abel einstakan. Abel tengdi strax við liðsfélagana, alltaf jákvæður og tilbúinn að leggja mikið á sig til að ná árangri. Þótt hann og Tony væru saman öllum stundum kallaði Abel samt Yngva Borgþórs alltaf bróður sinn, útlits- lega eru líklega ólíkari bræður vandfundnir. Abel var mjög trúaður, hann talaði við og treysti almættinu öllum stundum. Hann fór með sínar bænir fyrir leiki, í hálfleik og eftir leiki. Allt það góða sem henti Abel þakkaði hann Guði og það má segja að ég hafi stundum verið öfund- sjúkur út í hann þarna uppi. Burtséð frá því hvaða snilldartaktík við settum upp, þá var það alltaf Guði að þakka að við unnum. Abel var einstakur karakter. Brosið og hláturinn voru bráðsmitandi og oftast það fyrsta sem tók á móti fólki. Bros og líkamstjáning sem sagði „það er virkilega gaman að sjá þig“. Einlægt bros sem kostaði ekkert en hafði varanleg áhrif á þann sem þáði það. Abel var kurteis, auðmjúkur, kvartaði aldrei og sýndi öllu fólki virðingu. Hann setti aðra í forgang, meira segja í veikindum sínum og kvölum hafði hann áhyggjur af öllum öðrum en sjálfum sér. Við sem höfum það betra og eigum mun meira af veraldlegum hlutum sjáum því miður of oft tæki- færi til að kvarta yfir smámunum. Hugur hans var þó alltaf heima hjá fjölskyldunni í Úganda, hjá foreldrum, bræðrum og systrum. Abel reyndi á allan hátt að styðja þau að ná sínum markmiðum. Þetta er ástæðan fyrir því hvers vegna Vestmanneyingar og þeir sem kynntust Abel þótti vænt um hann. Ástæða þess að allir tóku höndum saman að styðja hann í erfiðum veikindum. Þegar ættingjar hans og vinir spurðu mig hvernig stæði að því að allir væru svona vingjarn- legir á Íslandi, þá var svarið mitt að þetta hefði ekki verið gert fyrir hvern sem er. Að vissu leyti sorgleg staðreynd en sönn. Menn uppskera eins og þeir sá. Margir voru undrandi á því að ÍBV vildi fá Abel heim til Íslands, veikan manninn, í byrjun árs. Í knattspyrnuheiminum í dag er þetta óvanalegt. Leikmenn þurfa ekkert annað en eiga slakan leik til að vera ýtt til hliðar en ef vel gengur er mönnum hampað. Ég er óendanlega stoltur af félaginu mínu ÍBV, fyrir það að flytja Abel til Íslands og gera allt til að hjálpa honum í hans erfiðu veikindum, þrátt fyrir að allir vissu að hann væri ekki að fara að leika knatt- spyrnu fyrir félagið. Strákarnir í knattspyrnuráðinu urðu hans nánsta fjölskylda, ásamt Árnýju Hreiðars, þangað til móðir Abels og systir komu til landsins. Allur þessi stuðningur, bæði fjárhagslegur og ekki síst umhyggjan, sýnir að ÍBV er meira en bara íþróttafélag. ÍBV er stór fjölskylda. Ég kveð þig, góði vinur. Við erum ríkari að hafa fengið að kynnst þér. Ég veit að þú ert í góðum höndum hjá þínum yfirþjálfara í dag. Ef einhver á frátekið sæti í byrjunarlið- inu í himnaríki þá ert það þú. Fjölskyldunni votta ég okkar dýpstu samúð og vona að Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tíma. Heimir Hallgrímsson. Með Abel er fallinn frá frábær maður guðmundur t. SigFúSSon gudmundur@eyjafrettir.is Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari minnist góðs drengs: Brosið og hláturinn voru bráðsmitandi og oftast það fyrsta sem tók á móti fólki :: Bros og líkamstjáning sem sagði, það er virkilega gaman að sjá þig Abel Dhaira fæddist í Uganda þann 9. september 1987, sonur þeirra Harriet Nakijjoba og Bright Dhaira. Hann átti tvö alsystkini og þrjú uppeldissystkini. Abel Dhaira Fæddur 9. september 1987 - dáinn 27. mars 2016 V

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.