Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 25.05.2016, Blaðsíða 12

Fréttir - Eyjafréttir - 25.05.2016, Blaðsíða 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 25. maí 2016 Það var ekki margt á tónleikum Birgis Nielsen á Háaloftinu á föstudagskvöldið sem var liður í Óskarshátíðinni, djasshátíð sem haldin er til heiðurs Óskari Þórarinssyni á Háeyri sem var mikill djassunnandi. Birgir mætti með öfluga sveit sem í voru Haukur Gröndal á baritonsaxófón, Steinar Sigurðarson tenórsaxófón og bróðir hans Snorri Sigurðarson á trompett. Á bassa Stuðmaðurinn Tómas Tómasson, á gítar Ásgeir Ásgeirsson og á píanó Stefán Íkorni Gunnlaugsson. Þeir fluttu m.a. lög af plötu Birgis, Svartur 2 sem hann gaf út á síðasta ári. Það var engu líkara en lítil aðsókn efldi hljómsveitina til dáða og þeir sem mættu voru ákveðnir í að njóta stundarinnar. Úr varð ein allsherjar tónlistarveisla þar sem Birgir fór fremstur meðal jafningja á trommunum, leiddi hljómsveitina af krafti og elju þess sem er ákveðinn í að láta ekki þá sem heima sátu draga úr sér kjarkinn. Já, þetta var tónlistarupplifun eins og þær gerast bestar. Svartur 2 er góð plata og vel upp byggð en það jafnast ekkert á við að fá tónlistina beint í æð. Og það þegar þvílíkir snillingar eru á ferð sem efldust með hverju laginu. Gáfu allt sem þeir áttu í tónlistina og eftir sátu gestirnir fáu og reyndu af öllum mætti að koma til skila aðdáun sinni á því sem þarna var boðið upp á, sem var mikið veisluborð í tónlist. Hreint yndi fyrir þá sem aðhyllast fönkaðan djass af bestu gerð. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar faðir Birgis, Þór Nielsen gítarleikari og söngvari steig á svið og söng með þeim Jamboleia sem Fats Domino gerði vinsælt um miðja síðustu öld. Skemmtilegur endir á frábærum tónleikum. Ég held ég mæli fyrir munn allra sem þarna voru þegar ég segi, TAKK. Það var heldur fleira á tónleikum Pálma Gunnarssonar og hans manna í hljómsveitinni Tusk sem í eru Kjartan Valdemarsson píanó- leikari, Birgir Baldursson trommari og Edvard Lárusson gítarleikari. Gestir voru Ari Bragi Kárason hinn frábæri trompettleikari og Sunna Guðlaugsdóttir söngkona sem fékk svo sannarlega tækifæri til að sýna hvað í henni býr. Þessir tónleikar voru ekki síðri en meira út í hreinan djass þar sem hugsunin var á anda Skyttanna hans Dumas, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Tusk er hljómsveit sem Pálmi hefur haldið saman en þeir eyða ekki miklu tíma í æfingar. Koma saman, telja í og undrið gerist. Og það gerðist svo sannarlega á laugardagskvöldið þar sem hljómsveitin fór á kostum og náði upp stemningu í hæstu hæðir. Dagskráin samanstóð af þekktum slögurum djasssögunnar sem runnu ljúft í gegn. Sunna söng fjögur lög og var gaman að heyra hana takast á við djass með tónlistarmönnum í fremstu röð. Og hún stóðst raunina og gott betur. Djass er dásamlegt tónlistarform en hólfin eru mörg og gestir á Háaloftinu fengu sitt lítið af hverju en þarna voru á ferð tónlistamenn sem ekki þurfa að sanna sig með hávaða og látum. Þó flutningurinn væri lágstemmdur var krafturinn og ástríðan til staðar. Ekki linntu þeir látum fyrr en klukkan hálf eitt og höfðu þá spilað í tvo og hálfan tíma með stuttu hléi. Og setan á Háaloftinu var hverra mínútu virði. Það sýndu þakklátir gestir sem kunnu að meta það sem fram var borið. Þetta er annað árið sem Óskarshá- tíðin er haldin og vonandi verður framhald á þó aðsókn hefði að ósekju mátt vera meiri. Óskarshátíðin :: Tvennir frábærir tónleikar: Biggi og Pálmi buðu upp á fjölbreytta og hressandi tónlistarveislu ómar garðarSSon omar@eyjafrettir.is Andri Hugo og Jón Helgi skemmtu sér vel. sunna Guðlaugsdóttir söng nokkur lög með Pálma og félögum. inga Andersen eiginkona Óskars, Margrét Boch frænka hans og rakel dóttir ingu og Óskars. sunna og strákarnir í tusk ásamt ingu, ekkju Óskars og rakel dóttur þeirra. Biggi nielsen ásamt Þór, föður sínum og hljómsveit. reggie Óðins og hljómsveit hitaði upp bæði kvöldin.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.