Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 16

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 16
16 Eyjafréttir / Miðvikudagur 27. júlí 2016 „Ég var kominn í matrósafötin með hvítan sjóliðabát á höfði, flautu í brjóstvasanum og í svörtum skóm á leið í bekkjarbílinn. Mamma var að taka saman það síðasta sem vantaði í tjaldið sem var klárt í Skvísusundi í Herjólfsdal. Pönnukökur og tertur til að hafa í tjaldinu eftir setninguna en sr. Jóhann Hlíðar átti að messa í Dalnum og Stebbi pól var kynnirinn eins og allar þjóðhátíðar sem ég mundi eftir,“ segir Ásmundur Friðriksson, alþingismaður. „Ég tók strigapoka sem afi í Stakkholti hafði safnað saman fyrir mig og það voru 10-15 stigapokar settir í einn. Ég ætlaði að vera duglegur að safna tómum kók- flöskum og strigapokarnir voru upplagðir sekkir til að fela þær í tjaldinu og ferðast með þær heim úr Dalnum. Það var mikill spenningur þegar við loks vorum tilbúin og við löbbuðum austur Vestmannabraut- ina frá Stakkholti að Höllinni, en þar stoppaði bekkjarbíllinn. Ég var að fara úr límingunum, hvaða bíl fengjum við en þeir voru misjafnir, sumir flottari en aðrir og þeir voru flestir með bekki á pallinum og trégrind klædda með segli. Einstaka voru með tónlist á pallinum og það var mjög spennandi. Þegar bekkjarbíllinn stoppaði kom mikið hviss-hljóð og margir kipptust við. Þetta var fyrsti vörubíllinn með loftbremsum í Eyjum og menn kunnu bara ekkert á þessa nýju tækni. Pabbi borgaði fyrir alla í bekkjarbílinn og við stigum upp tröppurnar og ég settist aftast því það var svo skemmtilegt að horfa niður og sjá götuna þjóta hjá og heyra brakið í trégrindinni þegar bekkjarbíllinn keyrði yfir djúpar holurnar þegar við ókum vestur Hásteinsveginn og inn í Dal. Það var oft stoppað á leiðinni að taka upp fólk en á þessum árum áttu fáir fólksbíla í Eyjum. Stórt og mikilfenglegt Þjóhátíðar- hliðið blasti við þegar bekkjarbíll- inn sveigði inn á bílaplanið og við litum alla fegurðina, maður minn hvernig fóru þeir að þessu karlarnir! Það var flaggað uppi á Molda og Blátindi og þar á milli var lína með flöggum yfir miðjum Dalnum. Myllan stórkostlega stóð undir Fjósakletti sem virkaði lítill vegna stærðar brennunnar sem búið var að stafla og binda saman hátt til himins. Það var veðjað um hvað brennan stæði lengi og hvort hún logaði fram á laugardagskvöld. Ljósaskreytingar kringum Tjörnina og yfir hana miðja var brú, já brú sem hægt var að ganga yfir og voru farnar margar ferðir til að missa ekki af þeirri einstöku reynslu. Sviðið sem sneri upp í brekkuna var alsett ljósum en var síðan snúið inn á danspallinn sem var girtur hárri girðingu. Aðgangseyrir að danspall- inum var það sem borgað var fyrir til að vera á þjóðhátíð og þar var tjúttað fram á morgun allar nætur. Maður varð að halda stillingu sinni fram yfir setningu hátíðarinnar og þegar veislan var búin í tjaldinu var tekið til óspilltra málanna að safna tómum flöskum. Þeim fjölgaði þegar leið á daginn. Maður var alstaðar að sniglast og þegar maður sá einhverja karla vera að tala saman, stinga saman flöskum og skála og það var lítið eftir fylgdi maður þeim eins og skugginn þangað til þeir hentu tómri flöskunni í grasið. Þá var maður fljótur að grípa flöskuna og reglulega var haldið með fenginn inn í tjald og flöskurnar settar í strigapoka undir sófanum í tjaldinu svo enginn kæmist í verðmætin. Föstudagskvöldið var magnað, en þá máttum við vera í Dalnum framyfir brennuna. Það var mikil dýrð að vera vitni af því þegar húmið gekk yfir og ljósin í öllum regnbogans litum tóku að lifna við og að lokum sköpuðu þau þessa einkennilegu stemningu. Á sviðinu kynnti Stebbi pól þá Árna Tryggva- son og Bessa Bjarnason sem léku kafla úr Dýrunum í Hálsaskógi og Guðrún Á Símonar óperusöngkona tók lagið á eftir Samkórnum. Þetta var toppurinn í skemmtanabrans- anum á Íslandi og síðan sló hljómsveit Ólafs Gauks allt út á pallinum fram á nótt. Sviðið var svo lítið að Samkórinn rétt komst þar allur fyrir og fólkið í brekkunni sem mér fannst vera hálfur heimurinn var aðeins lítið brot af því sem við þekkjum í dag. Í mínum huga var rödd Stefáns Árnasonar, Stebba pól einkenni þjóðhátíðar. Hann var kynnir á þjóðhátíð Vestmannaeyinga svo lengi sem elstu menn höfðu munað á þessum árum. Halló, halló, halló, heyrðist kallað í gjallarhornið og síðar míkrafóninn. Sterk rödd Stebba pól var svo sérstök að hún gleymist mér aldrei og þegar ég hugsa um þessa stund ómar röddin í höfðinu á mér. Kannski er það vegna slyss sem varð þegar flugeldur skaust úr bátabyssu og lenti í höfði gamallar konu í miðri mannþrönginni sem var að fylgjast með flugeldasýningu við upphaf brennunnar. Þá var það svo ógnvænlegt þegar Stebbi pól kallaði í sífellu af öllum kröftum í míkrafóninn, halló, halló, er læknir í Dalnum, halló, halló, er læknir í Dalnum og var endurtekið mjög oft og lengi. Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað hættu eða ógn og það var farið með mig upp í tjald til að vera ekki fyrir eða verða vitni af einhverju sem væri engum holt. Slysið hafði áhrif á alla en gamla konan lifði af en varð aldrei söm, hún var amma æsku- vinar míns og við tókum þetta mjög nærri okkur. Siggi Reim var toppurinn Toppurinn var þegar brennukóngn- um Sigga Reim var ekið hringinn í kringum tjörnina á leið upp á Fjósaklett að tendra brennuna. Við stóðum við vatnspóstinn og þegar eldurinn læsti sig um Brennuna og brennupeyjarnir skvettu olíu varð mikill bálköstur og hitinn sleikti vangann á rjóðum kinnum lítils peyja sem var orðinn þreyttur eftir langan og spennandi dag. Nú var hann kominn í vinnufötin enda dugði ekkert minna til að safna flöskum um alla brekkuna og milli tjalda. Margir karlar voru orðnir hressari og gáfu stundum 100 kall ef gjafmildin var komin yfir þá eins og algengt var og við kunnum að taka á móti og meta slíkar gjafir. Það var síðan þungur burður að dröslast með tvo til þrjá strigapoka fulla af þungum glerflöskum í bekkjarbílinn þegar miðnættið var liðið. Eftir að hafa fengið að borða í tjaldinu, lunda, kaldar kótilettur og flatkökur með hangiketi fóru mamma og pabbi með mig heim og bekkjarbíllinn stoppaði við Stakkholtið enda töluverður flutningur af strigapokum fullum af flöskum. Við drógum pokana inn í kjallarann í Stakkholti þar sem enginn komst í þá og á mánudegi eftir þjóðhátíð voru oft 10 til 15 strigapokar fullir af flöskum sem gáfu vel í aðra hönd og þegar hundraðkörlunum sem settir voru í lófann var bætt við varð hluturinn eftir þjóðhátíð verulega góður. Það sem stendur uppúr er hvað fólkið var samtaka um að skemmta sér og eiga góðar stundir saman. Við vorum eins og ein fjölskylda og engin stéttaskipting og allir voru velkomnir í tjöldin. Ég upplifði þjóðhátíðina eins í dag, að gestrisni, söngur og hlýja berst úr hverju tjaldi og við höldum í grunngildin að þjóðhátíðin sé fjölskylduhátíð sem sé opin öllum. Við ættum að standa vörð um þjóhátíðina eins og hún birtist mér sem barni þá mun hún lifa önnur 140 ár með sæmd. Það má hljóma barnalega en ef við höldum í barnið í okkur fer þjóðfélagið líka vel,“ Ásmundur Friðriksson, alþingis- maður. Ásmundur Friðriksson, alþingismaður :: Barnslegar minningar um þjóðhátíð: Bekkjabílar, lundi og kaldar kótilettur „Ég hef alltaf litið á þjóðhátíð Vestmannaeyja sem fjölskylduhátíð þar sem fólk safnast saman og hefur gaman. Auðvitað hefur hún breyst í tímans rás eins og allt annað en fjölskyldubragurinn hjá heimafólki er alltaf sá sami,“ segir Ólöf Jóna Þórarinsdóttir Eyjakona og aðstoðarútibússtjóri Landsbankans í Eyjum. „ÍBV hefur alltaf staðið vel að hátíðinni og það er til sóma hvað sjálfboðaliðar hafa gert mikið gagn til að þjóðhátíðin geti orðið að veruleika. Auðvitað vitum við að þetta er góð fjáröflun fyrir ÍBV en þetta kemur ekkert af sjálfu sér og er ekki ókeypis. Umræðan síðustu daga hefur ekki verið skemmtileg og spurning hvernær fólk gefst upp á neikvæðninni. Hvað tekur þá við? En eins og ég hef alltaf sagt: Þrátt fyrir böl og alheimsstríð, þá verður haldin þjóðhátíð. Gleðilega þjóðhátíð,“ sagði Ólöf. Ólöf Jóna Eyjakona og aðstoðarútibússtjóri Landsbankans í Eyjum: Þrátt fyrir böl og al- heimsstríð, þá verð- ur haldin þjóðhátíð Ólöf með fjölskyldunni á þjóðhátíð fyrir nokkrum árum. Faðir hennar Lalli á Sæfaxa og mamma hennar Benna frá Búrfelli, Kristín systir henar og dóttir Kristínar, Elísabet Íris Þórisdóttir og Ólaf Unadóttir, amma Ólafar sem hún var skýrð eftir. Ási hélt hátíðræðu á Þjóðhátíð 2013. Hér er hann ásamt Jóhanni Péturssyni, Kristjáni Björnsson og Bjarna Ólafi Guðmundssyni.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.