Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 21.09.2016, Blaðsíða 11

Fréttir - Eyjafréttir - 21.09.2016, Blaðsíða 11
11Eyjafréttir / Miðvikudagur 21. september 2016 :: Saga fjölskyldu sem er að reyna að koma föðurnum í varanlega vistun fyrir heilabilaða :: Er aðeins 59 ára :: Þarf orðið á umönnun að halda og þá hófst baráttan :: Lentu á vegg á öllum stöðum :: Eina svarið var, svona er bara kerfið! :: Í dag er Alzheimerdagurinn. Alzheimer er andstyggilegur sjúkdómur þar sem fólk týnir sjálfu sér og aðstandendur missa persónuna sem þau þekktu. Að missa stjórn á eigin lífi er eitthvað sem enginn vill upplifa eða horfa upp á fjöl- skyldumeðlim lenda í. Þórdís Gyða Magnúsdóttir og fjölskylda hafa því miður fengið að kynnast þessum sjúkdómi í gegnum föður sinn Magnús Guðmundsson, en hann greindist 58 ára gamall og í hans tilviki hefur sjúkdómurinn sótt harkalega að honum. Nú þegar hann þarf orðið á umönnun að halda hefst baráttan við kerfið. Þann 2. ágúst síðastliðinn fór Magnús í neyðarhvíldarinnlögn á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Ástand hans hafði farið hrakandi og þurfti fjölskyldan á hjálp að halda eins og gerist fyrir aðstandendur þeirra sem þennan sjúkdóm bera. „Á þessum tímapunkti fór allt af stað, því þarna var orðið ljóst að hann gæti ekki verið lengur heima enda orðinn mjög veikur. Við fórum að fylla út pappíra um varanlega vistun fyrir pabba sem fólk uppá spítala hjálpaði okkur með. Við fylltum út vistunarmat og það sent inn. Út frá því byrja hringingarnar til færni- og heilsufarsnefndar. Anna Kristín, systir var dugleg að hringja og spyrjast fyrir, bæði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hjá færni- og heilsufarsnefnd. Ekkert var um svör annað en að það væri ekki búið að meta hann og þá væri ekkert hægt að gera í málunum. Eftir langa bið og margar símhringingar fengum við loksins það í gegn að vistunarmatið væri komið. Matið mældist mjög hátt og þá var það staðfest að hann ætti að vera inni á viðeigandi stofnun,“ sagði Þórdís Gyða. Kvöddu með tárum Þetta varð til þess að 24. ágúst sl. komst Magnús í þriggja vikna hvíldarinnlögn á Mörk í Reykjavík sem er vistun fyrir heilabilaða. „Ég, mamma og Anna Kristín systir mín fylgdum honum alla leið inn á deildina og við fengum ekkert annað en hlýju og gott viðmót þegar við komum. Pabbi fékk stórt og gott herbergi með sérbaðherbergi og góðu útsýni. Þetta var mikill léttir og vorum við sáttar við þetta og pabbi virtist ánægður. Við áttum mjög erfitt með að kveðja hann og löbbuðum út með tárin í augunum. Mjög sérstakt að skilja hann eftir á ókunnum stað með ókunnugu fólki og labba bara út, treysta og trúa því að fólkið hugsi vel um hann og að honum líði vel. Þegar við töluðum við starfsmenn deildarinnar þegar líða tók á dvölina var pabbi ekkert annað en ljúf- mennskan, rólegur og við sáum það að honum leið vel. Hann var ekki eins hokinn og áður, hann var farinn að labba hraðar, brosa og tala meira en hann gerði. Þannig að það eru ekkert nema kostir sem við sjáum við þessa dvöl hans á Mörkinni. Starfsfólkið er til sóma og vill allt fyrir okkur gera, algjörir gull- molar,“ sagði Þórdís Gyða. Ekki varanleg vistun í Vest- mannaeyjum Næsta skref fyrir fjölskylduna var að fara og reyna fá varanlega vistun fyrir Magnús sem mundi henta honum. „Við ákváðum að tala við starfsmenn spítalans hér í Eyjum til að kanna stöðu mála. Við vildum líka útskýra okkar hlið af hverju pabbi ætti ekki að vera upp á spítala eða á Hraunbúðum. Spítalinn er hreinlega ekki nógu vel mannaður og deildirnar opnar þannig pabbi kæmist alltaf út sem getur verið hættulegt. Hraunbúðir eru ekki fyrir 59 ára gamlan mann til að búa á þó þau séu tilbúin að taka á móti honum. Þetta er elliheimili og ekki það umhverfi sem okkur langar að hann fari í. Komumst við að þeirri niðurstöðu, að hann ætti að vera inni á stofnun fyrir heilabilaða þar sem er læst hurð, nógu mikið af starfsfólki, og eflandi dagskrá fyrir fólk með hans sjúkdóm sem því miður er bara ekki í boði í Vest- mannaeyjum,“ sagði Þórdís Gyða. Skrá sig inn á bráðamóttöku Eftir þennan fund komu þau svör að Magnús væri í forgangi á biðlista þar sem hann væri svo ungur. „En til þess að koma honum inn í kerfið þá þyrftum við að byrja á því að fara með hann á bráðamóttökuna í Reykjavík eftir dvölina hans á Mörk. Við löbbuðum út í smá sjokki. Er kerfið okkar svona brenglað, að við neyðumst til að fara með fárveikan pabba okkar sem veit ekki einu sinni hvar hann á heima upp á bráðamóttöku. Við fjölskyldan töluðum mikið saman og reyndum eins og við gátum að hringja í færni- og heilsufarsnefnd og á marga aðra staði til þess að koma í veg fyrir að við þyrftum að fara með hann á bráðamóttökuna. Við lentum á vegg á öllum stöðum sem við hringdum á eða vorum í sambandi við og eina svarið var, svona er bara kerfið!“ Baráttan við kerfið kom á óvart Dagarnir eftir þessa niðurstöðu voru erfiðir. „Mörg tár féllu og reyndum við að átta okkur á aðstæðum. Þetta er búið að ganga svo hratt allt saman að við náum nánast ekki að jafna okkur á einum hlut þegar næsta vandamál kemur upp. Mér datt aldrei í hug að við þyrftum að berjast við kerfið á slíkan hátt eins og við erum búin að vera að gera. Máttur samfélagsmiðlanna mikill Eina sem fjölskyldan sá í stöðunni var að leita út í samfélagið, athuga hvort það væri hægt að vekja athygli á hans aðstæðum og fá þannig hjálp, hvort einhver þekkti einhvern. Það reyndist fjölskyldunni vel að vekja athygli á þessu. Máttur samfélagsmiðlanna er það mikill að allskonar fólk hafði samband við fjölskylduna og vildi hjálpa til. Skilaboðin komust til æðstu manna og tímabundin lausn fannst. Magnús fékk lengri vistun á Mörk eða fjórar vikur og á þeim tíma ætlar fjölskyldan að finna honum endanlegan samastað. „Pabbi á fullan rétt á bestu mögulegu aðstoð sem völ er á. Hann á að vera á deild fyrir heilabilaða, hafa aðstoð allan sólarhringinn með læsta hurð. Draumurinn er að hann færi inn á deild fyrir 67 ára og yngri, en það virðist vera að þeim hafi fækkað eða fyllt upp í með eldra fólki. Ég vona svo innilega að við finnum stað sem hentar honum og að honum eigi eftir að líða vel á “ sagði Þórdís að lokum. Þórdís Gyða og pabbi hennar Magnús gera sig klár fyrir brúðkaupið hennar sem var haldið 18. júní síðastliðinn. Að þurfa að gera þessar ráðstafanir með pabba, fara til Reykjavíkur, er eitthvað sem við bjuggumst aldrei við. Okkur langar mjög mikið til þess að hafa hann hér heima í Eyjum. Það var því mjög erfitt að taka þessa ákvörðun um það að senda hann varanlega til Reykjavíkur. ” Sara SjöFn GrETTiSdÓTTir sarasjofn@eyjafrettir.is

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.