Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 09.11.2016, Blaðsíða 14

Fréttir - Eyjafréttir - 09.11.2016, Blaðsíða 14
14 Eyjafréttir / Miðvikudagur 9. nóvember 2016 Kubbur ehf. er endurvinnslu- fyrirtæki sem starfar í Vest- mannaeyjabæ, Hafnarfirði og Ísafjarðarbæ. Fyrirtækið hóf starfsemi árið 2011 og er það stefna fyrirtækisins að flokkun sorps og endurvinnsla verði til þess að samfélagið geti skipað sér sess meðal þeirra bestu sem virða umhverfi sitt og bera virðingu fyrir náttúrunni. Kubbur tók við rekstri á sorphirðu í Vestmannaeyjum 1. október 2012 og hefur frá þeim degi gegnt því starfi. Samningurinn hljóðar upp á fimm ár með möguleika á framlengingu um tvö ár. Allt sorp sem fellur til í Vestmanna- eyjum er því flokkað og það sem ekki fer í endurvinnslu, til endur- nýtingar eða frekari úrvinnslu hefur verið flutt í sorpeyðingarstöðina Kölku í Reykjanesbæ til brennslu en síðustu mánuði hefur það farið í Sorpu. Endurvinnsluhluti sorpsins er ýmist baggaður til útflutnings eða fluttur til endurvinnslu eða nýtingar innanlands. Aðspurður út í eftirlitsmælingar og annað slíkt segir Helgi Hjálmars- son, rekstrarstjóri Kubbs í Vest- mannaeyjum, fyrirtækið alltaf koma vel út. „Það eru margir sem hafa eftirlit með okkur, Heilbrigðiseftir- litið, Framkvæmda- og hafnarráðið og Vinnueftirlitið og þetta hefur alla tíð bara gengið mjög vel,“ segir Helgi. Allt lífrænt sorp unnið innan sólarhrings Einn hluti starfseminnar er moltugerð en hún fer fram í gryfjunni austan við húsið. Aðstæður eru þannig að lífræna sorpinu er komið fyrir í haug og er vélin mötuð í skömmtum. „Það kemst ekki allt í hana í einu en efnið er unnið innan við sólarhring frá því það kemur. Það sem kemur úr vélinni bætum við í kurli, timbur- kurli og stoðefnum og síðan heldur það áfram að jarðgerast en það tekur mjög langan tíma að hafa moltuna fullbúna. Bærinn á moltuna og hefur hann verið að nota hana í Eldfellið og svo hafa einstaklingar fengið að koma og taka, en það er bara lítið enda er þetta stoðefni við moldina,“ segir Helgi. Lyktin niðri í gryfjunni er ekki góð eins og gefur að skilja og færist hún yfir svæðið eftir því sem vindar, enda haugurinn undir beru lofti. Er ekki mögulegt að ráðstafa hlutum öðruvísi, hafa sorpið innandyra á meðan það bíður afgreiðslu? „Það liggur í hlutarins eðli að lyktin er slæm og eftir því sem ég best veit er svona lagað hvergi inni í húsi,“ segir Helgi. Þegar sorpmál eru rædd, eins og gerist annað slagið í nútímasam- félagi sem flokkar, kemur nánast undantekningalaust til tals orðróm- ur um að sorpið sé ekki flokkað samviskusamlega þegar það kemur á leiðarenda, að því sé hreinlega sturtað saman í einn haug. Slíkan orðróm kannast Helgi við eftir að starfað í þessum geira um árabil. „Ég hef heyrt þennan orðróm og svona er þetta alls staðar á landinu. Ef þetta væri eitthvað annað en orðrómar fengi ég skammir, ég gæti hvorki boðið vinnuveitandanum né bænum upp á það að flokka ekki. Ég þyrfti bara að finna mér eitthvað annað að gera. Núna er t.d. verið að safna úr grænu tunnunum í bænum og við förum með það beint í bílnum suður, strax í fyrramálið. Allt efnið fer í Hafnafjörð og þar er það flokkað nánar,“ segir Helgi og bætir við að pokinn fyrir glerið má fara við hliðina á tunnunum, alls ekki ofan í þær. „Það er fólk sem er að flokka þetta og þú getur ímynda þér hvað það er hættulegt að vasast í glerbrotum, tala nú ekki um sprautunálar eins og hefur gerst,“ segir Helgi. Það er s.s. ekki stórt sorpsamsæri í gangi? „Nei, ekki að mér vitandi allavega,“ segir Helgi og hlær. „Ég var í Vík í Mýrdal um daginn og heyrði nákvæmlega sömu söguna þar. Sumir vilja bara ekki trúa öðru og það eru oftast nær þeir sem nenna ekki að flokka, þeim finnst bara fínt að segja þetta. Það er alveg magnað að fólk haldi þetta, ég hef boðið fólki að koma upp eftir en það kemur aldrei. Það væri til lítils að vera með alla þessa gáma á svæðinu ef þessu væri síðan bara hent í sömu hrúguna,“ segir Helgi. Gler urðað á Íslandi En hvað er gert við glerið? „Það er ekki endurunnið á Íslandi og ekki sent út heldur. Það kostar bara svo óskaplega mikinn pening að fylla skip af gleri og senda til útlanda. Gler er þess vegna urðað á Íslandi, það er óvirkur úrgangur og mengar ekki og hefur að auki góðan burð. Glerið er mikið notað í landfyll- ingar og einnig vegagerð, þá er það mulið og notað sem undirburður,“ segir Helgi. Í Vestmannaeyjum er þessi svokallaði óvirki úrgangur urðaður, svo sem gler, jarðvegur og hvers kyns steinsteypa. „Það er land- mótunaráætlun í gangi í Eldfells- gryfjunni, það á s.s. að móta hana svipað og hún var áður en farið var að moka upp úr henni. Það mun bætast smám saman í hana þangað til hún verður ekki gryfja lengur. Hvað gerist eftir það veit ég ekki en það er nóg pláss eftir eins og er,“ segir Helgi. Úr skorðum á álagstímum Hvað með heimilin, hvernig standa þau sig í flokkuninni? „Í flestum tilfellum er hún fín, langoftast en hún hættir að vera fín á ákveðnum álagstímum, á Þjóðhátíð, um Goslokahátíð og yfir fótboltamótin, þá hættir hún að vera fín. Ástæðan er líklega sú að margir eru að leigja út hús og íbúðir og þeir sem eru að leigja eru ekkert að hugsa um að flokka. Það er t.d. einn sem býr við Hásteinsveginn, tunnurnar hans eru við gangstéttina og á Þjóðhátíðinni voru tunnurnar bara fullar af rusli eftir gangandi vegfarendur sem áttu leið framhjá. En öllu jöfnu er flokkunin fín þó alltaf megi betur gera. Stóra málið er að hafa endurvinnsluefni sem endurvinnslu- efni, ekki setja rusl með því. Það er allt of algengt að fólk seti ruslapoka í endurvinnslutunnuna,“ segir Helgi. Skola allt sem fer í endur- vinnslutunnur Það kann að hljóma mótsagnakennt að þurfa að nota plastpoka utan um endurvinnsluefnið þegar verið er að reyna að minnka plastnotkun almennt. Er það skylda? „Við gerum kröfu um að það sé plastpoki utan um plastið og járndósirnar. Pappírinn má fara laus í tunnuna. Þetta er fyrst og fremst til þess að skilja á milli pappa og plasts svo það sé auðveldara að flokka þetta í stað þess að hafa þetta í belg og biðu,“ segir Helgi og bætir við að nauðsynlegt sé að skola úr öllu því sem fer í endurvinnslutunnuna. „Það verður að skola hlutina ef þeir eru skítugir, t.d. mjólkurfernur og skyrdósir. Það er krafa um það en það eru ekki allir sem gera það, því miður. Þú getur ímyndað þér hvernig þetta efni verður þegar það kemur til Reykjavíkur, kannski hálfs mánaðar gamalt, búið að vera í viku í tunnu og viku í bílnum okkar. Það er varla endurvinnsluefni lengur heldur bara rusl,“ segir Helgi. Plastið hættulegt Plast sem slíkt er ein helsta umhverfisvá heimsins og er þörf á sameiginlegu átaki í því að minnka notkun þess eins mikið og hægt er, en ólíkt glerinu sem er óvirkur úrgangur þá er plastið mengandi fyrir náttúruna. Á vefsíðu Um- hverfisstofnunar segir: „Plast er framleitt úr olíu og þarf u.þ.b. tvö tonn af olíu til að framleiða eitt tonn af plasti. Niðurbrot plasts tekur hundruði ára og safnast það því upp á urðunarstöðum við förgun. Plast brotnar mjög hægt niður en þess í stað molnar það og dreifist um umhverfið. Stór hluti plasts berst út í haf með regni, vindi eða ám. Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna. Til að draga úr mengun og forðast óþarfa sóun auðlinda er mikilvægt að endur- vinna eins mikið af plasti og mögulegt er. Til að hægt sé að búa til nothæfa afurð þarf að aðskilja ólíkar plasttegundir. Endurvinnslu- eða móttökuaðilar sjá yfirleitt um það. Neytendur ættu þó að vera meðvitaðir um mismunandi tegundir plasts því þær henta misvel til endurvinnslu og hafa ólík áhrif á umhverfið. Forsenda þess að hægt sé að flokka umbúðir rétt er að þær séu merktar á viðeigandi hátt. Merkingar eru ýmist grafnar á umbúðirnar sjálfar eða festar á með merkimiða. ... Plasti er skipt upp í 19 tegundir sem númeraðar eru frá eitt upp í sjö. Innan flokks nr. sjö rúmast 13 tegundir og hentar sá flokkur því illa til endurvinnslu.“ Plast er ekki bara plast Það er því ljóst að plast er ekki bara plast ef tekið er tillit til þeirra 19 tegunda sem það getur flokkast undir. En hvað snýr að neytendum varðandi flokkun plasts? „Á meðan það er þríhyrningur þá á að flokka það sem plast og sömuleiðis hefðbundna plastpoka, þeir hafa ekki gert neinar athugasemdir við þá þó þeir séu ekki merktir þríhyrningi. Aðalatriðið er fyrst og síðast að það sem fer í endurvinnslu sé hreint. Þú kaupir ekki læris- sneiðar úti í kaupfélagi, tekur plastið af og setur í endurvinnslu- tunnu, það er blóðugt og fer frekar með almennu sorpi nema það sé skolað. Sama á við um stór dýrabein eins og lambalæri, þau mega ekki í moltuvélina og fara þess vegna í almennt sorp,“ segir Helgi. Óheppileg staðsetning Þó margt sé vel af verki staðið í sorpmálum í Eyjum er ýmislegt sem betur má fara að mati Helga. „Það koma 22 þúsund bílar með rusl til okkar á ári og þegar stöðinni var valinn staður á sínum tíma þá var sú staðsetning greinilega ekki sú besta í heiminum því ef það blæs, þá blæs þarna. Þó það sé þokkalegt veður niðri í bæ þá getu verið mjög mikill vindur uppfrá hjá okkur og þegar fólk ætlar að fara með drasl á kerru eða opnum pallbíl þá fýkur þetta um allt þegar komið er í FES brekkuna. Síðan þegar fólkið er komið til okkar þá fýkur einnig drasl út um allt svæðið. Ég sendi menn einu sinni í viku í kringum svæðið fyrir neðan til að tína drasl en það dugar ekki til. Fólk þarf að ganga betur frá þessu og eins ef það er brjálað veður þá á það ekkert að koma með drasl upp eftir,“ segir Helgi. En það er ekki það eina sem truflar þá uppi í Sorpu. „Það er opið hjá okkur frá tíu á morgnanna til sex á daginn og frá ellefu til fjögur um helgar en það er mikil traffík þarna eftir lokun. Fólk veigrar sér ekkert við að fara innfyrir til að henda rusli eða ná sér í rusl. Stóra vandamálið við það er að fólk setur oft ekki í rétta gáma af því það er enginn starfsmaður eða bara af því það er hentugast að henda í þann gám sem er næst því. Það kemur oft í ljós ull og alls konar rusl þegar á að taka fyrir pappann, það þýðir að við þurfum að fara ofan í gryfjuna og tína upp ruslið. Þetta tvennt er vandamál og allt of algengt þó langflestir séu löghlýðnir,“ segir Helgi. Samgöngur hafa áhrif Samgöngur hafa einnig áhrif á starfsemi Kubbs eins og aðra starfsemi í bænum en það er mikið af endurvinnsluefni eins og dekk, járn og litað timbur sem kemst ekki yfir og þarf því að bíða lengi á svæðinu. „Þú getur ímyndað þér hvernig það er að fara með 14 metra langan vagn yfir sumartímann þegar það er erfitt að komast bara sem farþegi. Þetta er mikill Akkilesar- hæll,“ segir Helgi og veltir fyrir sér hvort það sé minni mengun að flytja allt þetta sorp heldur en að brenna það hér í Eyjum. „Stórir trukkar sem þurfa að fara í Herjólf og keyra um allt land og eyðileggja vegina, ég er ekki viss um að það mengi minna. Ég veit að sorpbrennsla er dýr en ef menn hugsa til framtíðar þá verður enn rusl hérna eftir 30 ár. Það vantar bara kjark til að ráðast í alvöru framkvæmdir,“ segir Helgi. :: Sorpmál í Vestmannaeyjum :: Undir ströngu eftirliti :: Flokkað alla leið :: Urðað, unnið í moltu og sent upp á land :: 22 þúsund bílar með rusl á ári :: Sorpbrennsla það sem koma skal, segir rekstrarstjóri Kubbs í Eyjum :: Athafnasvæði Kubbs í Vestmannaeyjum. Helgi Hjálmarsson rekstrarstjóri Kubbs.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.