Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 23.11.2016, Blaðsíða 12

Fréttir - Eyjafréttir - 23.11.2016, Blaðsíða 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 23. nóvember 2016 Stöku sinnum bregður fyrir í Elliðaárdal eldriborgara á níræðisaldri, sportlega klæddum með derhúfu og myndavél sér við hönd. Hann gengur athugull, kvikur í hreyfingum um dalinn og les í náttúruna ekki síst fuglalífið og spáir í form og liti. Það lítur út fyrir að maðurinn sé í fullu fjöri og augljóst mál að hann lifir fyrir starfið með ástríðu í blóðinu. Þegar betur er að gáð er hér á ferð Páll kvikmyndari sem framleitt hefur hátt í sjötíu heimildarmyndir um einstaka náttúru og fuglalíf í öllum heimsálfum auk mynda um líf og starf sérstakra persóna. Náttúrulífs- myndir öldungsins eru sýndar á þekktum sjónvarpsstöðvum víðsvegar um heim. Þær opna milljónum jarðarbúa sýn inn í töfraveröld sem þeir fengju ella ekki að kynnast í lífinu. Þannig miðlar Páll fegurð sköpunarverksins á mannbætandi hátt. Páll Steingrímsson er Vestmannaeyingur í húð og hár, fæddur Alþingishá- tíðarárið 1930. Hann elst frjálslega upp ásamt fimm bræðrum sínum í náttúruparadís og forvitinn stráksi missir tímaskyn við leik; sprang í klettum, stapp í fjörupollum eða að fleyta kerlingum í sjóinn - kemur seint heim á kvöldin. Unglingurinn sækist eftir að komast á lundaveiðar, í eggjatöku eða fara til sjós. Að loknu kennaranámi er ævintýraþrá og flökkueðli unga mannsins svalað í Kanada, hálft annað ár við margskonar störf. Síðan kennir Páll teikningu og náttúrufræði í heimabæ sínum og stofnar á eigin reikning myndlistarskóla. Hann nýtur þess ríkulega að kenna börnum. Af tilviljun gerist kennarinn leiðsögumaður þýska ljósmyndarans Her- manns Schlenker, í ferðum hans um landið og kaupir myndavél meistarans og þá hefst ljósmyndadella. Áratug síðar kemur Hermann aftur til landsins með kvikmyndatökuvél og sagan endurtekur sig. Ekki verður aftur snúið og Páll kyssir konu og börn og heldur til náms við New York University í kvikmyndagerð. Skömmu eftir heimkomuna hefst eldgos í Heimaey og næg verkefni framundan að mynda náttúruhamfarirnar. Úr verður heimildarmyndin Eldeyjan sem hlýtur gullverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Atlanta. Þar með nær verðlaunahafinn flugi og stofnar Kvik og hefur framleiðslu á heim- ildarmyndum sem margar hverjar fá verðlaun og viðurkenningar á kvikmyndahátíðum. Með sanni má segja að Eyjapeyinn hafi ekki getað fengið meiri lífsfyllingu í lífinu. Ármann Reynisson Hvalfjörður og Vestmannaeyjar eiga það sameiginlegt að þar hafa gerst heimssögulegir atburðir og eru sögur í Vinjettum XVI tengdar þessum slóðum. Einnig fjalla nokkrar sögur um óvenjuleg atvik sem koma upp í lífinu. Auk þess eru portrett-vinjettur af stóbrotnum og skapandi persónum sem setja sinn svip á þjóðlífið en þeim hefur Ármann Reynisson kynnst á lífsleiðinni. Meðal þeirra er Páll Steingrímsson, lífskúnstner, kennari og kvikmynda- gerðarmaður. Það er mikið sem liggur eftir Pál í listaverkum, kvikmyndum og ekki síðast en ekki síst þau gullkorn sem hann skilur eftir sig í hugum fólks sem varð honum samferða í lífinu og naut þeirra forréttinda að kynnast honum. Nú er Palli Steingríms genginn á vit forfeðranna og er örugglega farinn að setja mark sitt á umhverfið með sannfæringarkrafti sínum og ástríðu fyrir því sem honum er hugleikið. Okkur fannst vel við hæfi að fá lánaðan þennan texta úr nýjustu Vinjettu Ármanns sem tekst með sínum einstaka stíl sem er í senn knappur, ljóðrænn og þó raunsær og vekjandi að koma honum Palla okkar til skila. Myndirnar tók svo samherji og vinur Palla, Sigurgeir Jónasson frá Skuld, ljósmyndari og lífskúnstner eins og vinur hans. Ó.G. Fegurð Eyjanna, stórbrotin náttúran og sérstætt mannlífið mótar hvern snáða og snót sem elst þar upp. Páll Steingrímsson drakk þetta einstæða samspil í sig með móðurmjólkinni og Vestmannaeyjar allar, eyjar og sker voru athafnavæði hans ævina út. Hann velti sér í grasinu í Hellisey, fetaði bergið, skúta fyrir skúta og syllu fyrir syllu og stakk sér til sunds af Steðjanum frjáls eins og fuglinn. Hann skall í kaldan sjóinn og skaust upp á yfirborðið á Pollinum miðjum þar sem hann var eins og Palli einn í heiminum. Hann átti þetta allt, undur náttúrunnar, hugur hans og ástríða var náttúran og hann sjálfur mesta náttúruundrið og einn fárra sona Eyjanna sem lifað hefur samkvæmt lögmálum náttúrunnar og helgað lífi sínu og starfi baráttunni fyrir lögmálum hennar og vernd. Hann hefur opnað augu umheimsins fyrir einstæðri náttúru Íslands og lífi sem fáir vissu að væru til með fræðslumyndum sínum sem hlotið hafa alþjóðlegar viðurkenningar. Ég kynntist honum 15 ára þegar hann tók mig í Myndlistarfélag Vestmannaeyja og síðar í vinnuhóp við gerð klippi- myndarðar um Tyrkjaránið. Það var mögnuð upplifun og Palli prímus mótor í einstakri stemningunni sem var honum svo lík. Umhverfið og mikilfengleiki sögu okkar var yrkisefnið sem hann kenndi okkur að virða og nýta til listrænnar sköpunar. Svo var hann kennarinn okkar í Gagnfræðaskólanum. Ógleymanlegur í náttúrufræðitím- unum og svo öðruvísi en allir aðrir kennarar. Hann lagðist á kennara- borðið og sagði okkur sögur. Tók okkur unglingana í 56 módelinu með sér inn í draumaheim og við öll, stödd í frumskógum Kanada með honum. Þar sem hann læddist eftir þröngum skógarstíg og við lækjarvað kom á móti honum bjarndýr. Við vöknuðum af draumnum þegar hann sagði ekkert að hræðast því bjarndýrið hafi verið tannlaust. Þannig var húmorinn, hann hræddist ekkert, skoraði jafnvel á Helga Ólafsson í skák á kennaraborðinu en fljótlega þegar Helgi sýndi tennurnar og heima- skítsmát blasti við stökk Palli frá skákborðinu og skipti um gír, hann kunni að koma með nýja vinkla á lífið og gera gott úr öllu. Jafnvel að tapa skák fyrir verðandi meistara varð eftirminnileg athöfn. Palli Steingríms var frjáls í fasi, með einstaka nærveru, smitandi hláturinn og brosið sem fyllti umhverfið, haltur, með húfu á höfðinu sem skreytt var skeggi, hann sveiflaði höndunum, leit hátt og skimaði í kringum sig og átti heiminn skuldlaust. Sannur Eyjamaður. Hann var að hugsa hvað hann gæti gert meira til að þakka Guði fyrir að hann fæddist í Eyjum, í fegurðinni sem fyllti líf hans endalausri gleði og uppátækjum sem hann á sinn einlæga hátt gerði samferðamenn sína þátttakendur í. Einstakri og ævintýralegri vegferð Páls Steingrímssonar er lokið og Hellisey stendur keik til minningar um góðan félaga. Palli Steingríms var frjáls þegar hann hljóp um bergið, stakk sér brosandi af Steðjanum inn í algleymið sem beið hans með nýjum náttúrulögmálum, tækifærum, og fegurð sem hann mun deila með öðrum, eins og hann gerði í því lífi sem hann hefur kvatt. Ég votta fjölskyldu Páls dýpstu samúð. Ásmundur Friðriksson Ármann Reynisson PÁLL STEINGRÍMSSON Fæddur 25. júlí 1930 – Dáinn 12. nóvember 2016 Í minningu Palla Steingríms Páll kvikmyndari LÍKNARKAFFIð

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.