Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 07.12.2016, Blaðsíða 12

Fréttir - Eyjafréttir - 07.12.2016, Blaðsíða 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 7. desember 2016 Árið er 1994. Óskar Pétursson er á miðjum fertugsaldri þegar hann greinist óvænt með alvarlegan sjúkdóm. Farsæll fatakaupmaður, kvæntur og faðir tveggja ungra barna stendur skyndilega frammi fyrir þeim ískalda möguleika að senn muni dagar hans taldir. Frá barnæsku hefur hann búið yfir djúpstæðu leyndarmáli og við að horfast í augu við dauðann fyllist hann knýja þörf fyrir að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Páll var meðal höfunda sem lásu upp úr verkum sínum í Eldheimum á Safnahelgi. Blaðsíður 29 til 38: „Ég er órólegur og það er að renna upp fyrir mér hversu vankaður ég hef verið undanfarna daga. Ég hef gónt á sjónvarpið nánast út í eitt. Ekki að það hafi skipt einhverju máli því ég hef naumast séð það sem ég horfði á – jú, stöku sinnum hefur brugðið fyrir atriðum í kvikmyndum eða framhaldsmynda- flokkum sem náð hafa í gegnum sljóleikann og snert einhverja tilfinningastrengi: Ungur maður með alnæmi á lokastigi er lagstur inn á sjúkrahús og veit að hann mun aldrei aftur komast út undir bert loft í þessu lífi … Miðaldra kona hefur um alllangt skeið barist hetjulega við krabbamein en er nú tilkynnt að hún eigi aðeins nokkra mánuði eftir … Og það hefur hvarflað að mér: Gæti ég verið í svipuðum sporum? Er eitthvað að gerast með mig sem ég meðtek ekki? En ég hef jafnskjótt ýtt slíkum hugsunum frá mér. Minningargreinarnar Í morgun var ég svo að myndast við að lesa Morgunblaðið, fletti því fram og aftur í leit að einhverju sem ég nennti að lesa. Brátt beindist athygli mín að minningargrein- unum. Þær fylltu fjórar opnur, ásamt innrömmuðum tilkynningum um andlát og útfarir, og síðan þakkarkveðjur fyrir auðsýnda samúð og vinarhug vegna andláts og útfarar. Með flestum þeirra fylgdi mynd af viðkomandi. Ég tók eftir því hvað þær voru misjafnar að gæðum; sumar hárskarpar og teknar af fagfólki á stofu, aðrar varla eða ekki í fókus og virtust jafnvel klipptar út úr stærri mynd úr fjölskyldualbúminu. Ein, já eða tvær, voru greinilega gamlar og sýndu ekki hin látnu undir það síðasta, heldur á einhverj- um ótilgreindum aldri, væntanlega í blóma lífsins, og ég velti fyrir mér hvort þetta myndaval, eitt og sér, segði ekki heilmikið um hvernig stöðu einstaklingsins í tilverunni hefði verið háttað, eða væri að minnsta kosti ákveðinn vitnisburður um afstöðu þeirra sem stóðu honum næst og eftir lifðu. Því næst las ég allar minningar- greinarnar, sem voru um sjö manneskjur á mismunandi aldri og misjafnlega margar um hverja. Ég las þær af mikilli og smám saman annars konar athygli en ég hef áður beitt við minningargreinar. Mér fannst ég skynja svo sterkt – hvort sem um var að ræða huglægt ákall syrgjanda eða hlutlæga lýsingu á lífshlaupi – að þetta væri það sem eftir stendur um flest fólk, ekki síst þegar frá líður. En á meðan ég las tók að örla á tilfinningu – og byrjaði reyndar sem seiðingur ofarlega í þindinni, rétt við sárið eftir krabbameinið sem húðstrimlar af hægra lærinu streðuðu við að græða – tilfinningu sem hafði mig allan á valdi sér þegar ég lagði frá mér blaðið og braust út í þöglu hrópi: Ég er að deyja! Enginn veit hver ég er Og um leið var ég sokkinn í stórkostlegt hugarvíl um hvernig mín verður minnst. Hvernig verða minningargreinarnar um mig? Hverjir munu skrifa þær? Hvað mun standa í þeim? Hvaða manneskju munu þær lýsa? Ég get svo sem alveg séð það fyrir mér. Það er ekki sérlega flókið. Það sem er flókið er að það verður ekki ég … Jújú, að einhverju leyti, auðvitað … En það verður samt ekki ég … Ekki ég í raun og veru ... Enginn veit hver ég er; enginn hefur mátt vita það; engum hefur nokkru sinni verið ætlað að fá að vita það. En núna þegar sannfæringin um yfirvofandi, nálægan dauða gagntekur mig og hugsunin fer í heljarstökkum afturábak og áfram um líf mitt verður það allt í einu mikilvægast af öllu að þetta leyndarmál fari ekki með mér í gröfina. Já, ég vil að það komi fram, vil að Davíð og Sara, sérstaklega þau, þekki mig eins og ég er. Þau eru of ung til þess að hægt sé að segja þeim frá þessu núna, en seinna eiga þau að fá að vita það. Það er mikilvægt fyrir þau; það er mikilvægt fyrir mig. Ég róast aðeins þegar ég geri mér grein fyrir að ég hef tekið ákvörð- un. Þótt ég viti ekki hvernig ég eigi að fara að því, þótt ég viti ekki hvar ég eigi að byrja, þótt ég viti ekki hvað eru aðalatriði, hvað aukaatriði, þá hlýt ég, þá verð ég að skrifa eftirmælin um mig sjálfur. ~ Ég sé mig bráðum sex ára. Það er myrkur … ------------------------------------ Kolsvartamyrkur – og ég þreifa varlega undir dýnuna, fullvissa mig um að sokkarnir séu þar sem ég laumaði þeim fyrr um daginn. Sting svo hausnum undan sænginni, halla mér fram yfir kojubríkina og legg við hlustir. Í fyrstu heyri ég ekkert, en í fjarlægð er kunnuglegt hljóð að fæðast og þegar bíllinn er kominn nógu nálægt húsinu smýgur ljósrák inn meðfram annarri hlið rúllugar- dínunnar, breiðir svo snöggt úr sér allan hringinn þannig að herbergið verður rökkurbjart í eitt tvö augnablik áður en ljósið skýst út hinu megin og það verður aftur myrkur og vélarhljóðið deyr í annarri fjarlægð. Ég vaki oft lengi eftir að búið er að biðja til Guðs og bjóða góða nótt. Fari ég ekki að hugsa um eitthvað sérstakt dunda ég mér kannski við að telja bílana sem aka framhjá húsinu okkar eða leik mér að því að festa augun á einhverjum fyrirframákveðnum hlut í herberg- inu þá örskotsstund sem birtan varir, og það má aldrei vera sá sami tvisvar á kvöldi. Þarna gleymi ég alveg að telja og það eina sem augu mín sjá er æpandi autt plássið á gólfinu þar sem mömmuogpabbarúm hafði staðið þar til í dag að þau fluttu það fram í innri stofu. Okkur Sistu var sagt að nýja barnið, sem er að verða til í maganum á mömmu, færi bráðum að koma í heiminn; það þyrfti að hafa frið og ró í kringum sig af því nýfædd börn sofa svo mikið og mamman þarf líka að hvíla sig svo mikið; þess vegna væri best fyrir okkur öll að mamma og pabbi flyttu sig fram og þá fengjum við Sista um leið meira leikpláss í okkar herbergi. Já, þetta sögðu mamma og pabbi, þótt þau vissu að ég vissi vel að flutningur- inn væri mér að kenna. Þykjustuslagur mömmu og pabba Mamma og pabbi höfðu nefnilega verið í þykjustuslag í rúminu sínu í nótt og ég hafði sest upp í kojunni og beðið eftir bíl til að geta séð þau. Það voru rosaleg læti í þeim, brak og stunur og brestir og þau hrópuðu hvort á annað: „Jáh! Jáh! Jáh!“ – og þegar það kom loksins bíll horfði ég á hárlausan hvirfilinn á pabba beint fyrir neðan mig. Hann kraup á hnjánum við rúmstokkinn, hélt með báðum höndum undir rasskinnarnar á mömmu og hossaði sér brjálæðis- lega á milli sundurglenntra læra hennar, þétt upp við magakúluna háu með nýja barninu innan í. Ég vissi ekki alveg hvort hann var að meiða hana eða ekki og hvort ég ætti að koma henni til hjálpar eða ekki; það var líka eitthvað við mömmu sem hélt aftur af mér þótt ég hefði aldrei fyrr séð hana láta svona: hún lá einhvern veginn iðandi á bakinu og lygndi aftur augunum og kastaði höfðinu til og frá og renndi tungunni eftir efrivörinni og þykka síða hárið var allt í flækju og ýmist sló hún út handleggjunum með hnefana kreppta eða strauk lófunum hratt í hringi á stóru dúandi brjóstunum sínum. Ég sá þetta allt skýrt og greinilega því á meðan gerðist það sem var gjörsamlega óhugsandi, miðað við hvar við bjuggum og hvað klukkan var orðin margt, en það rúllaði heil lest af bílum framhjá húsinu okkar sem varð til þess að einn ljósgeisli var naumast skroppinn út áður en sá næsti þrengdi sér inn – svo það var eins og mamma og pabbi væru að hamast þarna í flóðljósum, bara eins og á sviði Þjóðleikhússins og virtust ekkert taka eftir því sjálf. En allt í einu reisti mamma sig með andköfum upp á olnbogana. „Jesús Pétur, barnið!“ Pabbi hætti undireins að hossa sér, en kinkaði ákaft kolli þar sem hann horfði til skiptis á magakúluna og framan í mömmu – og másaði: „Er ekki allt í lagi, Rúna mín? Þetta á ekki að vera neitt hættulegt, er það nokkuð?“ „Nei, Pétur. Óskar. Jesús minn.“ Mamma lét sig falla aftur á bakið og veifaði vísifingri í áttina til mín í kojunni. Pabbi leit snöggt um öxl, augu okkar mættust í hálfrökkrinu og nær samstundis tók hann undir sig ótrúlegt stökk yfir í hinn helming rúmsins, tosaði mömmu betur upp í og breiddi yfir hana sæng. En í því pabbi skaust undir sína sæng – og það var rétt áður en síðasti bíllinn fór framhjá og allt varð aftur dimmt – tók ég eftir því að typpið hans var öðruvísi en ég hafði nokkurn tíma séð það áður; það var svo miklu stærra, bæði lengra og þykkara, og stóð út í loftið eins og indjánaspjót. Fátt um svör Og í morgun byrjaði mamma að rugla öllu frammi í innri stofu. Hún tók niður myndir af veggjunum, flutti borð og stóla út í fremri stofu. Hún reyndi að láta okkur Sistu hjálpa sér; þetta var rosalegt puð, en þegar ég spurði akkuru við værum að þessu fékk ég engin svör, aðeins einkennilegt augnaráð sem sagði ekki bara að ég ætti ekki að spyrja óþarfra spurninga heldur bjó einnig í því einhvers konar blanda af ásökun og sársauka og ég skildi að héðan í frá yrði lífið aldrei aftur eins og það hafði verið. Það var svo þegar pabbi kom heim úr skólanum og skrúfaði rúmið þeirra mömmu sundur og svo aftur saman frammi í innri stofu, að okkur Sistu var tilkynnt að þar með væri stofan orðin svefnherbergi þeirra og litla barnsins þegar það fæddist. Ég heyri uml og tannagnístran úr neðri kojunni, og svo örlítið hálfkæft tíst. Þegar Sistu dreymir órólega bryður hún tennurnar sínar og kreistir Dóru, stóra tístidúkku sem hún sefur alltaf með í fanginu. Fyrst eftir að Sista fékk Dóru í afmælisgjöf kom oft fyrir að hún vaknaði við tístið þegar hún kreisti dúkkuna í svefni, en núna er hún löngu búin að venjast því svo ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af henni. Dyrnar á herberginu eru lokaðar, en ómurinn af aftansöngnum í útvarpinu berst hingað inn og ég sé mömmu og pabba auðveldlega fyrir mér í fremri stofunni þar sem þau sitja hvort í sínum hægindastólnum undir voldugum tvíarma stand- lampa; hún prjónar eða les í bók, hann fer yfir heimaverkefni nemenda sinna eða undirbýr kennslu morgundagsins. Þannig eyða þau flestum kvöldum, nema einhver sé í heimsókn, alltaf með Kafli úr frábærri bók Páls Kr. Pálssonar: Hann á sér eina Ósk Páll Kristinn Pálsson, rithöfundur.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.