Faxi

Árgangur

Faxi - 15.12.2016, Blaðsíða 11

Faxi - 15.12.2016, Blaðsíða 11
Pabbi minn Kjartan Henry Finnbogason var lögregluþjónn og varðstjóri á Keflavíkurflugvelli. Það starf hafði það í för með sér að hann var stundum á vakt á aðfangadagskvöld. Þeir sem voru að vinna á þessu annars friðsamlega kvöldi skiptust á að fá að fara heim til fjölskyldunnar og fá sér jólamat og hitta sína nánustu. Það kom þó fyrir að við gátum ekki verið viss um hvenær eða hvort hann kæmi heim. Eitt aðfangadagskvöldið sem pabbi var heima þurfti hann að fara út í snjófjúkið að leita að jólasveininum sem oftast hafði komið með gjafir til okkar krakkanna. Það vakti ekki nokkurn grun hjá okkur. Spennustigið bægði sennilega öllum slíkum vangaveltum frá og við sátum þæg og góð með sveinka þegar hann loksins fannst og spjölluðum við hann og tókum á móti heilræðum um að nauðsynlegt væri að við værum stillt, prúð og góð og hlýðin við móður okkar. Ekki þótti okkur neitt grunsamlegt að pabbi kæmi ekki inn úr snjódrífunni fyrr en nokkru eftir að sveinki var farinn. Við sögðum honum þá frá heimsókninni og vorum óðamála. Það varð í síðasta skipti sem jólasveinn- inn kom í heimsókn til okkar þegar ég tók eftir og spurði hvers vegna það væri löggubelti við búninginn hans. Eftir það var tekinn upp sá siður að hafa pakkana undir jólatrénu. Það var kannski vegna þess að við bjuggum alveg við kirkjuna að við fórum oft til jólaguðsþjónustu á aðfangadagskvöld. Það fannst okkur krökkunum nú ekki vera nógu skemmtilegt, en hlýddum kallinu. Við þurftum því að finna okkur eitthvað til dundurs til þessa að láta tímann líða og fundum það út að hátíðar Hallelújað var tilvalið til að gera grín að. Við biðum því spennt eftir þeim hluta messunnar og þegar dökkraddaðar Alt raddirnar tóku sína strófu í Hallelújanu þá fengum við hláturs- kast sem enginn mátti taka eftir í kirkjunni. Við máttum svo ekki á hvort annað líta án þess að þurfa að kæfa og fela hláturinn á meðan séra Björn tónaði og las jólaguð- spjallið. Það er nú svo ennþá þegar ég heyri þessar fínu strófur að ég kemst í gott skap og verður hugsað til systkina minna og gömlu jól fjölskyldunnar rifjast upp. FAXI 11

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.