Skessuhorn


Skessuhorn - 04.04.2018, Blaðsíða 21

Skessuhorn - 04.04.2018, Blaðsíða 21
MIÐVIKUDAGUR 4. ApRÍL 2018 21 Í Nýja Tímanum síðasta dag októbermánaðar árið 1957 birt- ist áhugaverð frásögn Guð- mundar Illugasonar um kött einn sem bjó á Hraunsnefi í Norðurárdal á seinni hluta nítj- ándu aldar. Köttur þessi varð auðugasti allra katta hér á landi. Happadrjúgt reyndist að heita á hann og brátt varð mikill sjóð- ur til. Gárungar segja jafnvel að þar hafi orðið til sá vísir að fjár- munum sem ýttu undir stofnun Sparisjóðs Mýrasýslu. Um það skal þó ekki fullyrt. Saga katt- arins skal nú rifjuð upp í til- efni þess að núverandi bændur á Hraunsnefi halda nú kött einn sem þau kalla Spesíu-Gránu, líkt og nafnið sem fram kemur í frásögn Guðmundar G Haga- lín af Hraunsnefskettinum, sem að vísu á að hafa verið fress og því heitið Spesíu-Gráni. Nú- verandi ábúendur binda vonir við að Spesíu-Grána feti í fót- spor fyrirrennara hennar og safni auði. Jóhann Harðarson bóndi á Hraunsnefni heldur á meðfylgjandi mynd á kettinum góða að morgni föstudagsins langa. Spesíu-Grána var þá að skottast í kringum Jóhann þeg- ar hann var að gefa grísum, önd- um, kálfum, hrossum og kind- um á Hraunsnefi. Húsdýrin laða ferðamenn að Hraunsnefni þar sem rekið er myndarlegt sveita- hótel og veitingasala. En gefum Guðmundi Illugasyni orðið úr fyrrgreindri frásögn Nýja-Tím- ans frá 1957: „Á seinni hluta síðustu aldar bjó sá maður á Hraunsnefi í Norðurár- dal er Guðmundur hét Sturlaugs- son. Hann var Dalamaður að ætt og uppruna en fór ungur til Borg- arfjarðar og dvaldist þar til æviloka. Guðmundur var búmaður góður og talinn auðugur en þótti forn í háttum og sérkennilegur í lát- bragði og tilsvörum. Til er erindi sem ort er um orðatiltæki Guð- mundar í umræðum um einhvern náunga er Guðmundi þótti ekki duglegur að bjarga sér. Er erindið talið vera eftir Ásmund Gíslason sem kallaður var Dalaskáld og bjó í Desey í Norðurárdal: Meir en þekkti ég mannkind eina mér var klárlega raun af því kunni ei fá sér kráku neina komst því sköturoðs hnakkinn í. Horgoggur sá úr heiminum húðskökklast þó á endanum. Kona Guðmundar Sturlaugs- sonar hét Oddný Þorgilsdóttir. Í föðurætt var hún vestan úr Dölum en í móðurætt af Fróðastaðaætt í Hvítársíðu. Oddný Þorgilsdótt- ir lifði lengur en Guðmundur og bjó nokkur ár á Hraunsnefi eftir lát hans, ásamt börnum þeirra. Það var eitt sumar er Oddný bjó ekkja á Hraunsnefi að miklir óþurrkar gengu. Safnaðist mikið hey úti sem lá undir skemmdum. Var mikill uggur í fólki og horfði til vandræða. Þá minntist Oddný þess að einn frændi hennar í Hvítársíðu hafði í líku tilfelli fyrir nær hundr- að árum heitið á kött sinn til að- stoðar með góðum árangri. Oddný átti um þessar mundir kettling einn fríðan og föngulegan. Er nú ekki að orðlengja það að húsbændurn- ir á Hraunsnefi lofa að ánafna eða gefa kettlingnum kind, eina eða fleiri, ef tíð breyttist til batnaðar svo að sumarheyskapur eyðilegðist ekki. Svo brá við áheit þetta að tíð breyttist strax til batnaðar og varð heyjum öllum bjargað og heyskap- ur varð að lokum með bezta móti á Hraunsnefi. Þessi tíðindi spurðust brátt um sveitina og síðan um héraðið. Varð það fljótlega til þess að fólk fór að reyna ágæti kattarins á Hraunsnefi til áheita bæði til að öðlast eftir- sótta hluti eða höpp og til að forð- ast yfirvofandi óhöpp. Varð köttur- inn „vel við“ sem kallað er og uxu auðæfi hans með ótrúlegum hraða. Bændur hétu á að gefa honum kind ef fénaður þeirra slyppi lif- andi úr áhlaupaveðrum, eða lifði af vorharðindin. Konurnar hétu á hann smjörtöflu ef uppáhaldskúnni þeirra hlekktist ekki á um burð- inn eða mjólkaði vel. Ungu menn- irnir hétu á hann ef bónorðsferðin gengi að óskum eða ef þeir fengju jarðnæði sem þeir vildu fá og ungu stúlkurnar hétu á köttinn ef sá pilt- urinn kæmi til þeirra sem þær ósk- uðu sér. Hraunsnef er í þjóðbraut og þar hefur löngum verið gestkvæmt. Ferðamenn, sem komu eða gistu á Hraunsnefi og fengu þar góðan beina, voru aldrei látnir borga neitt fyrir sig, en þeim var sagt frá ágæti kattarins til áheita og urðu margir til að víkja að honum góðu í trú á því að þá myndi ferðin ganga vel. Til kattarins á Hraunsnefi bár- ust áheitin úr öllum áttum, kind- ur, peningar, ull og smjör. Eigandi kattarins, Oddný Þorgilsdóttir var þá orðin öldruð og að mestu hætt búskap er hún og börn hennar fengu Þórð Jónsson hreppstjóra á Brekku í Norðurárdal til þess að taka að sér vörzlu á fjármunum kattarins. Var þeim þá öllum kom- ið í peninga eða kindur. Kindurn- ar voru leigðar fjárfáum bændum. Leiga eftir sex ær var 20 pund af smjöri á ári, en smjörinu var svo aftur komið í peninga. peningarn- ir voru svo í stöku tilfellum lánaðir gegn góðri tryggingu og auðvitað með vöxtum. Þórður hreppstjóri á Brekku var afi þess Þórðar sem nú er á Brekku. Hann hafði vörzlu kattarsjóðins og reikningshald um nokkur ár og geymdi peninga og skuldabréf hans í kistli einum er afi hans Ein- ar Ámundason smiður í Örnólfs- dal hafði smíðað. Kistill þessi er ennþá til í eigu dótturdóttur Þórð- ar á Brekku, Elínar Ólafsdóttur hfr. á Háreksstöðum í Norðurár- dal. Hann er með fangamarki Ein- ars Ámundasonar forföður hennar og ártali 1826. Reikningshald kattarsjóðsins og rekstur hans á tímabili varð all umfangsmikill. Fyrir peningana úr kattarsjóðnum var m.a. keypt jörð- in Stóra-Gröf í Stafholtstungum, sem var 24 hundruð að dýrleika að fornu mati. Gefur það nokkra hugmynd um að sjóður þessi var þá orðinn allmikill, þar sem hann átti auk þess peninga bæði í kistl- inum og í útlánum og margar ær í byggingu eða leigu hingað og þangað og áheitin, vextir og leigur drifu að úr öllum áttum. En þegar hamingjusólin er kom- in hæst á loft fer hún aftur að síga til viðar. Svo reyndist hér með sjóðinn kattarins hennar Oddný- ar á Hraunsnefi. Bæði andleg og veraldleg máttarvöld gengu á sama lagið að stöðva gengi katt- arsjóðsins. prófasturinn í Stafholti áminnti fólkið fyrir guðleysi að vera að eyða fé sínu í einn vesælan kött, en vanrækja kirkjur og kristin- dóm. Reyndir og ráðsettir bændur og sveitarstoðir töldu að Hrauns- nefsfólkið væri að fela eigur sínar í kattarsjóðnum, því ekki þótti til- tækilegt að leggja útsvar eða skatta á köttinn vegna sjóðsins. Þórður hreppstjóri á Brekku, sem gegnt hafði gæzluvarðarstarfi fyrir kattarsjóðinn með mestu trú- mennsku, vildi nú ekki gera það lengur. Hittist nú líka svo á að tengdasonur Oddnýjar, eiganda kattarins, var orðinn oddviti Norð- dæla. Var það Jón Jónsson bóndi á Hvassafelli og Hreðavatni, og var Oddný þá komin til hans með sinn auðuga kött. Afhenti Þórð- ur þeim því kattarsjóðinn og fara engar sögur af þessu einkennilega og sérstæða fyrirbæri í borgfirzku fjármálalífi eftir það. En sögu ríka kattarins hennar Oddnýar var ekki þar með lokið. Jón, tengdasonur Oddnýjar, flutti stuttu síðar burtu úr Norðurárdal og ætlaði að fara að búa á Hof- stöðum í Miklaholtshreppi. Hann komst þó aldrei þangað til búskap- ar frekar en Eggert Ólafsson forð- um. Varð fyrir miklum fjárskaða og fleiri óhöppum og fór að búa á Landbrotum í Kolbeinsstaða- hreppi. Oddný tengdamóðir hans flutti þangað með honum og hafði auðvitað með sér hinn nafnkunna kött sinn. Oddný andaðist þar stuttu síðar. Sagt er að allt heima- fólk hafi fylgt henni þaðan til graf- ar að Kolbeinsstöðum og að kött- urinn hafi elt það og farið þang- að líka. En hann fór ekki heim aftur, heldur lagðist út. Sást hann nokkrum sinnum á eftir, en þótti lítt mannblendinn og var talið að hann héldi sig aðallega í hraun- unum. Í Kolbeinsstaðahreppi er mikið af hraunum. Þaðan er elzta sögn um eldgos á Íslandi er „Borgar- hraun brann“ á dögum Selþóris á Rauðamel. Sturlunga segir frá því að vopnfimasti maður Sturlunga- aldar, sem kallaður var „bezta sverð Norðurlanda“ Aron Hjörleifsson frá Hítardal hafi leynzt í hraun- helli einum í skjóli systur sinnar á Syðri Rauðamel. Hellir hans hefur nú verið týndur og gleymdur síð- an nokkru fyrir síðustu aldamót. Í sumar fundust margir og miklir hellar í Gullborgarhrauni. Hraun- in í Kolbeinsstaðahreppi eru víða- áttumikil og lítt rannsökuð. Ein- hvers staðar í þessum hraunum var talið að þessi ríkasti köttur, sem sögur hafa farið af á Íslandi, hafi dvalið eftir að hafa fylgt eig- anda sínum til grafar og sagt skil- ið við mannfólkið. Og í einhverri hraunholu eða hellisskúta þessara hrauna kunna enn að vera beinin ríka kattarins hennar Oddnýar á Hraunsnefi.“ mm Ríki kötturinn hennar Oddnýar á Hraunsnefi Jóhann Harðarson ferðaþjónustubóndi á Hraunsnefi með Spesíu- Gránu, hina yngri.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.