Skessuhorn


Skessuhorn - 11.04.2018, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 11.04.2018, Blaðsíða 20
MIÐVIKUDAGUR 11. ApRÍl 201820 Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir læt- ur af störfum sem skólastjóri Grunn- skóla Borgarfjarðar í vor eftir rúman áratug í starfi. Hún var ráðin skóla- stjóri Varmalandsskóla árið 2007 og hóf störf þá um haustið. Hún varð síðan skólastjóri Grunnskóla Borg- arfjarðar árið 2010 eftir samein- ingu skólanna í uppsveitum Borgar- fjarðar. Deildir skólans eru þrjár; á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. „Tilfinningar mínar eru að sjálfsögðu blendnar. Ég á eftir að sjá á eftir starfsstöðvum Grunnskóla Borgarfjarðar, vinnufélögum, nem- endum mínum og skólasamfélag- inu í heild og öllu því góða fólki sem ég hef fengið tækifæri til að vinna með, auk allra annarra sem komið hafa að skólamálum í Borgarbyggð með einum eða öðrum hætti. Skól- inn hefur átt hug minn allan. Tíma mínum þessi ár hefur að langmestu leyti verið varið í skólastarfið, þann- ig að breytingin mun vonandi þýða aðeins meiri frítíma og tækifæri til að sinna áhugamálum,“ segir Ingi- björg Inga í samtali við Skessuhorn. Hún kveðst ekki hafa ákveðið hvað hún tekur sér fyrir hendur en ætlar að byrja á að taka sér frí. „En ég er til í ýmislegt ef eitthvað spennandi býðst. Ég hef fulla starfsorku, hald- góða reynslu og menntun sem von- andi nýtist mér og einhverjum öðr- um ef verða vill,“ segir hún. Þakklæti efst í huga Ingibjörg hefur náð 95 ára regl- unni svokallaðri, sem er saman- lagður starfsaldur og lífaldur opin- berra starfsmanna. Aðspurð kveðst hún vissulega hafa velt því fyrir sér að starfa áfram en komist að þeirri niðurstöðu að stíga til hliðar. „Ég er ánægð að hafa náð þessum tímamót- um, það er ekki sjálfgefið. En mín skoðun er sú að maður eigi ekki að sitja of lengi í stjórnunarstöðu og eiga það á hættu að tapa fluginu,“ segir hún. Þegar blaðamaður bið- ur hana að líta yfir farinn veg segir hún að þakklæti sé henni efst í huga. „Þakklæti fyrir að hafa fengið tæki- færi til að leiða skólastarfið með ein- staklega góðu fólki, sjá nemendur mína þroskast, ná settum markmið- um og verða að góðum manneskj- um,“ segir hún. Fyrstu árin við kennslu starfaði Ingibjörg innan veggja framhalds- skóla. Þar kveðst hún hafa öðlast mikilvæga reynslu, ekki síst vegna reynslumikils samstarfsfólks sem var ætíð reiðubúið að veita góð ráð og stuðning. Hún segir það hafa ver- ið töluvert stökk að færa sig yfir á grunnskólastigið, því þar eru nem- endur í skyldunámi en framhalds- skóla sækja nemendur á eigin for- sendum. „Ég þurfti einnig tíma til að breyta kennsluháttum mínum og huga að því að vinna meira með yngstu nemendum skólans í gegnum leik og þannig hugsa kennsluna upp á nýtt. En allt saman tókst þetta nú ágætlega,“ segir hún. „Þegar ég tók við Varmalandsskóla á sínum tíma vissi ég svo sem ekki hvað beið mín. Þar tók á móti mér einvalalið starfs- manna og góður foreldrahópur sem létti fyrstu sporin,“ bætir hún við. Röð breytinga Þá var fjöldi nemenda í Varma- landsskóla töluvert meiri en nú er. Þeim fækkaði umtalsvert eftir hrunið vegna breytinga í námi Há- skólans á Bifröst, en börn frá Bif- röst hafa oftast verið milli 60-70% af heildarnemendafjölda skólans. Ingibjörg segir að raunar hafi röð ytri breytinga einkennt skólastarf- ið á þeim tíma sem hún hefur verið við stjórnvölinn. „Hrunið hafði þau áhrif að krafa var gerð um sparnað í rekstri skólanna, þeir þóttu of dýr- ir fyrir sveitarfélagið. Árið 2010 var ákveðið að sameina uppsveitaskól- anna undir eina stjórn og ná þannig fram hagkvæmni í stjórnunarkostn- aði, en jafnframt að áherslur í skóla- starfinu væru þær sömu fyrir deild- irnar þrjár. Mér var falið að leiða það verkefni og tók við stjórnun nýs sameinaðs skóla undir nafni Grunnskóla Borgarfjarðar skólaárið 2010-2011,“ segir hún. „Verkefnið sem slíkt var mjög vel undirbúið og starfið fór vel af stað. Skólabyrjun að hausti var frestað um viku og tím- inn nýttur til að móta stefnu, gildi og framtíðarsýn, ásamt því að vinna að skólanámskrá og fleiru sem þurfti fyrir skólabyrjun. Að þessu verkefni komu allir starfsmenn skólans, full- trúar foreldra, fulltrúar nemenda og fulltrúar fræðslumála í Borgar- byggð. Hrönn pétursdóttir, sem þá starfaði fyrir menntamálaráðuneyt- ið, stýrði þessari vinnu með okkur. Hún kunni vel til verka og var mik- ilvægur hlekkur í þeirri vinnu. Það er mín skoðun að þessi upphafs- vinna hafi skipt sköpum um hvern- ig til tókst með sameininguna. Það er mikilvægt að fólk finni og viti að rödd þess hafi áhrif og vægi í því að móta hvernig skóla við viljum hafa,“ segir Ingibjörg. „En það hefur ekki alltaf verið lygn sjór gagnvart Grunnskóla Borgarfjarðar í stjórn- sýslunni, því miður og hafa ver- ið átök um starfsstöðvar skólans. Á tímabili var mikið rætt um að leggja niður Kleppjárnsreykjadeildina, síð- an var á dagskrá að loka Hvanneyr- ardeildinni. Af þessu hvoru tveggja varð ekki, sem betur fer,“ segir hún. „Mér finnst afar mikilvægt að menn skoði af fullri alvöru og með ábyrg- um hætti hvaða áhrif svona umræða og gjörningar hefur á skólastarf- ið. Þegar ró er yfir skólamálum þá ganga hlutirnir miklu betur og orka fólks fer í starfið en ekki í baráttu- mál sem leiða menn oft á svig frá því sem skiptir mestu máli; skólastarfið sjálft, gildi þess og kosti litlu eining- anna fyrir nemendur.“ Áhersla á samvinnu Aðspurð kveðst hún alltaf hafa lagt áherslu á að ná fram góðri samvinnu starfsmanna í og á milli deilda á sín- um tíma sem skólastjóri. „Með þeim hætti að hver deild hefur fengið að halda sinni sérstöðu, en með þeim formerkjum að skólinn sé samstíga í þeim þróunarverkefnum sem ákveð- in hafa verið hverju sinni,“ segir hún. „Ég hef lagt mig fram um að fylgja stefnu skólans um að lögð sé áhersla á nám við hæfi hvers og eins. Fjölbreytni sé í námsmati og að það sé uppbyggilegt fyrir hvern og einn. Samstarf milli skólastiga sé gott og að nemendum og starfsmönnum líði vel á vinnustaðnum sínum en það er ein af forsendum þess að árangur náist í skólastarfi. Árangur á að snú- ast um þá þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur öðlast á skólagöng- unni,“ segir Ingibjörg og bætir því við að einnig hafi hún lagt áherslu á valgreinar nemenda. „Skólinn hefur boðið upp á áhugasviðsval auk þess að bjóða upp á val í unglingadeild með nokkuð óhefðbundnum hætti. Valið er í formi smiðjuhelga, þar sem nemendur vinna tvær helgar yfir vet- urinn en eru þess í stað einum tíma skemur en gert er ráð fyrir í við- miðum vikustunda. Þetta form val- greina hefur vakið mikla athygli og hafa aðrir skólar tekið þátt í þessari vinnu með GBF um nokkurt skeið. Einnig hafa nemendur GBF fengið að taka þátt í erlendu samstarfi sem ég tel afar mikilvægan vinkil í skóla- starfinu. Þannig öðlast nemendur sýn og aukna þekkingu á menningu og hefðir erlendra samstarfsskóla. Ég vil og hef reynt að hafa að leiðarljósi með starfsmönnum að efla nemend- ur í að setja sér árangurstengd mark- mið og að þeir styrki sjálfsmynd sína. Efla jákvætt viðhorf, því það er ein af forsendum þess að bæta árangur. Ár- angur hefst með hugarfari.“ Örar tækniframfarir Hvað varðar skólastarfið sjálft seg- ir Ingibjörg að stærstu breytingarn- ar liggi í tækniframförum. „Breyt- ingin hefur verið ótrúleg hvað varð- ar möguleika við upplýsingaleit, vinnslu og skil á verkefnum og alla vinnu sem tengist skólastarfinu. Ég held að hvorki ég né nokkur annar geti sagt til um hvert tæknin á eftir að leiða okkur í framtíðinni, en tímarnir eru spennandi,“ segir hún. „Skólarn- ir verða að vera vel tækjum búnir til að fylgja þróun í tækni og allri vinnu sem lýtur að henni. Starfsmenn skól- anna verða að vera vel menntaðir til að fylgja þeirri þróun eftir, því þarf endur- og símenntun að vera lykil- atriði í skólaþróun,“ bætir hún við. Kennslan hefur enda tekið talsverð- um breytingum í hennar tíð. „Sem betur fer. Utanbókarlærdómur eins og hann var í sinni mynd hefur breyst og nú er upplýsinga- og þekk- ingarleit ríkjandi með tilkomu tækn- innar. Nú gúggla menn og fá svör við öllu milli himins og jarðar á örstutt- um tíma. En í því sambandi þarf að kenna nemendum að vera gagnrýn- ir og gleypa ekki við öllu sem kemur upp og líta á það sem heilagan sann- leika,“ segir Ingibjörg. „Einnig finnst mér mjög jákvæð breyting að kenn- arar vinni meira saman í teymum og í samþættingu námsgreina og nýta þannig þekkingu og styrkleika hvers annars. Það er jákvætt bæði fyrir kennara og nemendur. Þannig eiga nemendur til dæmis meiri möguleika á að leita aðstoðar hjá fleiri kennur- um í hverri kennslustund. Kennslu- stofur eru ekki lengur lokað svæði fyrir einn kennara og eina bekkjar- deild eins og áður var. Samvinna til árangurs á að einkenna vinnu kenn- ara og nemenda,“ segir hún. Framtíðin björt í menntamálum „Margir halda því á lofti að allt fari á verri veg í menntun barna og ung- menna því ekkert sé eins og það var áður fyrr. Ég er ósammála því, mér finnst að nemendur fái fleiri og skemmtilegri tækifæri í dag en oft áður. Er ég viss um að framtíðin er björt þeim í hag ef skólanum og for- eldrum tekst að ganga í takt hvað varðar ábyrgð, ástundun og vænt- ingar um árangur,“ segir hún en bæt- ir því við að auðvitað kalli framtíð- in á breytingar. „Samfélagið allt hef- ur tekið örum breytingum á síðustu áratugum og atvinnulífið gerir sífellt meiri kröfur til hvers einstaklings um fjölbreytta hæfni á öllum sviðum. Rannsóknir sýna að það sem atvinnu- rekendur sækjast eftir er að starfs- menn séu skapandi, búi yfir gagn- rýnni hugsun og hæfni til að ráða fram úr málum, hafi góða hæfni í samskiptum og geti unnið með öðr- um, búi yfir sveigjanleika og aðlög- unarhæfni, sýni frumkvæði og sjálf- stæði í vinnubrögðum. Við þessu verða skólarnir að bregðast og reyna eftir bestu getu að mennta nemend- ur í takt við breytta tíma. Það seg- ir sig sjálft að við þurfum að leggja áherslu á skapandi greinar, hvetja nemendur til samvinnu, efla gagn- rýna hugsun og að kenna nemend- um að setja sér markmið og vinna að þeim,“ segir Ingibjörg. „Aldrei má gleyma því, að til þess að nemend- ur geti tekist á við krefjandi verk- efni þarf að huga vel að heilsuefl- ingu innan skólanna. Því betur sem nemendur og starfsmenn eru líkam- lega á sig komnir, því betur gengur allt starf. Allir skólar ættu að vera heilsueflandi skólar þar sem áhersla er lögð á daglega hreyfingu, hollt og gott mataræði, nægan svefn og geð- rækt,“ segir hún og bætir því við að hún telji að þar standi GBF sterkum fótum. „Við erum heilsueflandi skóli með áherslu á þessa hluti. Skólinn er þátttakandi í leiðtogaverkefni sem snýr að því að kenna nemendum að taka af skarið, forgangsraða verkefn- um og setja sér markmið. Þetta eru hlutir sem snúa að því að styrkja þá sem persónur,“ segir Ingibjörg Inga að endingu. kgk Þakklát að hafa fengið að leiða skólastarf með góðu fólki Ingibjörg Inga lætur af störfum hjá GBF eftir áratug sem skólastjóri Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir. Ljósm. úr safni. Nemendur Hvanneyrardeildar GBF við æfingar á Kardemommubænum, sem settur var upp á árshátíð skólans nú í vor. Ljósm. GBF. Hópur nemenda úr Varmalandsdeild GBF í ferð í Víðgelmi síðastliðið vor, ásamt gestum sínum frá Finnlandi. Ljósm. úr safni. Krakkarnir í skólablaðsvali fengu Gísla Einarsson fréttamann í heimsókn á Klepp- járnsreyki í vetur. Fór hann yfir undirstöðuatriði blaða- og fréttamennsku með krökkunum. Ljósm. GBF.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.