Skessuhorn


Skessuhorn - 25.07.2018, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 25.07.2018, Blaðsíða 26
MIÐVIKUDAGUR 25. JÚlÍ 201826 Í ár eru liðin 100 ár síðan fyrsti traktorinn kom til landsins. Þar með var brotið blað í búnaðar- sögu landsins. Dráttarvélinni var landað úr Gullfossi þann 12. ágúst 1918. Kaupendur voru tveir áhuga- menn um íslenskan landbúnað, þeir Þórður Ásmundsson kaupmaður og útgerðarmaður og Bjarni Ólafsson, skipstjóri, báðir á Akranesi. Dráttarvélin, var amerísk af AVERY gerð, 16 hestafla olíuvél, ca 2,5 smálestir að þyngd, 1,5 m. breið og 3,5 m. löng. Vélin dró þrjá plóga. Í stað plóganna mátti láta hana draga ýmiskonar herfi, vél til þess að taka upp kartöflur, vagna, skurðgröfur, valtara, vegapressur og fleiri hjálpartæki. Vélinni var m.a. ætlað að notast við kartöflurækt, en kartöflur höfðu sem kunnugt er verið ræktaðar um langan aldur á Akranesi. Í fyrstu upplýsingum sagði m.a. að „vélin kostaði hingað komin 1/3 af verði þeirra hesta sem hún vinnur á við og hún þarf ekkert fóður nema rétt á meðan verið er að nota hana.“ Þeir Þórður og Bjarni höfðu nokkru fyrr, árið 1915, keypt jörð- ina Elínarhöfða á Akranesi. Höfðu þeir félagar þegar ráðist í mikl- ar umbætur á þessari jörð og var ræktun sú sem þeir færðust í fang miklu stórfelldari en dæmi voru um á þessum slóðum, og þótt lengra væri leitað. Nytjuðu þeir jörð þessa í mörg ár og ráku sameignarbúskap á henni. Þeir höfðu gert sér grein fyrir mikilvægi véla við landbúnað- arstörf, en þeir höfðu ásamt nokkr- um félögum sínum staðið fyrir kaupum á fyrsta þilfarsvélbátnum á Akranesi (Fram) árið 1906. Sáu þeir hve miklu vélaraflið áorkaði fyrir útgerðina og vildu sjá það einnig við landbúnaðarstörfin. Margar hugmyndir voru um notkun traktorsins; m.a. í tengslum við móverksmiðju sem þeir áform- uðu að reisa í Garðaflóanum, einu mesta mósvæði landsins. Hafði Þórður árið 1916 beðið félaga sinn Sumarliða Halldórsson, sem hafði verið við nám í jarð- og skógrækt í Danmörku nokkrum árum áður, að kanna fyrir sig rekstur slíkra verk- smiðja í Danmörku og hver kostn- aður væri við byggingu og rekstur þeirra. Voru þessar athuganir Sum- arliða einnig með fyrstu upplýsing- um um traktora sem hingað bárust. Hér má geta þess að mórinn var á þessum árum aðaleldsneyti lands- manna og kartöflur uppistöðufæð- an. Fyrstu sporin stigin Vélina útvegaði Stefán B. Jónsson, kaupmaður, og kom hún til lands- ins með gamla Gullfossi. Vestur Ís- lendingurinn John Sigmundsson, sá hinn sami sem stýrði hinni fyrstu Ford-bifreið sem kom til landsins, kom upp á Akranes og dvaldi hér í vikutíma við að setja saman dráttar- vélina nýju og reyna hana. Það mun hafa verið alltafsamt verk, því eng- ar myndir fylgdu vélinni né fyrir- mæli um samsetningu hennar. Þó tókst honum að setja hana saman. Sá galli var á gjöf Njarðar að henni fylgdu akurplógar en ekki brotp- lógar, og voru þeir þyngri en hin- ir síðarnefndu. Þess vegna gat hún tæplega dregið nema tvo þeirra, þegar hún átti að brjóta óplægða jörð, en gamla garða gat hún plægt með þremur plógum. John Sigmundsson plægði tvær dagstundir og giskaði á að hann hefði samtals plægt um 4 dagslátt- ur. Fyrst plægði hann jörð sem áður hafði verið plægð, síðan óunnið sléttlendi og loks þýfi. Þúfnaplæg- ingin tókst ekki vel og vildi hann einkum kenna því um að vélin væri of afllítil. Sagðist hann ætla að 22 hesta dráttarvélar yrðu hér hent- ugri, en ekki efaðist hann um að þessi dráttarvél gæti komið að góðu gagni, þar sem slétt væri eða áður hefði verið plægt. landið sem unn- ið var á var Elínarhöfðinn og Gar- ðaflóinn á Akranesi. Jón Sigmundsson var fæddur í Geiradal í Barðastrandarsýslu. Fluttist hann vestur um haf nálægt 1884 með móður sinni sem þá var ekkja. Hann lagði stund á landbún- aðarstörf þar til hann fékk skot í handlegginn. Upp frá því var hann stífur í annarri öxlinni og veigraði sér við erfiðisvinnu. Hann var lag- inn við vélar og vann löngum að vélaviðgerðum. Dráttarvélin kemur til Evrópu Dráttarvélar höfðu verið notaðar í Ameríku í nokkra áratugi og síð- an fyrri heimstyrjöldin hófst bárust þær út til Evrópu. Á Norðurlönd- um voru þær að kalla óþekktar fyrir stríðið 1914-1918, en sökum hesta- fækkunar og kauphækkana breidd- ust þær óðfluga út. Um svipað leyti settu Norðmenn á fót hjá sér nám- skeið við landbúnaðarháskólann í Ási, þar sem kennt var að stjórna þessum vélum. Vantrú á vélum Töluverð vantrú var í fyrstu á þess- ari tilraun til vélvæðingar landbún- aðarins - og þá af ýmsum orsök- um. M.a. höfðu bæði landsstjórnin, Búnaðarfélag Íslands og Alþingi Ís- lendinga hafnað kaupum á vélinni. Stefán B. Jónsson kaupmaður upp- lýsti strax í upphafi að þessi tegund fengist með svo miklu eða litlu afli sem hver óskaði, frá 10 - 60 hestöfl- um, og hvort sem vill fyrir steinol- íu, bensín eða kol og annað algengt eldsneyti. Ennfremur upplýsti hann að ókomin væru til landsins öll þau stykki og áhöld sem vél þessari væru tilheyrandi og sem pöntuð höfðu verið með henni. Stefán stundaði upphaflega smíðar, m.a. í Vestur- heimi frá 1887 til 1899. Hann bjó um hríð að Reykjum í Mosfellssveit og gerði þar miklar umbætur, en síðan stundaði hann einkum versl- un í Reykjavík. Stefán var verk- hygginn maður og fylgjandi um- bótum í búskap og iðnaði. Fyrsta reynsla við traktorsvinnu Haft var eftir Sveinbirni Odds- syni, sem fyrstur lærði á vélina, að á landi sem áður hafði verið plægt hafi vélin reynst bæði fljótvirk og velvirk. Þá hafi hún verið reynd á þýfðri mýri, en þar hafi plæging- in verið henni ofraun vegna þess að of mikið afl fór í að knýja áfram sjálfa dráttarvélina. Reyndar kom í ljós síðar, að þau mistök höfðu orð- ið í samsetningu dráttarvélarinn- ar og fyrstu notkun árið 1918, að hún var alltaf höfð í öðrum „gíri“ eins og segir í samtíma heimildum. En þannig var að til þess að forða því að vélin skemmdist í flutningi höfðu verið settir tveir boltar til varnar. Þessir boltar áttu að takast í burt áður en vinna hófst, en fund- ust ekki. Nokkuð löngu seinna var Júlíus Þórðarson á Grund sem oftar að snúast í kringum vélina og fikta við hana, þá fjarlægði hann bolt- ana og fékk skammir fyrir. En þá fannst gírinn sem týndur var. Eins og áður sagði var Sveinbjörn Odd- son fyrst með vélina, Þá Þorfinnur Hansson og síðast Júlíus Þórðar- son, sonur Þórðar Ásmundssonar. Hann mundi eins og aðrir aldraðir Akurnesingar eftir hinu nýja hljóði, vélarhljóði traktorsins, og þeirri byltingu sem vélarnar áttu eftir að valda í íslenskum landbúnaði. Til er myndband, viðtal við Júlíus um Upphaf vélvæðingar í íslenskum landbúnaði Akranes - Traktorinn Upphaf dráttarvélaaldar á Íslandi. Íslandspóstur hefur í hyggju að gefa út frímerki 13. september næstkomandi til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá komu fyrsta vélknúna landbúnaðartækisins, Akranestraktorsins, til landsins. Verðgildi merkisins er 500 krónur og gildir það fyrir 1000 grömm innanlands. Hlynur Ólafsson hannar merkið. Ásmundur Ólafsson. Sumarliði Halldórsson. Sumarliði var fæddur á Litlu-Fellsöxl í Skilmanna- hreppi. Nám frá Flensborgarskóla; fór síðan í nám í jarð- og skógrækt í Danmörku 1906-1909. Skógar- vörður Borgarfjarðar 1910-14, bjó síðan á Akranesi og Reykjavík. Stofnaði KFUM-deild á Akranesi og var virkur í stúkunni Akurblómi þar. Gaf út ljóðabókina Söngvar smælingjans árið 1934. Mynd: Sæmundur Guð- mundsson. Sveinbjörn Oddsson. Fyrstur manna hér á landi til að hafa það að atvinnu að stjórna traktor. Sveinbjörn hafði áður m.a. verið vélstjóri á fyrsta þilfarsvélbátnum Fram á vertíðum bæði með Ágústi Ásbjörnssyni (Gústa á Sigurvöllum) og Bjarna Ólafssyni. Hann starfaði lengi með þeim Bjarna og Þórði Ásmundssyni, var vélstjóri og formaður á bátum þeirra. Einnig var hann fyrsti vörubílstjórinn á Akranesi árið 1922, og fór hann margar svaðilferðir um fjörur og árfarvegi frá Akranesi og upp í Borgarfjörð áður en vegir voru lagðir. Sveinbjörn lauk bílprófi 4. mars 1922, fyrstur Akurnesinga. Mynd: Árni Böðvarsson. Elínarhöfði. Norðurbær; bæjarhúsin byggð á 19. öld og stóðu fram yfir 1930. Eftir að þessi hús hurfu hefur ekki verið búið í Elínarhöfða. Teikning Jóns M. Guðjóns- sonar.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.