Skessuhorn


Skessuhorn - 26.09.2018, Blaðsíða 5

Skessuhorn - 26.09.2018, Blaðsíða 5
Frelsi til viðskipta er almennt frekar mikið hér á landi og fjölbreytni vöru og þjónustu sömuleiðis. Samkeppni er af hinu góða og einhvern veginn verður samræmið milli framboðs og eftirspurnar þannig að þokkalegt jafn- vægi ríkir á markaði. Á þessu verður þó stundum misbrestur vegna þess að eitthvað breytist, annað hvort á framboðs- eða eftirspurnarhliðinni. Til dæmis geta íbúar strjálbýlustu svæða þurft að glíma við skort vegna þess ekki eru markaðslegar forsendur til að veita tiltekna þjónustu. Sömuleið- is geta vandræði skapast hjá framboðshliðinni þegar svo margir bjóða það sama að enginn selur nóg og allir tapa. Markaðurinn leitar engu að síður jafnvægis þegar frá líður. Af þessum sökum er mér lífsins ómögulegt að skilja ákvörðun tiltekins tryggingafélags sem boðaði í síðustu viku stórtækar breytingar á þjónustu. Fjölmörgum umboðs- og þjónustuskrifstofum VÍS á landsbyggðinni verð- ur lokað um helgina, einfaldlega skellt í lás. Vel má vera að á einhverjum stöðum séu lítil viðskipti við þetta tiltekna tryggingafélag og því sjái það ekki hag sínum borgið með að halda úti nærþjónustu við viðskiptavini á þeim stöðum. Samkvæmt öruggum heimildum mínum á það þó engan veg- inn við á öllum þeim stöðum sem nú verður lokað og því er þessi ákvörðun í besta falli barnaleg. Tryggingafélagið heldur því fram að fólk sækist bókstaflega eftir því að eiga öll sín samskipti í gegnum net og síma. Auðvitað er tækninni að fleyta fram og við bæjardyrnar er það sem kallað hefur verið fjórða iðnbyltingin. Sú bylting snýst um aukna tækni og um leið breytingu á eðli þjónustu. Ró- bótar og önnur vélmenni taki þá við því hlutverki sem persónulegi þjón- ustufulltrúinn á skrifstofunni hefur gegnt fram að þessu. En það sem VÍS menn flaska hins vegar á er sú staðreynd að þótt fjórða iðnbyltingin sé ein- hvers staðar handan við hornið, er hún ekki hafin nema að afar litlu leyti og alls ekki þegar kemur að til þess að gera íhaldssömum viðskiptavinum til hæfis. Ég átti áhugavert samtal við starfsmann hjá téðu tryggingafélagi síðast- liðinn föstudag. Daginn áður hafði Skessuhorn greint frá þessari ákvörð- un tryggingafélagsins að skella í lás. Við áttum um margt ágætt spjall. Ég gerði mér grein fyrir að maðurinn var að hefja slökkvistarf fyrir fyrirtæk- ið, sem hann er talsmaður fyrir, þar sem honum og flestum öðrum var þá þegar ljóst að fyrirtækið hafði tekið ákvörðun sem líklega byggði á galla í excel skjali eða öðrum mannlegum mistökum. Fullyrt var í mín eyru að fólk myndi áfram tryggja hjá þeim því nærþjónusta skipti ekki lengur máli, fjórða iðnbyltingin væri jú hafin. Ég beitti ýmsum rökum, meðal annars þeim að ég færi oftar inn í tryggingaumboð en banka. Það fannst honum ótrúlegt. OK, ég spurði þá manninn í ljósi þess að nú ættu íbúar lands- byggðarinnar að eiga rafræn samskipti við tryggingafélag sitt, hvort ekki hefði komið til tals að færa höfuðstöðvar VÍS út á land? Benti honum á að til dæmis í Borgarnesi væri ljósleiðari og svo skemmtilega vildi til að hann virkaði í báðar áttir. Þar væri stöðugleiki vinnuafls auk þess meiri en á höfuðborgarsvæðinu, húsnæði ódýrara, stressið minna og frábær sundlaug! Þetta væri því hugmynd sem menn hlytu að taka fagnandi. Það varð fátt um svör og samtalinu lauk fljótlega í kjölfarið, enda var þessi starfsmaður hjá téðu tryggingafélagi búinn að átta sig á að ritstjóraræfillinn væri búinn að mynda sér skoðun sem ekki yrði auðveldlega haggað. Eins og ég nefndi hér í upphafi er frelsi til viðskipta talsvert. Ég kýs t.d. að eiga frekar viðskipti við þá vöru- og þjónustusala sem ekki er sama um mitt fyrirtæki og framgang þess og sýna áhuga á að veita góða þjónustu í mínu nærsamfélagi. Það er einfaldlega mitt val og mín ákvörðun, rétt eins og ákvörðun þeirra sem velja að hætta þjónustu við okkur aumar lands- byggðartútturnar og ákveða að skella í lás. Magnús Magnússon.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.