Skessuhorn


Skessuhorn - 14.11.2018, Blaðsíða 17

Skessuhorn - 14.11.2018, Blaðsíða 17
MIÐVIKUDAGUR 14. NÓVEMBER 2018 17 urinn og hans þróun er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hann. Leiðin þarf að vera greið Sú stefna sem félagið hefur unnið eftir hvað varðar þróun ungra leik- manna undanfarin ár er þegar farin að skila árangri. Uppaldir leikmenn eru í algjörum lykilhlutverkum í meistaraflokkum karla og kvenna. „ÍA er og hefur alltaf verið háð því að ala upp sína leikmenn. Stefna félagsins hefur í raun alltaf verið þannig, þó það hafi komið tíma- bil þar sem félagið hefur, af ýms- um ástæðum, villst af leið. ÍA hef- ur alltaf gengið best þegar liðið er skipað heimamönnum. Það hefur gengið vel undanfarin ár og er fé- laginu nauðsynlegt,“ segir Jón Þór. „En jafnframt er ÍA háð styrkingu með leikmönnum utan frá, það hef- ur gengið verr undanfarin ár. Til að félagið geti náð í fremstu röð þurfa þeir leikmenn sem koma hingað til að spila líka að vera toppleikmenn, eins og var hér áður. Þegar karla- liðið var hvað sigursælast til dæmis, á árunum 1992 til 1996, þá komu hingað afburðaknattspyrnumenn annars staðar frá sem höfðu gríðar- leg áhrif á alla iðkendur félagsins. Þeir komu með innspýtingu inn í liðið, voru öðrum leikmönnum hvatning og einhvern veginn lyftu öllu á hærra plan. Þetta tvennt þarf að fara saman svo topp árangur náist,“ segir hann. „En til þess að fá þessa leikmenn í dag þarf liðið að vera í fremstu röð og ég tel ÍA vera í dauðafæri til að byggja upp og þróa leikmenn sem geta verið í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu bæði karla og kvenna í framtíð- inni,“ segir hann en bætir því við að á sama tíma þurfi leið ungra leikmanna upp í meistaraflokk að vera greið. Hann minnist þess þeg- ar Arnór Sigurðsson, leikmaður CSKA Moskvu sem varð á dög- unum yngsti Íslendingurinn til að skora í Meistaradeild Evrópu, spil- aði sinn fyrsta leik fyrir ÍA í efstu deild árið 2015, þá 16 ára gamall. „Ég man að sem yfirþjálfari fann maður áhrifin sem það hafði á alla yngri flokkana. Þá sáu krakkarnir í 4. og 5. flokki, sem voru kannski með Arnóri í skóla, að leiðin er ekki svo löng. Ef meistaraflokks- leikur er bara fjarlægur draumur hæfileikaríkra ungra leikmanna þá er félagið ekki á réttri braut.“ Þörf á strúktúr og stöðugleika Jón Þór tekur skýrt fram að gott starf hafi verið unnið árin áður en þeir tóku við sínum störfum. „Á þessu sviði hafði Þórður Þórðar- son gert mjög góða hluti sem yfir- þjálfari og Þórður Guðjónsson sem framkvæmdastjóri, sem og Dean í afreksstarfinu. Þetta byrjar ekkert og endar með mér og Gulla og þó að við séum farnir þá ber félaginu vonandi gæfa til að efla þetta starf enn frekar. Lenskan hefur verið sú í íslenska boltanum að félögin hafa oftar en ekki verið rekin þannig að straumar og stefnur breytast með fólkinu. Það þarf að búa til strúktúr og stöðugleika, það er miklu eðli- legra að ráða fólk inn í strúktúrinn en að fólkið ákveði hvernig hlutirn- ir eigi að vera. Ef það er ekki nógu góður strúktúr eða jafnvel eng- in skýr stefna í starfinu getur farið illa. Við þekkjum mörg dæmi þess í gegnum tíðina, hvort sem er úr íþróttum og mögulega viðskiptalíf- inu líka, ef út í það er farið,“ segir Jón Þór léttur í bragði. Gunnlaugur Jónsson lét af störf- um sem þjálfari meistaraflokks í ágúst 2017 og Jón Þór stýrði liðinu síðustu sex leiki tímabilsins. Hann segir að upphaflega hafi hann ekki ætlað sér að taka við liðinu held- ur litið svo á að þeir væru teymi og skyldu því hætta báðir. Gunn- laugur hvatti hann hins vegar til þess að taka við. „Það varð úr og gekk svo sem ágætlega. Liðið var á botni deildarinnar og varnarleikur- inn hafði verið mikill höfuðverkur. En við náðum ágætis holningu á liðið, töpuðum bara einum leik og héldum hreinu í þremur. Það var ákveðinn sigur að ná þeim stöð- ugleika,“ segir Jón Þór og viður- kennir að hafa verið svekktur að ná ekki að bjarga liðinu frá falli. „Ég var drullufúll að við náðum ekki að halda okkur uppi, ég viðurkenni það alveg,“ segir hann. „Það sat í mér og situr ennþá í mér. Dýna- míkin í liðinu var góð og holn- ingin fín. Að mínu mati vorum við nær því að bjarga okkur frá falli en staðan í lok móts gaf til kynna. Það vantaði ekki mikið upp á.“ „Frábær ákvörðun að fara í Stjörnuna“ Margir voru þess fullvissir eftir tímabilið að Jón Þór yrði ráðinn til að halda áfram með liðið, en svo varð ekki. Ákveðið var, eftir nokk- uð langan tíma, að semja við Jó- hannes Karl Guðjónsson sem stýr- ir liðinu í dag. Jón Þór viðurkenn- ir að hafa verið svekktur á sínum tíma, en ber engan kala til félags- ins í dag. „Á þeim tíma var ég nátt- úrulega sannfærður um að ég væri rétti maðurinn til að taka við lið- inu. En það fór eins og það fór og ég var auðvitað drullusvekktur á þeim tímapunkti. En svona er fót- boltinn, það er alltaf verið að velja og hafna í boltanum hvort sem maður er þjálfari eða leikmaður,“ segir hann auðmjúkur. „Þjálfarar- áðningin hjá ÍA tók langan tíma, sem gerði það að verkum að nán- ast öll lið á landinu voru búin að ráða sér þjálfara. En ég tók frá- bæra ákvörðun um að fara í Stjörn- una sem aðstoðarþjálfari meistara- flokks karla,“ bætir hann við. „Það var ótrúlega gaman að vinna þar. Frábær leikmannahópur, umgjörð og aðstaða. Mikill stöðugleiki í fé- laginu frá toppi til táar. Síðan var bara mjög skemmtilegt, eftir að hafa upplifað dálítið sveiflukennd- an tíma hjá ÍA, að mæta inn í topp- lið þar sem kröfurnar eru titlar og leikmannahópurinn stór og þétt- ur,“ segir Jón Þór. „Ég fann það strax á fyrstu æfingunni að þetta lið myndi vinna eitthvað, hungrið og viljinn var til staðar og gæðin líka,“ bætir hann við. Sú varð einmitt raunin. Stjarnan stóð uppi sem bik- armeistari eftir sigur á Breiðabliki í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum í haust. „Það var frábært að upp- lifa þennan fyrsta bikarmeistara- titil í sögu félagsins. Það eina sem ég er svekktur yfir er að Stjarnan hafi ekki orðið Íslandsmeistari líka. Eftir bikarmeistaratitilinn datt að- eins botninn úr þessu. Við vorum í miklu betri séns að ná Íslands- meistartitlinum en flestir gerðu sér grein fyrir, vissum að Valur myndi ekki vinna síðustu þrjá leik- ina. Þannig má segja að mótið hafi verið í okkar höndum. En við nýtt- um ekki sénsinn og enduðum mót- ið illa.“ Verður að huga að karakter leikmanna Boltinn hefur breyst mikið frá því Jón Þór fékk fyrst smjörþefinn af þjálfun og enn meira frá því hann sjálfur var ungur og upprennandi leikmaður. Aðstaða og umgjörð hefur batnað til muna og leikmenn orðið tæknilega mun færari en þeir voru áður. Á sama tíma kveðst Jón Þór þó hugsi yfir þeim einkenn- um sem hafa verið aðalsmerki ís- lenskra knattspyrnumanna í gegn- um tíðina. „Vilji og karakter, ósér- hlífni, harka og seigla, að gefast aldrei upp þó móti blási. Þetta hafa íslenskir knattspyrnumenn verið þekktir fyrir í gegnum tíðina og við megum ekki tapa þessu, því kar- akterinn er líka mikilvægur ef við ætlum að ná árangri. Þegar ég fór yfir í Stjörnuna sá ég aftur krakka hlaupa út á völlinn um hávetur í frosti, slyddu og roki, kappklædda og tilbúna á æfingu með bros á vör. Hérna á Akranesi held ég að við þurfum svolítið að passa okkur. Í 80 til 90 prósent tilvika er hægt að æfa utandyra allan veturinn en við erum með krakkana okkar inni í höllinni í tíu mánuði á ári. Að mínu viti er það alltof mikið,“ segir hann. Vont veður er ákveðið mót- læti í sjálfu sér, mótlæti sem hann telur hollt að ungir leikmenn læri að berjast við og sigrast á. „Mað- ur hefur smá áhyggjur af því til lengri tíma að börnin séu kannski aðeins of mikið í bómull hjá okk- ur. Akranes á einstaka sögu varð- andi atvinnumenn í knattspyrnu. Aðalsmerki þeirra hefur verið hvað þeir eru vinnusamir, duglegir og bregðast vel við mótlæti. Samfara framþróun í tækni og fótboltalegri getu verðum við að huga að karakt- ereinkennum leikmanna líka. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og hverjir hafa verið okkar styrkleikar,“ segir Jón Þór. Margt breyst á stuttum tíma Þjálfarastarfið segir hann að hafi breyst á sama tíma. „Þjálfun breyt- ist í takt við samfélagið. Það er ótrúlegt hvað einstaklingar breyt- ast drastískt á stuttum tíma,“ seg- ir hann. „Það eru ekki nema 20 til 30 ár síðan strákar og stelpur í 2. flokki voru bara ábyrgir þjóðfélags- þegnar í fastri vinnu, mörg flutt að heiman og sum búin að stofna eig- in fjölskyldu, 17 og 18 ára gömul. Í dag búa krakkar lengur heima, eiga erfiðara með að fá vinnu með full- orðnu fólki og fá ekki að bera neina ábyrgð í þjóðfélaginu. Fyrir vikið fullorðnast fólk seinna. Það hefur áhrif á fótboltann eins og allt ann- að. Fótboltavöllurinn endurspeglar samfélagið,“ segir Jón Þór og rifj- ar upp hvernig hlutirnir voru þegar hann var yngri. „Ég var heppinn að því leyti að fyrir fermingu þá sótti Ríkharður Jónsson mig í vinnu við að mála. Pabbi var giftur dóttur hans og ég var svo lánsamur að fá að kynnast honum og hans frábæru fjölskyldu. Rikki reyndist mér ótrú- lega vel. Sótti mig í vinnu og ég fór ekkert inn í hóp af krökkum þar. Ég var eina barnið, vann með full- orðnum mönnum og það var kom- ið fram við mig eins og fullorðinn mann. Ég fékk ábyrgð og það var ætlast til að ég skilaði mínu eins og aðrir. Fyrir það er ég þakklátur í dag,“ segir hann. „Ungt fólk í dag býr lengi heima. Það er ekki kom- ið fram við það eins og fullorðið fólk heima hjá því og ekki í skól- anum. Ungmenni eiga erfitt með að fá vinnu með fullorðnu fólki og það gerir það að verkum að þrosk- inn kemur seinna. Á móti kemur að unga fólkið í dag menntar sig betur og er almennt klárara en fyrri kyn- slóðir. En það fær ekki eins mikla ábyrgð og þroskast því seinna og öðruvísi,“ segir hann. Þess vegna segir Jón Þór að einn mikilvægasti liðurinn í starfi knattspyrnuþjálf- ara nútímans sé að brúa bilið frá yngri flokkum upp í meistaraflokk- ana. „Stór þáttur í þjálfun í dag er að finna út hvernig við getum veitt leikmönnum ríkari ábyrgð á eigin framvindu, til að þeir þroskist fyrr og verði betri leikmenn. Þegar leik- menn koma inn í meistaraflokk eru þeir með fullorðnu fólki og það er komið fram við þá eins og fullorð- ið fólk. Þeir bera ábyrgð á að skila sínu eins og aðrir. Þannig þrosk- ast þeir og verða betri. Þessu hafa þjálfarar þurft að aðlagast undan- farið. Umhverfið mótar allt og alla og svona er lífið í dag.“ Þjálfarastarfið er fjölskylduvænt Jón Þór er fjölskyldumaður, kvænt- ur Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur sjónvarpskonu. Saman eiga þau tvo syni. „Við byrjuðum saman fyrir tuttugu árum síðan. Ég var tvítug- ur og hún átján ára. Við keyptum fyrstu íbúðina okkar sama ár, 1998, fluttum að heiman og byrjuðum að búa,“ segir Jón Þór. „Ég er ótrú- lega heppinn að hafa kynnst Sig- rúnu, hún er einstök og er höfuð- ið á heimilinu,“ segir hann. „Hún ber hitann og þungann af þessu öllu saman,“ segir hann og hlær við. „Það þýðir ekkert að keppa við hana. Hún er algjört séní, rúll- aði upp öllu sínu námi og var dúx á nánast öllum skólastigum. Það er alveg sama hvað hún tekur sér fyrir hendur, hún rúllar öllu upp,“ bæt- ir hann við. „Hún er bara afburða- manneskja. Með þannig mann- eskju á heimilinu heldur maður sig bara til hlés og leyfir henni að stjórna ferðinni. Það er best fyrir alla,“ segir Jón Þór. „Við styðjum við hvort annað og það hefur geng- ið vel hjá okkur báðum í leik og starfi. Hún hefur reynst mér ótrú- lega vel hvað sem ég tek mér fyr- ir hendur og vonandi hef ég reynst henni jafn vel. Við hjálpum hvoru öðru að ná því besta fram,“ segir hann brosandi. Aðspurður segir Jón Þór engan vanda að tvinna saman fjölskyldu- lífið og þjálfarastarfið. „Það er mik- ill misskilningur að þjálfarastarfið sé ekki fjölskylduvænt. Auðvitað gerist það stöku sinnum að mað- ur missir af hlutum, bindingin er mikil yfir sumartímann sérstaklega og ekki hægt að fara í mikil ferða- lög, til dæmis. En dags daglega er maður sæmilega frjáls með tím- ann, getur alltaf komið börnunum í skólann, á æfingar og tekið þátt í þeirra áhugamálum. Þannig að það kemur sér vel í föðurhlutverkinu að vera þjálfari,“ segir hann. „Þetta er ástríða“ Þá sjaldan að Jón Þór er ekki að hugsa um fótbolta tekur hann sig til og málar hús. Hann er lærð- ur málari og finnst gott að bleyta í penslinum af og til. „Ég geri það alltaf í og með til að kúpla mig út. Það er nauðsynlegt af og til. En í sjálfu sér er maður í raun og veru alltaf að hugsa um fótbolta all- an daginn, alla daga. Fótboltinn er áhugamál þó að hann sé líka vinnan mín og maður er alltaf að spá í æfingar, leikmannahópa og fleira,“ segir hann og bætir því við að þannig þurfi þetta að vera, í það minnsta í hans huga. „Ég man að þegar ég byrjaði að þjálfa. Þá ákvað ég að daginn sem ég færi að líta á þjálfarastarfið sem einhverja kvöð en ekki bara áhugamál og ástríðu út í gegn, þá væri ég hættur,“ seg- ir Jón Þór. „Þetta er sérstök vinna sem maður lítur ekki á sem vinnu. Það þarf að leggja líf og sál í bolt- ann, þetta er ástríða og ótrúlega gaman,“ segir Jón Þór Hauksson að endingu. kgk Karlalið Stjörnunnar fagnaði bikarmeistaratitli í haust í fyrsta sinn í sögu félags- ins. Jón Þór var aðstoðarþjálfari liðsins og hér fagnar hann að leik loknum ásamt sonum sínum í rigningunni á Laugardalsvelli. Ljósm. sók. Jón Þór og Ármann Smári Björnsson, þáverandi fyrirliði ÍA, eftir leik haustið 2017.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.