Skírnir - 01.04.2005, Page 12
10
JORGEN L. PIND
SKÍRNIR
Síðasti vetur Guðmundar á Möðrudal var 1890 en þá hafði hann
afráðið að afla sér frekari menntunar. Skrifaði hann séra Einari
Jónssyni í Kirkjubæ í Hróarstungu og bað hann um að kenna sér
undir inntökupróf í Lærða skólann en í staðinn myndi Guðmund-
ur vinna fyrir prest. Varð það úr og hjá Einari var Guðmundur í
tvö ár. Haustið 1892 sigldi hann til Reykjavíkur og settist í þriðja
bekk Lærða skólans að loknu inntökuprófinu. I árbók skólans,
sem nemendur skráðu, er þetta skrifað seinna þann vetur: „Guðm.
Finnbogason ætlum vér að verði að manni með tímanum. Hann er
austan af fjöllum. Les vel, ólátast mikið og hefur þó áhuga á skóla-
málum og er slíkt fágætt".10
Guðmundur reyndist afburða námsmaður og lauk stúdents-
prófi með ágætiseinkunn vorið 1896. Þá um haustið sigldi hann til
Hafnar, ákveðinn í að lesa heimspeki. Fleiri námsmenn voru með
í för, þeirra á meðal Árni Þorvaldsson samstúdent Guðmundar. I
óprentaðri ævisögu segir hann frá því að nóttina áður en lagst var
að bryggju í Kaupmannahöfn „var allmikið rall [...] og voru mörg
minni drukkin og margar ræður haldnar. Flestar þeirra hélt
Guðm. Finnbogason, því hann var alltaf að æfa mælskugáfu
sína".* 11 Stúdentarnir höfðu ástæðu til að gleðjast því í Kaup-
mannahöfn beið þeirra ókeypis vist á Garði, enda nutu íslenskir
stúdentar forréttinda til kommúnítetsins við Hafnarháskóla á
þessum árum.12
III
Guðmundur hóf nám við Hafnarháskóla haustið 1896. Fimm
árum síðar, í apríl 1901, lauk hann meistaraprófi í heimspeki með
sálfræði sem aðalgrein. Á þessum árum var þetta eina prófið í sál-
fræði sem unnt var að taka við skólann. Námið var með þeim
hætti að stúdentar fengu í upphafi lista yfir einar 100 bækur, þar á
meðal mörg sígild rit í heimspeki og sálfræði, sem þeir áttu að hafa
10 Árbók Lærða skólans, V, 1891-1892:139. í Þjóðskjalasafni.
11 Árni Þorvaldsson. Óprentuð sjálfsævisaga, 1:195. Þjóðskjalasafn íslands E 71.
12 Kommúnítetið sá fátækum stúdentum fyrir húsnæði og fæði. Jakob Benedikts-
son 1987.