Feykir


Feykir - 21.02.2018, Blaðsíða 10

Feykir - 21.02.2018, Blaðsíða 10
Jón Gísli Eyland Gíslason hefur vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína á knattspyrnuvellinum og náði að sanna sig, þrátt fyrir ungan aldur, sem meistaraflokksleikmann hjá Tindastóli en hann spilar sem hægri bakvörður. Jón Gísli, sem er á 16. aldursári, er enn skráður leikmaður í 3. flokki og er, eins og gefur að skilja, lykilmaður þar. Þá hefur hann leikið átta U17 landsleiki frá því í haust, fyrst í undankeppni EM og nú í janúar í umspili fyrir sömu keppni. Jón Gísli er Íþróttagarpur Feykis að þessu sinni. Árgangur: -Fæddur árið 2002. Hvar ólstu upp? -Ég er alinn upp á Sauðárkróki. Hverra manna ertu? -Ég er sonur Ingunnar Ástu Jónsdóttur og Gísla Eyland Sveinssonar. Íþróttagrein: -Knattspyrna og svo hef ég líka gaman af því að leika mér í körfubolta. Íþróttafélag: -Tindastóll. Helstu íþróttaafrek: -Helsta afrekið er þegar ég spilaði minn fyrsta meistaraflokksleik og fyrsta landsleik mundi ég segja. Skemmtilegasta augnablikið: -Þegar ég var að labba inn á völlinn í mínum fyrsta landsleik fyrir U17 og heyra þjóðsönginn. Það var algjör draumur og að fá að spila fyrir landið sitt. Neyðarlegasta atvikið: -Það var frekar neyðarlegt þegar ég náði að klobba pabba þrisvar sinnum í reitabolta á meistaraflokksæfingu, þá 14 ára. Einhver sérviska eða hjátrú? -Já, ég borða alltaf það sama fyrir leikdag, kjúklingapasta og fyrir leiki þá klæði ég mig alltaf fyrst í vinstri sokkinn og vinstri legghlífina. Uppáhalds íþróttamaður? -Gylfi Sigurðsson er minn uppá- haldsleikmaður því að mér finnst hann vera góð fyrirmynd, góður leikmaður, sem leggur mikið á sig. Ef þú mættir velja þér and- stæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Lionel Messi í fótbolta því mig langar að fá að vita hversu erfiður hann er. Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Þegar hann er búinn að sóla mig fjórum sinnum upp úr skónum og í þá aftur, þá dúndra ég hann niður! Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Að hafa sigrast á kvíðanum sem ég hef glímt við síðustu fimm ár. Lífsmottó: -Winners never quit but quitters never win! Helsta fyrirmynd í lífinu: -Pabbi, Gísli, er fyrirmyndin mín í lífinu. Hann er gaurinn sem hefur ýtt mér áfram til að verða betri og hvert ég ætla mér. Það er mér mjög mikilvægt að getað talað við hann um allt hvað ég get gert betur, hvað ég gerði vel. Pabbi er mjög rólegur og yfirvegaður og það er mjög gott að hann haldi mér á mottunni þegar ég fer (stundum) hátt upp. Hvað er verið að gera þessa dagana? -Æfa eins og brjálæð- ingur. Hvað er framundan? -Undirbúa mig fyrir næstu átök í fótboltanum. Jón Gísli Eyland Gíslason Algjör draumur að fá að spila fyrir landið sitt ( ÍÞRÓTTAGARPURINN ) palli@nyprent.is Landsliðsbúningur Íslands fer Jóni Gísla afskaplega vel og vonandi eigum við eftir að sjá hann keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni. MYND AF FACEBOOK Safnar fyrir ferð á slóðir Lord of the Rings Leitar til einstaklinga og fyrirtækja um fjárframlög Rúnar Þór Njálsson frá Blönduósi á sér þann draum að ferðast á vit ævintýra, alla leið til Nýja-Sjálands í 14 daga skoðanatúr og bralla ýmislegt tengt sagnaveröld Lord of the Rings. Rúnar Þór er 26 ára gamall og bundinn hjólastól en hann fæddist þremur mánuðum fyrir tímann, aðeins 4 merkur/1kg og er með CP fjórlömun. Til þess að geta fjármagnað drauminn hefur hann stofnað fjámögnunarsíðu á netinu en ferðin fyrir hann og aðstoðarfólk kostar um 27.000, evrur. Rúnar Þór segir að það að vera fatlaður og bundinn í hjólastól sé mjög erfitt. „Þú getur ekki gert margt sem þú vilt gera og á hverjum degi horfir þú upp á fólk fara og gera hluti sem þú vildir óska að þú gætir gert. En þá er enn mikilvægara að gefast ekki upp og gera allt sem í þínu valdi stendur til að láta þína drauma rætast, og það er ég einmitt að reyna nú. Minn draumur er að ferðast.“ En vegna fötlunar Rúnars og stærðar hans og erfiðleika þessa draums, getur hann ekki gert þetta einn og þarf því að hafa gott fólk með í för, sér til aðstoðar. „Ég vissi sem er að ég persónulega myndi aldrei hafa efni á þessu enda nóg fyrir hvern og einn ferðalang að greiða fyrir sig allt sem kemur að slíku ferðalagi. En vegna minnar hreyfihömlunar þarf ég persónulega að greiða fyrir mína þrjá aðstoðarmenn og stofnaði ég því fjáröflunarsíðu. Nú hefur fólk deilt þessu og styrkt en það vantar enn töluvert upp á,“ segir hann en hann hefur m.a. leitað til fyrirtækja í þeirri von að þau gætu styrkt hann fjárhagslega. Þegar þetta er skrifað hafa safnast alls 12,777 evrur af 27.000 evra markmiðinu og vantar því enn töluvert upp á. Ef einhver fyrirtæki vilja gerast sérstakir styrktaraðilar fyrir Rúnar Þór segir hann að þau verði nefnd sérstaklega þegar þessari ferð verður gerð skil í máli og myndum síðar. Einnig er hægt að styrkja nafnlaust ef þess er óskað. „Allt skiptir máli. Því fleira fólk og fyrirtæki sem sjá þetta og hjálpa, því líklegra er þetta til árangurs. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Rúnar Þór og bendir á að fólk geti styrkt um þær upphæðir sem það óski sér. Eins og máltækið segir gerir margt smátt eitt stórt. VIÐTAL Páll Friðriksson Rúnar vonast til þess að komast til Nýja Sjálands á vit ævintýra. MYND AF STYRKTARSÍÐU Meðalatvinnutekjur 90% af landsmeðaltali Norðurland vestra Heildaratvinnutekjur á landinu voru 9,7% hærri að raunvirði á árinu 2016 en þær voru árið 2008 en hafa verið lægri öll árin fram að því. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur á árunum 2008-2016 eftir atvinnugreinum og svæðum. Mestu atvinnutekjurnar voru í heilbrigðis- og félagsþjónustu, iðnaði og fræðslustarfsemi en mesta aukningin á tímabilinu varð í greinum er tengjast ferðaþjónustu, þ.e. gistingu og veitingum, flutningum og geymslu og leigu og sérhæfðri þjónustu. Mesti samdrátturinn varð hins vegar í fjármála- og vátryggingaþjónustu og mann- virkjagerð. Meðalatvinnutekjur voru hæstar á Austurlandi og þar næst kemur höfuðborgar- svæðið en lægstar eru þær á Norðurlandi vestra og á Suðurnesjum. Heildaratvinnutekjur á Norðurlandi vestra jukust aðeins um rúm 4% á tímabilinu 2008- 2016, þrátt fyrir að árin 2015 og 2016 hafi atvinnutekjur aukist um 6-7% hvort ár. Mestu atvinnutekjurnar voru greiddar í opinberri stjórnsýslu og fræðslustarfsemi en næst á eftir koma verslun, fiskveiðar, heilbrigðis- og félags- þjónusta og iðnaður. Á Norðurlandi vestra varð mesta aukningin í atvinnutekjum í landbúnaði, gistingu og veit- ingum, verslun og í fræðslustarfsemi. Hins vegar varð verulegur samdráttur í mannvirkjagerð og einnig varð nokkur samdráttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í fiskveiðum. Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi vestra árið 2016 voru aðeins 90% af landsmeðaltali og er þar mikill munur á Skagafjarðarsýslu, þar sem meðalatvinnutekjur voru 95% af landsmeðaltali, og Húnavatnssýslum þar sem þær náðu aðeins 83%. Opinber stjórnsýsla var stærsta atvinnugreinin árið 2016 í Húnavatnssýslum, mælt í atvinnu- tekjum, en næst á eftir koma fræðslustarfsemi, fiskveiðar, iðnaður og heilbrigðis- og félags- þjónusta. Í Skagafjarðarsýslu var fræðslustarfsemi stærst en næst á eftir komu verslun, opinber stjórnsýsla og þá fiskveiðar. /FE 10 08/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.