Feykir


Feykir - 07.03.2018, Blaðsíða 6

Feykir - 07.03.2018, Blaðsíða 6
Ég þakka Maríu Eymunds fyrir áskorunina, það er gaman að fá tækifæri til að skrifa í Feyki á ný. Mér datt í hug að segja aðeins frá því sem ég er mikið að spá í þessa dagana í tengslum við nám mitt í menningarfræði við HÍ, en það eru áhrif samfélagsmiðla á skoðanamyndun fólks. Áhrif og hlutverk samfélagsmiðla hafa mikið verið í deiglunni undanfarin misseri, sérstaklega í kjölfar þess að úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum urðu ljós en niðurstöður þeirra komu þvert á það sem skoðanakannanir og almenn umræða í fjölmiðlum gáfu til kynna. Þá hefur kastljósinu sérstaklega verið beint að deilingu rangra upplýsinga og falsfrétta sem mikið hefur borið á í aðdraganda kosninga, sem og að áhrifum miðilsins á skoðanamyndun fólks almennt. Áhrifamáttur samfélagsmiðla er mikill en umfangið og áhrifin eru óljós og það hefur valdið titringi meðal stjórnmálamanna, fjölmiðlafólks, fréttaskýrenda og almennings ekki síður. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari umræðu og hafa áhyggjuraddir heyrst úr ýmsum áttum eftir síðustu alþingiskosningar, 28. október 2017. Í pistli í Fréttablaðinu í nóvember sl. lýsti framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, Erla Ýr Gylfadóttir, áhyggjum sínum af áhrifum samfélagsmiðla á lýðræðið. Hún sagði tímabært að skoða hvernig almenningur móti sér skoðanir í aðdraganda kosninga og ræddi sérstaklega um þátt samfélagsmiðilsins Facebook, þar sem allskyns upplýsingum og áróðri hafi verið dreift nafnlaust með það að markmiði að hafa áhrif á kjósendur. „[R]annsóknir sýna að ómerkt skilaboð og áróður sem miðlað er til fólks getur verið skaðlegur. Það er líka ógagnsætt hvernig samfélagsmiðlar forgangsraða efni og auglýsingum í fréttaveitum notenda. Samfélagsmiðlar líkt og fjölmiðlar hafa mikið vald. Það er kominn tími til ræða af alvöru hlutverk og skyldur þeirra í aðdraganda kosninga.“ Sífellt snarpari skoðanaskipti á samfélagsmiðlum hafa einnig verið til umræðu, sbr. þegar fréttamiðlar eru farnir að bregða á það ráð að loka fyrir athugasemdir við fréttir á vefmiðlum sínum, eins og t.d. Al Jezeera sem bar fyrir sig að vettvangurinn fyrir lýðræðislega og uppbyggilega umræðu hafi orðið að engu þegar „fólk hulið á bak við dulnefni hafi dælt út illyrðum, ofstæki, kynþáttafordómum og sértrúarstefnu“ á síðum þeirra. Að sama skapi hefur tilvist og áhrif svokallaðra bergmálsklefa (e. echo chamber) á samfélagsmiðlum vakið fólk til umhugsunar, þ.e. stafrænt umhverfi þar sem skoðanir einstaklinga eru styrktar með jákvæðum undirtektum annarra svipað þenkjandi einstaklinga, og hvernig umræða á samfélagsmiðlum getur stýrt skoðanamyndun. Í þessu samhengi hef ég verið að kynna mér hugmyndir bandaríska fræðimannsins Cass R. Sunstein um hóp-pólaríseringu (e. group polarization) sem hann fjallaði um í „Going to Extremes. How Like Minds Unite and Divide“ (2009) og í bókinni„#Republic“ sem kom út á síðasta ári. Hann segir að þegar fólk er í hópi svipað þenkjandi einstaklinga er ríkjandi tilhneiging til að fara út í öfgar. Þessa pólaríseringu segir Sunstein greinanlega á mismunandi stigum í öllum sviðum hins hversdaglega lífs. „Hópar fara út í öfgar. Nánar tiltekið, meðlimir í umræðuhóp enda vanalega með öfgafyllri afstöðu, í sömu átt og þeir hölluðust upphaflega að, áður en umræðan hófst,“ útskýrir Sunstein. Hann greinir frá tveimur ólíkum gerðum af hóp-pólaríseringu, annars vegar sem afhjúpar dulda trú og langanir og hins vegar sem skapar nýja trú og langanir. Hinir fyrrnefndu búa yfir bældum en djúpstæðum skoðunum, sem eru yfirleitt ekki greinanlegar í þeirra félagslífi og ber vanalega ekki á góma. Viðkomandi hemur sjálfan sig í því að viðra umræddar skoðanir af ótta við vanþóknun eða jafnvel útskúfun. Hægt er að gera sér í hugarlund hvað gerist þegar fleiri slíkir aðilar ræða saman og þessar bældu skoðanir koma á yfirborðið. Ein afleiðingin er mögulega að umræður hópanna færist út í öfgar og fólkinu finnist það hafa verið fótum troðið og beitt þöggun. Umræðuhópurinn verður að vettvangi sjálfsskoðunar þar sem „innri rödd“ viðkomandi fær að njóta sín. Hér afhjúpar umræðan óumdeilanlega skoðanir sem voru þegar til staðar, samkvæmt Sunstein. Hin gerð pólaríseringar, sem Sunstein tilgreinir, getur átt sér stað þótt viðkomandi hafi engar fyrirfram hugmyndir eða fordóma gagnvart málaflokknum, lítið eða jafnvel ekkert hefur verið bælt. Í þeim tilfellum eru félagslegir áhrifavaldar að verki, einstaklingar sem leiða umræðuna og ýta undir pólaríseringu. Aðrir í hópnum gefa orðræðu þeirra gaum og andstaða þeirra gagnvart málaflokknum eykst. Þannig eru margir sem tileinka sér öfgafullar skoðanir sem byggja algjörlega á hópsamskiptum af þessum toga. Þess má geta að hóp- pólarísering getur bæði haft jákvæðar og neikvæðar afleiðingar. Augljóst dæmi um neikvæðar afleiðingar er þegar hópurinn hvetur til ofbeldisverka, s.s. átaka við aðra hópa samfélagsins eða jafnvel hryðjuverka en Sunstein bendir á að pólitískir öfgahópar séu gjarnan afsprengi hóp- pólaríseringar. Aðgreining meðlima þessara hópa í „við“ og „þeir“ og að skapa tortryggni í garð „hinna“ sé einmitt einkar nytsamlegt tæki til að ýta undir frekari hóp-pólaríseringu. Jákvæðar afleiðingar pólaríseringar eru þegar einstaklingar sem hafa ekki haft sjálftraust til að stíga fram og berjast fyrir félagslegum úrbótum koma saman. Hópameðlimir skynja samstöðu og samþykki hinna í umræðum um málefnið sem styrkir sjálfsmynd viðkomandi. Gott dæmi um þetta er #Meetoo byltingin sem hefur rækilega sett mark sitt á samtímann, konur úr ýmsum geirum, víða um heim, koma saman ÁSKORENDAPENNINN Berglind Þorsteinsdóttir Sauðárkróki Áhrif samfélagsmiðla UMSJÓN palli@feykir.is Berglind tjillar í Lundúnaborg. MYND ÚR EINKASAFNI inni á lokuðum Facebook- hópum. Þær segja sögur sínar, fá jákvæðar undirtektir og tilfinningatákn þeim til stuðnings og hvatningar og lesa samskonar upplifanir annarra hópameðlima. Þegar þær hafa stappað stálinu hver í aðra og eru orðnar vissari í sinni sök – eða pólaríserast eins og Sunstein myndi orða það – stíga þær skrefið út fyrir hópinn með áætlun um þær siðbætur sem þær vilja ná fram, t.d. með því að birta sögur sínar í fjölmiðlum og vekja athygli á málstaðnum með ýmsum hætti. Sunstein hefur sagt Facebook, og aðra samfélagsmiðla, í raun vera pólaríseringar-maskínur. Fólk fær upplýsingar og afþreyingarefni sífellt meira sniðið að áhugasviði hvers og eins, fólk ýmist síar sjálft eða með aðstoð algóryþma sem beina að þeim fréttum og efni sem telst sniðið að viðkomandi. Vandamálið er hins vegar þegar fjöldi fólks fær of einhæfar upplýsingar og hlustar einungis á háværan enduróm þeirra eigin radda. Fyrir vikið getur það farið svo langt út á jaðarinn á sitthvorum pólnum að allar úrlausnir vandamála verða erfiðari og að sama skapi getur reynst erfiðara að leiðrétta ýmsar þrautseigar rangfærslur sem fara á kreik. Nú sem aldrei fyrr - á tímum ofgnóttar upplýsinga sem eru aðgengilegar á veraldarvefnum - er mikilvægt að bera sig eftir fjölbreyttum upplýsingum frá ólíkum miðlum. Sama þótt upplýsingarnar séu manni ekki að skapi eða séu jafnvel óþægilegar, til að festast ekki í stafrænum bergmálsklefum sem halda manni frá því að kynnast nýjum heimi hugmynda sem í senn getur verið ögrandi og þroskandi - og hefur um leið jákvæð áhrif á lýðræðið í samfélaginu. - - - - - - - Berglind skorar á eiginmann sinn, Guðmund Stefán Sigurðarson, að koma með pistil. Seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram í Rimaskóla í Grafavogi um helgina og má segja að þar sé um hápunkt skákvertíðarinnar á Íslandi að ræða. Skákmenn koma saman, hitta gamla vini, rifja upp gamla takta og berjast hart til sigurs, eins og segir á heimasíðu Skáksambands Íslands. Skákfélag Sauðárkróks tók þátt og endaði í 3. sæti í 3. deild. Á heimasíðu Skákfélag Sauðárkróks segir að sveit félagsins hafi fengið 9 stig og 23 og 1/2 vinning, en stigin eru talin á undan vinningum í neðri deildunum og fást tvö stig fyrir sigur og eitt verði leikar jafnir. Þeir sem tefldu um helgina voru: Jón Arnljótsson 2 og 1/2 af 3, Birgir Örn Steingrímsson 1 / 2, Pálmi Sighvatsson 1 og 1/2 / 3, Unnar Ingvarsson 2 / 3, Árni Þór Þorsteinsson 1 og 1/2 / 3, Þór Hjaltalín 1 og 1/2 / 3 og Magnús Björnsson 0 / 1. /PF Íslandsmót skákfélaga Skákfélag Sauðárkróks í 3. sæti í 3. deild 6 10/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.