Feykir


Feykir - 14.03.2018, Blaðsíða 25

Feykir - 14.03.2018, Blaðsíða 25
11/2018 25 Heilir og sælir lesendur góðir. Hef áður minnst á í þessum þáttum það stórskemmtilega útvarpsefni sem var flutt, að ég held, í kringum 1955 og kallaðist þá útvarpskveðlingar. Var þar stjórnandi hinn snjalli hagyrðingur Guðmundur Sigurðsson og skilst mér að hann hafi ort marga af þeim fyrri pörtum sem hagyrðingarnir glímdu við. Hef ég lengi verið að reyna að grafa upp einhverjar af þessum vísum sem margar voru mjög góðar. Eins og áður segir mun Guðmundur hafa stjórnað spjalli þeirra félaga en þeir sem með honum voru voru Helgi Sæmundsson, Karl Ísfeld og að ég held Steinn Steinarr. Minnir endilega að einn eða fleiri þættir hafi verið sendir út frá Akureyri og mun þessi vísa sem hér kemur vera ort þar. Tel mig muna fyrir víst að Helgi hafi átt botninn. Ekki að því inna skal eða færa í letur. Hvað meyjarnar í Djúpadal dreymdi í fyrravetur. Kann ekki að nefna höfund að næsta botni. Lífsins tel ég lykkjuföll líkt og gömul kona. Mín er bráðum ævin öll ætla ég að vona. Næsti fyrripartur var svohljóðandi og minnir mig að Steinn hafi átt þann botn. Gaddi hálum hyljast strá hríðin málar þilin. En vín á skál og vorsins þrá vekur sálar ylinn. Í þætti, sem ég held að hafi verið fluttur frá Akureyri, mun gestum í sal hafa verið gefinn kostur á að botna fyrriparta Guðmundar. Það mun hafa verið hinn mikli fræðimaður Steindór frá Hlöðum sem botnaði svo snilldar vel. Nálgast vorið Norðurland nóttin styttist óðum. Logar yst við eyjaband eldur af sólarglóðum. Ein vísa kemur hér í viðbót úr þessu Akureyrargríni og mun Helgi þar botna. Holdið veikt og eldfimt er andinn reiðubúinn. Ef að hallast upp að mér Akureyrarfrúin. Of snemmt er að hætta þessum ágæta leik því ein vísa í viðbót rifjast upp sem örugglega tengist Akureyrarkvöldi. Og tel ég mig muna fyrir víst að þar botnar Helgi svo auðveldlega. Oft hefur Drottins ramma reiði reynt á okkar veika þrótt. Vegurinn yfir Vaðlaheiði versnaði í fyrrinótt. Vísnaþáttur 708 Einhverju sinni lét þáttarstjórnandi svo vel að Helga í fyrriparti. Helgi átti svar. Helgi vísur botnar best bragasnilli gæddur. Það er sem mér þykir verst þegar ég er hræddur. Annar af hinum félögunum mun hafa bætt við þessum ágæta botni: Undarlegri aldrei sést andi holdi klæddur. Vel kláruð hringhenda kemur hér næst en man því miður ekki eða veit hverjir af þeim félögum eiga hana. Æviskeiðið ötull trað ekki þreiði skýli. Síðan deyði og settist að á Satans eyðibýli. Gaman finnst mér að rifja upp margar af þessum stórgóðu vísum þeirra félaga og langar að enda það spjall með einni hér að lokum. Minnir að erlendur, þekktur, tónlistarmaður hafi komið til Íslands til að halda tónleika um svipað leyti og hafi Helgi, sem átti botninn, notað nafn hans þar. Væri gaman að heyra frá lesendum ef einhver man þann atburð. Trúlegt að enginn viti neitt um það í dag nema sá magnaði tónlistarmaður Jónatan Garðars- son. Sólin hlý um borg og bý brosir skýin gegnum. Við sína píu Singmannrí söng á kvíaveggnum. Ekki hefur enn á þessu ári þurft að kvarta yfir mörgum blíðvirðisdögum. Komu þrír með þíðu nú fyrir skömmu en síðan kom þessi harða norðanátt með frosti og kulda. Rifjaðist þá upp þessi staðreyndavísa Hallmundar Kristinssonar. Horfinn brottu virðist vart vetrarkuldi og snjór. Vorið foldu snöggvast snart snéri við og fór. Fer nú víst að verða nóg spjallað að sinni. Gaman að leita til Ingólfs Ómars með tvær kærleiksríkar vísur í lok þáttarins. Viltu tendra vonarbál veittu styrk þeim hrjáða. Leggðu rækt við líf og sál og láttu hjartað ráða. Kærleikseldinn efla ber auðlegð sálar þinnar. Mönnum styrkur mikill er máttur bænarinnar. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Það góða við að eldast er lífsreynslan, maður róast og fer að skoða hlutina í öðru ljósi. Forgangsröðin verður önnur. Bernskan og vinir bernskunnar birtast manni í öðru ljósi heldur en áður. Ég hef verið að hlusta á Mannakornsdiskinn – Gamli góði vinur – hann kallar fram ótal minningar. Yngri er maður svo sjálfhverfur og upptekinn af sér og sínum að annað fer í „geymslu“ en alls ekki „gleymsku“ – það upplifir maður síðar. Að upplifa 50 ára fermingar- afmælið sitt, koma til baka í litla þorpið sitt og hitta gömlu vinina, þá kemur þetta allt aftur. Það er svo gott að finna tilfinningar frá bernskunni vakna, finna væntumþykjuna til alls þess gamla. Hitta fólkið sem núna eru öldungar, fólkið sem að þá var á sínum bestu árum og það þekkir mann aftur. Hitta gömlu vinina, endurvekja kynnin, spyrja frétta á borð við; hvernig farnaðist þér og þínum? Finna gleðina með góðum fréttum, finna til með þeim slæmu. Hitta þá sem voru börn en eru núna fullorðir í blóma lífsins. Skoða gamla skólann sinn og tala um kennarana. Rifja upp sögur og hlægja mikið. Ganga um kirkjugarðinn og minnast þeirra sem þar hvíla, margir hverjir úr daglegu lífi bernskunnar. Við áttum líka okkar Sölva Helgason. Gaman er að koma í litla þorpið sitt aftur og sjá allar þær framfarir sem þar hafa orðið á uppbyggingu allri – gott að allir fóru ekki í burtu. Það er svo gott að finna í hjartanu kærleikann til alls þessa gamla sem er þarna á sínum stað þrátt fyrir hálfrar aldar ævi og störf annars staðar. Gamli góði vinur; þú ert þarna enn eins og þú hefur alltaf verið. - - - - - - Ég skora á Gunnar Pálmason frá Skagaströnd að rita pistil í Feyki. ÁSKORENDAPENNINN Guðrún Þórbjarnardóttir brottfluttur Skagstrendingur Gamli góði vinur UMSJÓN palli@feykir.is 30 ára Guðrún Þórbjarnardóttir ásamt vini sínum Ringó. MYND ÚR EINKASAFNI

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.