Feykir


Feykir - 23.05.2018, Blaðsíða 7

Feykir - 23.05.2018, Blaðsíða 7
X18 SPURNINGAR TIL ODDVITA : Guðmundur Haukur Jakobsson bæjarfulltrúi og atvinnurekandi L-listi fólksins Blönduósi L-listinn á Blönduósi býður nú fram í 3. skipti til sveitarstjórnarkosninga. Listinn hefur undanfarin átta ár unnið ötullega að málefnum samfélagsins og hefur hug á því að halda áfram á þeirri braut. Listann skipar fjöl- breyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins og hagsmunum íbúanna. Hvaða mál eru sett á oddinn hjá þínu framboði? -Fyrst og fremst eru það atvinnu- og húsnæðismálin. En við viljum leggja áherslu á að skapa atvinnulífinu aðstæður til að þróast og dafna og koma á fót atvinnumálanefnd. Þá þarf að fjölga byggingarlóðum og auka hvata til nýbygginga. Þá eru æskulýðsmál ofarlega á blaði en þar viljum við taka upp heilsustefnu í bæði leik- og grunnskóla með það að markmiði að bæta heilsu og vellíðan nemenda og starfsmanna. Þá er stefnt að því að flytja félagsmiðstöðina Skjólið á nýjan stað með áherslu á bætt aðgengi sem og að auka afþreyingu á svæðinu bæði fyrir heima- og ferðamenn. Að lokum leggjum við áherslu á að auka gagnsæi innan stjórnsýslunnar og auka aðkomu íbúanna að stefnumótun, hugmyndavinnu og ákvarðanatöku innan stjórnsýslunnar sem og að standa vörð um hagsmuni íbúanna hvað varðar heilbrigðisþjónustu, löggæslu og slökkvilið. Hver er helsta áskorunin sem þitt sveitarfélag stendur frammi fyrir? Helstu áskoranir sveitarfélagsins um þessar mundir er skortur á húsnæði og atvinnumál. Skortur er á íbúðarhúsnæði sem og iðnaðarhúsnæði. Nú þegar er búið að úthluta lóðum undir hvort tveggja og er það vel. Hins vegar er mikilvægt að auka lóðaframboð og hvata til að stuðla enn frekar að aukinni uppbyggingu á svæðinu. Þá eru atvinnumálin að sjálfsögðu grunnforsenda búsetu á svæðinu og því verður að leita leiða til að skapa atvinnulífinu ákjósanlegar aðstæður. Á þessu kjörtímabili hefur sveitarfélagið lagt grunn að gagnaversframkvæmd- um og er tilbúið til að takast á við slíkt verkefni ef svo ber undir. Af hverju ætti fólk að kjósa þinn flokk? -L-listinn hefur undanfarin átta ár staðið að mikilli uppbyggingu innan sveitarfélagsins og hefur áhuga á að halda því áfram. Listinn samanstendur af mjög fjölbreyttum og drífandi hópi einstaklinga með ólíkan bakgrunn og reynslu sem er tilbúið að takast á við verkefni sveitarfélagsins. Um er að ræða kraftmikið fólk sem vill leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag enn betra. Listinn hefur undanfarin ár sýnt vilja sinn í verki og vill halda áfram að koma góðum hugmyndum og verkefnum í verk. X18 AUGLÝSING FRÁ V-LISTA Í SKAGAFIRÐI Vinstri grænir og óháðir Fyrir fólkið í firðinum Það er gott að búa í Skagafirði, fjölbreytt mannlíf, einstæð náttúra og sagan við hvert fótmál. Við eigum að gera samfélagið okkar þannig úr garði að hér sé umfram allt gott að lifa í hversdagsleikanum. Það gerum við með því að leggja áherslu á að grunnþjónustan sé góð og verðlagi á henni stillt í hóf. Margt er nú þegar gott, en ennþá má ýmislegt bæta. Við njótum nú þess uppgangs sem er í samfélaginu með mörgum hætti, m.a. í auknum tekjum sveitarfélagsins. Við eigum að nýta styrk þess til að byggja upp blómlega byggð um allt héraðið með góðri þjónustu og fjölskylduvænu samfélagi. Til þess þurfa leikskólagjöld að lækka, þau eru orðin með þeim hæstu á landinu, eftir að hafa verið lægst við upphaf kjörtímabilsins. Sömuleiðis þurfa foreldrar að greiða of mikið fyrir skólamáltíðir. Leysa þarf dagvistunarmál í öllu héraðinu, þau eru í uppnámi. Húsnæðisvandi leikskól- anna er ekki nýr af nálinni. Það er einkennilegt að það sé ekki búið að leysa þessi mál þegar á sama tíma er hægt að keyra sum önnur mál í framkvæmdir á miklum hraða. Við getum verið stolt af grunn- skólunum okkar sem eru sérlega vel mannaðir og standa í fremstu röð hvað breytta kennsluhætti varðar. En mannauðurinn innan skólanna, bæði starfsfólk og nemendur, þarf betri vinnuaðstöðu sem þýðir endurbætur á skólahúsnæði á öllum stöðum. Að auki þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu utan póstnúmers 550. Að geta elst í sinni heimabyggð og fá unga fólkið aftur heim Þjónustu við eldra fólk þarf að bæta því víða til sveita er lítil sem engin þjónusta. Á sömu stöðum er þörf á að fjölga störfum. Það getur því farið vel saman að matar-, og heimaþjónustu við eldra fólk sé sinnt af heimamönnum á hverjum stað. Við ættum að reyna allt til að fólk geti elst í sinni heimabyggð, sé það ósk viðkomandi. Þess vegna er mikilvægt að eldra fólk eigi kost á sjúkraþjálfun heima hjá sér og bættri aðhlynningu almennt. Við viljum líka að ungt fólk geti komið aftur heim. Til þess þarf að skapa fleiri tækifæri til fjölbreyttra starfa og búsetu með auknu framboði á húsnæði og auðvelda uppbyggingu þess. Fjölga þarf lóðum og sveitarfélagið þarf að auglýsa störf. Það þarf að efla þétt- býliskjarna um allt héraðið með sambærilegri og góðri þjónustu eins og við verður komið. Við viljum verða hluti af heilsu- eflandi samfélagi, þar sem áhersla er lögð á gott mataræði á leik- og grunnskólum og fleiri vinnustöðum, ásamt hreyfingu, með fleiri göngu- og hjólastígum, leikvöllum og útivistar- svæðum. Það fellur vel að þessari heilsueflandi hugsun að stefna á styttingu vinnuvikunnar á vinnustöð- um sveitarfélagsins. Tilvalið væri að byrja á leikskólum Skagafjarðar. Við höfum talað fyrir hækkun hvatapeninga strax upp í 30 þúsund og um leið tryggja að þessi hækkun skili sér til heimilanna, en fari ekki beint í hækkun gjalda á þeirri afþreyingu sem hvatapeningar greiða niður. Áfram þarf að tryggja öflugt félags-, tómstunda-, tónlistar- og íþróttastarf um allan fjörðinn, það er aldrei ofsagt að þetta er besta forvörnin fyrir börnin okkar. Við viljum ekki eingöngu hafa orðið 'fjölskylduvænt samfélag’ á blaði, heldur í raunverulegum forgangi. Skagafjörður er víðfemur með fjölbreyttu atvinnulífi. Þær atvinnu- greinar þarf allar að styrkja, ekki síst landbúnað og smábátaútgerð en þar hefur verið á brattann að sækja. Hægt er að greiða leið bænda til að vinna sínar afurðir og selja beint frá býli og standa með þeim í sinni hagsmunabaráttu og hvað smábátaútgerð varðar þarf að sækja sértækan byggðakvóta. Einnig þarf að tryggja friðun Skagafjarðar fyrir dragnótaveiðum. Við viljum jafnræði til atvinnu- uppbyggingar en það kom einmitt fram í íbúakönnun Vífils Karlsonar nýverið að hér er óánægja með möguleika á að koma upp eigin atvinnurekstri. Því þarf að breyta. Ekki einungis þarf að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf, heldur þarf að tryggja að samkeppnis- skilyrði fyrirtækja séu jöfn. Opin stjórnsýsla og íbúalýðræði Samfara þessu öllu viljum við opna stjórnsýsluna. Hafa hana gegnsærri. Opin stjórnsýsla örvar pólitíska og samfélagslega þátttöku íbúa, styrkir lýðræðið. Verkferlar verða að vera skýrir og aðgengilegir. Íbúafundir, þarfagreining og undirbúningsvinna ásamt staðbundnu lýðræði. Það er ekki bara mikilvægasta undirstaða fram- kvæmda og breytinga heldur grund- völlur þess að framkvæmdin heppnist vel og verði árangursrík. Íbúar á hverjum stað eru sérfræðingar í nærumhverfi sínu, samráð við þá stuðlar að vandaðri ákvörðunartöku byggðri á réttum þekkingargrunni. Allir eiga að hafa val um virka þátttöku í ákvörðunum sem varða okkur öll. Með réttri forgangsröðun er hægt að framkvæma það sem hér er talið upp. Með opinni stjórnsýslu, meira gegnsæi og staðbundnu íbúalýðræði verður forgangsröðun önnur og betri en hún er í dag. Aðhald verður meira og þannig verða til peningar í þau verkefni sem skipta heimafólk máli. Að minnsta kosti ef meirihluta fráfarandi sveitar- stjórnar tekst ekki að leggja fjötra leyndra langtíma fjárhagsskuldbind- inga á samfélagið okkar vegna stuðnings við eitt einkafyrirtæki, sem binda hendur næstu sveitarstjórna. Gerum samfélagið okkar þannig að hversdagsleiki fólks sé ánægjulegur. Með góðri grunnþjónustu, með því að stilla gjöldum í hóf, hugsa vel um eldra fólk, með raunverulega fjölskylduvænni stefnu, þá verður Skagafjörður enn eftirsóknarverðari, bæði fyrir gesti og heimamenn, en ekki síst sem fram- tíðarheimili unga fólksins okkar. Við biðjum um ykkar stuðning til að fylgja þessum hugmyndum eftir í verki. Framboðslisti VÓ – Vinstri Græn og Óháð Skagafirði. 20/2018 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.