Feykir


Feykir - 30.05.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 30.05.2018, Blaðsíða 9
sem var voða spennandi og alveg á við afmælispakka. En það kom fyrir að börnin spyrðu mann þegar þau voru yngri og við sátum öll við eldhúsborðið. „Mamma, hvað er pabbi að fara að gera?“ og hann sat við hliðina á mér! Það var bara svo mikið eðlilegra að spyrja mömmu“ segir Obba og kímir. „En hann hefur alltaf verið heima öll jól og sjómannadaga. Það er svona aðalhátíðin, það er ekkert haldið hér upp á 17. júní, hann hverfur bara svona. Sjómanna- dagurinn er okkar dagur,“ segir Obba og bætir því við að nú eigi að gera enn meira úr deginum en verið hafi undanfarið, dagskráin byrji á fimmtu- dagskvöldi og standi til sunnudagskvölds með ýmisss konar uppákomum. „Það verður bara mjög gaman að taka þátt í því og sjá hvernig til tekst.“ Obba hefur tekið sér ýmis- legt fyrir hendur eftir að barnauppeldi lauk og hún fór út á vinnumarkaðinn. „Ég hef unnið mikið á vegum sveitar- félagsins, leysti af í sundlauginni og á dvalarheimilinu. Ég var líka flokksstjóri í unglinga- vinnunni í mörg sumur, það var alveg meiriháttar gaman. Svo höfum við í ein tuttugu ár, ég og vinkona mín, séð um félagsstarf aldraðra sem mér finnst líka mjög gefandi.“ Aðspurð hvaða starf hafi verið skemmtilegast af þeim sem hún hefur stundað segir Obba að störfin við aðhlynningu, bæði á dvalar- heimilinu og á sjúkrahúsinu á Blönduósi meðan hún bjó þar, hafi fallið henni sérlega vel og einnig að vinna með krökk- unum. „Mér finnst þetta bara allt gaman,“ bætir hún við, „að vinna með fólki, það finnst mér rosalega skemmtilegt, ég held ég geti ekkert gert upp á milli þessara starfa. Þau eru öll mjög ólík, líka að vinna með eldri borgurunum, það er mjög gefandi og skemmtilegt.“ Obba hefur einnig verið virk í félagslífi á Skagaströnd og meðal annars starfað með kvenfélaginu í 35 ár og gegndi þar formannsstöðu lengi. Einnig hefur hún starfað með Norræna félaginu á Skagaströnd og setið í stjórn þess um tíma. En hvað skyldu þau hjónin taka sér fyrir hendur í sameiginlegum frítíma sínum? Gott að vera með fjölskyldu og vinum „Við keyptum okkur hjólhýsi fyrir nokkrum árum, okkur finnst alveg yndislegt að fara með það eitthvað. Og svo finnst okkur gaman að vera með fjölskyldu og vinum og vera svo bara heima. Það er náttúrulega líka svo þegar maður á mann sem er langdvölum að heiman þá langar hann svo til að vera heima, hann er ekkert endilega til í að vera að þeysast út og suður og gera þetta og gera hitt, ég væri kannski meira til í það, sem er búin að vera heima á meðan. Þá kemur maður bara jafnvægi á það eins og annað, svona er þetta bara. En þetta er kannski erfiðast þegar eitthvað er um að vera í fjölskyldunni hjá manni, maður var að fara einn í veislurnar með börnin, alltaf svona eins og einstæð móðir þannig lagað. En þetta varð bara að gera og maður gerði það og var ekkert að spá í það. Vinkonur mínar hér voru í sömu sporum þannig að þetta var ekkert óvenjulegt. Þetta var bara það líf sem maður kaus sér, þó maður vissi ekkert út í hvað maður væri að fara,“ segir Obba. En hvernig sérðu framtíðina fyrir þér, verður það ekki svolítið skrýtið þegar bóndinn hættir að vinna? „Jú, það verður það, hann hefur ekkert svo mörg áhugamál, hann á eftir að finna sér eitthvað sem hann getur fundið sig í. Ég hef prjónana mína og saumana. En auðvitað verður það skrýtið, við tökumst bara á við það. En við erum náttúrulega búin að hafa aðlögun, hann er heima annan hvern mánuð núna þannig að þetta verður ekki alveg nýtt.“ Obba nefnir einnig að það hvernig ákvarðanir á heimilinu eru teknar sé kannski eitthvað sem muni breytast. „Það var náttúrulega þannig, sérstaklega þegar krakkarnir voru litlir og pabbi kom í land og vildi fara að stjórna einhverju, þeim fannst það bara alveg út í hött oft á tíðum, hvað hann væri nú að fara að skipta sér af, við hefðum alltaf haft þetta svona. Það var bara svoleiðis, það voru komnar einhverjar óskrifaðar reglur sem þau vissu að ég hafði en svo kom pabbi og ætlaði að hafa einhverjar aðrar. Við vorum kannski ekki alltaf að ræða það, þetta bara kom.“ Nú getur væntanlega verið svolítið erfitt að vita alltaf af manninum sínum úti á sjó. Hafa einhvern tíma komið upp einhver atvik sem þér eru minnisstæð? „Nei, ég hef aldrei verið hrædd um hann úti á sjó, aldrei. Og ég er heldur ekkert hrædd þó ég sé ein heima og veður séu vond. Það eru margir þannig og það er örugglega mjög erfitt. En ég hef aldrei verið veðurhrædd eða neitt svoleiðis.“ Á þessum 40 árum sem Obba hefur verið sjómannskona hefur býsna marg breyst og ég spyr Obbu hvort henni þyki ekki vera mikill munur síðan bóndinn fór að vera lengur í landi? „Jú, og líka þetta með fjarskiptin. Þú sérð það, maður talaði í gegnum talstöð og maður sagði andskotakornið ekki neitt. Mér fannst þetta alveg ofboðslega vont. Maður sagði kannski „hvenær kemurðu í land?“ og svo liggur við bara bless. Annars hef ég heldur aldrei verið mikið að velta mér upp úr því hvað séu margir dagar eftir af túrnum og svona, hef aldrei verið að telja niður. En svo finnur maður það ef hann hefur þurft að vera lengur eins og þegar hann var einhvern tíma einhverja 40-50 daga norður í Barentshafi. Þá fann ég það eftir mánuðinn að þetta var komið gott. En ég er ekkert að spá í þetta, það gerir hverja konu vitlausa og hvern mann, ef þú ert alltaf á dagatalinu að telja niður og spá og spekúlera. Þetta er bara okkar líf og það er bara svona, það er ekkert við því að gera, hann kemur ekkert fyrr heim þó að ég telji dagana,“ segir Obba og hlær. Þú hefur greinilega lært að búa við þetta. „Já, ég þróaðist bara með þessu. Ég var bara rétt um tvítugt þegar ég varð sjómannskona og ég er sextug í dag þannig að þetta er bara það líf sem ég þekki. Og hér finnst mér gott að vera og ég sé svo sem ekkert annað en að við verðum hér í næstu framtíð. Mannlífið hér er mjög gott. Það er bara verst hvað okkur hefur fækkað og atvinnutækifærin eru fá til þess að fá unga fólkið okkar heim aftur en vonandi verður breyting þar á. Það er svolítið mikil fækkun í svona litlu þorpi að fara úr 700 niður í rétt tæp 500. Það munar um hverja fjölskyldu og hvern einstakling. En hér er gott fólk og samheldið og allir boðnir og búnir ef það bjátar eitthvað á hjá ein- hverjum,“ segir sjómannskon- an Obba á Skagaströnd að lokum. að gera eitthvað annað þegar hann er í landi, sérstaklega í seinni tíð. En við nýttum tímann rosalega vel, eins og þessa 30 tíma þegar þeir voru í landi hér áður, við vorum að fara í veiðiferðir út á Skaga eða einhverja bíltúra, það var alveg ótrúlega mikið sem hægt var að gera á þessum tíma. En maður var náttúrulega yngri.“ Það er greinilegt að Obbu finnst það ekki vera neitt tiltökumál að hafa þurft að annast heimili og uppeldi á fjórum börnum að miklu leyti ein. „Ég var náttúrulega heima þegara börnin voru lítil, við gátum leyft okkur það, höfðum bara aðeins minna á milli handanna en það gerði ekkert til.“ Heldurðu að börnin hafi saknað þess eitthvað sérstak- lega að hafa pabba sinn ekki heima? „Já, ég býst alveg fastlega við því en þau náttúrulega þekktu ekkert annað. Samfélagið var bara þannig, menn voru á sjó og flestallir feður vinanna voru það. Svo var spennandi þegar voru afmælisdagar og hann var úti á sjó, þá voru send skeyti Barnabörnin eru orðin sjö. Hjónin fara gjarnan í ferðalög með hjólhýsið. MYNDIR: UR EINKASAFNI Á Bjarmanesi, kaffihúsinu sem sonur Obbu og tengdadóttir reka. MYND: FE Obba styttir sér stundir við ýmsa handavinnu meðan bóndinn er á sjó. 21/2018 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.