Feykir


Feykir - 13.06.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 13.06.2018, Blaðsíða 9
Veðurklúbburinn á Dalbæ Góður kafli upp úr 20. júní Þriðjudaginn 5. júní komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar í því skyni að huga að veðurhorfum í júní-mánuði. Fundurinn hófst kl. 14:00 og voru fundarmenn tólf talsins. Að venju var farið yfir eftirfylgni síðustu veðurspár og voru spámenn ágætlega sáttir með hvernig til hefði tekist. Sem betur fer varð þó minna úr hvítasunnuhreti en spáð hafði verið fyrir um. Nýtt tungl kviknar 13. júní kl. 19:43 í vestri og er það miðvikudagstungl. Gert er ráð fyrir að veður verði svipað og verið hefur undanfarið, þó má búast við þokulofti og heldur kaldara veðri. Um eða upp úr 20. júní má reikna með góðum kafla, sem stendur út mánuðinn. Veðurklúbburinn tekur sér frí í júlí, en vill þó láta þess getið að í júlímánuði verði heilt yfir ágætis veður. Fundi lauk síðan kl. 14:20 Veðurvísa mánaðarins: Í júní sest ei sólin, þá brosir blómafjöld. Í júlí baggi er bundinn og borðuð töðugjöld. Með góðri sumarkveðju, Veðurklúbburinn á Dalbæ Söfnun í gangi á Karolina Fund Bletturinn 60 ára í sumar Hjónin Sigurður H. Eiríksson og Ingibjörg Pálsdóttir á Hvammstanga eiga 60 ára skógræktar- afmæli í ár en árið 1958 gróðursettu þau sín fyrstu tré á grýttu og ómerkilegu túni sem nú er fullt af lífi og þakið hinum ýmsum tegundum trjáa. Í tilefni þess hefur hópfjármögnun verið sett af stað fyrir komandi verkefnum sumarsins og nú þegar tæpur mánuður er til stefnu hafa safnast 39% af áætluðu markmiði. Ingibjörg Pálsdóttir og Sigurður H. Eiríksson, oftast kölluð Lilla og Siggi, hafa öll sín búskaparár átt heima á Hvammstanga. Þar hafa þau verið drjúg í upp- byggingu ungmennastarfs og annarra tómstunda í héraðinu og taka enn virkan þátt, komin á níræðisaldur. Áhugi þeirra á skógrækt hefur sett fallegan svip á Húnaþing vestra en rétt sunnan við Hvammstanga má sjá fallegan skógræktargarð sem hefur verið þeirra frí- stundagaman í tugi ára. Fyrir 60 árum óskuðu þau eftir landi til að rækta á og varð þeim að ósk sinni. Landið var grýtt tún sem talið var ógerlegt til ræktunnar og þar sem enginn fjárbóndi hafði áhuga á landinu fyrir sínar kindur var þeim hjónum afhent það til ræktunar. Í dag er þetta land ótrúlega líflegur og fallegur gróður- ræktarblettur sem í daglegu tali ber heitið Bletturinn. Á þessum 60 árum hefur hann fengið að vaxa og dafna en Lilla og Siggi hafa sinnt honum af mikilli ástríðu og elju frá fyrsta degi. Í Blettinum má finna trjáteg- undir frá öllum heimshornum, sumar hverjar sjaldséðar á Íslandi, gróðurhús þar sem helst eru ræktaðar mismunandi tegundir af plómum og einnig fjöldann allan af lundum þar sem hægt er að setjast niður og njóta náttúrunnar Fyrir 60 árum voru Lilla og Siggi að nálgast þrítugsaldurinn en eru nú farinn að nálgast níræðisaldurinn. Þrátt fyrir ótrúlega mikla elju og ástríðu til að stunda áhugamál sitt hefur aldurinn sagt til sín og á síðustu árum hefur hægst á þeim hjónum. Vegna aldurs eru ýmis verkefni, sem áður voru þeim auðleysanleg og létt, nú orðin töluvert þyngri og erfiðari. Bletturinn þarfnast mikils viðhalds. Göngustígar eru horfnir, brýr yfir læki eru brotnar, klósettaðstaðan orðin engin og sláttur- og dráttarvélar þarfnast viðgerða. Í tilefni þess að Bletturinn á 60 ára afmæli í sumar hefur verið sett af stað hópfjármögn- un þar sem einblínt verður á að ráðast í þessi verkefni. Almenn- ingur hefur tekið vel í þetta og deilt fjármögnunarsíðunni og lagt sitt í verkefnið. Umbunað er fyrir hvert framlag með ýmsum hætti, allt frá þökkum í þakkarpósti í lok fjáröflunar til grillveislu, plómuhappdrættis og næturgistingar í tjaldi eða bústaði á Blettinum. Nú þegar er búið að úthluta einum bústaðargistingu í lok fjáröfl- unar og framundan er skemmtileg og lífleg grillveisla. Þetta sýnir manni hvað mannfólkið er ótrúlega gott og hjálpsamt og tilbúið að veita aðstoð þegar á reynir. Fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum þá má finna fjáröflunarverk- efnið á eftirfarandi slóð: https:// www.karolinafund.com/project/ view/2040 /Benjamín Freyr Oddsson Siggi og Lilla hafa skapað fallegan sælureit og þurfa nú hjálp við að hressa upp á hann. MYND AÐSEND Þokubakki á Skagafirði MYND: ÓAB Háskólinn á Hólum Brautskráning nemenda Brautskráðir nemendur frá Háskólanum á Hólum ásamt deildarstjórum og rektor. MYND: HOLAR.IS Háskólinn á Hólum brautskráði nemendur sl. föstudag, 8. júní, við hátíðlega athöfn sem fram fór í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Athöfnin var með hefðbundnu sniði, flutt voru ávörp og tónlistaratriði sem voru í höndum þeirra Dönu Ýrar Antonsdóttur og Daníels Andra Eggertssonar. Að loknu ávarpi rektors, Erlu Bjarkar Örnólfs- dóttur, tóku deildarstjórar við og brautskráðu nemendur af sínum brautum. 17 nemendur brautskráðust með BS-próf í reiðmennsku og reiðkennslu. Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur hlaut Caeli Elizabeth Peters Cavanagh. Einn nemandi var brautskráður með diplómu í fiskeldisfræði en hefð er fyrir að Fiskeldis- og fiskalíffræðideild útskrifi nemendur sína að sumri til. Ellefu nemendur brautskráðust með diplómu í viðburðastjórnun, 17 með BA-gráðu í ferða- málafræði og einn með MA-gráðu í sömu grein. Ingibjörg Elín Jónasdóttir hlaut viðurkenningu fyrir heildarnámsárangur í BA-námi og Alex- andra Eir Andrésdóttir fyrir góðan árangur í diplómunámi. Dagskránni lauk með því að Caeli Cavanagh, BS í reiðmennsku og reiðkennslu, flutti ræðu fyrir hönd nýbrautskráðra. Að athöfn lokinni bauð skólinn til kaffi- samsætis í umsjón Ferðaþjónustunnar á Hólum. Nánar er greint frá athöfninni á heimasíðu Háskólans á Hólum holar.is. /FE 23/2018 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.