Feykir


Feykir - 27.06.2018, Blaðsíða 8

Feykir - 27.06.2018, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Gísli Jónsson, áður bóndi í Saurbæ í Vatnsdal, sem leggur okkur til fyrstu vísurnar að þessu sinni. Þögn er talin gulls ígildi. Gasprið er þó fleirum tamt. Athugað er ei sem skyldi oft er betra að þegja samt. Þó er gott að tala í tíma traust ef máli fylgja gögn. En við lífsins gátur glíma gengur oftast best í þögn. Þessi sannleikur mun vera eftir Ármann Þorgrímsson. Þegar lífið lék mig verst og lánið blakti á skari, hjálpaði þá montið mest mínu heilsufari. Önnur vísa kemur hér eftir Ármann. Er ég flyt í annan heim andans kaunum sleginn, finnst mér best að fylgja þeim sem fara breiða veginn. Páll Imsland hressir okkur næst með svo undarlegri limru: Það er fiskur í fljótinu Kálfá sem Friðmundur búandi hálf á. Á móti honum býr einn makalaus fýr og helming sá bölvaður bjálfi á. Það er hin magnaða skáldkona Halla Eyjólfsdóttir á Laugarbóli sem hrífst svo af sólargeislanum. Þú ert glaðvær, geisli minn, gerir skugga bjarta. Kom þú hér sem oftast inn og í hvers manns hjarta. Þessi lipra vorvísa mun einnig vera eftir Höllu: Alltaf lifnar andi minn enda fjölga sporin, þegar græni gróðurinn gægist upp á vorin. Á efri árum mun Halla hafa ort þessar: Afturför er mesta mein mig vill tíðum hryggja. Ég vil standa alveg ein engan stuðning þiggja. Örlög heimta ætíð sitt. Enginn væntir griða. Ellin notar andlit mitt eins og pappírsmiða. Minnir að ég hafi áður í þessum þáttum rifjað upp vísu eftir Konráð Vilhjálmsson frá Sílalæk. Mikið hefur hann verið farinn að hlakka til vorsins þegar þessar laglegu hringhendur urðu til. Vorið kunna af virðum þráð vagn að sunnan hvetur. Köldum munni kveður láð klakarunninn vetur. Vísnaþáttur 715 Styttist njólu skuggaskeiðskána gjólur harðar. Hækkar sól á himinleið hitar kjólinn jarðar. Kastar hýði foldin fríð fönn í hlíðum grotnar. Vorið þýða lífgar lýð ljós og blíða drottnar. Kannski hefur það verið á sama vori sem Guðmundur Gunnarsson á Tindum orti svo fallega hringhendu: Bráðum garpa burt er þraut blóm í varpa glitrar. Vetur snarpur víkur braut vorsins harpa titrar. Þar sem undirritaður er nú kominn í mikið vorvísna- og hringhendustuð er freistandi að rifja næst upp þessar stórkostlegu vísur Sigurjóns Friðjónssonar frá Sandi. Takið eftir, lesendur góðir, þeirri orðgnótt sem skáldið kann að nota svo vel. Logasíur leiftra á ný ljósi um slý og gjögur. Eldi vígir aftansský eygló hlý og fögur. Sól í fangi víðavang vermir langar stundir, lög og tanga, lón og drang leggur vanga undir. Strjúka vindar tún og tind tindrar lind á grjótum. Vanda bindast björk og hind blævar yndishótum. Þeyr í viði veitir lið vatna iðuspili. Fuglakliður fléttast við fossanið í gili. Freistandi skal enn vera að rifja upp hringhendu. Minnir að það hafi verið í kringum eitthvert Norðurlandaþing sem halda átti í Reykjavík að gestum var meinað um gistingu á hóteli okkar bænda, Sögu, vegna góðsemi kvenna sem vildu gista þar. Því miður vildi höfundurinn ekki að nafn hans væri nefnt og skal orðið við því. Oft ég mændi meyju á mig sem hændi að sínu. Ekkert vændi, aðeins þrá eðli rændi mínu. Kannski er lokavísan ekki fyrir viðkvæmar sálir en ort af húnvetnskum presti og mörgum kunn af þeim sem eldri eru hér fyrir norðan. Gekk ég út á gásaveið gljúpur bað svo hugur. Gefðu mér nú góða reið guð minn almáttugur. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Ég er fædd og uppalin á Silfrastöðum til fimm ára aldurs en hafði svo ekki fasta búsetu aftur þar fyrr en haustið 2015. Í millitíðinni hef ég búið víða og kynnst mörgum. Þá hefur oft komið til tals hvað maður sé nú óskaplega upptekinn. Ég áttaði mig samt fljótlega á því að það væri óviðeigandi að kvarta yfir því við sveitunga mína. Þeir eru nefnilega upp til hópa afskaplega duglegir og bóngóðir og langt frá því að vera kvartsárir. Og það sem betra er, þeir eru alltaf til í að lyfta sér aðeins upp í góðra vina hópi. Kem ég þá að innblæstri þessa pistils en það er nokkuð sem er mínum norska manni hugleikið, orðið tómstund. Þó að Norðmenn og Íslendingar séu um margt líkir, þá eru frændur okkar Norðmenn töluvert duglegri að greina á milli frítíma og vinnu. Johan þykir stórkostlegt að Íslendingar skuli nota orðið tómstund yfir þá iðju að sinna sínum hugðarefnum. Tóm stund, það er að segja stund sem ekki er helguð öðrum verkum. En það má einnig líta á tómstund sem andstæðu vinnu og þann tíma sem fólk endurnýjar sig eftir vinnudaginn, gefur sér tóm til einhvers. Eða eins og fésbókarvinur skrifaði um daginn „það getur verið hvíld í öðru en að bara hlamma sér niður“. Ein klisjan segir, gerðu meira af því sem gerir þig hamingjusama/n. Og það má einmitt segja að sé kjarni tómstunda, ástundun felur í sér vellíðan og aukningu á lífsgæðum. Nú er ég vissulega svo heppin að sinna starfi sem sameinar áhugamálin; útivist, ræktun lands og umhverfismál. En ég tel að það sé engu að síður ÁSKORENDAPENNINN Hrefna Jóhannesdóttir Silfrastöðum í Skagafirði Tóm stund? UMSJÓN Lee Ann Maginnis mikilvægt fyrir alla að skoða reglulega hvort þeir gefi sjálfum sér svigrúm til þess að stunda hin eiginlegu áhugamál og gera hluti sem veita þeim hamingju. Slíkt smitar út frá sér og getur stuðlað að betra samfélagi. - - - - - Ég skora á æskuvinkonu mína Laufeyju Leifsdóttur, bónda og ritstjóra í Stóru- Gröf syðri, að færa hugsanir sínar í orð. Hrefna ásamt eiginmanni sínum, Johan Holst, og börnunum Jan Eskil Holst og Iðunni Holst. MYND ÚR EINKASAFNI 8 25/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.