Feykir


Feykir - 11.07.2018, Blaðsíða 5

Feykir - 11.07.2018, Blaðsíða 5
AÐSENT : Anna Jóna Guðmundsdóttir skrifar Námsferð starfsfólks leikskólans Ársala til Brighton Það var að morgni laugar- dagsins 2. júní að 44 glað- beittir starfsmenn leik- skólans Ársala á Sauðárkróki lögðu af stað í langþráða námsferð til Brighton í Englandi. Við erum svo heppin hér á Íslandi að eiga stéttarfélög sem gera okkur það mögulegt að sækja um náms- og ferðastyrki til að geta farið í námsferðir. Það tíðkast t.d. ekki í Englandi. Ferðirnar eru sem sé ekki greiddar af sveitarfélögum heldur úr sjóðum stéttarfélaga starfs- manna. Öll greiðum við jú umtalsverðar upphæðir mán- aðarlega til okkar stéttar- félaga og gleðilegt að við skulum eiga rétt á slíkum styrkjum. Í okkar tilfelli eru þetta Kennarasambandið, Kjölur og Aldan. Við getum sótt um þessa hóp-ferðastyrki á fjögurra ára fresti og það er afar mikilvægt að við nýtum okkur þau tækifæri til að auka þekkingu okkar og víðsýni með því að sækja okkur fróðleik út fyrir heimahagana. Þetta er hluti af endurmenntun þeirri sem leikskólanum ber að sjá til að starfsmenn hans fái. Enda viljum við hvorki vera „heimsk og heimaalin“ né ala hér upp fáfróð börn! Í leikskólanum fer fram metnaðarfull kennsla á hverjum degi og börnin okkar eru svo heppin að fá að njóta allra þeirra gæða sem leikskólinn býður upp á. Til að geta farið í svona ferðir eru skipulagsdagar yfirstandandi skólaárs nýttir og sótt um það til Fræðslunefndar að fá að nýta þá með þessum hætti. Foreldraráð leikskólans leggur blessun sína yfir það og þetta er kynnt með margra mánaða fyrirvara. Að þessu sinni nýttum við alla þrjá skipulagsdagana fyrir skóla- árið 2017-2018 í ferðina og svo tóku allir starfsmenn tvo orlofsdaga, þannig að leikskólinn var lokaður í eina viku af þeim fjórum sem lokað verður í sumar. Það er kannski líka rétt að taka það fram að ferðalagið tók tvo heila daga; laugardag sem sannarlega er frídagur starfs- manna og föstudagur sem var orlofsdagur. En við gerum okkur grein fyrir því að til að geta farið í svona langt ferðalag verða allir að leggjast á eitt og gefa eitthvað eftir og það telur starfsfólk Ársala ekki eftir sér. En aftur að ferðinni góðu til Brighton. Heimsóttir voru fjórir leikskólar og einn „Primary school“ fyrir börn á aldrinum 4-11 ára. Einn leikskólanna var svokallaður útileikskóli og annar var einkarekinn og rekinn í anda Reggio Emilia sem er ítölsk uppeldisstefna og byggir á að virkja frjálsa sköpunargáfu barnsins. Þá voru heimsóttar tvær fjölskyldumiðstöðvar, farið á núvitundarnámskeið og námskeið um Numicon- kubba. En það eru kubbar sem þykja góðir til að kenna börnum undirstöðuatriði stærðfræðinnar í gegnum leik. Þannig að þau hafi jákvæða upplifun af stærðfræði og þar með jákvæðara viðhorf til hennar þegar þau koma upp í grunnskólann. Það er bæði áhugavert og jákvætt að kynna sér nýjungar, sjá hvað aðrir eru að gera og geta dregið lærdóm af því. Það er talsverður munur á skólastarfi í Englandi og hér hjá okkur enda þjóðfélagið ólíkt. Það var áhugavert að heimsækja fjölskyldumiðstöðvarnar og fá kynningu á þeim. Þar er efnaminna fólki boðið að koma með börnin sín og leyfa þeim að leika sér og hitta önnur börn og foreldra í barnvænlegu og þroskandi umhverfi. Um er ræða fólk sem býr jafnvel í einu herbergi og hefur enga aðstöðu heima fyrir hvorki til að leyfa börnunum að leika né til að elda mat. Það er því einnig boðið upp á máltíðir á mjög vægu verði í fjölskyldu- miðstöðvunum. Á þeirri fjöl- skyldumiðstöð sem undirrituð heimsótti talaði forstöðukonan um að 15 fjölskyldur fengju ókeypis mat daglega hjá þeim. Okkur sem saman voru í þessari heimsókn rann þetta svo til rifja að við gáfum 10 pund hver til að leggja í matarsjóðinn. Forstöðukonan varð svo hissa á gjafmildi okkar að hún komst við en var að sama skapi afskaplega þakklát. Þegar maður heyrir svona upptalningar á því hvað margir eiga lítið sem ekki neitt kemst maður við en fyllist á sama tíma þakklæti yfir því hvað við höfum það gott hérna heima. Kannski má draga þann lærdóm af þessu að vera ánægðari með það sem við höfum og áminning um að gleyma ekki að sýna hvert öðru vinsemd og umburðar- lyndi. Þau okkar sem heimsóttu útileikskólann voru úti í skógi allan daginn. Þau lærðu að byggja skýli úr greinum og sprekum og gera eldstæði. Lærðu síðan að kveikja eld, tálguðu, leiruðu sátu og íhuguðu í náttúrunni og komu alsæl tilbaka úr skóginum. Reggio Emilia leikskólann heimsóttum við seinni part dags eftir að börnin voru farin heim. Hann var í stuttu máli sagt stórkostlegur! Rekinn af hugsjónafólki í tveimur fallegum eldri húsum á lóðum hlið við hlið. Fjöldi barnanna er svipaður og í Ársölum. Há tré umlykja lóðirnar auk hárra girðinga og lóðirnar eru aldrei opnar öðrum en þeim sem í leikskólunum dvelja. Þannig að ekki er hætta á skemmdar- verkum óviðkomandi aðila eftir lokun á daginn því það kemst enginn óviðkomandi inn á lóðirnar. Þar voru grill- stæði, drullubú, yfirbyggð rannsóknarstofa/kennslustofa, slökunarsvæði undir stórum segldúk, stór matjurtagarður, vatnstilraunasvæði og smíða- svæði svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndafræði Reggio Emilia gengur út á frjálsa sköpun og að umhverfið hvetji börnin til sköpunar á eigin forsendum. Mikil áhersla er lögð á uppeldisfræðilegar skráningar. Í Westdene Primary School er stór skóli með börn á aldrinum 4-11 ára. Þar voru það nokkrir af elstu nemendunum sem tóku á móti hópnum og sýndu skólann. Það var áberandi hvað veggir kennslustofanna voru hlaðnir af ýmsum upplýsingum, stöfum og listaverkum og fannst hópnum þetta mikið áreiti. Það virtist hins vegar ekki hafa „óróleg“ áhrif á nemendurna því það ríkti mjög mikill agi í bekkjum með 25 nemendum og einn kennara. Börnin voru afskap- lega prúð og stillt, réttu upp hönd og biðu í þögn eftir að röðin kæmi að þeim. Meðal yngstu barnanna var mikið flæði í gangi, börnin gengu út og inn á milli viðfangsefna eins og þau vildu. Það virðist vera einkennandi, einnig fyrir hina leikskólana sem við skoðuðum, að það er ekkert verið að fara úr skónum og sandur er út um allt sama hvort um teppalögð eða dúkuð gólf er að ræða. Það virðist enginn gera neitt veður út af því. Þarna voru flest börnin annað hvort fyrir eða eftir hádegi. En sum voru allan daginn og komu þá með nesti að heiman til að borða í hádeginu. Það sem einkennandi er í leikskólunum sem við skoðuðum er að flest börnin eru einungis hluta úr degi vegna þess að leikskólagjöldin eru svo há. Þannig að til undantekninga heyrir að börn séu allan daginn í leikskóla eins og tíðkast hér hjá okkur heldur er stórfjölskyldan virkjuð til að gæta barnanna á móti leikskólatímanum. Öll börn eiga rétt á þriggja klst. gjaldfrjálsum leikskólatíma á dag og það nýta foreldrar sér og reyna svo að nota sem minnst til viðbótar því það er svo dýrt. Það eru þá helst þeir efnameiri sem geta greitt fyrir 40 klst. á viku eða meira og það getur kostað allt að 180.000 krónum fyrir mánuðinn. Það voru ánægðir starfsmenn sem komu heim aftur að kvöldi 8. júní, innblásnir af nýjum hug- myndum úr afar vel heppnaðri námsferð til Brighton. Því miður virðist hafa orðið sá leiði misskilningur meðal einhverra bæjarbúa að starfs- menn leikskólans hafi verið úti á lífinu í Brighton á kostnað sveitarfélagsins. Afskaplega sem okkur þykir leiðinlegt að svona jákvæð og góð ferð skuli falla í skuggann af illu umtali. Ég veit ekki hvað liggur að baki slíku umtali en það er greinilega byggt á þekkingar- leysi. Þess vegna vil ég koma því á framfæri að þátttaka og virkni starfsmanna allra í skólaheimsóknum og nám- skeiðum var til fyrirmyndar í ferðinni. Það er leitt að einhverjir sjái ofsjónum yfir því að ungt fólk skemmti sér að afloknu dagsverki og komi síðan af stað illu umtali um það. Fyrir hönd starfsfólks Ársala, Anna Jóna Guðmundsdóttir, leikskólastjóri. 27/2018 5

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.