Feykir


Feykir - 22.08.2018, Blaðsíða 8

Feykir - 22.08.2018, Blaðsíða 8
Ég hitti nýverið konu sem spurði mig af kurteisissökum hver væru mín helstu áhugamál. Það runnu skyndilega á mig tvær grímur því í fljótu bragði mundi ég ekki eftir neinum raunverulegum áhugamálum, hverju skyldi ég svara. Síðar sama dag var mér enn hugsað til þessarar spurningar, gat það virkilega verið að ég, bráðum 28 ára gömul konan, ætti engin sérstök áhugamál? Ég hvorki spila golf né syng í kór, stunda ekki líkamsrækt nema af illri nauðsyn (enda er afrekaskrá mín í íþróttum ansi þunn) og síðast en ekki síst hefur steingleymst að leggja mér í arf ögn af hæfileikum á sviði handverks. En þegar allt kemur til alls hafa síðastliðin fjögur ár helgast fjölskyldunni, að koma barni á legg, eignast eigið húsnæði og búa okkur gott heimili, ásamt því að stunda um tíma bæði nám og vinnu. Ef heilt er á litið hefur það tekist vel að mínu mati og voru þessar áhyggjur mínar af áhugamálunum eflaust með öllu óþarfar. Því ef vel er að gáð eru samverustundir fjölskyldunnar nefnilega fullgildar sem besta áhugamál í heimi, eða það bara hlýtur að vera. Í selskap við fjölskyldu og vini stunda ég útivist í nærumhverfinu, fer í ferðalög og ævintýraleiðangra og á með þeim gæðastundir sem eru ómetanlegar. Nú á liðnu sumri hefur lífið hvað eftir annað minnt okkur á hverfulleika sinn og er það því mitt ráð til allra að hætta að velta okkur of mikið upp úr hlutunum og njóta augnabliksins, því lífið er núna! - - - - - Ég vil skora á bekkjarsystur mína og íþróttaálfinn hana Ingu Maríu Baldursdóttir til að taka við áskorendapennanum. Heilir og sælir lesendur góðir. Það mun hafa verið á hinni glæsilegu hátíð vina minna í Vestmannaeyjum sumarið 1996 sem Ingólfur Ómar orti svo: Við samdrykkju og söngva klið sífellt kætist lundin. Gaman er að gantast við glaðvær Eyjasprundin. Nú skal vekja glens og grín gleðin svanna lokkar. Stökur kveða, kneyfa vín kætir geðið okkar. Kannski hefur það verið á Þjóðhátíð sem Ólafur Gunnarsson orti svo: Reyndi að eignast vináttu vífsins í veraldarkófinu, en kunni ekki að ráða krossgátu lífsins og kolféll á prófinu. Sem betur fer hefur nú nýverið lokið verkfalli ljósmæðra. Af því tilefni rifjaðist upp vísa sem tengist verkfallsaðgerðum fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Höfundur er Einar Sigtryggsson á Sauðárkróki. Verkföll banna ætti öll á þeim flestir tapa, þau fara út um víðan völl og vandamálin skapa. Önnur vísa kemur hér eftir Einar: Að halda uppi hörðum aga helst nú þurfum við. Þjóðfélagið þarf að laga þolir enga bið. Ljótar vísur hafa í gegnum tíðina verið ortar ásamt hinum fögru. Eftirfarandi níðvísa komst á kreik fyrir margt löngu sem ég veit ekki höfund að. Minnir að sá hafi gefið skólabróður sínum svo fallega umsögn. Þig sköpuðu púkar úr skarni og aur, með skröltandi helvítis tækjum, þú lifir á spikfeitum lúsum og saur með lygum og prettum og klækjum. Bjartmar Hannesson, bóndi á Norður- Reykjum í Hálsahreppi er þekktur fyrir sinn, oft magnaða skáldskap. Svo mun hann hafa ort eitt sinn um sveitunga: Bóndans aukast axarsköftin svo ekki sé nú meira sagt. Og mörg eru orðin meyjarhöftin sem maðurinn hefur eyðilagt. Eitthvað hefur Bjartmar frétt um ástarlífið í vestrinu er þessi varð til: Kennedy á sínu sviði sig var talinn pluma flott, þó hann Marlyn Monroe riði meir en Jackie þótti gott. Sá kunni vísnasmiður um ástir og vín, Teitur Hartmann, þekkti vel ilminn af víninu og áhrifum þess. Hann yrkir. Flaskan verður fótakefli flestum sem að hana tæma. Vísnaþáttur 718 Vín er mannsins ofureflieftir sjálfum mér að dæma. Margir fleiri hafa ort um þessar góðu guðsgjafir eins og Marka-Leifi orðaði svo vel. Eiríkur Jónsson mun höfundur að þessari: Mikill fjandi mér varð á manndóm sem ég týni. Óstöðvandi er mín þrá eftir brennivíni. Veit því miður ekki um höfund að þessari: Óskasteinn er strjálastur steina á mannlífs heiðum, en Alkahóll er hálastur hóla á flestra leiðum. Alltaf hefur verið gott að vera í náð hjá æðsta presti ef skeð gæti að molar hrykkju út af borðinu. Veit því miður ekki hver yrkir svo: Hann er þeirra styrkust stoð við stjórn, þá skipt er orðum, enda fær hann ugga og roð undan þeirra borðum. Ekki er annað hægt en að dást að efnistökum næstu hringhendu. Lærði hana í kringum 1980 og held að Jón Friðriksson Hjartar, sem starfaði þá sem íþróttakennari einhvers staðar syðra, sé höfundur.. Mér er kátt við unað óms ör og sátt er lundin. Þegar máttur máls og hljóms myndar háttinn bundinn. Minnir að Halli Hjálmars hafi ort þessa og hef ég sjálfsagt birt hana áður. Stökur mínar hlaupa hratt um harðar grundir. Menn kveða þær og stytta stundir og stundum tek ég sjálfur undir. Steindór Sigurðsson, sem ég held að hafi verið rithöfundur, yrkir svo fallega um arf okkar Íslendinga. Þegar bítur brjóstið stál breyskra hugrenninga, vaka eins og vor í sál vísur Íslendinga. Er þessi þáttur birtist er okkar ágæta starfsfólk í prentverkinu búið að að fá smá frí. Því miður er það ávísun á að nú nálgist haust. Sá góði húnvetnski hagyrðingur Rögnvaldur Rögnvaldsson skilur það. Blómið sem að var í vor vetrar kuldans geldur. Fyrnist ást og fenna spor fyrr en margur heldur. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is ÁSKORENDAPENNINN Eyrún Sævarsdóttir frá Hamri í Hegranesi Listin að lifa UMSJÓN Lee Ann Maginnis Eyrún og María Sjöfn. MYND: AÐSEND 8 31/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.