Feykir


Feykir - 05.09.2018, Blaðsíða 9

Feykir - 05.09.2018, Blaðsíða 9
 Heilir og sælir lesendur góðir. Alltaf finnst mér gaman, ef ég er að róta í vísnadóti mínu, að finna vísur eftir Villa frá Brandaskarði. Skilst að hann sé að lýsa samferðamönnum á Skagaströnd í næstu vísum. Ágúst fljóðum einkum kær öllum hafnar trega. Á sér hús og frú sér fær feita skyndilega. Eflaust verður Frits um flest frægsti lands vors sonur. Eyðslubelgur er á mest annað en vín og konur. Ekki fer á milli mála að Angantýr Jónsson hefur verið hugleikinn skáldinu er hann orti þessa: Ávallt skýr og hugarhýr hans er dýra óðsnillin. Angantýr við ástúð býr aldrei flýr hann kvenhyllin. Jón Thoroddsen yngri gaf út ljóðabókina Flugur árið 1922. Lést hann skömmu síðar í hörmulegu slysi úti í Kaupmannahöfn. Við fráfall hans orti Guttormur J. Guttormsson svo: Laufgrein brotin er nú af Íslands skáldameiði. Ég finn ilminn yfir haf upp af hennar leiði. Guttormur var, eins og kannski einhverjir vita, búandi í Kanada. 1920 gaf hann út ljóðabók sem bar nafnið Bóndadóttir. Á eintak sem hann sendi vini sínum Stephani G. var rituð þessi vísa: Þegar nótt á land og lá leggst og hljótt er inni, blundaðu rótt á beði hjá bóndadótturinni. Þegar vinur hans, Káinn, kom í heimsókn varð þessi til: Þegar K.N. kom til mín kærri, en vissi nokkur. Bíldfells klára kampavín kunnuga gerði okkur. Að lokum þessi kunna vísa eftir Guttorm: Betra er að vera af guði ger greindur bóndastauli. Heldur en vera hvar sem er hámenntaður auli. Ingólfur Ómar mun hafa verið búinn að fá sér vel í staupinu þegar þessi varð til: Þraut og pína þrengir að þungan skell má líða. Engan skyldi undra það þótt Ómar detti íða. Eitthvað mun ölið hafa gert skáldið óstyrkan í fótunum og taldi hann af þeim sökum að hann væri að leggja af stað í sína síðustu ferð. Vísnaþáttur 718 Svo var alls ekki og hlýtur hann, svo lítið beri á, að taka þetta loforð til baka. Er ég legg í langa ferð laus úr jarðlífs þófi. Drottni mínum dyggur verð og drekk þá bara í hófi. Til vinkonu sinnar yrkir Ingólfur Ómar svo fallega vísu: Auðmýkt ríka áttu til oft í hjarta þínu. Vakið getur ást og yl og ornað geði mínu. Þar sem nú er farið að ergja okkur, mörg landsins börn, þetta svarta haustmyrkur er góður endir á þessari syrpu frá Ingólfi ágæt haustvísa. Hausts í skartið foldin fer fölva klæðist gráum. Niða myrkur úti er andar kul að stráum. Sá ágæti hagyrðingur og bóndi á Mosfelli í Svínadal, Gísli Geirsson, varð fyrir því óláni nú í sumar að fá vondan verk í annað hnéð. Leitaði hann læknis og þegar hann, sem var ung kona, hafði skoðað fótinn varð þessi vísa til: Niður að mér læknir laut lífið datt í farveg. Áður hafði ég þunga þraut en þarna hvarf hún alveg. Á þeim tíma sem nú fer í hönd styttir blessuð sólin sína ferð. Svo kemur fram í næstu vísu, höfundur er Hjálmar Þorsteinsson frá Hofi. Þegar lág er sólarsýn súgur af gráum eikum, kostafáu kvæðin mín kýs ég þá að leikum. Eitthvað hefur verið dauft yfir skáldinu er það orti þessa: Ei mér fæðist óður nýr eins og stundum forðum, allar mínar ær og kýr anda halda í skorðum. Á efri árum, þegar þreyta af erfiðri lífsbaráttu var farin að setja mark sitt á skáldið, varð þessi til: Áður gekk ég út að slá átti grýttan teiginn. Nú dengi ég minn deiga ljá, en dagsláttan er slegin. Gott að enda með þessari vel gerðu vísu Hjálmars: Þótt ellin þyngi andans spil ekki þvingar muna. ykkur syng ég ennþá til eina hringhenduna. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) frida@feykir.is Það er fátt meira þroskandi og gefandi en að fá að alast upp í sveit. Kynnast fjölbreyttri náttúru og hvað regn og sól skipta miklu máli, skilja bilið milli lífs og dauða. Kynnast fjölbreyttri vinnu og vera þátttakandi í sveitastörfum frá blautu barnsbeini. Og fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir, þetta gerir einstaklinga vel undirbúna til að takast á við lífið. En maður lendir í alls konar hrakningum á leiðinni út í lífið. Þegar ég var krakki þá hafði ég gríðarlega gaman af því að fara að veiða. Systir mín var dugleg að fara með mér að veiða þó ég væri óþolandi krakki (og er enn) og áttum við margar ógleymanlegar stundir við vatnið heima. Minnisstæðast er þegar ég var sex ára og fékk mína fyrstu veiðistöng. Fyrir hádegi þann dag náði ég henni með mér að prófa stöngina og við settum stóran spún á með þríkrækju. Strax í fyrsta kasti náði ég að pikkfesta spúninn í hausnum á mér. Þá voru góð ráð dýr þar sem hann náðist ekki úr. Þannig að það var klippt frá og brunað á Blönduós til læknis. Læknirinn sýndi þessu mikinn skilning og klippti spúninn úr með lítilli töng. En Bjartmar litli var ekki ánægður með þennan endi. Hafði ekki einu sinni náð að bleyta spúninn svo það var gerð önnur tilraun síðar um daginn. Þá náði ég að kasta út í þrisvar sinnum en í kasti númer fjögur endaði spúnninn aftur í hausnum á mér. En þá var þolinmæði systurinnar á þrotum og reif hún spúninn úr á staðnum. Við fórum þögul heim úr veiðinni þetta kvöldið, fisklaus og tveim spúnum fátækari. En ekki hrakti þetta mann frá því að setjast að í sveit (þó ekki nema tæpa 800 m frá foreldrahúsum) og leyfa börnunum mínum að njóta sömu forréttinda og ég hafði. Svo vil ég hvetja fólk til að líta upp úr snjallsímunum og fara jafnvel og hitta fólk, grípa í spil og spjalla. - - - - - Ég skora á Bylgju Guðrúnu Brynjólfsdóttur heimasætu á Brandsstöðum í Blöndudal ÁSKORENDAPENNINN Bjartmar Halldórsson Skriðulandi A-Hún Lífið UMSJÓN Páll Friðriksson Bjartmar. MYND AÐSEND 33/2018 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.