Feykir


Feykir - 19.09.2018, Blaðsíða 13

Feykir - 19.09.2018, Blaðsíða 13
 Heilir og sælir lesendur góðir. Það mun hafa verið í einum óveðurskafla síðasta vors sem Gunnar J. Straumland orti: Við tíðinni mér hugur hrýs hér er ekki laust við, sorgir þegar saman frís svikavor og haustið. Kannski hefur verið farin að dimma nótt þegar Jón Þorsteinsson, bóndi á Arnarvatni, orti svo: Allt er mælt á eina vog á því svarta skýi. Helmingurinn öfgar og afgangurinn lygi. Ekki er því að neita að næsta vísa rifjast oft upp fyrir undirrituðum á hinum dimma hausttíma. Mun Andrés Björnsson hafa ort hana til vinar síns, Einars Sæmundsen. Þér mun ekki þyngjast geð þó að stytti daginn. Haustið flytur meyjar með myrkrinu inn í bæinn. Þar sem að nú eru nokkrar vikur að líða sem sveitafólk er á kafi í hauststörfum, eins og göngum og réttarstörfum, er gaman að rifja næst upp vísur sem tengjast þeim tíma. Kári Jónsson, frá Valadal, yrkir svo í gangnakofa. Hér er engin hungurvaka, hér eru vaskir sveitamenn. Glasið fullt og glettin staka, gaman er að lifa enn. Eftir því sem ég hef heyrt mun Stafnsrétt fyrst hafa verið byggð 1812, og þá hlaðin úr torfi og grjóti. Síðar, er hún var endurbyggð árið 1978, var annað efni komið til sögu sem þá var timbur og steinsteypa. Stafnsrétt stendur á eyri við ármót Svartár og Fossár innarlega hér í Svartárdalnum. Staddur þar, stuttu eftir endurbyggingu hennar, mun Kári hafa ort þessa vísu: Safnið hvítt af komið fjöllum kraftmikill er sumarforðinn. Stærst af réttum stórum öllum stendur fram við heiðarsporðinn. Á ákveðnum tímamótum orti Kári svo í Stafnsrétt: Héðan mörg er minning hlý mínu glasi lyfti. Fjárrétt þessa fer ég í í fertugasta skipti. Öðru sinni er Kári var staddur í Stafnsrétt og þáði þar hressingu í fljótandi formi, varð þessi til: Í sig gutli engu sulla efnahagur fyrir – tak. Bændur dilka draga fulla drekka óblandað koníak. Að lokum, úr þessari syrpu Kára, þessi ágæta réttarvísa: Vísnaþáttur 719 Staka kveðin sterkri raustvið stúlkur reynt að kela.Enn eru réttir, enn er haust enn úr drukkið pela. Það er skáldbóndinn Magnús Kr. Gíslason, á Vöglum í Blönduhlíð, sem yrkir svo um gangnaleytið: Dvínar valla vakin þrá vísna snjalli söngur. Heiðin kallar okkur á enn í fjallagöngur. Ama hryndir sérhvert sinn sorg í skyndi dvínar. Lífsins yndi ég ávallt finn innan um kindur mínar. Falleg þessi vísa Jóns Tryggvasonar, áður bónda í Ártúnum, sem gerð mun síðsumars á ferð um Eyvindarstaðaheiði. Þó að húmi og hausti senn hitna fornar glóðir. Þegar gamlir gangnamenn ganga um þessar slóðir. Gott líf hefur verið hjá glöðum drengjum þegar Bjarni Halldórsson, bóndi á Upp- sölum í Blönduhlíð, orti svo: Seggir runnu sveitum frá syngja kunnu braginn. Gneistar brunnu götum á gangnasunnudaginn. Einhverju sinni er gangnamenn á norðurhluta Laxárdals lentu í sótsvarta þoku í göngum, orti okkar góði vinur og félagi í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps til margra ára, Einar Guðlaugsson, svo: Ekki er þeirra brautin björt í byrjun voru þeir illa teftir. Helvítis þokan svo var svört þeir sáu ekki til að skilja eftir. Glaður hefur sá gangnamaður verið sem orti næstu vísu. Man því miður ekki fyrir víst hver höfundur hennar er. Í göngurnar með geðið kátt geysist yfir hauður. Dembi ég áfram dag og nátt dugar Stóri Rauður. Kannski er nú svo komið að ég brýt það loforð, sem áður hefur verið sett, að birta ekki hér heimagert efni. Langar samt að enda nú með vísu minni sem gerð var haustið 1986 er undanreiðarmenn á Eyvindarstaðaheiði lögðu af stað upp bratta sneiðinginn sunnan við Fossalækinn. Klárinn ekki í taumi tregur töltir leiðina, sem liggur eins og ævivegur upp á heiðina. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is 35/2018 13

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.