Feykir


Feykir - 07.11.2018, Blaðsíða 6

Feykir - 07.11.2018, Blaðsíða 6
Færeyingar og Íslendingar eru vina– og frændþjóðir, sem lengi hafa haft margháttað samstarf. Um og eftir miðja síðustu öld voru færeyskir sjómenn á íslenskum vertíðarbátum og reyndust duglegir og vaskir og enn stunda Færeyingar fiskveiðar við Íslandsstrendur en nú á eigin skipum samkvæmt samningi þar um. Nokkrir Færeyingar hafa stundað búnaðarnám á Íslandi. Gunnleggur Djurhuus f. 3. mars 1922 að Sandi, Sandey. Lauk námi 1947 og Jens Henrik Djurhuus f. 27. desember 1923 að Sjógv, Kollafirði. Lauk námi 1947. Báðir nemendur Bændaskólans á Hólum.1 Á Hvanneyri: Hans Jögvansson f. 3. nóvember 1917, lauk námi 1944, bóndi í Hvalvík í Færeyjum, Danjal Danielsen, Búðum, f. 2. desember 1919, lauk námi 1946, landbúnaðar– og kennslumálaráðherra í Færeyjum, Sören Qiudo Hansen, Nes, Austurey, f. 12. september 1927, var við nám 1949 en lauk ekki námi, Jens Meinhard Berg, f. 1. október 1925, lauk námi 1954, Sverrir Patursson, f. 27. maí 1937, lauk námi 1960, járnsmiður og bóndi á Kirkjubæ, Jógvan Magnússon Joensen, f. 15. júlí 1957, lauk námi 1977.2 Arnfrid Vestergaard var nemandi veturinn 1982 og Þórður Patursson á Kirkjubæ var nemandi 1991 og 1992. Hans faðir var Sverrir Patursson.3 Margir Íslendingar hafa tekið sér búsetu í Færeyjum og fest þar ráð sitt. Má t.d. nefna að um 1810 flutti Jón nokkur Guðmundsson til Færeyja. Hann var fæddur í Örfirisey 1784. Faðir hans var Guðmundur Jónsson bóndi í Skildinganesi og síðar á Lágafelli. Jón var foringi lífvarðar Jörundar hundadagakonungs en þegar valdatíma Jörundar lauk flutti Jón til Þórshafnar í Færeyjum og gerðist þar vel metinn kennari. Jón tók sér eftirnafnið Effersöe, giftist færeyskri konu og eignaðist með henni sjö börn. Er mikil ætt og merk frá Jóni Effersöe kominn í Færeyjum. Meðal afkomenda Guðmundar, föður Jóns, eru Bjarni Jónsson (1881– 1965) vígslubiskup og Bjarni Benediktsson (1908– 1970) forsætisráðherra. Kona Joannesar Paturssonar (1866–1946) í Kirkjubæ var Guðný Eiríksdóttir frá Karlskála í Reyðarfirði.4 Meðal barna þeirra voru kóngsbónd- inn og rithöfundurinn Páll Patursson (1894–1967) og stjórnmálamaðurinn Erlendur Patursson (1913– 1986).5 Þá er rétt að geta hér Eiríks Ólafs Þorvaldssonar (1947–2012) frá Nýjabæ á Höfn á Hornafirði. Hann lauk prófi frá Dalum Mejeriskole á Fjóni 1970. Er heim kom hvarf hann til starfa í mjólkursamlaginu á Höfn og tók við starfi mjólkurbússtjóra árið 1973 og gegndi því til hausts 1978. Þá réðst hann til Færeyja til að stýra þar nýju mjólkurbúi færeyskra bænda, sem þá var enn ófullgert. Þar vann hann brautryðjandastarf í færeyskum mjólkuriðnaði sem framkvæmdastjóri Mjólkarvirki Búnaðarmanna. Eiríkur starfaði við samlagið til æviloka en hann lést 12. nóvember 2012 og hafði þá starfað í Færeyjum í 33 ár. Eiríkur kvæntist Rannvá Didriksen þann 31. desember 1968. Hún fæddist í Vestmanna í Færeyjum 12. september 1946.6 Það er því ljóst af framanrituðu að tengsl Íslend- inga og Færeyinga hafa verið margvísleg og full ástæða er til að styrkja þau og efla og það má gera m.a. með því að heimsækja þessa frændur okkar. Miðvikudagur 29. ágúst 2018 Og þá er rétt að víkja að ferðinni. Hún var skipulögð af ferðaskrifstofunni Tanna Travel. Farið var frá Sauðárkróki kl. 8:00 og frá Varmahlíð kl. 8:30 með langferðabíl frá Tanna Travel. Áður en farið var frá Varmahlíð dreifði Helga Sigurbjörnsdóttir, farar- stjóri, nafnalista og ferðaáætlun dagsins. Þegar komið var í Bakkaselsbrekkuna var dreift lista um vistun fólksins í skipinu Norrænu. Þegar niður í Öxnadalinn kom ræddi fólk um jarðir Jóns Jónassonar (1855–1936) afa míns og Ingibjargar Jónasdóttur (1859–1905) konu hans, sem jörðuð er á Bakka. Björn Bjarnason (f. 1937) minntist þess að Stefán Valgeirsson (1918–1998), bóndi í Auðbrekku og þingmaður, hefði verið um tíma leigubílstjóri í Keflavík. Komið var á Glerártorg og dvalið þar frá kl. 10:00 til 10:45. Fólk fékk sér kaffi og spjallaði um hin aðskiljanlegustu mál. Í Nettó hitti ég Ármann Gunnarsson (f. 1937) dýralækni og rifjuðum við upp átökin í bekk búfræðinga í Menntaskólanum á Akureyri en hann var þá í skólanum. Þegar við fórum frá Akureyri var komið hið besta veður, sólskin og logn. Skemmtiferðaskip sigldi inn Eyjafjörðinn, þegar við ókum út Svalbarðsströnd í sól og sumaryl en hvítir voru fjallatoppar. Fólk sá staðinn, þar sem Vaðla- heiðargöng opnast, þegar ekið var yfir Fnjóskárbrú. Borðuð var súpa í Selinu við Mývatn í boði Tanna Travel. Þar hitti ég Ingva Ragnar Kristjánsson ( f. 1970) hótelstjóra en hann er sonur Sigrúnar Jóhannsdóttur (f. 1950) frá Kúskerpi. Hann lét vel af rekstri hótelsins. Ferðasaga rituð af Sigtryggi Jóni Björnssyni frá Framnesi :: FYRRI HLUTI Færeyjaferð Félags eldri borgara í Skagafirði Miðvikudaginn 29. ágúst til og með þriðjudeginum 4. september 2018 Vestmanna í Færeyjum. MYNDIR: SIGTRYGGUR JÓN BJÖRNSSON 6 42/2018

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.