Feykir


Feykir - 07.11.2018, Blaðsíða 7

Feykir - 07.11.2018, Blaðsíða 7
Ský hafði dregið fyrir sólu, er hópurinn yfirgaf Selið um kl. 13:30 en létt var yfir mannskapnum. Nú var haldið á Fjöllin og Sigurbjörn Jónsson bílstjóri sagði frá nöfnum á fjöllum og hálsum. Fram kom að búið var í Víðidal, líklega til 1994, en þar standa nú aðeins eftir leifar af fjárhúsum. Næst var ekið um Vegaskarð. Austan þess er vegurinn til Möðrudals en þjóðvegurinn liggur áfram um Langadal og síðan um Háreksstaðaflóa. Þar er eyðibýlið Háreksstaðir, þar sem séra Sigurjón Jónsson (1881–1965) ólst upp. Hann var prestur að Barði í Fljótum og síðan á Kirkjubæ í Hróarsstungu. Kona hans var Anna Sveinsdóttir (1894–1990), systir Guðrúnar (1895– 1977) í Eyhildarholti. Ingólfur Arnar Þorkelsson (1925–2005), fyrrum skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, fæddist á Háreksstöðum og er síðasta barn, sem þar kom í heiminn. Komið var til Egilsstaða kl. 15:35 og farið þaðan kl. 16:20. Farkosturinn og bílstórinn, Sigurbjörn Jónsson. Nú tók Sveinn Sigurbjarnarson (f. 1945) við akstrinum af Sigurbirni Jónssyni, tengdasyni sínum. Sveinn benti farþegum, sem sjóveikir væru, á að betra væri að nota pilluna en plásturinn því menn gætu orðið vankaðir af honum daginn eftir. Síðan lýsti hann skipinu Norrænu lauslega og benti fólki á að víndrykkja gæti haft slæm eftirköst. Þá sagði hann að hvert okkar fengi tvö kort, annað til að komast um borð í skipið og hitt að herberginu. Ekið var eins og leið liggur fram með Heiðarvatni og niður Fjarðarheiði. Vegur sá er brattur og beygjur margar. Seyðisfjörður heilsaði okkur með sól og blíðu veðri. Þangað komum við um kl.17:00. Seyðisfjörður var um langa tíð aðal verslunarstaður Austfirðinga. Þegar við komum um borð fengum við Jóna okkur kjúkling og svínakjöt, sem kostaði um 2.000.- kr. ísl. á mann. Frá Seyðisfirði var farið kl. 20:00. Norræna tekur um eitt þúsund farþega og 3 til 4 hundruð bíla. Gott var í sjóinn og fórum við út á þilfar á fimmtu hæð og horfðum til lands. Fljótlega liðum við fram hjá Dalatanga, þar sem Marsibil Erlendsdóttir (f. 1960) stendur vaktina. Á Siglunesi var hún til átta ára aldurs en þar voru foreldrar hennar, Erlendur Magnússon (1930–2012) og hans þýska kona Elfríður Pálsdóttir (f. 1930) vitaverðir til 1968 að þau fluttu að Dalatnga og tóku þar við vörslu vitans og önnuðust hana til 1994 að Marsibil tók við. Eftir að hafa séð Austfirðina hverfa í rökkurhúmið fórum við að sofa í herbergi nr. 22. á áttundu og efstu hæð ásamt Kristínu Helga- dóttur (f. 1946) og Ingimar Jóhannssyni (f.1949). Frekar er herbergið þröngt og snyrting enn þrengri. Fimmtudagur 30. ágúst. Við vöknuðum klukkan hálf tíu eftir góðan svefn og fórum niður í matsalinn á fimmtu hæð og fengum okkur kaffi og kakó. Síðan fórum við út á þilfar og biðum eftir landsýn. Fyrst munum við hafa séð Kallur á vinstri hönd og Riftanga á þá hægri en Norræna sigldi inn Djúpin á milli Austureyjar og Karlseyjar, um Leirvíkurfjörð og síðan inn til Þórshafnar, sem er á Straumey. Skipið lagði að landgangi í Þórshöfn, í sól og blíðu, eftir 18 tíma siglingu og í rútuna hjá Sveini vorum við komin um klukkan þrjú og ekið að Kirkjubæ. Við sáum nokkrar kindur á leiðinni og gat Sveinn þess að um 70.000 fjár væri í Færeyjum en ekkert sláturhús og fé því lógað heima. Ólafskirkja á Kirkjubæ. Kirkjubær er merkasti sögustaður Færeyja. Þar var biskupsetur stofnað um 1100 og var svo til 1557 að biskupinn flutti til Stafangurs í Noregi. Altaristaflan í Ólafskirkju. Hún er síðasta verk Sámals Joensen Mikines (1906- 1979). Ólafskirkja er elsta kirkjan í Færeyjum., sem enn er í notkun og var dómkirkja í kaþólskum sið.Var vígð árið 1111. Múrinn. Gamla íbúðarhúsið á Kirkjubæ, sem enn er búið í. Baka til nær fjallinu er Reykstofan talin vera um 900 ára gömul. Byrjað var að byggja Magnúsardómkirkjuna (Múrinn) um 1300 en aldrei var lokið við hana. Hún er byggð úr færeysku blágrýti. Á Kirkjubæ hefur Paturssonættin búið síðan um miðja sextándu öld. Joannes Patursson býr nú í gamla íbúðarhúsinu með fjölskyldu sinni en afi hans var skáldið og fullveldissinninn, Joannes Patursson, sem kvæntur var Guðnýju Eiríksdóttur frá Karlskála í Reyðarfirði, sem áður er getið. Legsteinn Guðnýjar Eiríksdóttur og Jóannesar Paturssonar. Frá Kirkjubæ var ekið um þorpið Velbastað, en þar er meðferðarheimili fyrir áfengissjúklinga, sem Færeyingar kalla Þurrkhúsið. Að svo komnu máli var ekið til Hótel Færeyja, þar sem fólk kom sér fyrir. Komin á Hótel Færeyjar. Helga fararstjóri að huga að ferðalöngum. Við Jóna fengum herbergi númer 303 í húsi nokkuð frá hótelinu. Klukkan sjö mættum við í kvöldmat, sem var lax með ýmsu góðgæti. Hin ágætasta máltíð. Hluti hópsins kominn til kvöldverðar fimmtudaginn 30. ágúst. Hótel Færeyjar stendur fyrir ofan Þórshöfn og sér þaðan vel yfir hluta bæjarins og til Nólseyjar en þar fæddist Nólseyjar–Páll árið 1766. Hann varði hluta ævi sinnar í að berjast fyrir frjálsri verslun og bættum hag Færeyinga. >> Framhald í næsta Feyki. Heimildir: 1. Gunnlaugur Björnsson 1957. Hólastaður. Bændaskólinn 75 ára. 2. Guðmundur Jónsson 1979. Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára. 3. Sigtryggur Jón Björnsson. Upplýsingar um námsdvöl. Óbirt handrit. 4. Gils Guðmundsson 1968. Lönd og lýðir, V. bindi. Færeyjar bls. 181. 5. Wikipedia. Frjálst alfræðirit. 6. Elín og Jón Hafdal. Morgunblaðið, minningagrein 3. mars 2012. 42/2018 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.