Feykir


Feykir - 28.11.2018, Blaðsíða 36

Feykir - 28.11.2018, Blaðsíða 36
2 01 836 2 01 7 þann 24. desember og stendur hátíðin fram að þrettánda, þann 6. janúar. Evelyn segir ekki mikinn mun á jólahaldi á Íslandi og Þýskalandi þar sem báðar þjóðir eru kristnar og því haldið upp á fæðingu Krists. „Ég verð að viðurkenna að síðustu jólin sem ég hélt í Þýskalandi voru árið 1999, þannig að ég er kannski ekki alveg með nýjustu tísku á hreinu hvað varðar jólin. Aðfangadagskvöld er haldið með svipuðum hætti. Jólin í Þýskalandi byrja hins vegar ekki á slaginu sex um kvöldið heldur hefur hver fjölskylda sínar venjur. Í sumum fjölskyldum er farið að skiptast á gjöfum um kaffileytið og er það upphaf jólanna hjá mörgum. Í minni fjölskyldu borðuð- um við saman kvöldmat og svo var farið til kirkju seint að kvöldi. Þegar kirkjuklukk- urnar hringdu byrjuðu jólin. Pakkana fengum við eftir jólamessu. Jóladagur og annar í jólum eru hátíðardagar eins og hér á landi. Fjölskyldan eyðir miklum tíma saman, fer í heimsóknir til ættingja og í gönguferðir. Þegar ég hugsa um jólagönguferðirnar úr minni æsku, man ég stundum eftir snjó og oftast sól. Hins vegar tengi ég sól ekki við jól á Íslandi. Einfaldlega vegna þess að sólin sést ekki hér í sveitinni á þessum árstíma og dagarnir eru sem stystir. Ég man eftir einum jólum sem höfðu gríðarleg áhrif á mína framtíð og það voru jólin 1988. Gönguferðin á jóladag ætlaði aldrei að taka enda, enda beið ég ofurspennt eftir því að komast heim og kveikja á sjónvarpinu. Á dagskrá var fyrsti þátturinn um Nonna og Manna en þá bók las ég sem barn og var orðin ástfangin af sögunni og Íslandi og auðvitað íslenska hestinum. Ég man að ég skaust inn í stofu, hafði fengið leyfi til að kveikja á sjónvarpinu, myndin var þegar byrjuð og ég sá hóp manna ríðandi á fullri ferð um grænan dal. Vá! Draumurinn var farinn að taka á sig mynd.“ Evelyn segir að jólalyktin sé ekki eins í löndunum tveimur. Lykt sem hún tengir við jól í Þýskalandi, og er ekki mjög algeng hér, er reykelsislykt, Bratapfelduft (lykt af bökuðum eplum), ristuðum möndlum og Glüh- wein-jólaglöggs lykt sem margir kannast kannski við frá þýskum jólamörkuðum. „Jólalyktin mín á Íslandi er auðvitað hangikjötslykt. Lykt af lifandi jólatré í stofunni er eitthvað sem ég er ekki tilbúin að missa og frekar hef ég ekkert jólatré en tré úr plasti,“ segir Evelyn og heldur áfram með sitthvað um jólaskreytingar. Hún telur að Íslendingar eigi örugglega heimsmet hvað jólaljós varðar, með seríur út um allar koppagrundir. „En það verður auðvitað að lýsa upp skammdegið. Það var óneitanlega sterk upplifun við fyrsta jólahald á Íslandi hvað mikið er skreytt hér, bæði inni og úti. Þjóðverjar hins vegar skreyta sín hús meira með handverki og fleiri kertum. Útiseríur eru settar á tré úti í garði en ekki endilega utan á húsin. Aðventukransinn, fléttaðan úr greni, má ekki vanta á þýskt heimili en ég er pínu löt við það en vil allavega hafa kerti.“ Léttur jólamatur Evelyn segist alltaf hafa þótt mjög vænt um jólasöngva og klassíska jólatónlist. Mikið var sungið og spilað á blokkflautu á hennar æskuheimili en aðventu- og jólalögum voru gerð góð skil. „Það mátti ekki spila eða syngja jólalög eins og Heims um ból á aðventu. Lagið var aldrei sungið fyrr en á aðfangadagskvöld. Það var síðasta lagið í messunni og var þá gjarnan slökkt á ljósunum og bara kertum leyft að loga. Ég reyni að halda þessum sið hér á Íslandi og mér er alltaf ofboðið að heyra jólalög í útvarpinu frá miðjum nóvember,“ segir Evelyn og vel er hægt að taka undir það. Eitt er það sem við Íslendingar eigum umfram aðra í veröldinni, hina þrettán jólasveina. Í Þýskalandi, líkt og víðar, er bara einn jólasveinn, þessi rauði. „Oft er sagt að hann sé fæddur hjá Coca Cola í Ameríku en það er ekki rétt. Þann 6. desember er dagur heilags Nikulásar en hann var biskup í Tyrklandi á 10. öld og deildi út gjöfum til fátækra barna og þýski jólasveinninn á rætur sínar að rekja til hans. Í tilefni Nikulásardagsins fá börnin smá gjafir í skóinn, sem er settur fyrir utan dyrnar kvöldið áður. Nikulás breyttist svo í þennan rauð- klædda jólasvein sem er orðinn tákn jólahátíðanna í mörgum löndum og uppruni hans er víða gleymdur. Í minni fjölskyldu var það ekki jólasveininn sem kom með gjafirnar heldur Jesú- barnið sem við biðum eftir á aðfangadag. En Nikulásar- dagurinn var haldinn og við vorum auðvitað spennt fyrir honum og glöddumst yfir súkkulaði og piparkökum sem við fengum í skóinn.“ Hver er til í léttan kvöldverð á aðfangadag? Líklega ekki margir Íslendingar þar sem aðalmáltíð jólanna er borin fram þá. Evelyn rifjar upp að í hennar æsku var maturinn á aðfangadagskvöldum frekar léttur og einfaldur. „Enda jólin ekki byrjuð og foreldrar mínir oft að vinna fram að hádegi. Á jóladag vorum við með önd frá ömmu og afa sem voru bændur. Með því voru knödel, eftir bæheimskri hefð, blandað úr stöppuðum kartöflum, hveiti og eggjum. Svo voru afgangar eða svínasteik næsta dag. Nú til dags er matseðillinn fjölbreyttari og kannski alþjóðlegri. Kalkúnn er orð- inn frekar algengur skilst mér.“ Smákökur voru og eru bakaðar í Þýskalandi eins og hér á landi og segir Evelyn að mjúkar piparkökur séu afar vinsælar í Þýskalandi enda gömul hefð fyrir þeim í flestum landshlutum. „Svo er þýska jólakakan Stollen. Kakan er gerð úr gerdeigi með fullt af rúsínum, möndlum, sykruðum og þurrkuðum appelsínu- og sítrónuberki. Sem barn fannst mér Stollen aldrei góð en ég verð að viðurkenna að nú til dags labba ég sjaldan fram hjá Stollen þegar ég sé hana í Bónus eða Nettó.“ Samkvæmt venju er Evelyn beðin um jólauppskrift til að deila með lesendum Feykis. „Já, er ekki best að koma með eina létta og vinsæla smákökuuppskrift?“ Evelyn segir að fjölskyldan á Lýtingsstöðum ætli að bjóða upp á jólastemningu í torfhesthúsinu og mun það vera í þriðja sinnið. „Þetta er einstök upplifun sem finnst ekki lengur á Íslandi og tilvalið að kíkja til okkar, ekki síður með börn. Við verðum einnig með jólate og piparkökur fyrir gesti og gangandi. Þetta verður sunnudaginn 2. desember frá klukkan 15- 18, sama dag og Kvenfélag Lýtingsstaðarhrepps er með jólamarkað í Árgarði.“ Kanilstjörnur uppskrift fyrir u.þ.b. 40 stk 2 eggjahvítur 300 g flórsykur 1 tsk sítrónusafi 400 g fínmalaðar möndlur Raspaður börkur af einni sítrónu (skola sítrónuna vel áður en börkurinn er raspaður af) 1 msk kanill Örlítill negull (hnífsoddur) Hrærið eggjahvítuna vel þangað til hún er orðin stíf. Bætið flórsykri við og hrærið vandlega saman. Bætið svo sítrónusafanum við og takið fjórar matskeiðar af blöndunni frá til að eiga seinna sem glassúr. Bætið við möndlum, sítrónu- berki, kanil og negul og hrærið vel en vandlega saman. Fletjið deigið út, 4-5 mm þykkt, (gott að bleyta kökukeflið með köldu vatni). Skerið deigið út með stjörnuformi, dreifið glassúr yfir og bakið í 12 mínútur á 180°C. Glassúrinn á að vera hvítur. b bb Gestahúsin séð frá þjóðveginum, fjær eru gömlu hesthúsin. Hestaleigan á Lýtingsstöðum er vinsæl hjá ferðamönnum. Hesthúsin sóma sér vel í skammdegisskímunni. Sannkölluð jólastemning í torfhesthúsunum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.