Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.06.1990, Blaðsíða 37

Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands - 01.06.1990, Blaðsíða 37
A vit Þorbjarnar vinar míns SKRIFAÐ í SANDINN Átti ég vini ærin marga en flestum er gjarnt að gleyma. Einn var mér trúrri öllum hinum. Það var mín systir Sorg. Sá ég sólroðna sumarmorgna rísa af rökkri nætur. í barnslegri hrifning brann minn hugur að mætti þá fegurð fanga. Reisti ég borgir blárra vona gullnar í Grænaskógi. Haustvindar komu hrundu í rústir allar á augabragði. Heyrði ég hljómþýða hörputóna óma í innum hugans. Glaður ég vildi gefa þá öðrum en þeir voru bundnir í brjósti. Brumknappar lífsþyrstir brutu viðjar og kveiktu mér elda í æðum ástþrungnar ilmfjólur að mér réttu en hamingju meinuðu mér. Ljósálfar lutu í lægra haldi gæta dökkálfar dyra. Lífsblóm litverpu lúta höfði. Hvar mun þeim athvarf ætlað? í fyrsta tölublaði Fréttabréfsins birti ég gamanljóð vinar míns og fyrrum sveitunga, Þorbjarnar Magnússonar Sjálfsbjargarfélaga. Það gamanljóð var úr síldinni eystra, þegar það ævintýri stóð sem allra hæst. Auðvitað vissi ég gjörla að Þorbjörn ætti glitrandi Ijóðperlur, en jafnframt að ekki mundu þær liggja á lausu. Hins vegar fór nú svo fyrir þrábeiðni mína þá fékk ég að gægjast í gamla bók og afrakstur þessarar iðju er hér að hluta. Þorbirni mínum góða og trygga vini kann ég einlægar þakkir fyrir að leyfa okkur að skyggnast inn í hugarheim hans á löngu liðinni tíð og um leið eru honum sendar árnaðaróskir allra beztar yfir á áttunda ævituginn. H.S. HIÐ LJOSA MAN Hvern varðar um þótt fangi og flóttamaður sín felli tár. Það gleymir enginn gyðju sinna drauma með gullið hár,- Þú komst með eld frá æskudalnum þínum svo ung og blíð. Og mynd þín verður orpin ástarljóma um alla tíð. í hljóðri gleði hneig ég þér að barmi af heitri þrá, og dýrar veigar drakk ég þér af vörum með döggva brá. Ég drekkti mér í djúpum augna þinna dís míns óðs. Síðan ert þú lögmál lífi mínu lind míns blóðs. Enginn harmur, engin dul má skyggja mitt unga blóm. Til hinzta dags ég hlýt það einn að geyma sem helgidóm. Lýsa logar Ijóða og sagna gleðja þig tónar og töfra. En allt er það hismi ef ekkert hjarta ann þér ástúðar sinnar. Hvað sem verður hvert sem örlög bera minn hvíta svan. í djúpi hugans Ijómar lítil stjarna mitt Ijósa man. Þorbjörn Magnússon. FRÉTTABRÉF ÖRYRKJABANDALAGSINS 37

x

Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands
https://timarit.is/publication/1440

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.