Morgunblaðið - 28.08.2020, Blaðsíða 18
18 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. ÁGÚST 2020
✝ Eiríkur Brynj-ólfsson fæddist
í Reykjavík þann
19. maí 1951. Hann
lést á Landspítala
við Hringbraut
þann 23. ágúst
2020. Eiríkur var
sonur hjónanna
Helgu Sigurð-
ardóttur, húsfreyju
frá Reykjavík, f.
1924, d. 2015, og
Brynjólfs Eiríks Ingólfssonar,
ráðuneytisstjóra frá Vopnafirði,
f. 1920, d. 1991. Hann kvæntist
Ingibjörgu Einarsdóttur, f.
1996, b) Andri Haukur, f. 2001.
Sambýliskona Einars er Fjóla
Dögg Sverrisdóttir, f. 1977.
Dóttir hennar er c) Ásta Indía
Valdimarsdóttir, f. 2000. 3) Guð-
rún, f. 1981. Sambýlismaður
Stefán Arnar Ómarsson, f. 1982.
Börn þeirra a) Stefán Eiríkur, f.
2013, b) Ómar Trausti, f. 2015
og c) Matthildur María, f. 2019.
Eiríkur kvæntist þann 4. júlí
1996 Steinunni H. Hafstað, f.
1954. Sonur hennar er 4) Jón
Haukur Hafstað, f. 1987.
Eiríkur starfaði lengst af sem
kennari, síðustu árin sem
kennslustjóri almennrar braut-
ar við FÁ.
Útför Eiríks fer fram frá
Fossvogskirkju í dag, 28. ágúst
2020, kl. 15. Streymt verður frá
útförinni, http://tiny.cc/eirikur.
Virkan hlekk á streymið má
nálgast á www.mbl.is/andlat.
1951. Þau skildu.
Dóttir Ingibjargar
er 1) Matthildur
Sigurðardóttir, f.
1972, gift Auðuni
Svavari Sigurðs-
syni, f. 1954. Börn
þeirra: a) Sigurður
Davíð Betúel, f.
2005, b) Stefán Ein-
ar, f. 2008, c) Ingi-
björg Guðrún, f.
2012. Börn Eiríks
og Ingibjargar eru 2) Einar, f.
1975. Maki 1 Svanfríður Dóra
Karlsdóttir, f. 1975. Þau skildu.
Börn þeirra a) Alexander Áki, f.
Fyrir 47 árum tók hann Eirík-
ur það að sér að vera pabbi minn.
Hann sinnti því hlutverki af ein-
stakri elskusemi, tryggð og stað-
festu alla tíð síðan. Hann lést eftir
stutt veikindi, aðeins 69 ára að
aldri. Hann var ljúfur en sérvitur
og stundum þrjóskur og sagði
verstu pabbabrandara í heimi.
Hann keypti óætt vísitölubrauð
en eldaði góðar sætsúpur. Hann
dró mig með sér í Keflavíkur-
göngur og á sellufundi hjá rót-
tæku ungu fólki.
Hann fór til Kína og ég kom
með Maóhúfu í skólann fyrsta
skóladaginn minn. Hann fann upp
fallbeygingarleiki og svaraði
spurningum lítillar stelpu um allt
milli himins og jarðar af mikilli
þolinmæði. Seinna komst ég að
því að sum svörin stóðust ekki
nánari skoðun eða vísindalegar
prófanir. Hann las Brekkukots-
annál sem kvöldsögu. Hann bar
mig á háhesti yfir dýpstu álana á
Hjörseyjarsundinu. Hann var
alltaf til í að skutla og sækja út á
flugvöll. Hann gerði serimoníur
og hefðir úr öllu mögulegu. Hann
kenndi mér að halda með KR og
Liverpool þótt ég lærði aldrei að
meta fótbolta. Honum tókst hins
vegar að kenna mér að meta
klassíska tónlist og Bítlana. Hann
kenndi mér líka mikilvægi þess að
gera mitt besta. Það skiptir meira
máli að gera sitt besta en að vera
bestur. Hann var mikill fjöl-
skyldumaður og það sem situr
eftir og ég hef reynt að tileinka
mér sjálf er að fjölskylda er ekki
endilega alltaf spunnin blóðbönd-
um heldur er hún tvinnuð saman
af ást, ræktarsemi og tryggð við
alla þá sem þú kýst að elska. Það
er alltaf pláss í hjartanu fyrir einn
í viðbót.
Með ástarkveðju til ykkar,
elsku Steinunn mín, Einar, Guð-
rún og Jón Haukur.
Matthildur Sigurðardóttir.
Hann pabbi minn var einstakur
maður. Það var alltaf hægt að
leita til hans hvort sem það var að
ræða vandamál hjartans eða að
leita uppruna orða og hvernig
skuli stafsetja það rétt. Hann
fann handa mér lesefni þegar ég
missti af bókabílnum enda átti
hann stærsta einkabókasafn í
heimi, eða það fannst strák á
grunnskólaaldri. Ég las bækur
um skordýr, veiðiferð og fleira
eftir þýska og ameríska rithöf-
unda sem hann rétti mér. Hann
gerði einnig heiðarlega tilraun til
þess að kynna mér hversu vel
hugmyndafræði kommúnismans
gengi í Sovétríkjunum og gaf mér
Fimm ára áætlunina til lesturs.
Eftir fall Sovétríkjanna ræddum
við það ekki meira. En ég lærði
margt af honum, til dæmis að
maður á alltaf að þurrka sér með
servíettu um munninn áður en
maður drekkur þegar maður er
að borða, nema maður sé með rör,
þá skiptir það ekki máli. Hann
kenndi mér að maður á alltaf að
gera sitt besta og ef maður gerir
það þá er allt í lagi, nema þegar
hann var að fara yfir ritgerðir hjá
mér þá komu þær rauðstrikaðar
til baka. En rauðu strikunum fór
þó fækkandi með árunum enda
var hann pabbi minn kennari.
Hann kenndi mér að maður ræð-
ur hvort maður segir ég vil eða ég
vill, svo lengi sem maður viti mun-
inn. Hann kenndi mér líka að
menn þurfa ekki alltaf að vera
sammála, til dæmis fannst honum
Kremkex frá Fróni vera besta
kexið meðan ég valdi Póló súkku-
laðikex. Við borðuðum yfirleitt
Kremkex. Við vorum hins vegar
sammála um að John Lennon var
flottasti Bítillinn.
Ég man þegar við fórum á
Hornið að fá okkur pizzu og svo
fórum við niður í Djúpið þar sem
þú last upp ljóð, mér fannst þú
náttúrlega lesa langbest af öllum.
Ég man þegar ég gat ekki sofnað
og þú sagðir mér að hafa ekki
áhyggjur, þú myndir vaka þangað
til ég sofnaði, eftir þetta átti ég
aldrei erfitt með að sofna. Ég mun
sakna fimmaurabrandaranna
þinna, ég mun sakna kaffihúsa-
ferðanna okkar, ég mun sakna yf-
irvaraskeggsins og brossins og ég
mun sakna þín.
Einar Eiríksson.
Elsku pabbi minn. Heittelskaði
hjartans pabbi okkar. Ég á svo
erfitt með að sætta mig við þetta.
Þetta gerist of hratt, ég er ekki
tilbúin. Af hverju sagðirðu ekki
eitthvað? Af hverju spurði ég
ekki? Af hverju spurðir þú ekki?
Svona á ekki að geta gerst. Minn-
ingarnar eru svo sem mýmargar
og fallegar, það vantar ekki. Þú
kenndir mér svo margt pabbi, og
varst fyrirmynd mín í svo mörgu
án þess kannski að vita af því. Þú
kenndir mér jafnrétti, tókst mig
með á kröfufundi um frjálsa Pal-
estínu og í Verkalýðsgönguna á
hverju ári, þótt ég hafi kallað það
skrúðgöngu og mest hlakkað til
að fá heitt kakó á Mokka. Þú
kenndir mér Maístjörnuna. Þú
kenndir mér ást á bókum og að
þeim sem kann að lesa, leiðist
aldrei. Svo réttirðu mér Gísla
sögu Súrssonar, Kristnihald und-
ir Jökli, Rauða kverið eða síma-
skrána. Þarna var ég kannski 7
ára. Þú kenndir mér að yrkja ljóð
með stuðlum. Þú last fyrir okkur
um Lillu Heggu og Sobbeggi afa í
Sálminum um blómið. Þú kenndir
mér tryggð og traust. Þú kenndir
mér að allt grær áður en ég gifti
mig, hvað hinsvegar gerðist eftir
þessa giftingu var óljóst. Þú
kenndir mér sjálfstæði. Þú gast
borðað heilt Frón kremkex í ein-
um bita. Þú gast sagt arfaslaka
fimmaurabrandara. Þú tókst mig
með í vinnuna þegar þú kenndir í
Ármúlaskóla og ég var svo of-
boðslega stolt af þér, ætlaði alltaf
að verða kennari eins og þú. Ég
montaði mig hversu fjölhæfan
pabba ég ætti sem væri rithöf-
undur, kennari, ljóðskáld, þýðandi
og fangavörður, sem væri auðvit-
að næstum því sama og lögga. Og
þú vissir allt pabbi, allt. Til dæmis
að hann Leifur var heppinn því
hann náði síðustu kleinunni frá
frekum föður sínum. Það var bara
Karen kennari í sex ára bekk sem
ekki vissi betur en ég leiðrétti
hana sem betur fer. Ég man að
Matta amma í Hjörsey var vön að
kalla mig Eiríku litlu því henni
fannst ég svo lík þér. Óljóst hvort
hún meinti í útliti eða lund en
sennilega sitt lítið af hvoru. En ég
er bara ekki tilbúin fyrir minning-
ar pabbi, ég er ekki tilbúin til að
kveðja þig pabbi minn. Ég er ekki
tilbúin til að sætta mig við end-
anleika lífsins. Eldri sonur minn,
sem heitir eftir þér, reynir að
hugga mig með því að það sé nú
ekki svo slæmt að vera engill hjá
guði. Þú varst nú ekki trúaður
maður pabbi en ég kýs þó að trúa
því að þú sért á góðum stað. Ekk-
ert endilega betri stað, enda höfð-
um við það bara ósköp gott saman
fjölskyldan á þessari jörð. En ég
sé þig þá kannski fyrir mér í Lee-
gallabuxum og Piccolino-skóm
með kaffi solo og blátt Maryland,
á Liverpool-úrslitaleik sem þeir
svo vinna, svona fyrst þetta er nú
svokallað himnaríki. Eða á
spænskri strönd í rauðri Speedo-
skýlu með vino tinto og tapas. „Si
claro“ pabbi, við sjáumst auðvitað
þar pabbi minn og ég mun sakna
þín sárt í hverju skrefi þangað til.
Sálmur númer 120
Þeir deyja úngir
sem guðirnir elska.
En elsku guðir,
ég mælist til
að þið breytið þessu.
Þið eruð ekki einir í heiminum
þið eruð ekki einir
um að elska þá sem deyja úngir.
(Eiríkur Brynjólfsson)
Guðrún Eiríksdóttir
og fjölskylda.
Þegar við tengdapabbi gengum
fyrst saman inn í þá miklu dóm-
kirkju Liverpool-safnaðarins, An-
field, og söngurinn hófst „You’ll
never walk alone“ (Þú gengur
aldrei einn) streymdu tárin niður
kinnar hans. Tíu mínutum síðar í
grannaslag við Everton varð hann
að þerra tárin, því við vorum búnir
að fá á okkur mark og búið að reka
fyrirliðann, Gerrard, af velli. Unn-
um samt 3-1 og héldum glaðir til
Walsall, Eiríkur í Saddlers Centre
að kaupa leðurvörur og oftar en
ekki máltíð á Arbour Lights.
Eiríkur vildi vera í sól og hlýju,
talaði góða spænsku, enda áttum
við margar ferðirnar á skútuna á
Mæjorka. „Uno café solo, vino
tinto y Bagatello“ og þá var Eirík-
ur klár í daginn. Vildi alltaf hafa
alla fjölskylduna saman og tók öll-
um mínum börnum sem sínum
eigin barnabörnum. Matta kona
mín ber þess öll merki að hafa átt
góðan pabba og börnin okkar áttu
í honum og Steinunni góðan afa og
ömmu.
Við Eiríkur náðum vel saman
og áttum gott samband, sem aldr-
ei bar skugga á, gátum spjallað
um flesta hluti, jafnvel pólitík,
nema ef liðið var vel fram yfir mið-
nætti og hann vildi segja mér frá
málfræðiritgerðum félaga Stalíns.
Nær aldrei ræddum við þó líkam-
legar kvartanir, þær gat hann
„tekið á hælinn“ eins og bolta.
Vélindakrabbamein eirir nær
engum sem það fær, ekki síst svo
langt gengið sem hjá honum. Það
er sárt til þess að hugsa að í heimi
án farsóttar hefði honum mögu-
lega unnist tími til að ganga frá
sínum málum og kveðja ástvini
sína.
En sem Poolari, „Þú gengur
aldrei einn“.
Ég votta Steinunni og börnun-
um samúð mína.
Auðun Svavar Sigurðsson.
Það er einkennilegt hvað manni
finnst maður alltaf vera ungur –
svo verða atburðir sem bæta við
árunum – maður eignast börn þá
bætast við nokkur ár – þegar for-
eldrar kveðja þessa jarðvist þá
bætast við nokkur ár – svo kemur
allt í einu sá tími sem ekki var
gert ráð fyrir – að missa systkin
er eitthvað sem bætir allt of
mörgum árum við. Eiríkur bróðir
minn kvaddi þessa tilveru á
sunnudaginn síðasta – meinið sem
hann bar, fór svo laumulega að
engin tök voru að gera nokkuð
þegar krabbinn hóf sína lokasókn
– ekkert hægt að gera.
Eitt var það sem er mér mjög
sterkt í minni um unglinginn Ei-
rík – það er enski boltinn – ást
hans á enska boltanum á sunnu-
dögum – svarthvítt túbusjónvarp
– enskir fótboltaleikir frá síðustu
viku – það var nokkuð sem var
með Eiríki alla tíð. Hann reyndi
að færa mér gleðitíðindi fótbolta-
listarinnar síðar, ég fór með hon-
um á Kringlukrána eitt kvöldið
fyrir 15 árum –horfðum á úrslita-
leik í einhverri deildinni – þar
voru nú perlur fyrir svínið sem ég
var – ég náði aldrei því sem hann
fann í fótboltanum. Það undarlega
var að ég minnist þess ekki að
hann hefði áhuga á að leika fót-
bolta sjálfur. Eiríkur gat samt
hlaupið – faðir okkar var mikill
hlaupari á sínum yngri árum, átti
glás af medalíum – hlaupaferill
Eiríks varð nú ekki svo gjöfull en
ég man eftir nokkrum medalíum
hjá honum, hvenær þessum ferli
Eiríks lauk man ég ekki svo
glöggt en mig grunar að faðir
okkar hafi verið nokkuð sáttur við
að sonur hans gæti hlaupið þótt
ferillinn hafi ekki verið langur.
Einn er sá ferill sem verður að
minnast á – Herstöðvaandstæð-
ingaferillinn – honum tókst nú
ekki að fá mig til liðs við KSML og
þá hreyfingu alla – reyndi hann þó
– gaf mér Kommúnistaávarpið í
16 ára afmælisgjöf – sú bók er enn
jafn ólesin og þegar mér var gefin
hún – sumum félögum mínum í
íhaldsbælinu Garðabæ – hvar við
áttum heima – þótti þetta ótil-
hlýðileg gjöf.
Bók færði hann mér í afmæl-
isgjöf árið 1981 – það var ljós-
myndabókin „Days at Sea“ eftir
Ralph Gibson, gott ef það er ekki
ein af fyrstu ljósmyndabókunum
sem ég á sem ég skoða enn reglu-
lega. Líklega hefir hann rekist á
hana í bókabúð og hugsað að
mögulega þætti mér hún áhuga-
verð – það var sko hárrétt athug-
un – má segja að sú bók hafi
breytt sýn minni á ljósmynda-
listina.
Það er með aldurinn – hann
kemur okkur gjarnan á óvart. Ég
hitti bróður minn í London fyrir
um 12 árum, ákváðum að fara
saman á listasafn – ég vissi af sýn-
ingu í Tate Modern sem mig lang-
aði að fara á – hann tók vel í það
og þegar við vorum við afgreiðsl-
una þá spurði afgreiðslukonan Ei-
rík „are you a senior citizen“ –
hann hváði og sagði að hann hefði
nú aldrei fyrr verið spurður um
það – við hlógum mikið að því
hvað hann væri nú orðinn gamall.
Svo lauk tímanum allt í einu –
öllum að óvörum – Eiríkur bróðir
er dáinn – hann hefir lokið sínum
tíma hér á þessu tilverustigi – en
hann heldur áfram að vera til í
minningum okkar sem þekktum
hann. Á meðan við minnumst
hans þá lifir hann í huga okkar.
Ívar Brynjólfsson.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur. Hann var 9 árum eldri en ég
og þegar hann var unglingur og
ég stelpuskott var hann oft pirr-
aður út í litlu systur, ég mátti ekki
fara inn í herbergið hans þegar
hann var ekki heima og ef
mamma bað hann um að hafa mig
og bróður minn í smástund þurft-
um við að sitja alveg kyrr á rúm-
inu hans og ekki tala. Eiríkur
bróðir var nefnilega með „aust-
firska pirringinn“ eins og ég og
fleiri í fjölskyldunni. Hann hékk
oft á herðablöðunum í símastóln-
um og spjallaði við kærustur í
símann og var því stundum kall-
aður Símon á heimilinu sem þótti
mjög fyndið. Ég man hann bíð-
andi eftir franskbrauðinu sem
keypt var heitt og nýbakað í
Kaupfélaginu því hann gat ekki
byrjað daginn án þess að fá kaffi
og ristað brauð.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur. Hann var duglegur og áorkaði
miklu í lífi sínu. Hann var ís-
lenskukennari og síðar sérkenn-
ari. Hann var rithöfundur, þýð-
andi og glæpaforingi. Hann var
KR-ingur og Liverpool-maður á
sinn sérviska hátt. Eiríkur var
nefnilega sérvitur og þver eins og
hann átti kyn til. Hann var spjátr-
ungur og hafði gaman af því að
kaupa föt og vera smart. Hann
var frjálslyndur þegar stafsetn-
ing var annars vegar og þegar ég
vildi fá á hreint hvort væri réttara
að skrifa tveimur eða tveim, yppti
hann öxlum og sagði „þú ræður
því“. Auðvitað var samt enginn
betri til að lesa yfir ritgerðir og
hann las yfir BA-ritgerðina mína
af nákvæmni og gaf góð ráð.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur. Þegar við vorum bæði orðin
fullorðin og bæði á skrýtnum stað
í lífinu bauð hann mér að búa hjá
sér um tíma og hann eftirlét mér
stærsta herbergið í íbúðinni og oft
var glatt á hjalla, vinir að koma í
heimsókn og allir velkomnir.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur. Hann var pólitískur svo um
munaði, keyrði um ungur maður á
Rússajeppa, þrammaði með fjöl-
skylduna í Keflavíkurgöngur, fór
til Kína og gaf okkur Ívari hvoru
sitt eintakið af Kommúnista-
ávarpinu í afmælisgjöf þegar við
vorum 16 ára.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur. Hann var góður kennari og
náði vel til ungs fólks, með sínu
rólega og yfirvegaða fasi. Hann
var fjölskyldumaður, mjög stoltur
af börnunum sínum og
barnabörnum og Steinunn mín,
eins og hann sagði gjarnan, og
hann voru afar samhent.
Eiríkur bróðir var góður mað-
ur, hann yfirgaf þessa jarðvist
skyndilega og of fljótt og ég sakna
hans.
Guðrún sys, Jóel og fjölskylda
votta elsku Steinunni og Jóni
Hauki, Matthildi og fjölskyldu,
Einari og fjölskyldu og Guðrúnu
og fjölskyldu okkar dýpstu sam-
úð.
Guðrún Brynjólfsdóttir.
Eiríki Brynjólfssyni kynntist
ég fyrir 47 árum þegar hann fór
að búa með systur minni Ingi-
björgu Einarsdóttur.
Á háskólaárunum um miðjan
áttunda áratuginn bjuggum við
systurnar og fjölskyldur saman í
nokkurs konar kommúnu í kjall-
aranum í Hjálmholti 8. Húsgögn-
in voru samansafn frá hinum og
þessum. Stofan var stór og þarna
voru haldnir margir sellufundir
og góð partí. Við vorum öll í
kommúnistasamtökunum,
KSML, að berjast fyrir betri
heimi. Vinir og ættingjar fengu
líka oft að gista hjá okkur um
lengri eða skemmri tíma. Á sumr-
um fórum við svo út í Hjörsey
með börnin okkar alltaf þegar
færi gafst.
Þetta voru hamingjurík ár og
sambúðin gekk vel. Eiríkur var
góður í húsverkum, góður uppal-
andi og ötull í stéttabaráttunni.
Þetta með húsverkin var ekkert
sjálfgefið. Það voru margir karl-
menn á þessum tíma sem ekki
höfðu náð svo langt í jafnréttinu
og ég þekkti kommúnur sem
leystust upp vegna leti og anark-
isma karlmanna við húsverkin.
Mér er þó sérstaklega minnis-
stæð hjálpsemi Eiríks og stuðn-
ingur við unglinga og ungt fólk í
Hjörseyjarfjölskyldunni sem var
að flosna upp úr skóla. Hann var
góður kennari og íslenskufræð-
ingur og þegar leitað var til hans
var hann alltaf reiðubúinn að
sinna þeim, hlusta á þau og gefa
þeim nýja sýn til að halda áfram
og klára námið. Þegar dóttir okk-
ar var táningur og kom til Íslands
eftir sex ára dvöl í útlöndum fékk
Eiríkur
Brynjólfsson
✝ Stefán Haf-stein Gunn-
arsson fæddist í
Reykjavík 9. mars
1973. Hann lést af
slysförum 15. ágúst
2020. Foreldrar
Stefáns eru Bjarn-
heiður Ragnars-
dóttir, f. 24. júní
1956, gift Ólafi
Inga Hermanns-
syni, f. 21. nóv.
1950, og Gunnar Egilsson, f. 8.
maí 1954, kvæntur Sigrúnu
Halldórsdóttur, f. 19. mars 1962.
Stefán átti 5 systkini. Sam-
mæðra 1) Bjarmar Smári Elías-
son, f. 11. mars 1982, d. 5. júní
1989. Samfeðra 2) Guðmundur
Gunnarsson, f. 23. nóv. 1979. 3)
Egill Halldór Gunnarsson, f. 7.
apríl 1983. 4) Gunnhildur Birna
Gunnarsdóttir, f.
18. mars 1987. 5)
Lilja Kristín Gunn-
arsdóttir, f. 29. feb.
1996. Stefán var
kvæntur Mary
Nakayiza, f. 22. júní
1992. Stefán átti
tvo syni: 1) Heiðar
Smári Stefánsson,
f. 23. ágúst 1993,
móðir hans Helga
Sigurðardóttir, f. 6.
maí 1973. 2) Ísak Geir Stef-
ánsson, f. 26. júlí 2000, móðir
hans Erla Ösp Ísaksdóttir, f. 30.
maí 1978.
Útför Stefáns fer fram í
Digraneskirkju í dag, 28. ágúst
2020, klukkan 15. Vegna að-
stæðna í þjóðfélaginu er aðeins
fjölskyldu og nánustu vinum
boðið.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðasta blund.
Margs er að minnast,
margt er að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
Grátnir til grafar
göngum vér nú héðan,
fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.
Guð oss það gefi,
glaðir vér megum
þér síðar fylgja á braut
(Valdimar Briem)
Hvíl í friði elsku Stefán
Erla Ösp Ísaksdóttir.
Stefán Hafstein
Gunnarsson