Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Qupperneq 8

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Qupperneq 8
Ég var að aka eftir Lækjagötunni í norður einn sólríkan dag í haust. Gulir og rauðir haustlitirnir voru komnir í tré og runna og himininn var með þessa sérstöku birtu sem aðeins finnst á Íslandi. Þetta er birtan sem segir okkur að haustið sé besti tíminn, sem er allt öðruvísi birta en sú sem segir okkur að vorið sé besti tíminn. Nema hvað, þessi hugleiðing mín átti nú ekki að vera nein náttúrulýsing... eða hvað? Þegar ég kom að gatnamótunum við Bankastætið lenti ég á rauðu ljósi og á meðan ég beið eftir að það yrði aftur grænt leit ég upp eftir Bankastrætinu og sá þrjá unga menn ganga hlið við hlið niður brekkuna og það gustaði af þeim. Ég gat ekki annað en brosað með sjálfri mér og hugsað til baka. Fyrir tæplega þrjátíu árum var ég á nánast nákvæmlega sama stað, eða á horni Lækjargötu og Austurstrætis þar sem eru brunarústir núna og horfði upp eftir Bankastrætinu og sá þrjá aðra menn koma marserandi niður þessa sömu brekku. Kikka Muskolía og meik Það gustaði ekki síður af þeim. Hárið á þeim haggaðist ekki, þó það andaði léttilega af suðri með einstaka hviðu sem gat sett jafnvel stífasta hár úr lagi. Enda gel og hársprey ekki sparað í þá daga, það var enginn að hugsa um ósonlagið. Það glumdi í kúrekastígvélunum þegar þau smullu í gangstéttinni, herðapúðarnir, á síðum frökkunum sem sveifluðust aftur fyrir þá eins og jóreykur kúrekans, voru svo breiðir að það var ekki nokkur leið fyrir fólk að mæta þeim öðruvísi en að fara út á götu. Maskarinn var kolsvartur og augnlínan líka, það glampaði á glossið í sólskininu og þeir litu hvorki til hægri né vinstri þegar þeir stikuðu yfir Lækjargötuna, fram hjá mér á horninu, inn eftir Austusrtætinu og inn í Hressingarskálann. Þetta voru fallegustu menn sem ég hafði séð og ég missti andlitið þegar ég sá þá svona nálægt mér og áttaði mig á því að þeir voru ekki sólbrúnir eins og mér hafði sýnst úr fjarlægð, heldur voru þeir óaðfinnalega vel meikaðir og fyrir vikið líka, óskaplega fríðir. Ég fann daufa angan af muskolíunni sem hékk í loftinu skamma stund eftir að þeir voru farnir framhjá mér og enn þann dag í dag, þegar ég finn þessa lykt, þá sé ég þá þrjá ljóslifandi fyrir mér. Það er yndislegt að eiga þessa minnigu því aðeins einn af þeim er eftir, það gustar af hinum tveimur á öðrum stað núna. Þennan dag elti ég þá inn á Hressó og fékk mér kaffi og settist á næsta borð. Ég var ekki búin með fyrsta kaffibollann þegar við vorum farin að spjalla saman og þetta var upphafið að dásamlega skemmtilegri vináttu sem innihélt einmitt mikla kaffidrykkju, sígarettureykingar, Camparídrykkju (bjórinn var bannaður), kökuát, dans, hlátur, gleði, sorgir og svo margt annað sem gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Þegar ljósið varð grænt á gatnamótunum kom ég til sjálfrar mín aftur og horfði á eftir hinum, ungu mönnunum, ganga inn eftir Austurstrætinu og velti því fyrir mér hvort einhver ung stúlka myndi elta þá inn á Hressó eða eitthvert annað kaffihús þennan dag. Ég vonaði það. 8

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.