Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 14

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 14
Ég var svo heppin að fá að heimsækja Úganda, sem Winston Churchill kallaði Perlu Afríku, í þrjár vikur í fyrra. Loks rættist langþráður draumur að heimsækja þessa fjarlægu heimsálfu. Stéttarfélagið mitt, Félagsráðgjafafélag Íslands, styrkti mig til ferðarinnar með því skilyrði að ég myndi skrifa ritrýnda grein og halda fyrirlestra að lokinni ferð. Þetta var því ekki beint ævintýraferð djúpt inn í frumskóga og þjóðgarða, en þess í stað lánaðist mér með eigindlegri rannsókn að fá áhugaverða innsýn inn í heim ungra stúlkna sem höfðu orðið fyrir barðinu á alnæmisfaraldrinum. Stúlkurnar dvöldu á Candle Light Foundation (CLF) í höfuðborginni Kampala. Stúlkurnar á CLF urðu fyrir valinu í rannsókn minni því ég sit í stjórn félagsins Alnæmisbörn, sem er einn af meginstuðningsaðilum CLF. CLF var komið á fót árið 2001 af íslenskri konu, Erlu Halldórsdóttur, sem var helsti tengiliður við starfsemina þar til hún lést árið 2004. Haustið 2008 ákváðu þrír stjórnarmenn Alnæmisbarna að fara til Úganda og kanna hvernig gengi, hvort starfsemi CLF væri enn í samræmi við þau markmið og þær væntingar sem Alnæmisbörn hefðu til starfseminnar, sem er að styðja ungar stúlkur, sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisfaraldursins, til betra lífs. Auk mín fóru þær Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir og María J. Gunnarsdóttir. Þar sem ég hef lengi fengist við málefni sem snerta hiv og alnæmi hér á landi langaði mig til að leggja sérstaka áherslu á þann þátt starfseminnar í rannsókn minni. Ég vildi kynnast því hvernig alnæmisfaraldurinn hafði haft áhrif á líf stúlknanna, skoða bakgrunn þeirra og hvort dvölin á CLF hafði skipt máli í lífi þeirra og væntingum til framtíðar. Ég tók viðtöl við fimmtán stúlkur á aldrinum 13-24 ára, sem sóttu stutta starfsþjálfun á CLF, í hárgreiðslu, saumum, þjálfun á tölvur og við ýmist handverk, einnig tók ég viðtal við þrjá stjórnendur staðarins. Að auki talaði ég við nokkrar stúlkur sem sóttu nám í almennum skólum, sem stutt var af CLF. Árlega hafa tæplega 150 stúlkur fengið starfsþjálfun, hver í fjóra mánuði, og rúmlega 20 stúlkur til viðbótar hafa fengið aðstoð við að ganga í almenna skóla. Mikið samræmi reyndist á milli þess sem stúlkurnar greindu frá um bakgrunn sinn og starfsemi CLF og þess sem stjórnendur sögðu. Rannsóknin Tveir þriðju stúlknanna höfðu misst annað foreldri eða bæði, hinar áttu foreldra sem höfðu skilið eða yfirgefið þær. Helmingurinn sagði foreldra sína hafa dáið úr alnæmi, ein sem hafði bæði hafði misst foreldra sína og ömmu sem hún hafði flutt til á eftir, var ekki viss en taldi þó líklegt að þau hefðu dáið úr alnæmi. Einhverjar sögðu að foreldrarnir hefðu dáið úr lungnasjúkdómum, vegna illra anda og berkla eða banvænnar sprautu sem læknir hafði gefið föðurnum þar sem honum mislíkaði hvað hann reykti mikið. Stúlkurnar voru allar mjög ungar þegar dauðsföll eða skilnaðir áttu sér stað og varð það til þess að þær bjuggu allar hjá stjúpfjölskyldum, eldri systur, ættingjum eða öðrum vandamönnum. Oftast höfðu þær búið á þremur stöðum, en það kom fyrir að staðirnir voru fimm. Dauðföll og skilnaðir foreldra Aðbúnaður stúlknanna á þeim stöðum þar sem þær höfðu búið var afar misjafn og hafði oft á tíðum verið hræðilegur. Um þriðjungur hafði til dæmis verið beittur ofbeldi. Tvær höfðu verið beittar kynferðislegu ofbeldi, önnur af hálfu föður, eftir að móðir hennar dó frá henni mjög ungri, og hin af eiginmanni frænku sem hún bjó hjá í sex til sjö ár. Hinar stúlkurnar höfðu verið beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi stundum vegna þess að foreldrar þeirra höfðu dáið úr alnæmi og gengið var út frá því að þær væru hiv- smitaðar. Það var síðan ýmist hvort þær reyndust smitaðar eða ekki þegar þær fóru sjálfar í hiv-próf á unglingsárum. Þegar þær greindust ekki smitaðar sögðust þær samt hafa fengið áfall, vegna erfiðleikanna sem þær höfðu þurft að þola vegna staðhæfinganna um að þær væru smitaðar. Það var samt ekki öruggt að ofbeldinu linnti við þær upplýsingar. Ofbeldið kom meðal annars fram í því að ættingjar og börnin sem þær bjuggu hjá, kenndu þeim um að foreldrar þeirra hefðu dáið úr alnæmi. Þær fengu ekki sama mat og hinir, máttu alls ekki snerta mat eiginmannsins eða koma við hin börnin á heimilinu. Þær sögðu að þær hefðu jafnframt verið ásakaðar um allt mögulegt sem ómögulegt sem enginn fótur var fyrir. Líkamlega ofbeldið var af margvíslegum toga og fyrir smávægilegustu sakir. Í stað umhyggju og verndar vegna dauðfalls foreldra eða skilnaðar mætti stúlkunum oftar en ekki mikill kuldi, skelfing og óöryggi á heimilum ættingjanna. Ofbeldi 14

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.