Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 27

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2009, Blaðsíða 27
Úkraína Nokkrar áætlanir hafa verið gerðar undanfarin ár um að ná til áhættuhópa svo sem sprautufíkla og fanga. Það hefur leitt til þess að hlutfall þeirra sem hljóta meðferð hækkaði úr 27% árið 2006 í 34% árið 2007. Fjárskortur háir starfseminni. Egyptaland Hiv-smitaðir fangelsaðir Frá því í október 2007 hefur lögreglan í Kaíró í Egyptalandi handtekið menn sem hún taldi að væru smitaðir af hiv. Síðan hafa tólf menn verið ákærðir fyrir hegningarlagabrot og níu þeirra hlotið fangelsisdóm fyrir ólifnað. Ályktað var um kynhneigð mannanna vegna þess að þeir reyndust hiv- jákvæðir. Þegar saksóknari nokkur upplýsti einn hinna handteknu um að hann væri hiv-jákvæður sagði hann: „Það ætti að brenna fólk eins og þig lifandi. Þú átt ekki skilið að lifa.“ Dómunum var áfrýjað en voru allir staðfestir. Mennirnir hafa allir neitað sökum. Sumum þeirra var haldið á sjúkrahúsi þar sem þeir voru hlekkjaðir við rúm sitt vikum eða mánuðum saman. Ásakanir um að lögreglan og heilbrigðisstarfsmenn hafi beitt mennina pyntingum hafa ekki fengist rannsakaðar. Flestir voru þeir látnir þola endaþarmsskoðun og hiv-próf án samþykkis. Sumir voru barðir. Þeir níu sem voru dæmdir sitja nú í fangelsi en þrír voru látnir lausir án ákæru. Amnesty-samtökin álíta að mennirnir séu samviskufangar og krefjast þess að þeir verðir leystir úr haldi tafarlaust og skilyrðislaust. Þau krefjast þess að egypsk yfirvöld rannsaki nú þegar ásakanir um pyntingar og illa meðferð á mönnunum. Til þess að vernda mennina lætur Amnesty ekki uppi nöfn þeirra eða frekari upplýsingar. Indland Hiv-jákvæð kona leidd til sýnis um sjúkrahúsganga Í borginni Jamnagar í Gujarat-ríki á Indlandi greindist kona nokkur hiv-jákvæð á ríkissjúkrahúsi. Sett var á hana merki og hún leidd um deildir sjúkrahússins til þess að vara aðra sjúklinga við henni. Hjúkrunarkonur festu merki á enni konunnar þar sem stóð hiv-jákvæð. Merki eru límd á enni á líkum eftir líkskoðun. Þegar umrædd kona hitti yfirlækni kvennadeildarinnar skipaði hann henni, eftir að hafa farið yfir skýrslu hennar, að halda sig frá öðrum sjúklingum og tilkynnti hjúkrunarfræðingum um smitið. Konan er um hálfþrítug og býr í borginni. Hún varð fyrir þessari skelfilegu reynslu strax eftir að hún hafði orðið fyrir því áfalli að greinast hiv-jákvæð og gengist undir fóstureyðingu til þess að koma í veg fyrir að barn fæddist með smit. Læknar ráðlögðu konunni það eindregið. Hún hafði verið leidd í gegnum nálega helming deildanna á sjúkrahúsinu, er sjálfboðaliðar úr stuðningsfélagi hiv-smitaðra í héraðinu komust að því sem gerðist á sjúkrahúsinu. Þeir gerðu yfirmanni sjúkrahússins strax viðvart. Heilbrigðisráðherrann lýsti yfir undrun og óánægju vegna þessa og skipaði læknunum og hjúkrunarfræðingunum að fara í leyfi frá störfum þar til rannsókn hefði farið fram á málinu. Stuðningsfélagið sá til þess að konan fór af sjúkrahúsinu og heim til eiginmannsins sem er einnig hiv-jákvæður. Félagið tjáði fjölmiðlum að konan væri í losti og segðist ekki vilja lifa lengur nú þegar allir vissu um hana. Eistland Dregur úr nýsmiti af hiv Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs greindust 298 manns með hiv- smit í Eistlandi en 419 á sama tíma árið 2008. Af nýgreindum, það sem af er árinu 2009, voru 49 fangar. Frá upphafi hafa 7.207 greinst með hiv-smit og 259 með alnæmi. Ein milljón þrjú hundruð og sjötíu þúsund manns búa í Eistlandi, 4,3 sinnum íbúatala Íslands. Tölurnar svara þess vegna til þess að á Íslandi hefðu 1.670 smitast og 65 fengið alnæmi.

x

Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi
https://timarit.is/publication/1509

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.